Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 419  —  156. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2000 kemur nú til 3. umræðu. Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta við 2. umræðu um almenn atriði og tillögur að þingræðislegri vinnu við fjárlagagerðina og það jafnframt að útgjöld séu samþykkt fyrir fram með fjáraukalögum. Aðeins bráða- eða neyðartilvik réttlæta aðra tilhögun. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber framkvæmdarvaldinu að kynna aukna fjárþörf fyrir fjárlaganefnd strax og hún er ljós og leita heimildar á fjáraukalögum. Áður hefur verið bent á þær ástæður að Alþingi hafi samþykkt lög, t.d. á vorþingi, sem krefjast útgjalda á því sama ári og getur því verið nauðsynlegt að bregðast strax við með samþykkt fjáraukalaga. Því er hér ítrekað það mat 2. minni hluta að fjárreiðulögum verði illa framfylgt nema til komi sú breytta tilhögun að Alþingi samþykki fjáraukalög í lok vorþings og svo aftur í upphafi haustþings ef nauðsyn krefur. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort meiri hluti ríkisstjórnarinnar sé nægur til að tryggja ákvarðanir framkvæmdarvaldsins heldur er hitt aðalatriðið að farið sé að lögum og ákvarðanir um aukin útgjöld teknar á þingræðislegan hátt.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að rekstrartekjur ríkissjóðs á árinu 2000 verði um 224 milljarðar kr. en þær voru áætlaðar á fjárlögum um 210 milljarðar kr. og hafa því aukist um 14 milljarða kr. frá fjárlögum. Rekstrargjöld samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2000 voru áætluð liðlega 193 milljarðar kr., en samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir við 3. umræðu fjáraukalaga eru þau áætluð rúmir 200 milljarðar kr. og rekstrarafgangur ársins um 23 milljarðar kr. Samkvæmt fjárlögum ársins 2000 var rekstrarafgangur áætlaður 17 milljarðar kr.
    Ljóst er að meiri þensla hefur verið í efnahagslífinu en ráð var fyrir gert á árinu 2000 frá samþykktum fjárlögum ársins. Standist þær áætlanir sem fylgja fjáraukalagafrumvarpinu mun landsframleiðsla aukast nokkru meir en ætlað var, eða úr 2,9% í 3,6%. Jafnframt eykst kaupmáttur ráðstöfunartekna samkvæmt áætlun fjárlaga, eða um 1,5%. Atvinnuleysi er lítið á landsmælikvarða, eða um 1,5% af mannafla.
    Þær efnahagsforsendur sem víkja hvað mest frá áætlun fjárlaga eru fjárfestingar. Gert er ráð fyrir aukningu úr 2,7% í 11,1%. Innflutningur vöru og þjónustu eykst úr 1,9% samkvæmt áætlun fjárlaga í um 7% og ef olía er ekki tekin með er aukningin 4,4%. Ýmislegt bendir til að aukningin í innflutningi verði meiri í árslok en hér er spáð um.
    Viðskiptahallinn hefur verið nálægt 7% af landsframleiðslu og nálgast 8% en nýjustu spár benda til að hann verði á bilinu 57–60 milljarðar kr. eða hartnær tvöfalt meiri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir.
    Hinn mikli viðskiptahalli og útflæði fjármagns hefur leitt til þess að ríkissjóður hefur ekki getað greitt niður skuldir erlendis án þess að veikja gengi krónunnar. Þrátt fyrir góðan rekstrarafgang er takmarkað hægt að greiða niður innlendar skuldir án þess að valda aukinni þenslu á innlendum peningamarkaði. Stefna ríkisins og jafnframt skilaboð til Seðlabankans er að halda genginu innan settra vikmarka. Hreyfingar á gengisvísitölu krónunnar samsvara um 9% gengisfellingu á þessu ári. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar frá 5. október sl. verða skuldir ríkissjóðs í árslok 2000 um 214 milljarðar kr. og hafa þá lækkað um 12 milljarða kr. á árinu. Erlendar skuldir nema um 119 milljörðum kr. og hækka um tæpan milljarð króna.
    Skuldir sveitarfélaganna hafa vaxið mjög á undanförnum árum og á þessu ári er gert ráð fyrir að þær aukist úr 46,8 milljörðum kr. í 50,3 milljarða kr. Skuldastaða sveitarfélaganna er afar misjöfn sem og möguleikar þeirra til að standa við skuldbindingar sínar. Þrátt fyrir sérstakt tekjujöfnunar- og fólksfækkunarframlag á fjáraukalögum og nokkra lagfæringu á tekjustofnum sveitarfélaga á næsta ári er staða sumra sveitarfélaga afar bág. Skuldir einstakra sveitarfélaga og lágar tekjur á íbúa er ein mesta ógnun við samfélagsþjónustuna og jafnvægi í búsetu í landinu. Brýnt er að aukinn jöfnuður verði í tekjum og gjöldum hins opinbera. En nú hallar verulega á sveitarfélögin. Eðlilegt hefði verið að ráðstafa auknum rekstrarafgangi ríkisins á þessu ári til þeirra sveitarfélaga sem verst standa, t.d. með því að létta skuldbindingum af sveitarfélögum sem bágast standa vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Allur ójöfnuður og mismunun af þessum toga leiðir til spennu og óstöðugleika í efnahags- og atvinnulífi.
    Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins var um 419 milljarðar kr. í árslok 1999 eða um 78% af landsframleiðslu en samkvæmt spá þjóðhagsstofnunar frá í október verður hrein skuldastaða þjóðarbúsins í árslok 2000 531 milljarður kr. eða 85% af landsframleiðslu og hefur þá á góðæristímanum frá 1995 farið úr 236 milljörðum kr. eða um 51% af landsframleiðslu.
    Samkvæmt hagtölum Seðlabankans hafa innlán aukist um tæpa 30 milljarða kr. á árinu til októberloka. En á sama tíma hafa útlán aukist um 204 milljarða kr. Ljóst er því að lánastofnanir hafa fjármagnað útlán sín að langmestu leyti með erlendum lántökum enda hefur erlend skuldastaða þeirra versnað á sama tíma um tæpa 182 milljarða kr. Nettó erlend skuldastaða innlánsstofnana nemur í októberlok 327,5 milljörðum kr. en var 95,5 milljarðar kr. í árslok 1998 og 145,8 milljarðar kr. í árslok 1999.
    Það er því ljóst að ýmislegt hefur farið á annan veg en þjóðhagsáætlun og stefna ríkisins í efnahagsmálum gerðu ráð fyrir.

Alþingi, 3. des. 2000.



Jón Bjarnason.