Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 760  —  478. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2000.

1. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa saman að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið á vettvangi norrænnar samvinnu og vera þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila í þessum löndum og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka. Vestnorræna ráðið hefur í gegnum tíðina ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs, samvinnu við norðurheimsskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

2. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Árið 2000 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki framsóknarmanna, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki frjálslyndra, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Jóhanna Helga Halldórsdóttir var ritari Íslandsdeildarinnar til 1. nóvember 2000 en þá tók Andri Lúthersson við starfinu.

3. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Á fundunum var m.a. rætt um starfsemi ráðsins á árinu. Bar þar hæst ferð Íslandsdeildarinnar til Grænlands í júlí á menningarráðstefnu ráðsins í Qaqortoq og vígslu bygginganna í Brattahlíð. Til undirbúnings fyrir ferðina fékk Íslandsdeildin til sín á fund tvo sérfræðinga um Grænland og sögu þess, þá Ingva Þorsteinsson og Jón Böðvarsson. Einnig var fjallað um dagskrá ársfundar ráðsins sem fram fór í Þórshöfn í Færeyjum 4.–8. september, tillögu að bók um Vestur-Norðurlönd, fyrirhugaða sýningu ráðsins um veiðimenningu og skýrslu um alþjóðastarf Vestnorræna ráðsins, en m.a. er áhugi á að taka upp samstarf með þingmönnum frá Skotlandi, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum.
    Lífsgildakönnunin sem Vestnorræna ráðið fól Félagsvísindastofnun HÍ að gera í aðildarlöndunum var kynnt á blaðamannafundi í apríl. Niðurstöðurnar voru mjög athyglisverðar og fengu töluverða athygli og umfjöllun. Þar kom m.a. fram að lífshamingja er almenn meðal ungs fólks í þessum löndum, það er vinnusamt og hallt undir einstaklingshyggju, það hefur almennt jákvæða afstöðu til þjóðfélagsins og stofnana þess, er afar stolt af þjóðerni sínu og bundið sterkum böndum við átthagana.
    Formaður Íslandsdeildar stóð í ströngu á árinu vegna bygginganna í Brattahlíð, enda var Árni Johnsen jafnframt formaður Brattahlíðarnefndar, sem hafði veg og vanda af gerð bygginganna. Forsætisnefnd ráðsins hélt samráðsfund 8. júní í Reykjavík þar sem rætt var um vestnorræna samvinnu. Ýmsir aðilar sem starfa að vestnorrænum málefnum ávörpuðu fundinn.
    Í tengslum við fund forsætisnefndar ráðsins 6. nóvember var haldinn fundur með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda, félagsmálaráðherrum og menningarmálaráðherrum landanna, Norðurlandanefnd Norðurlandaráðs, sem og forstöðumönnum norrænu húsanna og NAPA.

4. 16. ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið hélt ársfund sinn í Þórshöfn í Færeyjum dagana 4.–8. september. Þar var kosin ný forsætisnefnd ráðsins en hana skipa Ole Lynge, formaður ráðsins og formaður Grænlandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Árni Johnsen, fyrsti varaformaður, og Jógvan Durhuus, annar varaformaður.
    Sérstakir gestir fundarins voru Bjarni Djurholm, atvinnu- og iðnaðarráðherra Færeyja, Kjartan Hoydal, framkvæmdastjóri NORA, Helena Dam, félags- og heilbrigðisráðherra Færeyja, og Jørgen Niclasen, sjávarútvegsráðherra Færeyja. Umræður voru líflegar og snerust einkum um samvinnu vestnorrænu landanna í ýmsum málum, m.a. atvinnumálum, sjávarútvegsmálum og félags- og heilbrigðismálum.
    Á ársfundinum voru allar framlagðar tillögur samþykktar. Forsætisnefnd ráðsins lagði fram tvær tillögur til ályktunar þar sem Vestnorræna ráðið skorar á ríkis- og landsstjórnir landanna að efna til samvinnu um ritun vestnorrænnar sögu annars vegar og hins vegar að gerð verði vestnorræn framkvæmdaáætlun um samvinnu í menningarmálum. Forsætisnefnd ráðsins lagði einnig fram tillögu um að Vestnorræna ráðið sækti um áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar um Norðurskautsmál (Standing Committee of Parliamentarians of the Arctic Region). Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins lagði fram tillögu um að Vestnorræna ráðið fæli landsdeildunum það verkefni að vinna saman að tillögum sem lagðar yrðu fram á ársfundi 2001, en markmiðið með tillögunum er að auka vestnorræna samvinnu. Hugmyndin er að landsdeildirnar hafi samskipti sín á milli í gegnum netið og vinni þannig saman að tillögunum. Grænlandsdeild Vestnorræna ráðsins lagði, ásamt forsætisnefnd, til að þema ráðsins árið 2002 yrði samgöngur. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins mæltist til að Vestnorræna ráðið hvetti menntamálaráðherra landanna til að skipa nefnd sem allra fyrst til að láta kanna hvað hindraði helst vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðru vestnorrænu landi en sínu eigin. Að lokum lagði forsætisnefnd ráðsins til að Vestnorræna ráðið hvetti færeyska þingið til að bjóða til fyrstu málstofu vestnorrænna þingkvenna árið 2002. Fram kom í kynningu og umræðum um þessar tillögur að virkja þyrfti samstarf í fréttaflutningi milli landanna. Einnig var rætt um að stofnað yrði „Vestnorden-job“ sem starfaði á sama hátt og Nordjob. Nokkur umræða spannst um þá hindrun sem er á samskiptum landanna vegna þess hversu dýrt er að fljúga á milli þeirra. Einnig lýstu þátttakendur áhyggjum sínum af áætlunum um að leggja niður flug milli Íslands og Narsarsuak og milli Íslands og Kulusuk. Af þessu tilefni samþykkti Vestnorræna ráðið tilmæli þar sem samgönguráðherrar landanna eru hvattir til að vinna að því að tryggja áframhald á flugi milli Narsarsuak og Kulusuk annars vegar og hinna vestnorrænu landanna tveggja hins vegar.
    Að lokum var tilkynnt að forsætisnefnd hefði komið sér saman um að skrifstofa Vestnorræna ráðsins yrði áfram á Íslandi.

