Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 534  —  93. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um flutning eldfimra efna um jarðgöng.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Gest Guðjónsson, umhverfis- og öryggisfulltrúa hjá Olíudreifingu ehf., og Hörð Gunnarsson, framkvæmdastjóra Olíudreifingar ehf.
    Samkvæmt tillögunni er því beint til ríkisstjórnarinnar að setja reglur um flutning á eldfimum efnum um jarðgöng. Í tillögunni er lagt til að í reglunum verði m.a. kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skal göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram.
    Nefndin telur að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Reynslan erlendis hefur sýnt að flutningur hættulegra efna um jarðgöng getur valdið hörmulegum slysum.
    Nefndin telur þær reglur sem nú eru í gildi og birtar eru sem fylgiskjal með tillögunni ekki fullnægjandi og að nauðsynlegt sé að setja skýrari og ítarlegri reglur um þessi mál.
    Nefndin vekur athygli á því að undanfarin ár hefur verið unnið á vegum OECD að viðamiklu verkefni um flutning hættulegra efna í jarðgöngum og er niðurstaðna að vænta í lok þessa árs. Vegagerðin hefur fylgst með þessu verkefni og telur nefndin eðlilegt að tekið verði mið af niðurstöðunum.
    Nefndin styður tillöguna með þeirri breytingu að lagt er til að í stað þess að einskorða tillöguna við flutning á eldfimum efnum skuli ríkisstjórninni falið að setja reglur um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng og er gerð breytingartillaga um þetta. Í þessu sambandi vísar nefndin til skilgreiningar á hættulegum farmi, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um flutning á hættulegum farmi, nr. 192/1998. Með breytingartillögu þessari mælist nefndin til þess að tekið verði á þessum málum í víðara samhengi en tillagan gerir nú ráð fyrir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU:

    1. mgr. tillögugreinarinnar orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 2000.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Kristján L. Möller.



Lúðvík Bergvinsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Jón Kristjánsson.



Jón Bjarnason.


Guðmundur Hallvarðsson.