Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 367  —  196. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á fjárhagshagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga er í skötulíki. Því fer fjarri að sveitarfélögunum sé með eðlilegum hætti bætt upp það tekjutap sem þau hafa orðið fyrir á umliðnum árum. Viðurkennt var í tekjustofnanefndinni að sveitarfélögin hefðu orðið fyrir 6–7 milljarða kr. tekjutapi vegna þess að nægjanlegt fjármagn hefur ekki fylgt verkefnaflutningum frá ríki til sveitarfélaga og vegna ýmissa skattalagabreytinga sem hafa verulega rýrt tekjur sveitarfélaganna.
    Aðferð ríkisstjórninnar við að bæta sveitarfélögunum þar sem á hefur hallað í samskiptum ríkis og sveitarfélaga birtist í þessu frumvarpi þar sem ríkisvaldið ætlar aðeins að lækka tekjur sínar í staðgreiðslunni um 0,33% eða 1.250 millj. kr. en heimila sveitarfélögunum útsvarshækkun sem nemur 0,99%, þ.e. 3.750 millj. kr. Álagningarstofn fasteignaskatts verður fasteignamat, en það hefur áhrif til lækkunar á fasteignaskatti og vegur að verulegu leyti upp útsvarshækkun á fólk á landsbyggðinni, þ.e. þá sem eiga fasteignir.
    Ríkisstjórnin er því með ákvörðun sinni fyrst og fremst að knýja fram aukna skattbyrði, ekki síst á íbúa höfuðborgarsvæðisins, þar sem tekjuskattslækkunin vegur aðeins þriðjung af þeirri hækkun sem heimiluð er á útsvari á næstu tveimur árum. Auknar skattaálögur á Reykvíkinga vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar geta því orðið 1.040 millj. kr. hrein útsvarshækkun. Þessi almenna skattahækkun sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stendur fyrir mun því bitna harðast á íbúum höfuðborgarsvæðisins, en Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út að skattar einstaklinga í heild hækki um 1,3 milljarða kr. á næsta ári.
    Ljóst er að þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir munu koma afar illa við heimilin í landinu. Auk þess munu þær ógna þeim forsendum sem nýlegir kjarasamningar byggjast á.
    Nefndin fékk útreikninga frá fjármálaráðuneytinu á áhrifum skattahækkana á einstaka tekjuhópa. Einnig hefur ASÍ metið áhrif skattahækkana út frá nýgerðum kjarasamningum og óskaði forusta ASÍ eftir sérstökum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd un málið. Í gögnum sem þar voru lögð fram kemur fram sú skoðun ASÍ að skattahækkunin grafi undan forsendum kjarasamninga og að verði fyrirætlanir stjórnvalda í útsvars- og skattamálum að veruleika þyngist skattbyrði launafólks og markmið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fjarlægist. Sem dæmi um afleiðingar fyrirhugaðra breytinga nefnir forusta ASÍ að árið 2003 hyrfi rétt tæplega fjórðungur af almennum launahækkunum þessa árs í skattahækkunina eina. Orðrétt segir í umsögn ASÍ, dags. 27. nóvember, „Verði ekki gripið til annarra ráðstafana er einnig ljóst að ríkisstjórnin mun ganga á bak orða sinna um þróun skattleysismarka sem gefin voru í yfirlýsingu hennar 10. mars sl. í tengslum við kjarasamninga.“ Þrátt fyrir að afleiðingar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um skattahækkun séu þær, eins og varaformaður ASÍ orðaði það á fundinum, að forsendur kjarasamninga séu á mörkum þess að bresta var málið knúið út úr nefndinni gegn vilja minni hlutans. Óskum hans um að málið yrði skoðað frekar í nefndinni í samhengi við nýgerða kjarasamninga í ljósi nýrra gagna frá ASÍ var hafnað.
    Enn á ný birtist valdhroki meiri hlutans sem lætur sig greinilega engu varða þótt nýgerðum kjarasamningum sé stefnt í uppnám og ríkisstjórnin gangi bak orða sinna um þróun skattleysismarka sem sett voru fram 10. mars sl. til að greiða fyrir kjarasamningum.
    Útreikningar ASÍ sýna að áhrifin á ráðstöfunartekjur, að teknu tilliti til umsaminna launahækkana, munu éta upp sem svarar eins og hálfs mánaðar launahækkun, sem fékkst í nýgerðum kjarasamningum, eða um 7.200 kr. á ári hjá þeim sem hafa 70 þús. kr. mánaðartekjur þegar skattahækkunin er að fullu komin til framkvæmda.
    Hjá launþega sem hefur 110 þús. kr. á mánuði mun sem svarar tæplega þriggja mánaða launahækkun hverfa í skattahækkanir, eða um 9.868 kr. á ári þegar skattahækkunin er að fullu komin til framkvæmda.
    Í umsögn ASÍ kemur fram að skattbyrði launafólks þyngist ekki aðeins beint vegna skattahækkunarinnar sjálfrar heldur bætist við að skattleysismörk munu að öðru óbreyttu lækka að raungildi. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. mars sl. vegna kjarasamninga er kafli sem ber yfirskriftina „Skattleysismörk fylgja launaþróun“. Orðrétt segir síðan í umsögn ASÍ: „Til að skattleysismörkin fylgi almennum lágmarkshækkunum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þyrftu þau að hækka um 3% í ársbyrjun 2001 og aftur um 3% 2002. Skattahækkunin hefur hins vegar þau áhrif að skattleysismörkin hækka aðeins um 2,1% sem er raunlækkun eins og ASÍ hefur ítrekað bent á. Þessi staðreynd sést m.a. á því að vegna fyrirhugaðra breytinga mun skattgreiðendum fjölga um meira en 2.100, eða ríflega 8%, strax á næsta ári.
    ASÍ bendir jafnframt á að þynging skattbyrðinnar sjáist einnig glöggt á því að svonefnd „barnakort“ áttu að tryggja einstæðu foreldri með eitt barn, eða fleiri, undir sjö ára aldri og um 100 þús. kr. í mánaðartekjur rúmlega 34.000 kr. í auknar ráðstöfunartekjur árið 2003. Síðan segir: „En strax á því ári verður ríkisstjórnin búin að taka til baka með skattahækkuninni ríflega fjórðung af þessum kjarabótum, sem hún hefur þó haldið svo mjög á lofti.“
    Í umsögn ASÍ kemur líka fram að ríkisstjórnin verði að axla ábyrgð og lækka tekjuskatta að fullu í samræmi við hækkun hámarksheimildar útsvars til að koma í veg fyrir frekari kaupmáttarrýrnun heimilanna.
    Í yfirlýsingu sem ASÍ gaf út í dag kemur m.a. fram eftirfarandi:
    „Það er sérstakt áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ákveða auknar skattbyrðar á launafólk nú þegar allar spár um efnahagshorfur benda til þess að mjög fari að draga úr kaupmáttaraukningunni og aðstæður raunar orðnar þannig að tvísýnt er hvort verjast megi kaupmáttarrýrnun. Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess að stjórnvöld létu hjá líða að grípa til afgerandi aðgerða til að draga úr þenslu þegar öll hættumerki blöstu við árunum 1998 og 1999.“
    Í yfirlýsingunni segir enn fremur:
    „Hagdeild ASÍ bendir einnig á að á sama tíma og verið er að leggja til þyngri skattbyrðar á almennar launatekjur er verið að ræða af mikilli alvöru um mikla lækkun skattlagningar á eignir og fjármagn.“
    Í umsögn BSRB kemur fram að það sé algert grundvallaratriði að skatthlutfall verði ekki hækkað án samsvarandi breytinga á persónuafslætti til að tryggja að skattleysismörk lækki ekki vegna breytinga á álagningarhlutfalli. Orðrétt segir í umsögn BSRB: „Mikilvægt er að hyggja að áhrifum þessara skattbreytinga á skattleysismörk. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í mars og lagabreytingum í kjölfarið er gert ráð fyrir að skattleysismörk hækki samkvæmt lágmarksumsömdum launahækkunum sem þá hafði verið gengið frá. Þessi hækkun skattleysismarka er innan þeirrar launaþróunar sem síðan hefur orðið og hlýtur það að vera lágmarkskrafa að nái þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir fram að ganga þá verði þær ekki til að skerða skattleysismörk enn frekar. Til þess að skattleysismörk haldist óbreytt miðað við hækkun tekjuskatta um 0,33% 1. janúar 2001 og aftur sama hlutfall ári síðar þyrfti persónuafsláttur að hækka umfram það sem áður hefur verið ákveðið um 217 krónur í byrjun næsta árs, 447 krónur í ársbyrjun 2002 og 457 krónur 2003, sjá meðfylgjandi töflu.“
    Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir mjög fyrirhugaðar skattahækkanir og segir að þróun skattleysismarka hafa verið þannig á síðasta áratug að jafnvel þeir sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga séu farnir að greiða af þeim beinan skatt sem nemur tugum þúsunda á ári hverju. Benda þeir á að þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að örorkulífeyrir og tekjutrygging hafi dregist verulega aftur úr þróun lágmarkslauna og launavísitölu. Leggur Öryrkjabandalagið áherslu á að komi til útsvarshækkunar verði hún að fullu bætt með samsvarandi lækkun á tekjuskatti.
    Breyta þarf persónuafslætti og skattleysismörkum umfram það sem áformað var með kjarasamningum eigi skattahækkunin ekki að hafa þau áhrif að verulegur hluti launahækkana hverfi í auknar skattaálögur. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar kemur fram að miðað við óbreyttan persónuafslátt lækka skattleysismörkin úr 761.861 kr. á ári í 755.367 kr. miðað við árið 2002 og 748.983 kr. miðað við árið 2003. Í útreikningum fjármálaráðuneytisins kemur fram að áhrif skattahækkunarinnar verði þau að fjöldi skattgreiðenda mun aukast um 2.135 þegar á næsta ári, en ekki liggja fyrir útreikningar um fjögun skattgreiðenda árið 2002 þegar skattahækkunin er að fullu komin til framkvæmda. Gera verður þó ráð fyrir að það sé ekki undir 3.000 manns, en auk lægstlaunaða fólksins er hér um að ræða aldraða, öryrkja og námsmenn.
    Útreikningar fjármálaráðuneytisins sýna að til að mæta að fullu hækkun tekju- og útsvarsprósentu úr 38,37% í 38,70% þarf persónuafsláttur að vera 24.570 kr. til að skattleysismörkin haldist óbreytt við 63.487 kr. Samkvæmt útreikningum ASÍ og BSRB þyrfti persónuafsláttur að hækka umfram það sem áður hefur verið ákveðið um 217 kr. í byrjun næsta árs, 447 kr. í ársbyrjun 2002 og 457 kr. árið 2003.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á yfirstandandi ári kom eftirfarandi fram:
    „Til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á árinu 2000 og stuðla þannig að auknum stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að persónuafsláttur og skattleysismörk breytist í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Hækkunin á árinu 2000 verður þó nokkru meiri. Í þessu skyni verður lagt fyrir Alþingi innan skamms frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt þar sem kveðið er á um að persónuafsláttur hækki um 2,5% frá 1. apríl 2000. Þessi hækkun kemur til viðbótar við 2,5% hækkun persónuafsláttar 1. janúar sl., þannig að heildarhækkun á árinu 2000 nemur 5%. Enn fremur hækkar persónuafsláttur um 3% 1. janúar árið 2001, um 3% 1. janúar árið 2002 og um 2,25% 1. janúar árið 2003.“
    Ljóst er að þetta ákvæði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem sett var fram til að greiða fyrir kjarasamningum, gengur ekki eftir nema persónuafsláttur verði hækkaður. Ljóst er að kjarasamningum er stefnt í uppnám ef þessi mikilvæga forsenda þeirra brestur með þeirri skattahækkun sem nú er verið að knýja í gegn af ríkisstjórninni.
    Minni hlutinn leggur því áherslu á að breytingartillaga á þskj. 243, sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu við 1. umræðu málsins, verði samþykkt. Lagt er til að lækkað verði skatthlutfall tekjuskatts jafnmikið og heimildir til hækkunar útsvars gera ráð fyrir eða um samtals 0,99 prósentustig, þ.e. 0,66 prósentustig árið 2001 og 0,33 prósentustig árið 2002. Í langflestum umsögnum sem efnahags- og viðskiptanefnd fék frá sveitarfélögunum er tekið undir þetta sjónarmið, sem felur í sér að ríkið lækki hlut sinn í staðgreiðslunni í samræmi við hækkun á útsvari, þannig að skattbyrði landsmanna aukist ekki.
    Verði fyrrgreind breytingartillaga felld við 2. umræðu málsins mun minni hlutinn flytja breytingartillögu við 3. umræðu þess efnis að persónuafsláttur hækki til samræmis við áætlaðar launabreytingar, þannig að fyrirhuguð skattahækkun, sem ríkisstjórnin knýr nú fram, raski ekki forsendum kjarasamninga og hagur launafólks verði tryggður.

Alþingi, 28. nóv. 2000.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Ögmundur Jónasson.


Rannveig Guðmundsdóttir.







     Með nefndarálitinu er útbýtt umsögnum ASÍ og BSRB.