Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 493  —  197. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bolla Þór Bollason, Björn Rúnar Guðmundsson, Ragnheiði Snorradóttur, Ólaf Pál Gunnarsson og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Rannveigu Sigurðardóttur og Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Þráin Hallgrímsson og Dögg Pálsdóttur frá fjölskylduráði, Margréti Berndsen frá Félagi einstæðra foreldra og Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra. Jafnframt bárust gögn frá fjármálaráðuneyti og umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Félagi einstæðra foreldra, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Félagi ábyrgra feðra, Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands, fjölskylduráði og ríkisskattstjóra.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að teknar verði upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn yngri en sjö ára. Þannig verður dregið úr tekjutengingu barnabótakerfisins auk þess sem tekjuskerðingarhlutföll verða lækkuð. Næstu þrjú ár munu barnabætur síðan hækka til samræmis við almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir því að eignaskerðing barnabóta verði afnumin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigríður A. Þórðardóttir og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Jóhann Ársælsson rita undir nefndarálitið með fyrirvara og munu flytja breytingartillögu þess efnis að ótekjutengdar barnabætur verði teknar upp fyrir börn að 16 ára aldri.

Alþingi, 9. des. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Hjálmar Árnason.