Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 825  —  529. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2000.

1. Inngangur.
    Segja má að á árinu 2000 hafi fyrri verkefni og skuldbindingar Atlantshafsbandalagsins (NATO) verið festar í sessi og ný verkefni á sviði Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum tekin til gagngerrar umfjöllunar. Af þeim málefnum sem hæst bar á árinu má telja ástandið á Balkanskaga og stöðu bandalagsins að afloknum átökunum í Kosovo-héraði. Farsæl þróun í Bosníu og Hersegóvínu hefur gefið nokkra von um að búast megi við góðum árangri í Kosovo og hafa stjórnarskipti í Júgóslavíu aukið vonir manna um farsæla lausn á málefnum héraðsins. Skuldbindingar bandalagsins í héraðinu voru til umfjöllunar á árinu og þykir ljóst að nokkurn tíma taki að koma þar á varanlegum stöðugleika og hagsæld. Átökin í Kosovo árið 1999 settu mark sitt á þennan heimshluta og ríkir eining um að bandalagið haldi úti friðargæslusveitum í héraðinu til lengri tíma. Lögð hefur verið áhersla á að NATO beini sjónum sínum að suðausturhluta Evrópu í heild sinni og hefur bandalagið í auknum mæli beint sjónum sínum að stöðugleikasáttmála Evrópusambandsins (ESB) og lýst yfir vilja sínum til að leggja sitt af mörkum honum til stuðnings. Þá hafa aðgerðir bandalagsins á Balkanskaga sannað ágæti Samstarfs í þágu friðar (Partnership for peace) en tuttugu samstarfsríki NATO hafa tekið þátt í verkefnum þess þar. Átökin á Balkanskaga voru Evrópuríkjum NATO áminning um að nauðsynlegt sé að heraflar bandalagsríkja geti unnið saman á skilvirkan hátt. Í kjölfarið hefur orðið afar ör þróun í Evrópusamstarfi í öryggis- og varnarmálum og voru þau mál ofarlega á baugi á árinu. NATO hefur lýst yfir stuðningi við fyrirhugaða eflingu sjálfstæðs evrópsks hernaðarmáttar líkt og ESB hefur stefnt að en jafnframt hefur verið lögð áhersla á að það megi ekki verða til þess að sundra einingunni sem ríkir innan NATO heldur efla bandalagið. Í þessu tilliti hefur verið bent á stöðu þeirra NATO-ríkja sem standa utan ESB og minnt á að samkvæmt yfirlýsingum leiðtoga NATO-ríkja væri það eitt meginmarkmiðið að þátttaka evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi ESB yrði tryggð gegn því að þau fengju aðgang að búnaði NATO.
    Þessi málefni bar að sama skapi hæst á vettvangi NATO-þingsins á árinu en meðal annarra mála sem fjallað var um á þinginu má nefna áætlanir Bandaríkjastjórnar um takmarkaðar eldflaugavarnir, stöðugleika, frið og hagsæld í Suðaustur-Evrópu, stækkunarferli bandalagsins, orkumál og afvopnunarmál. Á fundum þingsins hefur Íslandsdeildin að vanda lagt ríka áherslu á mikilvægi Norður-Atlantshafstengslanna í evrópskum öryggismálum. Hún hefur ítrekað minnt á að trúverðugleiki Atlantshafsbandalagsins felist einmitt í farsælu samstarfi Evrópu og Norður-Ameríku og að ekki megi missa sjónar á þeim traustu tengslum á umbreytingatímum sem hafa valdið óstöðugleika í álfunni og vakið miklar umræður um aukið samstarf og sjálfstæði Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum.

2. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar NATO-þingsins árið 2000 voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Jón Kristjánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks.
    Gústaf Adolf Skúlason var ritari Íslandsdeildarinnar til 1. september en þá tók Andri Lúthersson við starfinu.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þess. Smæð Íslands takmarkar atkvæðisrétt ríkisins við þrjár nefndir, auk stjórnarnefndar. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2000 var þannig:

Stjórnarnefnd: Tómas Ingi Olrich.
    Til vara: Guðmundur Árni Stefánsson.
Stjórnmálanefnd: Tómas Ingi Olrich.
    Til vara: Árni R. Árnason.
Varnar- og öryggismálanefnd: Jón Kristjánsson.
    Til vara: Jónína Bjartmarz.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.
Efnahagsnefnd: Jón Kristjánsson.
    Til vara: Jónína Bjartmarz.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.

