Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 492  —  232. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti og Pál Gunnar Pálsson, Ástu Þórarinsdóttur, Þorstein Marinósson og Jóhann Albertsson frá Fjármálaeftirlitinu. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Verðbréfaþingi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Íbúðalánasjóði, Seðlabanka Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Í lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kemur fram að þeir aðilar sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt lögunum skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Árlega skal viðskiptaráðherra gefin skýrsla um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Með hliðsjón af skýrslunni tekur ráðherra síðan ákvörðun um hvort ástæða sé til að breyta eftirlitsgjaldinu með lögum. Frumvarp þessa efnis er nú lagt fyrir Alþingi í fyrsta sinn.
    Nefndin tekur fram að strax á næsta ári hyggst hún taka til umfjöllunar skýrslur Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi þess og áætlaðan rekstrarkostnað árið 2001, þ.m.t. meginatriði athugasemda eftirlitsskyldra aðila við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2001.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson og Sigríður A. Þórðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.



Hjálmar Árnason.