Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 357  —  200. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Húnboga Þorsteinsson, Guðjón Bragason og Hermann Sæmundsson frá félagsmálaráðuneyti, frá Reykjavíkurborg Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Önnu Skúladóttur og Helgu Jónsdóttur, frá Hafnarfjarðarbæ Halldór Árnason og Magnús Gunnarsson, frá Kópavogsbæ Sigurð Geirdal, Flosa Eiríksson og Braga Michaelson, frá Akureyrarbæ Kristján Þór Júlíusson, Ásgeir Magnússon og Jakob Björnsson, frá Borgarfjarðarsveit Rikhard Brynjólfsson og frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi Þorvald Jóhannesson.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Akraneskaupstað, Skútustaðahreppi, Húnaþingi vestra, Austur-Héraði, Húsavíkurkaupstað, Dalvíkurbyggð, Búðahreppi, Akureyrarbæ, Ísafjarðarbæ, Djúpárhreppi, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Sveitarfélaginu Skagafirði, Sveitarfélaginu Hornafirði, Djúpavogshreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Norður-Héraði, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Stykkishólmsbæ og Vopnafjarðarhreppi.
    Frumvarpið er lagt fram að tillögu nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að fjalla um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Tilgangur þess er að samræma ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga þeim breytingum á álagningarstofni fasteignaskatts sem lagðar eru til með frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga en þar er gert ráð fyrir að við álagningu fasteignaskatts verði miðað við fasteignamat húsa og mannvirkja. Í frumvarpi þessu er því lagt til að fasteignamat verði framvegis til viðmiðunar við álagningu vatnsgjalds. Þá er lögð til hækkun á hámarksálagningu vatnsgjalds til að vega á móti þeirri lækkun álagningarstofnsins sem breytingin mun óneitanlega hafa í för með sér. Í tillögum félagsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að hækkunin nemi 0,1 hundraðshluta af fasteignamati. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga greinir að sú hækkun muni ekki duga til þess að vatnsveitur sveitarfélaganna verði jafnsettar og áður og leggur því meiri hluti nefndarinnar til að hækkunin verði 0,2 hundraðshlutar af fasteignamati en sú hækkun mun duga vatnsveitum sveitarfélaganna.
    Þá áréttar meiri hlutinn að vatnsgjald er þjónustugjald sem aldrei má vera hærri fjárhæð en sem nemur raunkostnaði af rekstri vatnsveitna, þ.e. öllum stofn- og rekstrarkostnaði og afskriftum fasteigna.
    Leggur meiri hlutinn því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. Í stað hlutfallstölunnar „0,4“ í c-lið komi: 0,5.

Alþingi, 27. nóv. 2000.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Ólafur Örn Haraldsson.


Kristján Pálsson.



Pétur H. Blöndal.


Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.



Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara