Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 387  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2001.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Lausatök ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála hafa nú leitt til þess að viðskiptahalli er með hæsta móti eða 8% af landsframleiðslu. Gengið hefur fallið um 10% frá í maí og Seðlabankinn hefur margsinnis þurft að grípa til aðgerða til að sporna gegn frekara falli. Þvert ofan í spár ríkisstjórnarinnar stefnir verðbólgan í að vera yfir 5% á næstu mánuðum og sumir ganga svo langt að spá yfir 6%. Vextir eru hér orðnir miklu hærri en í flestum þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við. Þessi þróun birtist í lélegri milliuppgjörum fyrirtækja en greiningardeildir fjármálastofnana spáðu og fjárfestar hafa fellt sinn dóm yfir efnahagsstefnunni með stórfelldum flutningum á fjármagni úr landi sem endurspeglast í miklu falli á hlutabréfamarkaði innan lands. Staða efnahagsmála um þessar mundir einkennist því af afleiðingum langvarandi þenslu sem ekki er séð fyrir endann á. Strax árið 1998 var ljóst að taka þurfti betur á í ríkisfjármálum. Samfylkingin vakti máls á því í aðdraganda síðustu kosninga og erlendar sérfræðistofnanir sömuleiðis. Ríkisstjórnin hunsaði hins vegar öll aðvörunarorð. Fjárlagafrumvarpið og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar benda því miður til að stjórnvöld séu enn í afneitun á alvarlegum undirliggjandi vanda.

Aðvörunarorð sérfræðinga.
    Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum er hins vegar óhjákvæmilegt að rifja upp nokkur af aðvörunarorðum innlendra og erlendra sérfræðinga sem vöruðu ríkisstjórnina eindregið við þróuninni. Jafnframt er óhjákvæmilegt að rekja þau mistök sem Samfylkingin hefur ítrekað bent á að voru gerð við stjórn efnahagsmála. Þjóðhagsstofnun taldi þannig í riti sínu um horfur í þjóðarbúskapnum sem kom út fyrr á þessu ári að vaxandi líkur væru á harkalegri lendingu ef misvægið í þjóðarbúskapnum héldi áfram að aukast, og klykkti út með eftirfarandi: „Það er alveg ljóst að það fær ekki staðist til lengdar að verðbólga sé meiri en í helstu viðskiptalöndum og viðskiptahalli sé á bilinu 6–8% af landsframleiðslu.“
    Í skýrslu OECD í desember 1999 var líka dregin upp dökk mynd af ástandinu: „Hætta hefur aukist á að skyndilega muni þurfa að draga saman í efnahagslífinu til að minnka verðbólgu og ná henni niður á sama stig og er erlendis…Auk þess er mikil aukning á útlánum banka og þar með aukast líkur á harkalegri lendingu ef vextir eru hækkaðir.“
    Þjóðhagsstofnun spáir jafnframt að hreinar erlendar skuldir muni að óbreyttu hækka úr 64% af landsframleiðslu í lok síðasta árs í 84% árið 2004. Um leið versnar hrein erlend staða þjóðarbúsins frá því að vera neikvæð um 49% af landsframleiðslunni í 61%. Hvað þýðir slík breyting fyrir stöðugleika efnahagslífsins? Seðlabankinn svarar því í einu af ritum sínum um peningamál: „Ólíklegt er að svo mikið ójafnvægi í utanríkisviðskiptum verði til lengdar án snöggra umskipta. Það ójafnvægi í þjóðarbúskapnum sem þessir framreikningar vitna um fela því í sér alvarlega ógnun við stöðugleika til frambúðar. Af þeim sökum er nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að tryggja hann.“
    Það vantaði því ekki að innlendir jafnt sem erlendir sérfræðingar sæju blikur á lofti áður en syrti fyrir alvöru í álinn og spöruðu hvergi aðvaranir sínar. Þeim var ekki sinnt. Afleiðingunum af mistökum ríkisstjórnarinnar var svo lýst með kjarnyrtum hætti af virtum efnahagssérfræðingi sem til skamms tíma var yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans, Yngva Erni Kristinssyni, núverandi bankastjóra Búnaðarbankans í Lúxemborg. Hann lýsti þeim svo á opnum fundi um efnahagsmál 10. nóvember: „Við höfum verið með of harða peningastefnu en of slaka stefnu í ríkisfjármálum. Afleiðingin er sú að við höfum verið með mjög háa vexti og hátt gengi. Það hefur leitt til þess að viðskiptahalli hefur magnast. Við höfum skapað erfiða stöðu fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar og vaxtarsprotana sem þurfa að byggja sig upp á innlendum markaði áður en þeir geta sótt út á erlenda markaði eftir fjármögnun.“ Í frásögn Mbl. 11. nóvember er einnig haft eftir Yngva Erni að sennilega hafi efnahagsstefnan sem fylgt hefur verið á Íslandi undanfarin ár „að nokkru leyti magnað þennan vanda sem þjóðarbúið er að glíma við í dag“.

Afstaða Samfylkingarinnar.
    Af þessu tilefni er rétt að rifja upp aðvörunarorðin sem sett voru fram í nefndaráliti stjórnarandstöðunnar um fjárlagafrumvarpið á síðasta ári. Þar sagði meðal annars: „Minni hluti fjárlaganefndar telur að við núverandi aðstæður sé höfuðnauðsyn að grípa til aðgerða sem miða að því að draga úr þenslu … Í núverandi stöðu dylst fæstum að fjárlagafrumvarpið gæti leikið lykilhlutverk í því að koma í veg fyrir skjótar lyktir góðærisins með því að hafa hemil á ríkisútgjöldum og skila miklum tekjuafgangi. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er því mikil. Stefnumörkun hennar í fjárlagafrumvarpinu sker í reynd úr um hvort hægt verður að treina góðærið. Í orði hefur ríkisstjórnin tekið undir þessar aðvaranir. Í reynd er niðurstaðan hins vegar sú að frumvörp hennar til fjárlaga og fjáraukalaga sem nú liggja fyrir þinginu stórauka útgjöld og eru beinlínis þensluhvetjandi.“
    Stjórnarandstaðan hvatti því til aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar enda lá þá fyrir að erlendar sérfræðistofnanir á sviði efnahagsmála voru þá fyrir löngu teknar að senda ríkisstjórninni stríðar aðvaranir um þróunina. Í því sambandi má rifja upp álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því árinu fyrr þar sem eftirfarandi dómur var felldur: „Nýsamþykkt fjárlög fyrir 1999 fela ekki í sér nægilegt aðhald í ríkisfjármálum að okkar dómi.“

Mistök ríkisstjórnarinnar.
    Höfuðmarkmið ríkisfjármála og raunar allrar efnahagsstjórnunar á Íslandi er að viðhalda stöðugleikanum. Samfylkingin varaði mörgum sinnum við ýmsum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hún taldi líkleg til að ganga í þveröfuga átt og veikja efnahaginn til lengri tíma.
     Í fyrsta lagi greip ríkisstjórnin til þess að lækka tekjuskatt þegar ljóst var að vel áraði og þenslutímar voru í nánd. Tekjuskattslækkunin ýtti að sjálfsögðu undir aukinn kaupmátt, enda var það tilgangur ríkisstjórnarflokkanna í aðdraganda kosninga. Aukinn kaupmáttur leiðir að sjálfsögðu til meiri neyslu sem aftur veldur meiri innflutningi sem ýtir undir viðskiptahalla. Það er vel þekkt af biturri reynslu að sé ekki gripið til sérstakra ráðstafana leiðir mikill og viðvarandi viðskiptahalli til þess að gengið veikist og það blæs í segl verðbólgunnar. Lækkanir á tekjuskatti leiða til þess að almenningur hefur að öðru jöfnu meira fé til ráðstöfunar. Þar af leiðandi eykur tekjuskattslækkun kaupmátt og þar með einkaneyslu. Sé tekjuskattsstigið lækkað í miklu góðæri herðir það á þessu ferli. Viðskiptahallinn verður þá meiri og verðbólguþrýstingur líka. Á þetta benti Samfylkingin. Reynslan hefur sýnt með óyggjandi hætti að hún hafði rétt fyrir sér í því efni. Ábyrg stjórnvöld lækka ekki tekjuskatt hjá öllum þorra landsmanna á tímum mikils góðæris og vaxandi viðskiptahalla. Það gerði hins vegar núverandi ríkisstjórn. Af sjónarhóli hagstjórnarinnar voru það mistök sem ýttu undir þensluna í þjóðfélaginu. Má í því sambandi enn minna á fyrrnefnt álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar fjárlaga fyrir árið 1999 þar sem ríkisstjórnin var átalin fyrir lélegt aðhald í ríkisfjármálum.
     Í öðru lagi fór ríkisstjórnin leiðir við fyrstu lotu einkavæðingar ríkisbankanna sem beinlínis ýttu undir útlánaþensluna. Þegar líklegt er að verðbólga og viðskiptahalli aukist þyrftu stjórnvöld fremur að beita aðgerðum sem takmarka aukningu útlána. Það er hægt með því að takmarka svigrúm banka til að lána fjármagn og draga þannig úr útstreymi peninga frá þeim. Þegar ríkisstjórnin hófst handa um að einkavæða bankana valdi hún þá leið að bjóða út nýtt hlutafé sem jók eigið fé bankanna. Það gerði bönkunum vitaskuld kleift að auka lántökur sínar erlendis og jafnframt að auka útlán án þess að rekast á eiginfjártakmarkanir laga. Lánin nýttu bankarnir til að freista þess að auka hlutdeild sína á markaðnum til að skapa sér stöðu áður en uppstokkun á fjármálamarkaðnum gengi í garð. Í reynd má segja að bankarnir hafi þrýst út lánsfé til einstaklinga og fyrirtækja á vildarkjörum. Þetta stórjók einkaneyslu og ýtti þannig verulega undir þensluna. Líklegt má telja að þessar ákvarðanir hafi átt mikinn þátt í því þensluástandi sem skapaðist og er undirrót núverandi stöðu efnahagslífsins. Þess má geta að aukning útlána í uppsveiflunni hefur verið gríðarleg síðustu árin og að öllum fjármálastofnunum meðtöldum hafa útlán aukist um 80% á sama tíma og landsframleiðslan hefur aukist um 40%. Í hlutfalli við landsframleiðsluna er því útlánaaukningin veruleg.
     Í þriðja lagi skapaði ríkisstjórnin óhóflegar væntingar meðal landsmanna með ógætilegum yfirlýsingum sínum. Væntingar ráða jafnan ákaflega miklu um neysluhegðun fólks. Í aðdraganda kosninganna gaf forusta ríkisstjórnarinnar þjóðinni fyllilega til kynna að góðærið mundi vara mörg ár í viðbót og á þeim fyrirheitum hefur lítið lát orðið þrátt fyrir blikur í efnahagsmálum. Í sömu átt hnigu ummæli hennar rétt fyrir kosningar um að þjóðin gæti vænst 50–60 milljarða kr. til skiptanna vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar ríkisfyrirtækja (Landssímans og bankanna). Þetta skapaði óraunhæfar væntingar um varanlega velsæld sem ýttu undir þenslu.
     Í fjórða lagi beitti ríkisstjórnin sér fyrir breytingum á húsnæðislánakerfinu sem ýttu beinlínis undir gríðarlega þenslu á húsnæðismarkaði, einkum á suðvesturhorninu. Hluti af viðleitni ríkisstjórnarinnar til að kaupa sér vild kjósenda fyrir kosningar fólst í að rýmka verulega greiðslumat vegna húsnæðislána og í reynd að galopna húsnæðiskerfið. Afleiðingin varð sú að útlán húsbréfadeildar fóru ríflega 7.000 millj. kr. fram úr heimildum fjárlaga árið 1999. Bæði Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun vöruðu við þessari þróun. Þessir 7 milljarðar kr. voru eldsmatur sem varpað var á bál vaxandi verðbólgu. Þarna er um að ræða eitt af örfáum stjórntækjum ríkisstjórnarinnar varðandi útlán innlendra lánastofnana og ríkisstjórnin misnotaði það herfilega. Þetta er dæmi um beina hækkun verðbólgu af völdum ríkisstjórnarinnar.
     Í fimmta lagi ákvað ríkisstjórnin í vor að hækka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis um fjórðung, eða úr 40% af hreinni eign í 50%. Í þessu fólst í reynd sterk hvatning af hálfu stjórnvalda til sjóðanna um að flytja fé úr landi eins og þeir hafa gert í ríkum mæli síðan. Án nokkurs vafa hefur þetta veikt gengið um þessar mundir.

Viðskiptahalli, skuldasöfnun og gengið.
    Í stefnuræðu sinni árið 1996 lýsti forsætiráðherra mikilvægi þess að ná tökum á viðskiptajöfnuði til þess – eins og hann sagði – „að erlendar skuldir okkar geti haldið áfram að lækka og að vaxtagreiðslur til erlendra aðila minnki ár frá ári“.
    Þegar þessum áhyggjum var lýst var viðskiptahallinn 8 milljarðar kr. og mörgum þótti þó ærið. Síðan forsætisráðherra lýsti þessari stefnu hefur þróunin orðið þveröfug. Viðskiptahallinn hefur aukist geigvænlega síðan orð forsætisráðherra féllu. Á árinu 1999 nam hann 40,4 milljörðum kr. eða 6,5% af landsframleiðslu. Á þessu ári spáir Þjóðhagsstofnun að viðskiptahallinn aukist enn og nemi 54 milljörðum kr., eða 8% af landsframleiðslunni. Þjóðhagsstofnun segir að hann muni halda áfram að hækka á næsta ári í 56,9 milljarða. Gangi spá Þjóðhagsstofnunar eftir verður halli á viðskiptajöfnuði sem svarar til 6,5–8% af landsframleiðslu fjögur ár í röð. Ekki eru dæmi um annan eins viðskiptahalla svo langan tíma í einu. Þessi staða speglast best í þeirri nöturlegu staðreynd að þrátt fyrir mikinn rekstrarafgang getur ríkisstjórnin ekki gert upp erlend lán, og þarf jafnvel að taka aukin erlend lán til að bæta gjaldeyrisstöðuna.
    OECD, sem gerþekkir íslenskt efnahagslíf, er þó miklu svartsýnni fyrir hönd íslensks efnahagslífs. Stofnunin spáir því að viðskiptahallinn í ár verði miklu meiri en Þjóðhagsstofnun telur eða 70 milljarðar kr. sem jafngildir 9,1% af landsframleiðslunni. Á næsta ári spáir svo OECD að viðskiptahallinn aukist enn eða í 10% af landsframleiðslu!
    Ríkisstjórnin virðist hins vegar ekki hafa miklar áhyggjur af þessari þróun, og af orðum forustumanna hennar má ráða að núverandi viðskiptahalli sé í reynd „góðkynja“ og því ekki líklegur til að hafa neikvæðar afleiðingar. Sú stofnun, sem hefur að meginhlutverki að veita ríkisstjórninni ráð og upplýsingar um þróun efnahagsmála, er hins vegar allt annarrar skoðunar og tekur í reynd undir með rökstuddri gagnrýni Samfylkingarinnar síðustu missiri. Þetta kemur fram í Þjóðhagsáætlun þar sem segir orðrétt: „Áframhaldandi hár viðskiptahalli mun því leiða til tiltölulega hratt versnandi erlendrar stöðu.“ Síðan bætir stofnunin við og segir: „Sífelld aukning skulda fæst ekki staðist. Mikill og langvarandi viðskiptahalli þjóða hefur því stundum verið undanfari skarprar gengislækkunar.“
    Með þessum orðum er Þjóðhagsstofnun að segja nákvæmlega það sama og Samfylkingin hefur bent á missirum saman, að mikill og vaxandi viðskiptahalli sé hættulegur krónunni. Reynsla síðustu mánuða hefur sýnt afdráttarlaust að ríkisstjórnin hefði betur hlustað á varúðarorð Samfylkingarinnar. Veruleikinn hefur einmitt sýnt það að viðskiptahallinn gróf undan genginu í þeim mæli að þróun þess felur í reynd í sér „skarpa gengislækkun“.
    Viðskiptahallanum fylgir mikil skuldasöfnun erlendis. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 1995 voru hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins rúm 50% af landsframleiðslu. Forsætisráðherrann lýsti þá yfir á Alþingi að ríkisstjórnin stefndi að því að þær lækkuðu niður í 34% af landsframleiðslu í lok ársins 2000. Hvernig hefur það ræst? Á þessu ári segir Þjóðhagsstofnun að hrein erlend staða þjóðarbúsins verði neikvæð um 55% af landsframleiðslu en neikvæð um nærri 60% af landsframleiðslu í lok næsta árs.
    Voru varnaðarorð Samfylkingarinnar varðandi viðskiptahalla og áhrif hans á gengið út í bláinn? Hvað hefur gerst á undanförnum mánuðum? Viðskiptahallinn veikti krónuna nægilega til að spákaupmenn hafa gert að henni nokkrar atlögur og á milli þeirra hefur hún svo sigið rólega. Seðlabankinn hefur ítrekað þurft grípa til aðgerða til varnar krónunni og neyðst til að eyða nærri 15 milljörðum kr. í þeim tilgangi en tókst aðeins að kaupa 1,5 milljarða kr. til baka fyrr í haust. Þrátt fyrir þetta er krónan um þessar mundir nærri 10% lægri en hún var í byrjun maí. Þess má einnig geta að gagnvart Bandaríkjadal hefur hún jafnframt fallið um rúman fjórðung, eða 26%, frá áramótum. Þar er þó um að kenna aðstæðum sem ekki eru nema að litlu leyti á valdi ríkisstjórnarinnar.
    Það er athyglisvert að ríkisstjórnin virðist hafa fundið sér blóraböggul í lífeyrissjóðunum og kennir fjárfestingum þeirra utan Íslands um þróunina. Engum blöðum er um að fletta að fjárfestingar þeirra erlendis stuðla að veikari krónu um þessar mundir þó að þær séu jákvæðar þegar horft er til lengri tíma. Þessar fjárfestingar eru hins vegar ekki nýjar. Þær hafa átt sér stað á undanförnum árum með vaxandi þunga í samræmi við langtímaáætlun sjóðanna. Það sem skiptir hins vegar mestu varðandi þessa þróun er fyrrnefnd ákvörðun ríkisstjórnarinnar sjálfrar frá síðastliðnu vori þegar hún beitti sér fyrir því að heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga erlendis yrðu auknar úr 40% af hreinni eign í 50%. Þetta skref var afar sérkennilegt í ljósi þess að langflestir sjóðir voru langt undir 40% þakinu. Með þessu var því ríkisstjórnin í reynd að gefa lífeyrissjóðunum til kynna af sinni hálfu að æskilegt væri að þeir flyttu aukinn hluta af fjármagni sínu úr landi. Þeir brugðust enda nákvæmlega við með þeim hætti. Í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar fólust því alvarleg mistök, enda lögðust bæði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið gegn breytingunni. Hið nöturlega við þetta er auðvitað sú staðreynd að eftir að hafa í reynd hvatt lífeyrissjóðina til þess að flytja fé úr landi kemur nú ríkisstjórnin og gerir þá að blórabögglum.

Þenslan og verðbólgan.
    Í nýjasta riti Seðlabankans er bent á að vísbendingar séu um að það dragi úr veltuaukningu og umsvifum á húsnæðismarkaði. En þenslueinkennin eru enn sterk og á suma mælikvarða sterkari en nokkru sinni fyrr. Vinnumarkaðurinn er spenntari sem eykur hættuna á launaskriði og að samningar verði lausir. Lítið hefur dregið úr útlánaaukningunni samkvæmt riti Seðlabankans. Ríkisstjórnin heldur því nú fram að þenslan sé að minnka. Einn af helstu efnahagsráðgjöfum hennar, Þórður Friðjónsson Þjóðhagstofustjóri, er þó á annarri skoðun. Í viðtali við Ríkissjónvarpið 2. þessa mánaðar sagði hann þensluna vera áhyggjuefni, og haft var eftir honum að „á miðju sumri hefði verið talið að þenslan væri í rénun en að undanförnu hefði komið fram nokkuð skýr merki um að hlé væri á þeirri þróun og að þenslan væri jafnvel að færast aftur í aukana“. Þjóðhagsstofustjóri hefur nokkuð til síns máls. Aukningin í veltu og umsvifum er að sönnu ekki eins mikil og í fyrra. Hún er eigi að síður fyrir hendi. Innheimta virðisaukaskatts fyrstu tíu mánuði þessa árs jókst þannig um 9,6% miðað við sama tíma og í fyrra. Og tekjuskattur einstaklinga jókst um 16,6% fyrstu tíu mánuði ársins eða meira en fyrstu sex mánuði ársins þegar hann jókst um 14,6%. Það þýðir að spennan hefur allra síðustu mánuði aukist verulega á vinnumarkaði.
    Horfur varðandi verðbólgu hafa versnað vegna þess að gengið hefur lækkað. Nú spáir Seðlabankinn 4,6% verðbólgu yfir næsta ár en spáði í ágúst undir 4% verðbólgu yfir árið 2001. Þá verður að hafa líka í huga að gengi krónunnar er nú rúmlega 1,5% lægra en miðað var við í verðbólguspá bankans. Þróunin speglast einnig í þeirri staðreynd að verðbólgan miðað við síðustu þrjá mánuði er 6,2% að mati Hagstofunnar. Þá má geta þess að sérfræðingar Íslandsbanka-FBA spá því að verðbólga verði að minnsta kosti 6% þegar kemur fram á næsta ár og segja reyndar að hún verði 6,3% í lok fyrsta ársþriðjungs 2001. Verðbólga erlendis er sömuleiðis að aukast, og það ásamt veikingu gengisins gæti ýtt frekar undir innlenda verðbólgu. Blikur eru því á lofti um frekari verðbólgu. Þegar samningarnir voru gerðir á almennum vinnumarkaði var verðbólgan 5,6% og meginforsendur þeirra voru að hún færi lækkandi. Þetta gæti haft afdrifarík áhrif á kjarasamninga á almennum vinnumarkaði því bresti verðlagsforsendur samninga ASÍ og SA verður launalið þeirra sagt upp.
    Afleiðingar þessarar þróunar sem þegar eru komnar fram hafa bitnað á almenningi jafnt sem fyrirtækjum. Vextir hafa stórhækkað og verðbólgan er aftur farin að þyngja greiðslubyrði landsmanna. Í lok ársins 1999 voru skuldir heimilanna 510 milljarðar kr., en um mitt þetta ár voru þær samkvæmt uppgjöri Seðlabankans 560 milljarðar kr. og höfðu því aukist um 10%. Hækki skuldir í sama takti á síðari helmingi ársins og á þeim fyrri munu skuldir heimilanna verða yfir 600 milljarðar kr. í árslok. Vöxtur skulda á árinu mun því nema 15–20%. Gangi það eftir blasir við sú staðreynd að hlutfall milli skulda og ráðstöfunartekna mun hækka verulega. Það er því ekki að undra að vanskil aukist í bankakerfinu og hætta er á að þau aukist enn frekar á næstu missirum takist ekki að snúa ofan af þessari þróun.
    Fjölmargar ungar fjölskyldur sem berjast við að koma sér upp þaki yfir höfuðið urðu fyrir skakkaföllum þegar afföll húsbréfa stjórjukust á síðastliðnu vori. Enn eru þau mjög há. Eins og Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans, benti á í fyrrgreindri tilvitnun hefur röng stefna ríkisstjórnarinnar neytt Seðlabankann til að beita harðri stefnu í peningamálum sem birtist í háum vöxtum til að styrkja gengið og hamla gegn verðbólgu. Þenslan hefur leitt til þess að vinnumarkaðurinn er yfirspenntur, mikill skortur er víða á vinnuafli, sem birtist til dæmis í því að erfitt er að manna skóla, og í mörgum tilvikum hefur ekki tekist að manna leikskóla. Það bitnar að sjálfsögðu líka illa á fjölskyldufólki.
    Hver er þá staðan nú? Ójafnvægið hefur lítið minnkað. Vinnumarkaðurinn er spenntari en nokkru sinni fyrr og viðskiptahallinn er í hámarki. Það er hugsanlegt að verstu bylturnar séu búnar og að smám saman muni vindast ofan af ástandinu. En svo lengi sem ójafnvægið er þetta mikið og svo lengi sem viðskiptahallinn er svona mikill er sú hætta stöðugt fyrir hendi að nýr þrýstingur komi á gengið. Ríkisstjórnin verður hins vegar að viðurkenna að við eigum við sameiginlegan vanda að glíma. Þá fyrst er hægt að ráðast gegn honum. Það má rifja upp að á síðastliðnu sumri varpaði Samfylkingin fram þeirri hugmynd að stjórnmálaflokkar og aðilar vinnumarkaðarins tækju höndum saman um að mynda nýja þjóðarsátt gegn verðbólgunni, m.a. til að koma í veg fyrir að kjarasamningar á almennum markaði yrðu lausir. Þótt margir tækju undir hugmynd Samfylkingarinnar hafnaði ríkisstjórnin henni. Fátt hefur undirstrikað ábyrgðarleysi hennar gagnvart þróun efnahagsmála betur en einmitt sú afstaða.
    Við aðstæður eins og nú ríkja verður að gera allt sem hægt er til að draga úr útlánaþenslunni. Í því sambandi er athyglisvert að í ritinu Stefna og horfur, sem fylgir frumvarpi til fjárlaga, kemur fram að opinberar framkvæmdir voru minnstar samdráttarárið 1995 og á fyrsta ári uppsveiflunnar 1996 en hafa aldrei verið meiri en í undangenginni þenslu. Þær eru raunar enn að aukast. Í þensluástandi hefði þessu átt að vera þveröfugt farið ætluðu menn með einbeittum hætti að draga úr þenslu og neikvæðum afleiðingum hennar.

Menntamál.
    Samfylkingin leggur til að framlög til menntamála verði aukin um 1 milljarð kr. á næsta ári. Það er í samræmi við þá stefnu flokksins að menntamál eigi að vera forgangsverkefni bæði í nútíð og framtíð. Samfylkingin hefur mótað ítarlega stefnu í menntamálum og telur að aukin áhersla á þau sé lykill að samkeppnishæfni landsins og velsæld þjóðarinnar í framtíðinni. Hún vill ekki aðeins auka fjármagn til menntamála heldur tengja þau stöðu menntunar erlendis. Þannig eru sett viðmið við það besta sem gerist erlendis. Nú er nauðsyn á þjóðarsátt um að efla menntakerfið og gera það samkeppnishæft við nágrannalöndin.
    Samanburður sýnir að Íslendingar hafa dregist aftur úr öðrum þjóðum. Við verjum mun minna fé til menntamála en gert er t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Mun færri ljúka hér framhaldsskólaprófi en erlendis, útskriftaraldur úr framhaldsskóla er miklu hærri hér, háskólastigið hefur drabbast niður, svo og rannsóknir og þróunarvinna, og laun kennara eru lág í samanburði við nágrannalöndin.
    Stjórn Sjálfstæðisflokksins í menntamálum hefur einkennst af metnaðarleysi síðastliðin 15 ár. Menntastefna hans hefur orðið til þess að stöðugt hefur hallað undan fæti í menntamálum og er nú svo komið að íslenskt menntakerfi stenst engan veginn samanburð við það sem best gerist erlendis. Frumkvæði Samfylkingarinnar í menntamálum með heilsteyptri aðferðafræði tekur hins vegar mið af breyttu hagkerfi og þörfum framtíðarinnar. Þetta er bráðnauðsynlegt þar sem síðustu ár hefur menntun í atvinnulífinu enn hrakað. Íslendingar geta ekki til lengdar haldið uppi góðum lífskjörum sem standast samanburð við það besta sem gerist nema menntaður mannafli landsins aukist verulega. Einungis þannig er okkur unnt að koma landinu í fremstu röð í heimi þeirra öru breytinga sem verða í tæknisamfélagi framtíðarinnar.
    Menntamál eru hins vegar hornreka í pólitískri umræðu. Við höfum dregist stórlega aftur úr öðrum þjóðum í framlögum til menntamála. Færri hafa lokið námi hér en í nágrannalöndunum, staða okkar í alþjóðlegum samanburði í námsgetu er ófullnægjandi og framlög til menntamála eru mun lægri hér en í grannlöndunum. Til að verða jafngild þeim þurfum við að auka fjárveitingar til menntamála og Samfylkingin stígur mikilvægt skref til þess með tillögu sinni. Í henni felst yfirlýsing um að þegar flokkurinn sest í ríkisstjórn verði menntamálin forgangsverkefni.
    Verst hefur háskólastigið orðið úti en framlög til þess eru innan við helmingur þess sem er algengt í nágrannalöndunum. Það vantar þriðjung á að við verjum jafnmiklu til rannsókna og þróunar og lönd innan OECD gera að meðaltali.
    Fjórði hver kennari í grunnskólum landsins er í annarri launaðri vinnu samhliða kennslunni til að drýgja tekjurnar. Hlutdeild landsmanna sem hafa lokið framhaldsskóla er 55% en sambærileg tala fyrir önnur Norðurlönd er 76%. Það er því blekking að Íslendingar búi við góða skólamenntun.