5. Menningarráðstefna Vestnorræna ráðsins.
    Menningarráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Qaqortoq á Grænlandi 13.–15. júlí. Tilgangur ráðstefnunnar var að efla þróun og samstarf vestnorrænu landanna í menningarmálum. Þrjú mál voru til umræðu: Vestnorræni menningararfurinn, Vestur-Norðurlönd sem hluti af norrænu menningarsamstarfi og menningarsamstarf Vestur-Norðurlanda í nútíð og framtíð. Fyrirlesarar voru Thue Christiansen, skrifstofustjóri í menningarmálaráðuneyti Grænlands, dr. Jóannes Dalsgaard, deildarstjóri í færeyska menningarmálaráðuneytinu, Aqqaluk Lynge, formaður ICC (Inuit Circumpolar Conference), Helga Haraldsdóttir, ráðgjafi í samgönguráðuneytinu, og Helga Hjörvar, framkvæmdastjóri Norðurlandahússins í Færeyjum. Ráðstefnan heppnaðist mjög vel og komu m.a. fram ýmsar hugmyndir til að auka samstarf þessara þjóða. Til að mynda kom þar fram fyrrnefnd hugmynd um að skrifuð yrði saga Vestur-Norðurlanda og að gerð yrði framkvæmdaáætlun í menningarmálum, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þingmanna Vestnorræna ráðsins sóttu m.a. ráðstefnuna menningarmálaráðherrar Vestur-Norðurlanda og forseti Norðurlandaráðs, auk fjölda þingmanna Norðurlandaráðs. Að lokinni ráðstefnunni héldu flestir til Brattahlíðar þar sem Íslandsdeildinni ásamt öðrum ráðstefnugestum hafði verið boðið að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af því að 1000 ár voru liðin frá því að Leifur heppni fann Ameríku og fyrsta kristna kirkja var reist þar. Hápunktur hátíðarinnar var vígsla Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð.

6. Verkefni Vestnorræna ráðsins 2001.

    Ráðstefna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda verður haldin á Akureyri 11.–14. júní nk. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sér um skipulagningu ráðstefnunnar. Markmiðið er að vekja athygli á veiðimenningu þessara þjóða bæði í fortíð og nútíð. Upphaflega átti að opna sýningu á veiðimenningu Vestur-Norðurlanda í Skotlandi haustið 2001 en henni hefur verið frestað til 2002. Sú sýning mun án efa vekja mikla athygli og verður einnig sett upp á Vestur- Norðurlöndum. Hún verður fjármögnuð af aðildarlöndum ráðsins en auk þess hafa Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin sýnt áhuga á að styrkja hana og vilja þá jafnframt að hún verði sett upp í öllum norrænu löndunum og í Eystrasaltslöndunum.
    Forsætisnefnd ráðsins hefur ákveðið að halda fund með þingmönnum frá Skotlandi, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum í september nk. Tilgangur fundarins yrði að koma af stað frekari samvinnu milli Vestnorræna ráðsins og þessara aðila.
     Samþykkt hefur verið að gefa út bók um Vestur-Norðurlönd og var ákveðið að byrja á að gefa hana út á dönsku og þýða hana síðar yfir á önnur tungumál.
    Ákveðið hefur verið að uppfæra vefsíðu Vestnorræna ráðsins og færa hana í þannig horf að hún komi að gagni í samvinnu þjóðþinganna og samvinnu þeirra við önnur þjóðþing.
    Að lokum má geta þess að Páll Brynjarsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins 1. nóvember sl. og var Ernst Olsen frá Færeyjum ráðinn í hans stað. Hann hóf störf um áramótin.

7. Yfirlit yfir ályktanir, ákvarðanir um innri málefni og tilmæli sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum í Þórshöfn, Færeyjum, 4.–8. september 2000.
     1.      Ályktun um að efna til samvinnu um ritun sögu Vestur-Norðurlanda.
     2.      Ályktun um að gera vestnorræna framkvæmdaáætlun um samvinnu í menningarmálum.
     3.      Ákvörðun um að sækja um áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar um Norðurskautsmál.
     4.      Ákvörðun um að setja á fót vinnuhóp sem vinni saman á netinu að tillögum fyrir ársfund ráðsins 2001 um að auka vestnorræna samvinnu.
     5.      Ákvörðun um að árið 2002 verði helgað samgöngum.
     6.      Tilmæli um að skipuð verði nefnd sem kanni það hvað hindri helst vestnorræna stúdenta í að stunda nám í öðru vestnorrænu landi en sínu eigin.
     7.      Tilmæli um að færeyska þingið bjóði til fyrstu málstofu vestnorrænna þingkvenna árið 2002.
     8.      Tilmæli um að tryggja áframhaldandi flug milli Grænlands og hinna vestnorrænu landanna tveggja.


Alþingi, 16. feb. 2001.



Árni Johnsen,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Gísli S. Einarsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Einar Oddur Kristjánsson.