Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 678  —  418. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2000.

1. Inngangur.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) var stofnað árið 1889 og er hlutverk þess að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum, hlúa að samstarfi þeirra og auka skilning á milli þjóða. Aðild að sambandinu eiga nú 140 þing en aukaaðilar eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. Þingið fjallar um alþjóðamál og vinnur að framgangi mannréttindamála sem er einn grundvallarþáttur lýðræðis og þingræðis. Alþjóðaþingmannasambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á samstarf við þá stofnun. Það samstarf hefur aukist undanfarin ár. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en það hefur jafnframt skrifstofu í New York.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins er fjármögnuð með framlögum frá aðildarþingum þess. Þing sem haldið er tvisvar á ári tekur pólitískar ákvarðanir og ályktar um alþjóðamál. Ráð IPU, sem í eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri landsdeild, markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Tólf manna framkvæmdastjórn starfar á milli þinga og hefur m.a. umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     I.      nefnd um stjórnmál, öryggis- og afvopnunarmál,
     II.      nefnd um lagaleg málefni og mannréttindamál,
     III.      nefnd um efnahags- og félagsmál,
     IV.      nefnd um mennta-, vísinda-, menningar-, og umhverfismál.
    Til viðbótar eru nú starfandi eftirfarandi nefndir og vinnuhópar: nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um sjálfbæra þróun, nefnd um málefni Mið-Austurlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til eflingar virðingar fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, samhæfingarnefnd um öryggismál og samstarf á Miðjarðarhafssvæðinu, samhæfingarnefnd kvennafundar IPU, vinnuhópur um samstarf kynjanna og stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna IPU.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar.

2. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeildin var skipuð þeim Einari K. Guðfinnssyni, þingflokki sjálfstæðismanna, formanni, Jóhönnu Sigurðardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformanni, og Ástu Möller, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn Íslandsdeildarinnar voru Guðjón Guðmundsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Drífa Hjartardóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Ritari Íslandsdeildarinnar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.
    
3. Þing á árinu 2000.
    Að venju voru haldin tvö þing, hið fyrra í Amman í apríl (103. þing) og hið síðara í Jakarta í október (104. þing).

3.1. Störf og ályktanir 103. þings IPU.
    Dagana 29. apríl–7. maí var 103. þing IPU haldið í Amman. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, formaður, Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Möller, auk ritara.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum. Jóhanna Sigurðardóttir tók til máls í almennum umræðum og ræddi hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins á sviði mannréttindamála. Hún sagði frá áherslum Íslands, sérstaklega í málum kvenna og barna. Hún hvatti IPU til að einbeita sér meira að þessum málum, sér í lagi starfi gegn barnaþrælkun, barnavændi og öðru ofbeldi gegn börnum.
    Þingið afgreiddi ályktanir um þrjú mál að undangenginni umræðu í nefndum. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu. Í fyrsta lagi var fjallað um „aðgerðir í þágu friðar, stöðugleika og þróunar í heiminum og nánari stjórnmálaleg, efnahagsleg og menningarleg tengsl þjóða“. Ásta Möller flutti ræðu í I. nefnd þingsins þar sem málið var til umfjöllunar og fjallaði sérstaklega um stöðu kvenna í heiminum, ofbeldi gegn konum og aðgerðir til að sporna við því. Hún hvatti m.a. allar þjóðir til að fullgilda Rómarsamþykkt um alþjóðlegan sakadómstól. Í framhaldi af ræðu Ástu var sérstök grein sett inn í ályktunina um stöðu kvenna.
    Í öðru lagi var fjallað um „tjáskipti milli mismunandi þjóðmenningar og menningarheima“. Í II. nefnd þar sem þetta mál var til umfjöllunar hélt Einar K. Guðfinnsson ræðu þar sem hann lagði m.a. áherslu á að hugtök á borð við lýðræði og mannréttindi væru algild. Því kæmi ekki til álita að fallast á að rök um ólíka menningu eða trúarbrögð væru notuð til að hafna þeim gildum, t.d. til að mismuna konum eða brjóta á rétti þeirra. Málsgrein í lokaályktuninni þar sem áhersla var lögð á þetta atriði var tekin nánast orðrétt upp úr ræðu Einars.
    Eitt mál var svo tekið fyrir utan dagskrár, um „stuðning þjóðþinga við réttindi flóttamanna og annarra sem missa heimili sín vegna stríðsátaka og hersetu, aðstoð við að senda þá aftur heim og við alþjóðlegt samstarf til að þróa og framfylgja áætlunum gegn smygli á fólki“. Það sem mestar deilur vakti í þessari umræðu var hvort minnast ætti sérstaklega á rétt Palestínumanna, með vísan til tiltekinna ályktana Sameinuðu þjóðanna, eða hvort tala ætti um flóttafólk almennt. Að lokum var samþykkt málamiðlunartillaga þar sem fjallað var um Palestínumenn sérstaklega, en þó með aðeins mildara orðalagi en Palestínumenn lögðu upphaflega til. Sendinefnd Ísraels var mjög ósátt við niðurstöðuna og fullyrti að Alþjóðaþingmannasambandið spillti fyrir lausn deilu Ísraela og Palestínumanna.

