Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 503  —  75. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, með síðari breytingum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson, Sigríði Auði Arnardóttur og Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneytinu, Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands og Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Umsagnir frá 125. löggjafarþingi frá Landmælingum Íslands, Landsvirkjun, Landgræðslu ríkisins, Arkitektafélagi Íslands, Landmati, raunvísindadeild Háskóla Íslands, Náttúruverndarráði, Skipulagsstofnun, Fasteignamati ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands lágu fyrir hjá nefndinni. Umsagnir um málið frá LÍSU, samtökum um landupplýsingar á Íslandi fyrir alla bárust til nefndarinnar nú.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þriggja manna stjórn Landmælinga Íslands verði lögð niður. Þessi breyting er í samræmi við stefnu umhverfisráðuneytisins sem vill að forstjórar beri alla ábyrgð á rekstri og stjórnun stofnana af þessu tagi.
    Minni hlutinn telur að skýrt hafi komið fram í umfjöllun um málið að sú stjórn sem verið hefur yfir stofnuninni hefur verið afar gagnleg fyrir rekstur hennar og stefnumótun undanfarin ár og er þess vegna andvígur breytingunni. Aðrar breytingar sem eru lagðar til með þessu frumvarpi eru til bóta. Fjarkönnun verður samkvæmt frumvarpinu eitt af verkefnum stofnunarinnar en hún felst í öflun, úrvinnslu og miðlun gagna á sviði loft- og gervitunglamynda. Þetta verkefni fékk fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2000 og er þegar hafið. Einnig er lagt til að Landmælingar Íslands annist skráningu og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi sem eru og verða í eigu íslenska ríkisins. Ekki er ætlunin að Landmælingar Íslands taki við gögnum sem nú eru hjá öðrum aðilum heldur skal stofnunin eingöngu halda utan um gagnagrunn þessara upplýsinga. Landmælingum Íslands er falið að miðla upplýsingum um örnefni í samráði við Örnefnastofnun Íslands. Áður var eingöngu kveðið á um kortlagningu stofnunarinnar á þessum upplýsingum. Þá er lagt til að ráðherra setji reglugerð um vottun réttinda mælingamanna sem eiga að sjá um mælingar eignamarka landa og lóða. Þetta er gert til að uppfylla hæfniskröfur mælingamanna en einnig til að kveða á um réttindi þeirra og skyldur. Kveðið skal á um það í reglugerðinni að Landmælingar Íslands skuli fara með eftirlit með vottuninni og störfum mælingamannanna í umboði ráðherra. Fjármögnunarheimildir Landmælinga Íslands eru gerðar skýrari og lagðar eru til breytingar til að styrkja starfsemina.
    Fram kom hjá umsagnaraðilum að þeir sem þurft hafa á gögnum að halda sem eru hjá stofnuninni hafi jafnvel leitað annað og nýtt sér í sumum tilvikum lélegri gögn en eru í eigu Landmælinga vegna hárrar verðlagningar stofnunarinnar. Minni hlutinn telur að verðlagning Landmælinga Íslands á gögnum sem lúta höfundarétti ríkisins verði að vera sanngjörn svo að viðskiptavinir stofnunarinnar geti nýtt sér þjónustu hennar. Minni hlutinn telur einnig álitamál að aðgangur skuli seldur að kortagrunni Landmælinga Íslands í samkeppni við aðila sem hafa ekki aðgang að sömu grunngögnum. Þetta hefur valdið því að ekki eru notuð bestu fáanleg gögn í öllum tilvikum.
    Marka þarf aðgangi almennings að upplýsingum í eigu ríkisins stefnu. Við þá stefnumörkun þarf að taka afstöðu til þess hvort taka eigi gjöld fyrir slíkar upplýsingar eða hvort almenningur eigi rétt á ótakmörkuðum aðgangi að þeim sér að kostnaðarlausu. Minni hlutinn er andvígur 1. gr. frumvarpsins og mun greiða atkvæði gegn henni en styðja aðrar greinar þess.

Alþingi, 12. des. 2000.



Jóhann Ársælsson,


frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.