Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 871  —  565. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðild að samningi um opinber innkaup.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um opinber innkaup sem undirritaður var í Marakess 15. apríl 1994.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um opinber innkaup sem gerður var í Marakess 15. apríl 1994. Samningurinn er einn af fjölhliða samningum þeim sem tilgreindir eru í 4. viðauka við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ekki er skylduaðild að samningnum um opinber innkaup og Ísland gerðist ekki aðili að honum þegar stofnsamningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var fullgiltur. Rétt þykir að gera það nú, ekki síst með tilliti til hnattvæðingar viðskipta og ört vaxandi breytinga á viðskiptaumhverfi almennt, enda eru opinber innkaup mikilvægur þáttur þeirra viðskipta sem stunduð eru í hverju ríki. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal I með þingsályktunartillögu þessari.
    Samningurinn er einn fjögurra fjölhliða samninga sem gerðir voru um leið og Alþjóðaviðskiptastofnuninni var komið á fót og aðildarríki stofnunarinnar eru ekki skyldug til að vera aðilar að. Upprunalega var samningurinn gerður í kjölfar Tókíó-viðræðna GATT (hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti) árið 1979 og síðan breytt árið 1987. Hann var síðan endurskoðaður í Úrúgvæ-viðræðunum og nýr samningur undirritaður samhliða stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Hinn 9. mars 2001 áttu 140 ríki aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni en 28 ríki aðild að samningnum um opinber innkaup. Þar má m.a. telja Evrópubandalagið og aðildarríki þess auk Bandaríkjanna, Kanada, Japans, Suður-Kóreu, Ísraels, Noregs og Sviss.
    Samningurinn tekur til innkaupa á vegum ríkisstofnana, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila en samanlagt verðmæti innkaupa þessara aðila á heimsvísu er talið nema nokkur hundruð milljörðum bandaríkjadala á ári. Með aðild að samningnum skuldbinda ríki sig til að veita fyrirtækjum í aðildarríkjunum aðgang að innkaupum opinberra aðila á jafnréttis- og gagnkvæmnisgrundvelli þegar verðmæti innkaupanna fer yfir ákveðna fjárhæð. Til skýringar má nefna að þessi viðmiðunarmörk eru þau sömu og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem Ísland er þegar bundið af og samningurinn tekur til sams konar innkaupa, þ.e. vörukaupa, kaupa á þjónustu og verksamninga. Í samningnum er að finna reglur um vinnuferla við framkvæmd innkaupa, svo sem um útboðsauglýsingar, útboðsaðferðir, tímafresti, gagnsæi innkaupa, tæknilegar kröfur, val samningsaðila og að niðurstaða útboðs skuli auglýst. Þessar reglur eru sambærilegar þeim reglum sem gilda innan EES, enda þurfti Evrópusambandið að laga tilskipanir sínar um opinber útboð að reglum samningsins um opinber innkaup. Jafnframt er í samningnum fjallað um meðferð kærumála og getur hún verið tvíþætt. Annars vegar skulu erlendir birgjar eiga rétt á að bera brot opinberra aðila fyrir innlendan úrskurðaraðila, t.d. dómstóla, og hins vegar geta aðildarríkin lagt ágreining vegna túlkunar á samningnum fyrir deilumálanefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Í sérstökum viðaukum við samninginn eru skuldbindingar aðildarríkjanna tilgreindar, þ.e. hvað teljist falla undir ákvæði samningsins. Viðaukarnir gilda fyrir hvert ríki um sig en skuldbindingar einstakra ríkja eru nokkuð mismunandi. Viðaukarnir taka til eftirfarandi atriða:
          stofnana ríkis sem samningurinn nær til og fjárhæðarmarka sem gilda um þær,
          sveitarfélaga sem samningurinn nær til og fjárhæðarmarka sem gilda um þau,
          annarra fyrirtækja og stofnana sem samningurinn nær til og fjárhæðarmarka sem gilda um þau,
          þeirrar þjónustu sem samningurinn nær til,
          hvaða opinberar framkvæmdir falla undir ákvæði samningsins.
    Á fundi í nefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, sem haldinn var í Genf 29. september sl., var samþykkt tilboð Íslands um aðild að samningnum. Skilmálar aðildar eru prentaðir sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögu þessari.
    Með aðild að EES-samningnum tók Ísland upp í löggjöf sína tilskipanir ESB um opinber innkaup. Aðild að hinum nýja samningi leggur því ekki kvaðir á opinbera aðila sem eru þeim framandi. Eina breytingin er í raun sú að með aðildinni verður skylt að veita fyrirtækjum frá öðrum aðildarríkjum samningsins en EES-ríkjum aðgang að íslenskum innkaupamarkaði. Sá markaður hefur í raun lengi verið opinn en nú fá íslensk fyrirtæki hins vegar með samningnum tækifæri til að keppa á jafnréttisgrundvelli um þátttöku í útboðum í þessum ríkjum.
    Aðild að samningnum kallar á breytingar á ákvæðum núgildandi laga um innkaup opinberra aðila til að tryggja réttarstöðu birgja frá aðildarríkjunum sem ekki eru með staðfestu í EES-ríkjum og er gert ráð fyrir þeim breytingum í frumvarpi til laga um opinber innkaup sem fjármálaráðherra mun leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Að öðru leyti eru gildandi lög hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins.