3. Fundir sem Íslandsdeildin tók þátt í á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund að vori og ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í mars eða apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar fjórar Rose-Roth námsstefnur (sjá fskj. II, b-lið).
    Árið 2000 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum og fundi stjórnarnefndar sem haldnir voru í Brussel, vor- og haustfundum þingsins í Búdapest og Berlín, auk sex nefndarfunda utan þingfunda.

a. Febrúarfundir.
    Dagana 20.–22. febrúar sl. voru febrúarfundir NATO-þingsins haldnir í Brussel. Að venju var um að ræða sameiginlegan fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar annars vegar og fund stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Að auki var að þessu sinni fundað með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins og framkvæmdastjóra utanríkismála hjá ESB annars vegar og með sendiherra Bandaríkjanna hjá ESB og framkvæmdastjóra viðskiptamála hjá ESB hins vegar. Aukaaðilar hafa ekki seturétt á fundum. Mikilvægi funda þessara hefur aukist mjög á undanförnum árum þar sem þar gefst fulltrúum aðildarríkja bandalagsins tækifæri til að ræða einir saman. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Tómas Ingi Olrich, formaður, og Jón Kristjánsson fundina, auk ritara.
    Helstu umræðuefni fundanna voru þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum, áætlanir Bandaríkjamanna um að koma á fót takmörkuðu eldflaugavarnakerfi og ástand mála á Balkanskaga. Jafnframt var rætt um samskipti ESB og Bandaríkjanna á sviði efnahagsmála og samskipti NATO við Rússland.
    Fund stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar NATO- þingsins ávörpuðu tveir aðstoðarframkvæmdastjórar Atlantshafsbandalagsins, þeir Klaus- Peter Klaiber sem fer fyrir stjórnmáladeildinni og Robert Bell sem fer fyrir varnarmáladeildinni. Þá ávörpuðu fundinn Edward L. Warner III., aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Pieter Feith sem fer fyrir skrifstofu NATO sem hefur umsjón með aðgerðum til hættuástandsstjórnunar. Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, hóf almennar umræður og sagði Evrópusamstarfið í öryggis- og varnarmálum og eldflaugavarnaáætlun Bandaríkjastjórnar einkar mikilvæg mál hvað samvinnu og samstöðu innan bandalagsins varðar. Í erindi sínu ræddi Klaiber um helstu verkefni NATO á nýju árþúsundi, framhald hernaðarskuldbindinga bandalagsins á Balkanskaga, Samstarf í þágu friðar (PfP), samskipti bandalagsins við Rússland og Úkraínu, stækkunarferli NATO, viðhald hernaðarmáttar bandalagsins og þróun og framkvæmd Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum. Urðu nokkrar umræður um þessi málefni og lýstu nokkrir þingmenn yfir áhyggjum sínum af stöðu evrópsku NATO-ríkjanna sem standa utan ESB. Edward L. Warner III. fjallaði um áætlanir Bandaríkjanna um takmarkaðar eldflaugavarnir og rakti hvernig ríki á borð við Norður-Kóreu og Íran væru að þróa eldflaugar sem borið gætu gereyðingarvopn. Pieter Feith fjallaði um hvaða lærdóma mætti draga af aðgerðum NATO á Balkanskaga og í máli hans kom fram að ástandið hefði batnað í Kosovo þótt enn væri nokkuð í að stöðugleiki kæmist á. Robert Bell fjallaði um útgjöld til varnarmála, samræmingu búnaðar og um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum. Í máli hans kom fram að dýrt yrði að koma á fót því 60.000 manna herliði sem gert væri ráð fyrir í niðurstöðum leiðtogafundar ESB í Helsinki og sagðist hann vona að slíkt bitnaði ekki á samræmingu herbúnaðar innan NATO.
    Á fundi stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu sagði George Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, nauðsynlegt að efla evrópskan hernaðarmátt en hann sagði jafnframt nauðsynlegt að finna svar við spurningunni um þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB, svar sem allir aðilar gætu sætt sig við og sem virti sjálfstæði NATO og ESB.
    Þá var haldinn fundur með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins og Chris Patten sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB. Var það í fyrsta sinn sem þessir aðilar hittust á fundi. Helgast það af vaxandi hlutverki ESB á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu. Elmar Brok, formaður nefndarinnar, og Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, fluttu stutt ávörp, auk þess sem Chris Patten ávarpaði fundinn fyrir hönd framkvæmdastjórnar ESB. Hann sagði það markmið ESB að styrkja NATO og samskiptin yfir Atlantshafið með því að efla sambandið á sviði öryggis- og varnarmála. Sagði Patten að samkeppni við NATO væri ekki á döfinni heldur yrði ESB einfaldlega að hafa burði til að beita sér innan álfunnar þegar ekki væri vilji til þess innan NATO.

b. Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 8. apríl fundaði stjórnarnefnd NATO-þingsins í Brussel. Fundinn sat af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich, formaður, auk ritara. Á fundinum var m.a. rætt um skipulag starfsemi þingsins, samskiptin við Rússland og Úkraínu og samskiptin við Evrópuþingið í ljósi þeirrar þróunar sem nú á sér stað á sviði Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum.
    Fyrsta mál á dagskrá fundarins var skipulag starfsemi NATO-þingsins, en á undanförnum tíu árum eða svo hefur umfang starfseminnar um það bil tvöfaldast. Má þar nefna sérstaka vinnuhópa um málefni einstakra svæða, nefndir um samskipti við einstök lönd, fjölgun undirnefnda og nefndarfunda yfirleitt. Á sama tíma hefur sérfræðingum ekkert fjölgað á skrifstofu þingsins, þótt nokkuð sé leitað til ráðgjafa með einstök verkefni. Auk mikils álags á skrifstofu þingsins eru ýmsir fundir illa sóttir af þingmönnum og eru fundir stjórnmálanefndar og varnar- og öryggismálanefndar mun betur sóttir en fundir félagsmálanefndar, efnahagsnefndar og vísinda- og tækninefndar. Simon Lunn, framkvæmdastjóri þingsins, lagði fram skjal til grundvallar umræðunni, en þar eru ræddir kostir og gallar ýmissa hugmynda á borð við fjölgun starfsfólks, fækkun nefnda og fækkun nefndarfunda. Á fundinum voru ýmsar hugmyndir ræddar en litlar undirtektir voru við hugmyndir um að fækka nefndum. Tómas Ingi nefndi þó þann möguleika að verkefnum vísinda- og tækninefndar yrði skipt með efnahagsnefnd og öryggis- og varnarmálanefnd til að efla umfjöllun um vísinda- og tæknimál í þinginu. Tómas sagðist telja tækni of mikilvæga frá sjónarhóli öryggismála til að vera verkefni sérstakrar nefndar sem gjarnan væri skipuð mjög tæknilega sinnuðu fólki og skýrslur hennar líklegar til að ná lítilli umfjöllun í þinginu. Samþykkt var að Lunn ynni aðrar tillögur fyrir fund stjórnarnefndar á vorfundi þingsins í Búdapest í maí sem yrðu skýrari svo að hægt væri að taka afstöðu til þeirra.
    Þá voru rædd samskipti þingsins við Rússland og Úkraínu, en rússneska Dúman sleit samskiptum við NATO-þingið vegna loftárása NATO á Júgóslavíu fyrir rúmu ári og meiri hluti úkraínsku Rödunnar hefur undanfarin ár ekki viljað eiga samskipti við NATO-þingið. Borist hafði bréf frá forseta rússnesku Dúmunnar þar sem hann tjáði framkvæmdastjóra NATO- þingsins að engin breyting hefði orðið á stefnu Dúmunnar og að NATO-þingið yrði látið vita ef svo yrði.
    Þá var rætt um aukin samskipti NATO-þingsins og Evrópuþingsins í ljósi þeirrar öru þróunar sem nú á sér stað á sviði Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum. Urðu nokkrar umræður um tillögur að auknum samskiptum NATO-þingsins og Evrópuþingsins. Þar á meðal voru tillögur forseta NATO-þingsins um að fundur með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins yrði fastur liður í febrúarfundum NATO-þingsins og að NATO-þingmenn fengju nokkurn aðgang að ársfjórðungslegum fundum nefndarinnar með aðilum sem væru í forsvari fyrir öryggis- og varnarmál fyrir hönd framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Jafnframt var lagt til að Evrópuþingið fengi svipaða stöðu innan NATO-þingsins og aukaaðildarríki, þ.e. fullt málfrelsi og tillögurétt. Fyrir fundinn voru formenn landsdeilda NATO-þingsins hvattir til að skýra frá afstöðu sinni til tillagnanna. Í svarbréfi Tómasar Inga Olrich til forseta NATO- þingsins er frumkvæði að auknum tengslum við Evrópuþingið fagnað og lýst yfir ánægju með tilhögun febrúarfundarins. Hins vegar lagði hann áherslu á að gagnkvæmni yrði að gæta í þessu sambandi og því var tillögu um aukaaðild Evrópuþingsins, og þar með rétt þess til að gera breytingatillögur, hafnað. Í umræðum á fundinum var lýst yfir stuðningi við frumkvæði Íslandsdeildarinnar í þessu máli og að tillögu Ruperez var samþykkt að bjóða Evrópuþinginu að senda 10 manna sendinefnd á fundi NATO-þingsins. Jafnframt var kveðið á um að slík sendinefnd fengi ekki að leggja fram breytingartillögur á fundum NATO-þingsins.
    Fyrir fundinum lágu beiðnir frá Króatíu og Aserbaídsjan um aukaaðild að NATO-þinginu, en Aserbaídsjjan hefur áheyrnaraðild. Samþykkt var að bjóða króatíska þinginu áheyrnaraðild að NATO-þinginu og að hafin yrði vinna að skýrslum um umsóknir ríkjanna. Að lokum var rætt um fyrirkomulag á afgreiðslu ályktana og breytingartillagna og samþykkt að gerðar yrðu breytingartillögur við starfsreglur þingsins fyrir vorfundinn í Búdapest.