    Ríkistjórnin hyglar þeim skólum sem hafa frelsi til skólagjalda en fá mestan hluta kostnað síns greiddan úr ríkissjóði. Ríkisstjórnin stefnir þannig markvisst að því að góð menntun verði forréttindi þeirra efnuðu. Þeir sem hafa nægt fé eða eiga efnaða foreldra geta farið í dýru skólana en aðrir verða að njóta menntunar sem ekki er eins miklu varið til. Gegn þessari forréttindastefnu sjálfstæðismanna munu jafnaðarmenn berjast með oddi og egg.
    Leiðin til að tryggja sem flestum jöfn tækifæri í lífinu byggist á aðgangi að menntun. Í flóknu þekkingarsamfélagi framtíðarinnar verður menntakerfið helsta jöfnunartækið. Jafnaðarmenn vilja gjörbreyta uppbyggingu menntakerfisins og auka fjárfestingu í menntun verulega og hafna því menntakerfi meðalmennskunnar sem stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur getið af sér eftir að hafa farið með menntamálaráðuneytið nánast óslitið frá árinu 1984.

Einkavæðingu menntakerfisins hafnað.
    Samfylkingin hafnar alfarið hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að setja á stofn einkaskóla á framhaldsskólastigi. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að nú er búið að semja drög að samningi fyrir nýjan einkaskóla á framhaldsskólastigi. Þar með er Sjálfstæðisflokkurinn að undirbúa einkavæðingu menntakerfisins, með dyggri aðstoð Framsóknar. Hugmyndir um einkaskólann ganga út á að flýta námi til stúdentsprófs um tvö ár og taka aðeins við þeim nemendum sem skólinn telur að geti lokið náminu á tilsettum tíma. Þannig getur skólinn valið ,,ódýrustu“ nemendurna á framhaldskólastigi en fær þó greiðslur samkvæmt samningdrögunum frá ríkisvaldinu sem miðast við meðalkostnað tveggja framhaldskóla í Reykjavík. Þannig er gert ráð fyrir að einkaskólinn fái um 100 milljónir kr. á ári fyrir að kenna 150 nemendum.
    Þessi áform afhjúpa vel hug menntamálaráðherra til almennu framhaldsskólanna því að í fjölda ára hafa framhaldsskólar með áfangakerfi gert nemendum sínum kleift að ljúka framhaldsskólanámi á þremur árum. Mikill áhugi hefur verið í áfangaskólunum til að þróa áfangakerfið enn frekar þannig að nemendur geti í raun sjálfir ákveðið námshraða sinn. Þessi þróunarvinna hefur ekki farið fram því að fjármagn hefur vantað, einfaldlega vegna skorts á vilja menntamálaráðherra. Nú þegar einkaaðilar koma með sömu hugmynd eru allar gáttir opnar. Meðan skólameistarar framhaldskólanna telja vanta hundruð milljóna króna í rekstur framhaldsskólanna telur menntamálaráðherra mikilvægasta verkefnið á framahaldsskólastigi að láta 100 millj. kr. í sérstakt gæluverkefni fyrir börn hinna efnameiri. Þessar hugmyndir stríða algerlega gegn hugsjónum jafnaðarstefnunnar og því mun Samfylkingin berjast harkalega gegn þeim.

Kjör aldraðra og öryrkja.
    Meðal aldraðra og öryrkja eru fjölmargir sem búa við sára neyð. Samfylkingin leggur því til að 2 milljörðum kr. verði varið á þessu ári til að standa straum af fyrsta áfanga sérstakrar afkomutryggingar fyrir aldraða og öryrkja sem á að tryggja að enginn þurfi að una óvissu um afkomu sína og kjör. Samfylkingin hefur áður kynnt hugmynd sína um afkomutrygginguna í sérstakri þingsályktunartillögu sem liggur nú fyrir Alþingi. Sömuleiðis leggur Samfylkingin til við afgreiðslu fjárlaga að 300 millj. kr. verði veittar til að afnema skerðingar á tekjutryggingu bótaþega vegna tekna maka. Þessar breytingartillögur eru lagðar fram í sérstöku þingskjali.
    Fáum dylst að þeir sem þurfa á aðstoð velferðarsamfélagsins að halda til að komast af vegna elli, sjúkleika eða fötlunar hafa borið minnst úr býtum í góðærinu. Þetta er sá samfélagshópur sem Samfylkingin vill veita sitt liðsinni. Áhersla flokksins við afgreiðslu fjárlaga er því þyngst á bótum til aldraðra og öryrkja. Hún birtist í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um sérstaka afkomutryggingu þeim til handa sem miðar að því að enginn þurfi að una óvissu um kjör sín og afkomu. Staðreyndin er sú að í tíð núverandi ríkisstjórnar er misskiptingin enn að aukast. Fáir finna það jafn vel á eigin skinni og einmitt þeir sem eru háðir bótum almannatryggingakerfisins um framfærslu sína. Þrátt fyrir margfrægt góðæri ríkissjóðs er bilið milli tryggingagreiðslna og almennra launa enn að breikka. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga halda áfram að dragast aftur úr þróun lágmarkslauna og launavísitölu. Ríkisstjórnin lofaði fyrir kosningar að koma til móts við kröfur lífeyrisþega um bætt kjör og orð forustumanna úr hennar röðum var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að stefnt skyldi að því að kjör lífeyrisþega yrðu sambærileg kjörum annarra. Þegar langt er liðið á kjörtímabilið láta efndirnar þó enn á sér standa.
    Á þetta var rækilega minnt við setningu Alþingis fyrr í haust. Aldraðir mótmæltu þá vanefndum ríkisstjórnarinnar með eftirminnilegum hætti utan við Alþingishúsið og samdægurs hélt átakshópur öryrkja baráttufund á Hótel Borg til að vekja athygli á erfiðri fjárhagsstöðu. Þetta var þó síður en svo í fyrsta sinn á þessum velsældartímum sem lífeyrisþegar hafa neyðst til að vekja athygli opinberlega á hver hlutdeild þeirra hefur verið í góðærinu. Sú staðreynd að tæplega sex þúsund aldraðra eru með framfærslueyri undir lágmarkslaunum staðfestir jafnframt hversu bág kjör eru hlutskipti stórs hóps aldraðra í íslensku samfélagi. Það er enn fremur sláandi staðreynd að um 40% lífeyrisþega eru með óskerta tekjutryggingu. 43% öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði og verða því að byggja afkomu sína nánast einvörðungu á greiðslum úr almannatryggingunum.