Fylgiskjal I.


SAMNINGUR UM OPINBER INNKAUP



     Aðilar að samningi þessum (hér eftir nefndir samningsaðilar),

     sem viðurkenna þörfina á skilvirku marghliða rammasamkomulagi um réttindi og skyldur að því er varðar lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti varðandi opinber innkaup, þar sem markmiðið er að auka frjálsræði í alþjóðaviðskiptum og efla þau og að bæta alþjóðlegan ramma um starfshætti í alþjóðaviðskiptum,

    sem viðurkenna að lög, reglur, málsmeðferð og starfshættir um opinber innkaup ætti ekki að undirbúa, samþykkja eða beita gagnvart erlendri eða innlendri vöru og þjónustu og erlendum eða innlendum birgjum í því skyni að vernda innlenda vöru eða þjónustu eða innlenda birgja eða til að mismuna erlendum vörum eða erlendum birgjum,


     sem viðurkenna að æskilegt er að lög, reglugerðir, málsmeðferð og starfshættir við opinber innkaup séu gagnsæ,

     sem viðurkenna þörfina á því að koma á alþjóðlegum starfsreglum um tilkynningar, samráð, eftirlit og lausn deilumála með það fyrir augum að tryggja sanngjarna, skjóta og skilvirka framkvæmd alþjóðlegra ákvæða um opinber innkaup og halda sem bestu jafnvægi réttinda og skyldna,


     sem viðurkenna þörfina á því að taka mið af þróunar- efnahags- og viðskiptaþörfum þróunarlanda, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin,


     sem æskja þess, í samræmi við b-lið 6. mgr. IX. gr. samningsins um opinber innkaup, sem gerður var 12. apríl 1979, eins og honum var breytt 2. febrúar 1987, að útvíkka og bæta samninginn á gagnkvæmisgrundvelli og að auka gildissvið hans þannig að hann nái til þjónustusamninga,


     sem æskja þess að hvetja til þess að ríkisstjórnir, sem eru ekki aðilar að samningnum, staðfesti hann og gerist aðilar að honum,

     sem hafa hafið frekari samningaviðræður til þess að ná fram þessum markmiðum,

     koma sér hér með saman um eftirfarandi:

I. gr.
Umfang og gildissvið.

1.     Samningur þessi gildir um öll lög reglur, málsmeðferð og starfshætti við hvers kyns opinber innkaup af hálfu aðila sem samningur þessi nær til, svo sem nánar er tilgreint í I. viðbæti. 1
2.     Samningur þessi gildir um innkaup, hvert sem samningsformið er, þ.m.t. aðferðir á borð við kaup, fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu, með eða án kaupréttar, þ.m.t. hvers kyns samsetning vöru og þjónustu.
3.     Þegar aðilar krefjast þess í tengslum við innkaup, sem heyra undir samning þennan, að fyrirtæki sem ekki er getið í I. viðbæti láti fara fram útboð samkvæmt tilteknum kröfum skal III. gr. gilda um slíkar kröfur að breyttu breytanda.
4.     Samningur þessi gildir um öll innkaup ef verðmæti þeirra er ekki undir þeirri viðmiðunarfjárhæð sem getið er í I. viðbæti.

II. gr.
Mat á virði samninga.

1.     Eftirfarandi ákvæði skulu gilda við mat á virði samninga 2 í tengslum við framkvæmd þessa samnings.
2.     Mat á virði skal taka mið af öllu endurgjaldi, þ.m.t. bónusgreiðslum, þóknunum, umboðslaunum og vaxtatekjum.


1     Að því er varðar sérhvern samningsaðila, er I. viðbæti skipt í fimm viðauka:
–    Í 1. viðauka er fjallað um aðila á vegum ríkisstjórna.
–    Í 2. viðauka er fjallað um aðila á vegum stjórnvalda á stjórnstigum fyrir neðan ríkisstjórnir.
–    Í 3. viðauka er fjallað um alla aðra aðila sem annast innkaup samkvæmt ákvæðum samnings þessa.
–    Í 4. viðauka er tilgreind þjónusta, ýmist með jákvæðum eða neikvæðum formerkjum, sem heyrir undir þennan samning.
–    Í 5. viðauka eru tilgreind verk sem samningurinn gildir um.
Viðmiðunarfjárhæðir eru tilgreindar í viðaukum um hvern aðila um sig.
2     Þessi samningur gildir um öll opinber innkaup ef samningsvirði þeirra er áætlað jafnt eða yfir fjárhæðarmörkum við birtingu tilkynningar í samræmi við ákvæði IX. gr.
3.     Val aðila á matsaðferð skal ekki notað, né skal innkaupum skipt, með það fyrir augum að víkjast undan beitingu þessa samnings.