c. Vorfundur.
    Dagana 26.–30. maí var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Búdapest. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, og Jón Kristjánsson, auk ritara. Að vanda var vorfundurinn skipulagður sem nokkurs konar undirbúningsfundur fyrir ársfund þingsins sem haldinn var í Berlín í nóvember. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktanadrög, auk þess sem gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum þingmanna. Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, lét af embætti sínu á fundinum og var samþykkt að bandaríski varaforsetinn, Thomas Bliley, yrði starfandi forseti fram að ársfundi þingsins í Berlín. Þá var Króatíu veitt aukaaðild að NATO-þinginu, en nokkrum dögum áður hafði ríkið gerst aðili að Samstarfi í þágu friðar.
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur um hvaða lærdóm mætti draga af átökunum í Kosovo, um áætlanir Bandaríkjamanna um takmarkaðar eldflaugavarnir og um samskipti NATO við önnur aðildarríki Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins. Fund nefndarinnar ávörpuðu dr. János Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands, Konstantin P. Eggert, aðalfréttaritari BBC í Moskvu, og dr. András Simonyi, fastafulltrúi Ungverjalands hjá NATO. Í ávarpi sínu fjallaði Eggert meðal annars um mikilvægi aukinna erlendra fjárfestinga fyrir rússneska hagkerfið. Tómas Ingi Olrich benti á að mikil skattlagning og réttaróvissa hefðu öðru fremur haldið aftur af erlendum fjárfestum í Rússlandi og spurði hann hvort fyrirsjáanlegar væru breytingar til hins betra í þeim efnum. Eggert svaraði því til að hin nýja ríkisstjórn hefði án efa nauðsynlega þekkingu til að bæta þetta.
    Í öryggis- og varnarmálanefnd voru til umræðu skýrslur um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum á vettvangi NATO og ESB, áætlanir Bandaríkjamanna um takmarkaðar eldflaugavarnir, bandalagið að afloknum átökunum í Kosovo, hernaðarmátt NATO og fjölþjóðlegt samstarf til hættuástandsstjórnunar. Fundinn ávörpuðu dr. János Szabó, varnarmálaráðherra Ungverjalands, og Frank Boland, aðstoðarframkvæmdastjóri herþróunardeildar NATO. Jón Kristjánsson þakkaði hollenska framsögumanninum, Wim van Eekelen, fyrir góðan skilning á stöðu evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB og jákvæða afstöðu til hagsmuna þeirra í skýrslunni um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum. Jón lýsti og stuðningi Íslands við fyrirhugaða eflingu sjálfstæðs evrópsks hernaðarmáttar en lagði áherslu á að slíkt yrði að verða til þess að efla bandalagið og minnti á að á leiðtogafundi NATO í Washington fyrir rúmu ári hefði verið lögð áhersla á að evrópsku NATO-ríkin utan ESB fengju eins mikinn aðgang að þessu samstarfi ESB og nokkur kostur væri á. Á fundinum virtist ríkja almennt samkomulag um þetta. Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um þátt Evrópustoðar NATO í aðgerðum til að hafa stjórn á hættuástandi, samstarf hersveita við borgaralega aðila í stjórnun hættuástands og félagslega hlið stöðugleikasáttmálans fyrir Suðaustur-Evrópu. Fundinn ávörpuðu Réka Szemerkényi, skrifstofustjóri úr ungverska forsætisráðuneytinu, Zoran Zivkovic, borgarstjóri Nis í Júgóslavíu, bandaríski þingmaðurinn Nick Lampson og Bridget Kendall frá BBC. Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur um þróun fjárframlaga til varnarmála í aðildarríkjum NATO, Heimsviðskiptastofnunina og samskiptin yfir Atlantshafið og um efnahagsþróun í Suðaustur-Evrópu. Fundinn ávörpuðu György Matolcsy, efnahagsmálaráðherra Ungverjalands, Frank Boland, aðstoðarframkvæmdastjóri herþróunardeildar NATO, og Michael Emerson frá Rannsóknastofnun í Evrópumálum sem staðsett er í Brussel. Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um orkumál 21. aldar, takmörkun hefðbundins vopnabúnaðar og um náttúruhamfarir og umhverfisvá í Austur-Evrópu. Fundinn ávörpuðu dr. Zoltán Illés, formaður umhverfisnefndar ungverska þingsins, dr. William C. Potter frá Monterey rannsóknastofnuninni í alþjóðamálum og Jürgen Kleinwächter frá Bomin Solar rannsóknastofnun í orku- og umhverfismálum.
    Á fundi stjórnarnefndar var meðal annars ákveðið að bandaríski varaforsetinn, Thomas Bliley, yrði starfandi forseti þingsins fram að ársfundinum í Berlín. Þá var fram haldið fyrri umræðu um skipulag nefnda og almennra þingstarfa. Ákveðið var að breyta nafni efnahagsnefndar í efnahags- og öryggismálanefnd. Jafnframt var ákveðið að sett yrði á laggirnar sérstök undirnefnd efnahags- og öryggismálanefndar sem fjallaði um samskiptin yfir Atlantshafið og lýsti Tómas Ingi Olrich sérstökum stuðningi við það framtak. Þá var rætt um að fækka heimsóknum undirnefnda og senda í staðinn eingöngu framsögumann og nefndarformann, auk starfsmanns nefndarinnar, á fundi. Loks var ákveðið að stefna að því að fundir undirnefnda yrðu oftar í Brussel þar eð NATO-þingið hefði komið sér upp ágætri fundaraðstöðu þar. Ýmsar fleiri hugmyndir voru settar fram í þessum efnum og var ákveðið að umræðunni yrði fram haldið á ársfundinum í Berlín. Samskipti NATO-þingsins við rússnesku Dúmuna höfðu legið niðri í rúmt ár, en á fundinum var samþykkt að fela framkvæmdastjóra NATO- þingsins að kanna hvort nýjum forseta Rússlands fylgdi breytt afstaða Dúmunnar, m.a. í samráði við sendinefnd rússneska Sambandsráðsins á NATO-þinginu. Samþykkt var að mæla með því við þingfund að Króatíu yrði veitt aukaaðild að NATO-þinginu, en nokkrum dögum áður gerðist Króatía aðili að Samstarfi í þágu friðar. Breytingar á starfsreglum voru ræddar en gríðarlegur fjöldi breytingartillagna hafði sett svip sinn á undanfarna ársfundi. Lagt var til að ekki dygði undirskrift eins þingmanns til að breytingartillaga yrði rædd heldur þyrfti undirskriftir fimm þingmanna frá samtals þremur löndum. Sú athugasemd kom fram að nauðsynlegt gæti þótt fyrir tiltekna landsdeild að leggja fram breytingartillögu þótt hún nyti ekki stuðnings fulltrúa annarra ríkja. Almenn samstaða var um að gera yrði undanþágu ef heil landsdeild stæði að breytingartillögu og benti Tómas Ingi á að Íslandsdeildin hefði t.d. einungis þremur þingmönnum á að skipa og gæti því ekki ein og sér uppfyllt kröfuna um fimm undirskriftir, auk þess sem stærri landsdeildum gæti eflaust reynst erfitt að afla allra undirskriftanna. Samþykkt var að hafa meginregluna þá að a.m.k. fimm fulltrúa þyrfti frá a.m.k. þremur löndum, en að formaður landsdeildar gæti jafnframt lagt fram breytingartillögu í nafni viðstaddra fulltrúa sinnar landsdeildar. Loks var rætt um drög að fjárlögum fyrir árið 2001 en var þar í fyrsta sinn í fjögur ár tekið tillit til verðbólgu og lögð til hækkun, um 1% umfram verðbólguhraða í Belgíu.
    Þingfundurinn samþykkti tillögu stjórnarnefndar um aukaaðild Króatíu. Fundinn ávörpuðu János Áder, forseti ungverska þingsins, Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, Javier Ruperez, fráfarandi forseti NATO-þingsins, Tonino Picula, utanríkisráðherra Króatíu, og George Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO. Viktor Orbán og Robertson lávarður svöruðu jafnframt spurningum þingmanna.