3.2. Störf og ályktanir 104. þings IPU.
    104. þingið var haldið 14.–21. október í Jakarta. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Einar K. Guðfinnsson, formaður, Ásta Möller og Gísli S. Einarsson, auk ritara.
    Gísli S. Einarsson tók til máls í almennum umræðum og ræddi um sjálfbæra þróun og nýtingu fiskistofna, en kom jafnframt inn á stöðu smáríkja í alþjóðasamstarfi.
    Þingið ályktaði um fjögur mál. Tvö sérstök málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu og voru þau fyrst rædd í nefndum. Í II. nefnd þingsins var fjallað um „aðgerðir til að koma í veg fyrir valdarán þar sem eru lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir og til að taka á mannréttindabrotum gegn þingmönnum“.
    Í III. nefnd þingsins, um efnahags- og félagsmál, var fjallað um fjármögnun þróunaraðstoðar og aðgerðir til að útrýma fátækt. Ásta Möller hélt ræðu á fundi nefndarinnar og benti á að markvissar aðgerðir á heilbrigðissviðinu væru ein mikilvægasta leiðin til að vinna gegn almennri fátækt. Hvatti hún ríki heims til að taka á heilbrigðismálum fátækustu ríkjanna. Einar K. Guðfinnsson lét til sín taka við afgreiðslu lokaályktunarinnar úr nefndinni þar sem hann kom m.a. í veg fyrir að samþykkt væri breytingartillaga sem gekk út á að kenna hagvexti á Vesturlöndum um fátækt í þróunarlöndum. Hann var í lok nefndarfundarins einróma kjörinn formaður nefndarinnar fyrir næsta ár.
    Tvö mál voru tekin fyrir utan dagskrár. Í fyrsta lagi var rætt um neyðarályktun um ástandið í Mið-Austurlöndum. Í ályktuninni voru báðir deiluaðilar hvattir til að halda friðarferlinu áfram en í heild var ályktunin harðorð í garð Ísraela. Þótti ýmsum sem ályktunin væri alls ekki hlutlaus eða til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á deilendur, en hún var þó samþykkt. Þess má geta að sendinefnd frá ísraelska þinginu gat ekki sótt þingið þar sem gestgjafar sáu sér ekki fært að tryggja öryggi hennar.
    Í öðru lagi var svo fjallað um „hvort viðskiptabönn og efnahagsþvinganir væru enn þá siðferðislega réttmæt, hvort þau kæmi að gagni og næðu takmarki sínu á tímum alþjóðavæðingar“. Í drögum sem lágu fyrir fundinum var lagt fremur jákvætt mat á gildi viðskiptabanna, en drögin breyttust mjög í meðförum þingsins. Í umdeildri lokaályktun, sem hlaut þó meiri hluta atkvæða, var m.a. farið fram á að viðskiptabanni á Írak yrði aflétt.
    Þegar allar ályktanir höfðu verið samþykktar stóð upp fulltrúi frá Hvíta-Rússlandi (einn af svokölluðum „þingmönnum“ Lukashenkos, en eins og alkunna er rak hann heim hið lýðræðislega kjörna þing og setti leppa inn í staðinn) og lýsti yfir mikilli ánægju með framgang mála á þinginu. Gefur þetta vísbendingu um hvers konar öfl telja sig eiga vísan stuðning á þingum IPU. Sem betur fer bera störf sambandsins milli þinga ekki keim af þessu heldur miða þau að því að styrkja lýðræði og mannréttindi.

4. Fundur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál.
    Sérstakur fundur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál, (Beijing +5 Special Session of the UN General Assembly) var haldinn 5.–9. júní 2000 í New York. Þar voru ræddar m.a. frekari aðgerðir á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar sem samþykkt var í Beijing árið 1995. Alþjóðaþingmannasambandið hvatti aðildarþing sín til að tryggja þátttöku þingmanna í sendinefndum ríkja sinna. Alþjóðaþingmannasambandið stóð af þessu tilefni jafnframt fyrir sérstökum fundi þingmanna, fulltrúa ríkisstjórna og fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júní sl. til að ræða um „samvinnu karla og kvenna í þágu lýðræðis“.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur látið mjög til sín taka á sviði jafnréttismála og hefur gefið út rit um þátttöku kvenna í stjórnmálum sem og tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna á þjóðþingum aðildarríkja sambandsins. Þá var gefið út veggspjald í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar sem sýnir stöðu kvenna í stjórnmálum í einstökum ríkjum.
    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins hefur sýnt jafnréttismálum í starfi sambandsins mikinn áhuga og starfað með öðrum norrænum landsdeildum að framgangi jafnréttismála innan þess. Íslandsdeildin taldi mikilvægt að kjörnir fulltrúar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna væru á þessum fundi, að rödd þingmanna heyrðist og þeir væru áfram virkir þátttakendur í því ferli sem hrundið var af stað með Beijing-yfirlýsingunni árið 1995. Tveir þingmenn sóttu fundinn í New York fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sem hluti af opinberri sendinefnd Íslands, þær Jóhanna Sigurðardóttir og Drífa Hjartardóttir. Þingmennirnir sóttu að sjálfsögðu sérstakan fund IPU 7. júní og að ósk Íslandsdeildarinnar mætti fulltrúi stjórnvalda jafnframt á fundinn til að taka þátt í umræðum með þingmönnum. Jóhanna Sigurðardóttir hélt ræðu á IPU-fundinum þar sem hún kom m.a. inn á meðferð jafnréttisáætlunarinnar á þjóðþingum og hvernig ríkisstjórnir og þjóðþing gætu unnið saman að framgangi áætlunarinnar.

5. Svæðisbundið samstarf.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist svokallaður Tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan á þingi stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Ýmis mál voru rædd sérstaklega á árinu, m.a. var stjórnmálaástandið í Austurríki rætt á 103. þingi. Einar K. Guðfinnsson hvatti fundarmenn til að samþykkja að fara svipaða leið og Evrópuráðið, þ.e. lýsa áhyggjum af stefnu Frelsisflokksins og fylgjast vel með þróun mála en ekki dæma ríkisstjórnina fyrir fram. Samþykkti hópurinn að fara þá leið.
    Tillaga um að tilnefna Einar K. Guðfinnsson fyrir hönd hópsins sem formann III. nefndar þingsins, sem fjallar um efnahags- og félagsmál, var samþykkt samhljóða á fundi hópsins á 104. þinginu.
    Tólfplús-hópurinn ákvað að víkja Bandaríkjunum og Georgíu úr hópnum fyrir vangoldin árgjöld í samræmi við vinnureglur hópsins.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Formaður Íslandsdeildar tók þátt í báðum fundum ársins 2000. Danmörk fór með forustu í Norðurlandahópnum á árinu og voru samráðsfundirnir því haldnir þar í landi.

6. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipað er tveimur þingmönnum frá hverri sendinefnd og fer með æðsta vald í innri málefnum þess, kom tvívegis saman á hvoru þingi IPU.
    Ráðið samþykkti endurkomu Nígers í Alþjóðaþingmannasambandið í kjölfar kosninga þar í landi. Þá var samþykkt að veita eftirfarandi ríkjum aðild á árinu 2000: Gínea-Bissá, Saó Tóme og Prinsípe, Samóa og Liechtenstein. Fimm ríki misstu atkvæðisrétt vegna vanskila á árgjöldum. Það voru Malaví, Máritanía, Moldavía, Tógó og Bandaríkin. Þremur ríkjum var vikið úr ráðinu þar sem þar er ekkert þing starfandi: Pakistan, Fílabeinsströndinni og Súdan. Tekið var fram að hér væri einungis verið að framfylgja reglum IPU, ekki væri um pólitíska ákvörðun að ræða. Ríkin fengju aftur inngöngu um leið og þjóðþing tækju til starfa á ný.
    Bæði í Amman og Jakarta var rætt um fjölmörg verkefni IPU sem miða að því að styrkja lýðræði, m.a. þau sem unnin eru í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Nefna má fund sem haldinn var fyrir þingmenn enskumælandi Afríkuríkja um fjárlagagerð, en annar slíkur fundur verður haldinn 2001 fyrir þingmenn frönskumælandi Afríkuríkja, og málstofu fyrir þingmenn ríkja í Norðaustur-Asíu um þjóðþing og mannréttindamál.

7. Kvennafundur.
    Sérstakur kvennafundur er haldinn á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins. Starf kvennafundarins miðar að því að fjölga konum á þingum IPU og að styðja konur í ríkjum þar sem konur eiga erfitt uppdráttar í stjórnmálum. Rætt er m.a. um stöðu kvenna í þjóðþingum og framlag þeirra til lýðræðis. Þá reynir kvennafundurinn að koma sérstökum sjónarmiðum kvenna að í ályktunum sambandsins. Þess má geta að konur verða sífellt fleiri á þingum IPU. Í Amman voru þær 22% þingfulltrúa og í Jakarta 24% og er það hæsta hlutfall kvenna á IPU- þingi til þessa.

8. Mannréttindi þingmanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti á báðum þingunum skýrslur um mál sem hún hefur skoðað þar sem brotið hefur verið á mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra.
    Í hlut áttu Argentína, Hvíta-Rússland, Bútan, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Djíbúti, Ekvador, Gambía, Gínea, Hondúras, Malasía, Burma, Pakistan, Moldavía, Nígería, Srí Lanka og Tyrkland.
    Samhliða 104. þingi IPU var haldinn upplýsingafundur um ástandið í Burma þar sem fulltrúar réttkjörinna þingmanna fóru yfir atburði þar. Kom m.a. fram að yfir 200 þingmenn hafa verið í haldi og hafa fimm dáið í fangelsi. Enn fleiri verða fyrir stöðugu áreiti. Kjell Magne Bondevik kom sérstaklega til Jakarta til að hvetja þingmenn til að styðja lýðræðisöflin á Burma og bað þá um að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við réttkjörin stjórnvöld og taka málið upp á sínum þjóðþingum til að beita herstjórnina þrýstingi. Íslandsdeildin hefur staðið fyrir því að safna undirskriftum alþingismanna úr öllum flokkum og sent þær áfram til Evrópusamtaka sem samhæfa stuðningsstarfið.

9. Staða Bandaríkjanna innan Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Mikið var rætt á árinu um stöðu Bandaríkjaþings innan Alþjóðaþingmannasambandsins, en það hefur ekki greitt aðildargjöld frá 1997 og hefur ekki tekið þátt í starfi sambandsins síðan 1994. Þetta hefur haft slæm áhrif á fjárhagsstöðu Alþjóðaþingmannasambandsins og jafnframt á trúverðugleika þess. Vegna vangoldinna árgjalda gat svo farið að Bandaríkjunum yrði vikið úr sambandinu á árinu 2001. Fyrir lok 104. þingsins barst bréf frá utanríkisráðherra Bandaríkjanna þar sem fram kom að Bandaríkin segðu sig úr Alþjóðaþingmannasambandinu. Í lok þingsins hafði ekki fengist staðfesting frá bandaríska þingingu. Sé þessi ákvörðun endanleg, eins og búast má við, eru það slæm tíðindi fyrir IPU, bæði fyrir fjárhag samtakanna sem og gildi þeirra á alþjóðavettvangi.

10. Umræður um breytingar á starfi Alþjóðaþingmannasambandsins.
10.1. Almennt.
    Töluvert var rætt um stöðu Alþjóðaþingmannasambandsins gagnvart Sameinuðu þjóðunum á árinu, bæði á fundum Tólfplús-hópsins og í ráði IPU. Vildu margir að IPU fengi áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum. Sumir vildu ganga enn lengra og vonuðust eftir að IPU gæti í framtíðinni orðið þing Sameinuðu þjóðanna.
    Rætt var um leiðir til að draga úr kostnaði með tilliti til þessa að Bandaríkin greiða ekki lengur til samtakanna. Enn fremur var rætt um leiðir til að tengja starf IPU betur starfi Sameinuðu þjóðanna. Tillögur ganga m.a. út á að breyta fyrirkomulagi þinga og nefndastarfs. T.d. er íhugað að fækka þingum úr tveimur í eitt á ári (vorþing), en hafa síðan sérstakan fund IPU- ráðsins á haustin í New York í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt var rætt um tillögu að breyttum lögum sambandsins á þann veg að í framtíðinni gætu einungis þjóðþingin sjálf átt aðild að IPU en ekki landsdeildirnar eins og nú er í mörgum tilfellum. Sú tillaga mætti töluverðri andstöðu. Ákveðið var að fresta ákvörðunum um lagabreytingar til næsta þings.

