Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 505  —  190. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun ríkisins og Ívar Pálsson frá Borgarskipulagi Reykjavíkur.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Hollustuvernd ríkisins, Veðurstofu Íslands, Orkustofnun, Almannavörnum ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Akraneskaupstað, Skipulagsstofnun, Landgræðslu ríkisins, Vinnueftirliti ríkisins, Ísafjarðarbæ, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Meistarafélagi húsasmiða, Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, embætti borgarverkfræðings Reykjavíkurborgar, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Borgarskipulagi Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins, Arkitektafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Í athugasemdum við frumvarpið greinir að tilgangur þess sé að taka á þeim vanköntum sem komið hafa í ljós við framkvæmd laganna síðustu tæp þrjú ár. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að kostnaður við rekstur Skipulagsstofnunar verði greiddur að öllu leyti úr ríkissjóði og stofnaður sérstakur gegnumstreymissjóður í umsjón Skipulagsstofnunar, Skipulagssjóður, sem skuli standa undir fjárframlögum ríkisins til skipulagsgerðar sveitarfélaganna. Þá er að finna ákvæði sem varða málsmeðferð deiliskipulags og grenndarkynningar, auk þess sem lagt er til að heimilt verði að beita sérstakri svæðisskipulagsmeðferð, þ.e. skipulagsmeðferð fleiri en eins sveitarfélags, í tilteknum tilvikum. Enn fremur er lagt til að fyrirtæki þar sem starfa löggiltir hönnuðir eða byggingarstjórar geti tekið á sig skyldur þeirra enda hafi þau lögboðna ábyrgðartryggingu. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um löggildingu ráðherra sem m.a. er ætlað að tryggja jafnræði milli stétta. Loks er að finna heimild fyrir ráðherra til að veita undanþágur frá einstökum greinum byggingarreglugerðar og skipulagsreglugerðar að fengnum umsögnum Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarfélags.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúum umhverfisráðuneytis kom fram að undanþáguheimild ráðherra skv. 3. og 8. gr. frumvarpsins eigi eingöngu við vegna örlítilla frávika frá ákvæðum skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar. Vill meiri hlutinn ítreka þann skilning á undanþáguheimildinni. Þá vill meiri hlutinn benda á að heimild sveitarstjórnar til að auglýsa samhliða tillögur að deiliskipulagi og samsvarandi breytingu á aðalskipulagi samkvæmt b-lið 5. gr. frumvarpsins verði að framkvæma með birtingu á tveimur samhliða auglýsingum vegna mismunandi réttarstöðu þeirra sem gera athugasemdir við tillögurnar.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti auk tillögu til sveitarstjórnar um deiliskipulag gert tillögu um breytingu á því á sinn kostnað. Í öðru lagi telur hann að b-lið 7. gr., b-lið 13. gr. og 1. tölul. 15. gr. frumvarpsins beri að fella brott og bíða heildarendurskoðunar laganna sem hefjast mun á næsta ári. Þá kom fram við umfjöllun nefndarinnar að frestur til 1. júlí 2001 fyrir námskeið til löggildingar í 10. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum mun ekki standast sökum mikillar aðsóknar á námskeiðin og leggur meiri hlutinn því til að fresturinn verði lengdur til 1. júlí 2002 en að umsóknarfrestur renni þó út 1. september 2001.

Alþingi, 12. des. 2000.



Ólafur Örn Haraldsson,


form.


Kristján Pálsson,


frsm.


Ásta Möller.



Katrín Fjeldsted.


Gunnar Birgisson.


Jónas Hallgrímsson.



Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.