d. Ársfundur.
    46. haustfundur NATO-þingsins haldinn í Berlín dagana 17.–21. nóvember. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, og Jón Kristjánsson, auk forstöðumanns alþjóðasviðs. Tómas Ingi sat fundi stjórnarnefndar og stjórnmálanefndar. Guðmundur Árni sat fundi félagsmálanefndar og Jón Kristjánsson sat fundi öryggis- og varnarmálanefndar.
    Á fundi stjórnarnefndar var meðal annars rætt um starfsemi næsta árs þar sem lögð verður áhersla á málefni Suðaustur-Evrópu og verður félagsmálanefndin þar í aðalhlutverki. Þá verður fylgst með aðgerðum tengdum stöðugleikasáttmála ESB og fylgst sérstaklega með Serbíu- Svartfjallalandi, Kosovo og Bosníu og Hersegóvínu. Rætt var um að tvær Rose-Roth námsstefnur yrðu haldnar í Suðaustur-Evrópu, önnur í Króatíu og hin í Rúmeníu. Stjórnarnefndin lagði þunga áherslu á að bæta samskiptin við rússnesku Dúmuna á næsta ári og hyggst halda áfram að byggja upp samskipti við Úkraínu. Stjórnmálanefndin mun væntanlega eiga fund þar í landi á næsta ári. Samskiptin við Kákasus-héraðið og Mið-Asíu hafa verið lítil, en Rose-Roth námsstefna í Georgíu er í undirbúningi og hyggst forseti þingsins sækja Georgíu og Aserbaídsjan heim. Bæði stjórnmálanefnd og öryggis- og varnarmálanefnd munu halda áfram að fjalla markvisst um stefnu ESB í varnar- og öryggismálum sem og fyrirhugað eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna.
    Samskipti NATO-þingsins við Evrópuþingið hafa þróast á jákvæðan hátt að undanförnu og verður unnið að því að styrkja það samband og festa í sessi. Ekki hefur verið leyst hvernig tryggt verður að þingmenn taki þátt í gerð öryggis- og varnarmálastefnu ESB og veiti nauðsynlegt lýðræðislegt aðhald og taldi stjórnarnefnd NATO-þingsins því að náið samráð, bæði við Evrópuþingið og VES-þingið, væri nauðsynlegt. Varðandi frekari stækkun NATO var greint frá því að stjórnmálanefnd þingsins mundi fylgjast afar grannt með gangi mála. NATO-þingið mundi áfram sem hingað til veita ríkjum sem hafa sótt um aðild að NATO aðstoð við að uppfylla settar kröfur og halda uppi umræðu um stækkun til að hafa áhrif á almenningsálit og afstöðu þjóðþinga. Þá var rætt um að sérstakur framsögumaður um öryggismál á norðurslóðum yrði áfram og að ein Rose-Roth námsstefna yrði haldin í Rígu á næsta ári. Kom jafnframt fram að hópur um málefni Miðjarðarhafssvæðisins mundi á næsta ári leggja áherslu á samskipti við ríki sem tækju þátt í viðræðuhópi NATO um Miðjarðarhafssvæðið (NATO's Mediterranean Dialogue) og þá væri ráðgerð heimsókn til Alsírs. Þá hefði Ísrael boðist til að halda málstofu á árinu. Sem fyrr yrði lögð áhersla á Atlantshafstengslin og yrðu ýmsir nefndarfundir haldnir í Bandaríkjunum með þátttöku þingmanna og sérfræðinga. Stjórnarnefndin ræddi og um ástand mála í Hvíta-Rússlandi og samskiptin við þjóðþing landsins. Gert var ráð fyrir að sendinefnd færi til Hvíta-Rússlands á næsta ári undir forustu félagsmálanefndar NATO-þingsins. Ekki væri þó talin ástæða til að taka upp formleg samskipti við þjóðþingið og yrði þingmönnum frá síðasta réttkjörna þingi landsins væntanlega áfram boðið á NATO-þing.