    Þar að auki hefur ríkisstjórnin meðvitað haldið skattleysismörkum niðri og þannig flutt hluta skattbyrðinnar yfir á bök þeirra sem höfðu allra lægstu laun eða bætur og nutu því verndar skattkerfisins eins og það var í árdaga uppbyggt af jafnaðarmönnum. Þetta birtist m.a. í því að meðan nýliðun í hópi skattgreiðenda er samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra um 1,8% á þessu ári fjölgar virkum skattgreiðendum hins vegar um 6,8%. Hópurinn, sem skyndilega birtist í hópi skattgreiðenda vegna gliðnunar milli skattleysismarka og launaþróunar, er sá hópur sem minnst hefur sér til framfærslu, fólkið með allra lægstu launin og þeir sem lifa af bótum almannatrygginganna. Til marks um þetta er sú staðreynd að lífeyrisþegi, sem býr einn og dregur fram lífið á bótum sem nema nú um 70 þús. kr. frá TR, þarf nú að greiða skatt af bótunum. Þetta hefur ekki viðgengist fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar. Viðhorf ríkisstjórnarinnar til þeirra verst settu speglast ekki síst í þeirri staðreynd að á tímum meiri velsældar en áður hefur þekkst fengu eftirlaunamaðurinn og öryrkinn 606 kr. hækkun á lífeyri sinn um síðustu áramót, 157 kr. 1. apríl og 123 kr. 1. september sl.
    Í þessu felst það sem Samfylkingin hefur nefnt „hina rándýru fátækt“. Börn öryrkja eru félagslega út undan og afskipt. Aldraðir og öryrkjar sem ekki geta tekið þátt í samfélaginu brotna niður og halda ekki heilsu. Þetta er því bæði þjóðhagslega og heilsuhagfræðilega óhagkvæm stefna í málefnum lífeyrisþega. Þeir sem búa við fátækt búa við útilokun frá þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Í því felst skerðing á mannréttindum og þjóðfélagið fer á mis við framlag þess fólks sem við hana býr.
    Í fjárlagafrumvarpinu eru engin merki um að ríkisstjórnin hyggist afnema þá siðlausu reglu að tengja tekjutryggingar við tekjur maka. Atvinnuleysisbætur eru óháðar tekjum makans en verði menn óvinnufærir eða hafi menn lokið starfsævi sinni eru bætur þeim til handa enn tengdar tekjum maka. Þessi regla er niðurlægjandi arfur frá löngu liðnum tíma sem vinnur gegn fjölskyldunni sem stofnun og gegn því að þeir sem lifa af bótum geti stofnað til hjónabands. Stjórnvöld hafa í reynd viðurkennt óréttmæti þessarar ranglátu reglu með því að minnka tengingu við tekjur maka. Samfylkingin vill hins vegar að hún sé að fullu numin brott, enda telur flokkurinn hana brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og flestum mannréttindasáttmálum sem við höfum samþykkt. Þess vegna leggur Samfylkingin til, eins og áður er lýst, að 300 millj. kr. verði varið til að þvo þennan smánarblett af almannatryggingakerfinu.

Byggðamál.
    Samfylkingin leggur til margar breytingar á fjárlagafrumvarpinu í því skyni að efla framsækna byggðastefnu. Þar ber hæst tillögur um aukna áherslu á fjarkennslu á bæði framhaldsskóla- og háskólastigi og um eflingu símenntunarstöðva, um frumkvöðlasetur á landsbyggðinni og eflingu fjarvinnslu, auk þess sem lögð eru til aukin framlög til menningarmála landsbyggðarinnar, og lagt er til að 100 millj. kr. verði veittar í rannsóknarhús Háskólans á Akureyri.
    Byggðastefna stjórnvalda hefur verið fálmkennd og ómarkviss. Í reynd er hún gjaldþrota. Það speglast í þeirri staðreynd að á síðustu tíu árum hafa 12.000 manns flust af landsbyggðinni. Ríkisstjórnin hefur sýnt málefnum landsbyggðarinnar sorglega lítinn skilning. Það birtist í sviknum loforðum hennar um flutning fjarvinnsluverkefna til landsbyggðarinnar og enn frekar í framkomu hennar gagnvart sveitarfélögum í landinu. Þrátt fyrir að hvorki sé ágreiningur um hve mikill kostnaðarauki sveitarfélaganna er vegna aukinna verkefna né um skerðingu á tekjum þeirra vegna breytinga á skattalögum hefur ríkisstjórnin ekki viljað koma til móts við sveitarfélögin með öðru en heimild til að hækka útsvar. Í reynd felur það í sér að sveitarfélögin eru neydd til að hækka álögur sínar á íbúana.
    Gamaldags millifærslukerfi frá þéttbýli til dreifbýlis undir forsjá stjórnmálamanna er lakasta leiðin af öllum til að snúa við byggðaröskuninni. Jákvæð byggðastefna Samfylkingarinnar felst í því að efla sveitarfélögin, efla menntakerfið, ekki síst fjarkennslu og símenntun, efla nýjar atvinnugreinar á sviði upplýsingatækni, jafna aðgang landsmanna að fjarskiptanetinu, og breyta stjórnkerfi fiskveiða og auka þannig möguleika strandbyggðanna í grennd við miðin á því að verða sér úti um aflaheimildir. Tillögur um þetta liggja ýmist fyrir í þingmálum Samfylkingarinnar eða birtast í þeim breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið sem flokkurinn leggur nú fram.

Félagslega íbúðakerfið.
