Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 538  —  154. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

    

Frá 1. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Þingmenn Samfylkingarinnar í 1. minni hluta landbúnaðarnefndar telja mikilvægt að vel sé staðið að öllum útbúnaði sóttvarna- og einangrunarstöðva þegar kemur að innflutningi dýra. Slíkt er óumdeilt.
    Það er hins vegar arfur liðins tíma að rekstur slíkra stöðva skuli heyra beint undir landbúnaðarráðuneytið eins og verið hefur, ellegar að útvaldir aðilar sjái um slíkan rekstur í umboði ráðuneytisins og geri það nánast á reikning þess eins og lagt er til í frumvarpi þessu.
    Í því sambandi má nefna rekstur einangrunarstöðvar fyrir gæludýr í Hrísey sem hefur kostað ríkissjóð umtalsverða fjármuni. Fyrir hefur legið áhugi dýralækna og annarra sérfræðinga á því að bjóða upp á svipaða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir innflytjendur gæludýra og verið hefur í Hrísey. Engin rök eru fyrir því að standa gegn slíkum áformum svo fremi reksturinn falli í einu og öllu að gildandi lögum og reglugerðum og öðrum nauðsynlegum skilyrðum sem eru og verða sett um aðbúnað og rekstur slíkra sóttvarna- og einangrunarstöðva.
    Landbúnaðarráðherra hefur aftur á móti lýst því yfir að hann hafi ekki hug á að heimila nýjum aðilum rekstur á þessum vettvangi. 1. minni hluti telur hins vegar alls óljóst, miðað við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og meiri hlutinn hefur lýst yfir stuðningi við, hvort landbúnaðarráðherra hafi í raun heimild til að hafna umsóknum nýrra aðila um slíkan rekstur. Ljóst er hins vegar að túlkun ráðherra á frumvarpinu, rétt eða röng, liggur fyrir.
    Til að taka af öll tvímæli í þessum efnum flytur 1. minni hluti breytingartillögu við frumvarpið sem kveður skýrt á um það að einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum skuli heimilt að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar undir eftirliti yfirdýralæknis. Þá skuli landbúnaðarráðherra enn fremur ákveða með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur séu gerðar um útbúnað slíkra stöðva og hvaða skilyrði þær þurfi að uppfylla til að hljóta starfsleyfi.
    Með samþykkt þessarar breytingartillögu yrði það ekki lengur á geðþóttavaldi landbúnaðarráðherra hver hlyti slíkt starfsleyfi né heldur væri óljóst um rétt þeirra sem sækjast eftir slíkri leyfisveitingu.
    1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Efnismálsgrein 5. gr. orðist svo:
    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Landbúnaðarráðherra gefur út starfsleyfi fyrir rekstri slíkra stöðva. Einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum skal vera heimilt að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar undir eftirliti yfirdýralæknis. Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur eru gerðar um útbúnað sóttvarna- og einangrunarstöðva og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að hljóta starfsleyfi.

Alþingi, 14. des. 2000.



Guðmundur Árni Stefánsson,


frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.