    Að þessu sinni einkenndist ársfundurinn fyrst og fremst af umfjöllun um stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum, fyrirætlunum Bandaríkjastjórnar um að koma á fót takmörkuðu eldflaugavarnakerfi og stækkunarferli NATO. Ályktað var um þessi mál, en jafnframt um stöðugleika, frið og hagsæld í suðausturhluta Evrópu, ástandið í Hvíta-Rússlandi, öryggi og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu og hlutverk ESB, framlög til varnarmála á nýrri öld og orkumál, auk þess sem ályktað var gegn útbreiðslu léttvopna. Skýrslur voru lagðar fram um öll þessi mál og voru þær til umfjöllunar í viðeigandi málefnanefndum þingsins. Nefndirnar samþykktu drög að ályktunum sem voru afgreiddar á þingfundi.
    Jón Kristjánsson lagði fram breytingartillögu við ályktun um stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum þar sem kveður fastar að orði um þátttöku þeirra NATO-ríkja sem standa utan við ESB í evrópsku samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála. Naut breytingartillagan mikils stuðnings annarra þingmanna og var samþykkt. Umræður um þetta mál einkenndust hins vegar af nokkurri togstreitu milli þingmanna ESB-ríkja og þingmanna ríkja sem standa utan ESB. Orðalag sem samþykkt var í varnar- og öryggismálanefnd um hlutdeild í ákvarðanatöku breyttist í meðförum þingfundarins og varð niðurstaðan þar með veikari. Var það gert að tillögu van Eekelen frá Hollandi en Tómas Ingi var meðal þeirra sem mæltu gegn tillögunni hans.
    Guðmundur Árni var einn af flutningsmönnum tillögu um að Eystrasaltsríkin yrðu sérstaklega nefnd í ályktun um stækkunarferli NATO. Tillagan var felld þar sem fundurinn ákvað að ekki skyldi nefna eitt ríki öðrum fremur í tengslum við næstu stækkun NATO.
    Tómas Ingi mælti bæði í stjórnmálanefnd og stjórnarnefnd með því að orkumál og áhrif þeirra á öryggismál yrðu áfram til umfjöllunar á NATO-þinginu. Ákveðið var að efnahags- og öryggismálanefnd tæki orkumál til umfjöllunar á næsta ári, en skýrsla um þetta mál var lögð fram í Berlín á vegum vísinda- og tækninefndar þingsins.
    Margir gestir ávörpuðu einstakar nefndir og má þar sérstaklega nefna tvo gesti sem komu á fund stjórnmálanefndar, þá Tim Judah, blaðamann og sérfræðing í málefnum Balkanskaga sem fjallaði um stöðu mála og horfur í Júgóslavíu, og Dr. Pavel Felgenhauer, sérfræðing í varnarmálum og málefnum Rússlands, sem hélt mjög fróðlegt erindi um ástandið í Tsjetsjeníu og Mið-Asíu. Þingfundinn ávörpuðu Thomas Bliley, forseti NATO-þingsins, Eberhard Diepgen, borgarstjóri Berlínar, Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, Joseph Ralston hershöfðingi, yfirmaður Evrópuherja NATO, og Milo Djukanovic, forseti Svartfjallalands.