10.2. Afstaða Íslandsdeildarinnar.
    Ljóst er að vestræn lýðræðisríki eru í miklum minni hluta í Alþjóðaþingmannasambandinu. Jafnframt eru mörg þjóðþing sem aðild eiga að sambandinu ekki lýðræðislega kjörin, enda forsenda fyrir inngöngu eingöngu sú að þjóðþing sé starfandi í fullvalda ríki. Mat er ekki lagt á það hvort þingið sé sannanlega lýðræðislega kjörið. Fulltrúar ólýðræðisríkja skýla sér oft á bak við aðrar skilgreiningar á hugtökum á borð við „lýðræði“ og „mannréttindi“ en þau sem við viðurkennum sem algild og reyna að nýta sér Alþjóðaþingmannasambandið til að öðlast viðurkenningu á sér og sjónarmiðum sínum.
    Það getur vissulega stundum verið erfitt að taka þátt í umræðum um mikilvæg mál þar sem skilningur á milli menningar- og reynsluheima er takmarkaður. En í því felst einmitt áskorun og tækifæri sem íslenskir þingmenn hljóta að taka fagnandi. Alþjóðaþingmannasambandið er eini vettvangurinn þar sem alþingismenn fá tækifæri til að ræða reglulega við fulltrúa frá öllum heimshornum. Við getum nýtt það tækifæri bæði til að glöggva okkur betur á málefnum annarra þjóða og heimshluta og til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við fulltrúa þeirra.
    Vegna fyrirkomulags atkvæðavægis innan Alþjóðaþingmannasambandsins verða sjónarmið sem hér þykja réttmæt og skynsamleg oft undir og eru mörg dæmi þess að aðilar sem seint verða sakaðir um lýðræðisást eða umhyggju fyrir mannréttindum hreyki sér af lýðræðislegum niðurstöðum IPU-þinga. Það verða Íslendingar að sætta sig við hyggist þeir taka þátt í þessu samstarfi sem þrátt fyrir allt hefur fleiri kosti en galla. Sem umræðuvettvangur er Alþjóðaþingmannasambandið mjög gagnlegt. Jafnframt er það mikilvægt verkfæri fyrir þingmenn til að fylgjast með starfsemi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra og auðveldar þeim því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt lýðræðislegt aðhald í störfum þeirra sem tengjast Sameinuðu þjóðunum.
    Markmið sumra þingmanna innan IPU er að gera sambandið að formlegu ráðgjafarþingi Sameinuðu þjóðanna, en Íslandsdeildin telur rétt að skoða mjög vel hvernig best sé að treysta bönd IPU við Sameinuðu þjóðirnar og hve langt eigi að ganga í því efni. Mikilvægt er að þingmenn fái tækifæri til að fylgjast með því sem gerist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og taki þátt í stefnumótun sem þar fer fram á margvíslegum ráðstefnum með fulltrúum ríkisstjórna. Þá vill Íslandsdeildin árétta að Alþjóðaþingmannasambandið vinnur mikið og gott starf sem oft er ósýnilegt á milli þinga, þ.e. uppbyggingarstarf til að treysta lýðræðisleg vinnubrögð í þjóðþingum um allan heim. Það starf er oft unnið í samvinnu við stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Íslandsdeildin styður þessa starfsemi IPU eindregið og telur þeim fjármunum vel varið sem í þetta fara. Íslandsdeildinni þykir sú hugmynd allrar athygli verð að fækka þingum Alþjóðaþingmannasambandsins í eitt á ári, en halda sérstakan ráðsfund í New York á haustin í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þannig mætti spara fjármuni og jafnframt efla tengingu IPU við starfsemi Sameinuðu þjóðanna.

11. Næstu þing.
    Næstu þing sambandsins verða í Havana (apríl 2001) og Ougadougou (september 2001).

12. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2000.
     I.      Ályktun um aðgerðir í þágu friðar, stöðugleika og þróunar í heiminum og nánari stjórnmálaleg, efnahagsleg og menningarleg tengsl þjóða.
     II.      Ályktun um tjáskipti milli mismunandi þjóðmenningar og menningarheima.
     III.      Ályktun um stuðning þjóðþinga við réttindi flóttamanna og annarra sem missa heimili sín vegna stríðsátaka og hersetu, aðstoð við að senda þá aftur heim og við alþjóðlegt samstarf til að þróa og framfylgja áætlunum gegn smygli á fólki.
     IV.      Ályktun um aðgerðir til að koma í veg fyrir valdarán þar sem eru lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir og til að taka á mannréttindabrotum gegn þingmönnum.
     V.      Ályktun um fjármögnun þróunaraðstoðar og aðgerðir til að útrýma fátækt.
     VI.      Ályktun um aðgerðir til að stöðva ofbeldið í Mið-Austurlöndum, verja óbreytta borgara í samræmi við 4. Genfarsáttmálann og bjarga friðarferlinu í samræmi við viðeigandi ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
     VII.      Ályktun um það hvort viðskiptabönn og efnahagsþvinganir séu enn siðferðislega réttmæt, hvort þau komi að gagni og nái takmarki sínu á tímum alþjóðavæðingar.

Alþingi, 2. feb. 2001.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Jóhanna Sigurðardóttir,


varaform.


Ásta Möller.