Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 445  —  215. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik J. Arngrímsson og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Grétar M. Jónsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands. Þá átti nefndin símafund með Þorvaldi Jóhannessyni frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími laga nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, verði framlengdur um eitt ár svo að þau gildi fyrir árið 2001, ella falla þau úr gildi um næstu áramót. Ráðgert er að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna fari fram samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra hefur skipað. Þar sem nú stendur yfir heildarendurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni er ekki ástæða til að taka lög nr. 38/1998 upp sérstaklega.
    Á árinu var gerð sú breyting á lögum nr. 38/1998 að af skipum sem stunduðu síldveiðar á viðmiðunarárunum 1995, 1996 og 1997 og skipum sem komið hafa í þeirra stað var heimilað að framselja aflahámark án takmarkana. Þetta hefur m.a. haft þau áhrif að framsal á þessu ári var 31,2% en var 11,6% á síðasta ári.
    Nefndin aflaði sér upplýsinga um ráðstöfun afla íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1995–2000 og einnig um landaðan afla íslenskra skipa úr norsk- íslenska síldarstofninum skipt eftir mánuðum á árunum 1995–2000. Má af þeim upplýsingum ráða að nokkur breyting hefur orðið á ráðstöfun aflans. Einnig er athyglisvert að æ meira veiðist af norsk-íslenska síldarstofninum í júní en minna í maí. Raunar var lítil sem engin veiði úr þessum stofni í maí í ár. Þetta má sjá í töflum í fylgiskjali með nefndaráliti þessu.
    Nefndin vill vekja athygli á því að talsverðar breytingar hafa orðið á sókn í norsk-íslensku síldina og er hún veidd af stærri skipum en áður þar sem nú er að bætast í nótaveiðiflotann talsvert af stórum og nýjum skipum. Samkvæmt gildandi lögum ráðast aflaheimildir skipa að nokkru af stærð þeirra og því er ljóst að tilkoma stærri skipa getur skert veiðirétt þeirra sem fyrir eru.




Prentað upp.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 6. des. 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Hjálmar Árnason.



Kristinn H. Gunnarsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson.




Fylgiskjal.


Fiskistofa:

Yfirlit yfir aflahámark og afla úr norsk-íslenska síldarstofninum.


(4. desember 2000.)



Tafla 1. Aflahámark, millifærslur aflahámarks og afli úr norsk-íslenska síldarstofninum 1999 og 2000.

1999 2000
Samtals úthlutað aflahámark
202.000 lestir 194.230 lestir
Samtals flutt magn
23.427 lestir 60.602 lestir
Flutt magn sem hlutfall af heildarúthlutun
11,6 % 31,2 %
Skip sem fluttu frá sér aflahámark*
31 34
Skip sem lönduðu síldarafla
49 44
Heildarafli
203.493 lestir 185.642 lestir
*Tölur um flutning aflahámarks eru veltutölur.
Hafi sama aflahámark verið flutt milli skipa oftar en einu sinni er það talið í hvert sinn sem það er flutt.

Tafla 2. Ráðstöfun afla íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum 1995–2000.


Ár

Landfryst

Sjófryst

Saltað

Til bræðslu

Selt erlendis
Innanlandsneysla
Samtals
1995 284 0 40 170.287 3.497 0 174.109
1996 45 19 0 164.738 152 3 164.957
1997 0 0 0 216.108 3.933 0 220.041
1998 276 1.797 537 195.604 1.921 0 200.135
1999 71 183 24 203.215 0 0 203.493
2000 1842 138 0 163.419 20.243 0 185.642

Tafla 3. Landaður afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir mánuðum 1995–2000, í lestum.

Ár Maí Júní Júlí Ágúst September Október Samtals
1995 142.342 31.767 0 0 0 0 174.109
1996 136.434 28.504 19 0 0 0 164.957
1997 184.719 25.522 1.836 0 5.206 2.758 220.041
1998 95.274 97.337 669 152 2.581 4.122 200.135
1999 55.691 147.802 0 0 0 0 203.493
2000 2.198 166.174 10.131 0 7.139 0 185.642