e. Nefndarfundir.
    Alls tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í sex nefndarfundum utan venjubundinna þingfunda NATO-þingsins. Tómas Ingi Olrich og Guðmundur Árni Stefánsson tóku þátt í fundi Miðjarðarhafshópsins í Genóva í byrjun desember en áður hafði Guðmundur Árni tekið þátt í hringborðsumræðum á vegum Rose-Roth áætlunarinnar í Montreux. Þá sótti Guðmundur Árni fund Miðjarðarhafshópsins í Líbanon í maí. Jón Kristjánsson fór í ferð varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins til Bandaríkjanna í febrúar og sat sameiginlega fundi efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar með stjórnmálanefndinni í Brussel í sama mánuði.

Alþingi, 31. jan. 2001.



Tómas Ingi Olrich,


form.


Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Jón Kristjánsson.



Fylgiskjal I.

Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2000.



Vorfundur, 26.–30. maí:
    Tillaga um aukaaðild Króatíu að NATO-þinginu samþykkt.

Ársfundur 17.–21. nóvember:
     1.      Yfirlýsing nr. 296, um aukinn styrk Evrópusambandsins til bætts öryggis og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu.
     2.      Yfirlýsing nr. 297, um Hvíta-Rússland.
     3.      Ályktun nr. 298, um öryggi og varnir Evrópu.
     4.      Ályktun nr. 299, um útgjöld til varnarmála á nýju árþúsundi.
     5.      Ályktun nr. 300, um stöðugleika, frið og hagsæld í suðausturhluta Evrópu.
     6.      Ályktun nr. 301, um stækkun NATO.
     7.      Ályktun nr. 302, um orkumál.
     8.      Ályktun nr. 303, um smávopn.
     9.      Ályktun nr. 304, um eldflaugavarnir.
Fylgiskjal II.


Almennt um NATO-þingið.

    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Undanfarin ár hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum fjölgað á þinginu og starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þrettán ný lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá nánar í b-lið).

a. Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins, og nú einnig þingmönnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu, kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar að vori og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið sem fyrr segir smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á haustfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn bandalagsins og SHAPE (Supreme Headquarters, Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b. Samskiptin við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantshafs er þörf breytinga til aðlögunar að nýjum aðstæðum sem skapast hafa. Umfram allt kallar þetta á þróun fyrirkomulags í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO-þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldavíu, Rúmeníu, Slóveníu, Sviss, Úkraínu og Króatíu fengið aukaaðild að þinginu. Mikilvægi aukaaðildar felst í því að hún veitir löggjöfum nýju lýðræðisríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður-Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu. Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna þar sem fjallað er um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttrar rannsóknardvalar (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c. Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands skipa 18 þingmenn hverja. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort ríki og Ísland og Lúxemborg þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Aukaaðilar taka þátt í nefndarfundum og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkeri en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra sendinefndanna, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndaformenn.

d. Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.


Fylgiskjal III.





NATO-ÞINGIÐ
Kemur saman á þingfundi tvisvar á ári, á vorfundi og ársfundi



Sendinefndir aðildarríkja

19 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins
214 þingmenn

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli
við fólksfjölda



Aukaaðilar

Frá Albaníu, Búlgaríu, Eistlandi, Georgíu, Hvíta-Rússlandi, Lettlandi,
Litháen, Moldavíu, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss, Úkraínu og Króatíu

Hafa ekki atkvæðisrétt



Framkvæmdastjórn

Kosin árlega

Forseti, fjórir varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri



Stjórnarnefnd

Formenn sendinefnda
Formenn nefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman þrisvar á ári




Nefndarfundir

Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd
Varnar- og öryggismálanefnd
Efnahags- og öryggismálanefnd
Stjórnmálanefnd
Vísinda- og tækninefnd

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og ályktanir

Mynda undirnefndir til að rannsaka afmörkuð mál og afla upplýsinga



Þingfundir

Greiða atkvæði um tillögur nefndanna fimm og
um fjárhagsáætlun

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi

Hlýða á ávörp gesta

Með þátttöku auka- og áheyrnaraðila



Önnur starfsemi

Árleg kynnisferð til að
skoða hernaðarmannvirki
og búnað

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose-Roth áætlunarinnar