    Samfylkingin leggur til í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að 200 millj. kr. verði varið til að greiða niður vexti af lánum til félagslegra leiguíbúða. Flokkurinn telur þetta algerlega nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist í húsnæðismálum láglaunafólks, en nú þegar eru 2.000 fjölskyldur láglaunamanna á biðlista eftir leiguíbúðum. Þessi tillaga er í samræmi við þá hugsjón jafnréttis og réttlætis sem Samfylkingin starfar eftir.
    Þegar ríkisstjórnin lagði niður félagslega húsnæðiskerfið vöruðu þingmenn Samfylkingarinnar sterklega við því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar mundu setja leigumarkaðinn í uppnám, og leiða til neyðarástands í húsnæðismálum láglaunafólks. Rothöggið eru áform ríkisstjórnarinnar sem birtast í fjárlagafrumvarpinu um að hætta að niðurgreiða vexti til leiguíbúða. Þetta er afleiðing af fyrrnefndri ákvörðun um að leggja félagslega íbúðakerfið niður, en þá komu fram þau áform að hætta niðurgreiðslu vaxta frá og með áramótum 2000/2001. Í kjölfar lokunar á félagslega íbúðakerfinu rauk verð á leiguíbúðum upp, en leigukostnaður er með öllu orðinn óviðráðanlegur fyrir láglaunafólk. Þrátt fyrir loforð félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að bæta aðstæður leigjenda hafa vextir á leiguíbúðum smám saman verið að hækka í allt að 3,2%. Í áratugi hafði ríkt sátt um að halda vöxtum á leiguíbúðum lágum eða í 1%. Nú eru áform um að hætta niðurgreiðslu vaxta frá næstu áramótum sem veldur annaðhvort stöðvun á uppbyggingu leiguíbúða eða verulegri hækkun á leigugreiðslum hjá láglaunafólki verði ekkert að gert. Þetta gerist á sama tíma og biðlisti eftir leiguíbúðum hefur aldrei verið lengri, einkum vegna lokunar á félagslega íbúðakerfinu. Neyðarástand ríkir hjá mörgum fjölskyldum sem bíða eftir leiguíbúðum. Nú er margra ára bið eftir slíkum íbúðum, en eins og áður sagði eru um 2.000 láglaunafjölskyldur á biðlistum og margar þeirra í sárri neyð.
    Á það skal minnt að árlega var komið upp að meðaltali um 300 leiguíbúðum meðan vextirnir voru 1%. Aftur á móti hefur verulega dregið úr uppbyggingu leiguíbúða eftir vaxtahækkun á lánum og lokun félagslega íbúðakerfins. Árið 1997 fengu sveitarfélögin einungis lán til 49 leiguíbúða og á árinu 1998 til 38 leiguíbúða. Ljóst er að ef hækka á vextina enn frekar á slíkum lánum er hætta á að hvorki sveitarfélögin né félagasamtök treysti sér til að byggja leiguíbúðir nema hækka leiguna verulega sem aftur veldur auknum útgjöldum hjá sveitarfélögunum vegna húsaleigubóta.
    Gulrótin sem ríkisstjórnin virðist ætla að færa sveitarfélögum og félagasamtökum í stað niðurgreiðslu á vöxtum á leiguíbúðum er 50 millj. kr. til stofnkostnaðarstyrkja sem nota á til að styrkja sveitarfélög og félagasamtök til að koma á fót leiguíbúðum. Samkvæmt fjárlögunum á að veita 90% lán til 500 leiguíbúða á næsta ári sem áætlað er að kosti 7 millj. kr. hver. Það þýðir 100 þús. kr. styrk frá ríkissjóði á hverja íbúð en allir sjá að það mun í engu hvetja sveitarfélög eða félagasamtök til uppbyggingar leiguíbúða. Heimild til lánveitinga til 500 leiguíbúða á næsta ári er því sýndarmennskan ein sem litlu mun skila til að bæta ófremdarástandið á leigumarkaðinum.
    Tillaga Samfylkingarinnar um áframhaldandi niðurgreiðslu vaxta á félagslegum leiguíbúðum er því eina haldreipi þeirra fjölmörgu láglaunafjölskyldna sem sárlega skortir þak yfir höfuðið.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.
    Samfylkingin leggur til að 375 millj. kr. verði varið til að halda uppi lögbundnum framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra, og gagnrýnir harðlega skerðingar ríkisstjórnarinnar til sjóðsins. En síðastliðin fimm ár hafa lögbundin framlög verið skert um 1.500 millj. kr. sem hefur mjög hægt á uppbyggingu þjónustu fyrir fatlaða.
    Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en málefni fatlaðra eru nú hluti þeirra laga. Miklar umræður hafa orðið um flutning á málaflokknum til sveitarfélaga. Ekki er þó að sjá á fjárlagafrumvarpinu að ráðgert sé að auka fjárveitingar til málefna fatlaðra. Þvert á móti er lagt til enn á ný að framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði skert, en samkvæmt lögum um málefni fatlaðra eiga óskertar tekjur erfðafjársjóðs að renna til Framkvæmdasjóðsins. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir að tekjur af erfðafjárskatti verði 607 millj. kr. en framlag til Framkvæmdasjóðsins er aðeins 235 millj. kr.
    Þetta er allsendis óviðunandi, en á þriðja hundrað fatlaðra eru nú á biðlistum eftir búsetuúrræðum og ekkert miðar með útskriftir af Kópavogshæli. Þessu unir Samfylkingin ekki og leggur því til að fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra nemi óskertum tekjum af erfðafjárskatti.

Niðurlag.
    Fjárlagatillögur Samfylkingarinnar gera ráð fyrir aukningu á útgjöldum sem nemur um 5 milljörðum kr. Á móti þeim mun Samfylkingin einnig leggja fram tillögur að niðurskurði eða auknum tekjum þannig að tekjuafgangur ríkisins eykst um 1 milljarð kr.

Alþingi, 30. nóv. 2000.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Gísli S. Einarsson.


Einar Már Sigurðarson.