Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 561  —  214. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62 30. apríl 1973, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson, Kristínu Haraldsdóttur, Benedikt Árnason og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti og Gunnar G. Þorsteinsson frá stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs sements. Jafnframt bárust gögn frá viðskiptaráðuneyti og umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Verslunarráði Íslands, Sementsverksmiðjunni hf. og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpinu er ætlað að laga lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi að samkeppni á sementsmarkaði. Þá er lagt til að innheimtu flutningsjöfnunargjaldi verði skilað beint til Flutningsjöfnunarsjóðs sements í stað þess að greiðast fyrst til viðskiptaráðuneytis og endurgreiðast þaðan til sjóðsins.
    Nefndin leggur til í sérstöku þingskjali að gerðar verði tvær breytingar á frumvarpinu. Sú fyrri snýr að 2. gr. laganna og er þess efnis að við lögin skuli bætt ákvæði um að ekki skuli leggja flutningsjöfnunargjald á sement sem notað er til framleiðslu á viðgerðarefnum eða tilbúnum múrblöndum. Þá greiði Flutningsjöfnunarsjóður ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að núgildandi lög skekki samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja sem fást við framleiðslu á sementsblöndum gagnvart innflytjendum slíkra efna þar sem innflytjendur greiði ekki flutningsjöfnunargjald af því sementi sem í efnunum sé. Síðari breytingin snýr að 2. mgr. 6. gr. laganna sem fjallar um heimild viðskiptaráðuneytis til að fella niður flutningsjöfnunargjald á sementi sem flutt er til landsins eða framleitt innan lands og notað er til byggingar orkuvera eða annarra meiri háttar framkvæmda, en Flutningsjöfnunarsjóður greiðir ekki flutningskostnað á sementi til þeirra nota. Leggur nefndin til að málsgreinin verði felld brott þar sem hér er í raun um að ræða óvirkt ákvæði.










Prentað upp.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. des. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.