4.     Ef einstök krafa um innkaup leiðir til þess að gerðir eru fleiri en einn samningur, eða ef samningar eru boðnir út í aðskildum hlutum, skal matsgrundvöllurinn vera annaðhvort:
(a)    raunverulegt virði sambærilegra endurnýjaðra samninga sem gerðir voru á næstliðnu fjárhagsári eða næstliðnum tólf mánuðum með viðeigandi breytingum, þar sem því verður við komið, vegna fyrirséðra breytinga á magni og virði næstu tólf mánuðina á eftir; eða
(b)    áætlað verðmæti endurnýjaðra samninga á næsta fjárhagsári eða á næstu tólf mánuðum eftir upphaflegan samning.
5.     Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vöru eða þjónustu, eða þegar um er að ræða samninga þar sem ekki er tilgreint heildarverð, skal matsgrundvöllurinn vera:
(a)    heildarsamningsvirði allan samningstímann ef um er að ræða samninga til ákveðins tíma, þar sem samningstími er 12 mánuðir eða skemmri, eða heildarsamningsvirði að viðbættu áætluðu eftirstöðvarvirði, þar sem samningstími er lengri en 12 mánuðir;
(b)    mánaðargreiðsla margfölduð með 48 ef um er að ræða samninga til óákveðins tíma.
Í vafatilvikum skal nota síðari matsgrundvöllinn, þ.e. (b)-lið.
6.     Við mat á virði áformaðra innkaupa, þar sem tilgreind eru valfrjáls ákvæði, skal miðað við mestu mögulegu heildarinnkaup að teknu tilliti til valfrjálsu ákvæðanna.


III. gr.
Innlend meðferð og bann við mismunun.

1.     Að því er varðar öll lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti varðandi opinber innkaup, sem heyra undir samning þennan, skal sérhver samningsaðili þegar í stað og skilyrðislaust veita vörum, þjónustu og birgjum hinna samningsaðilanna, sem bjóða vöru eða þjónustu samningsaðilanna, meðferð sem er ekki óhagstæðari en:
(a)    meðferðin sem veitt er vöru, þjónustu, og birgjum innanlands; og
(b)    meðferð sem veitt er vöru, þjónustu og birgjum einhvers annars samningsaðila.
2.     Að því er varðar öll lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti um opinber innkaup sem heyra undir samning þennan skal sérhver samningsaðili tryggja:
(a)    að aðilar hans veiti ekki birgi með staðfestu í landinu óhagstæðari meðferð en öðrum birgi með staðfestu í landinu á grundvelli þess að birginn sé í erlendum eignartengslum eða erlendri eigu; og
(b)    að aðilar hans mismuni ekki birgjum með staðfestu í landinu á grundvelli framleiðslulands vörunnar eða þjónustunnar sem verið er að selja, enda sé framleiðslulandið aðili að samningnum skv. ákvæðum IV. gr.

3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki gilda um tollgjöld og álögur af neinu tagi sem lagðar eru á innflutning eða í tengslum við innflutning, um aðferðir til álagningar slíkra tollgjalda og álagna, um aðrar innflutningsreglur og formsatriði og ráðstafanir sem áhrif hafa á viðskipti með þjónustu aðrar en lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti sem varða opinber innkaup og heyra undir samning þennan.

IV. gr.
Upprunareglur.

1.     Samningsaðili skal ekki beita upprunareglum um vöru eða þjónustu, sem flutt er inn eða útveguð við opinber innkaup sem falla undir samninginn, frá öðrum samningsaðilum, sem eru frábrugðnar upprunareglum sem beitt er í eðlilegum viðskiptum á þeim tíma sem umrædd viðskipti eiga sér stað, vegna innflutnings eða útvegunar sömu vöru eða þjónustu frá sömu samningsaðilum.
2.     Að lokinni vinnuáætluninni um samræmingu upprunareglna vöru, sem gerð verður samkvæmt samningnum um upprunareglur í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og samningaviðræður um þjónustuviðskipti, skulu aðilar taka mið af niðurstöðum vinnuáætlunarinnar og samningaviðræðnanna við gerð breytinga á 1. mgr. eftir því sem við á.


V. gr.
Sérstök aðgreind meðferð fyrir þróunarlönd.

Markmið.
1.     Aðilar skulu við framkvæmd samnings þessa og við umsjón með honum, á grundvelli ákvæða þessarar greinar, taka tilhlýðilegt tillit til þróunar-, fjárhags- og viðskiptaþarfa þróunarlanda, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin í þróun, vegna þarfa þeirra á að

(a)    varðveita greiðslujöfnuð sinn og tryggja varasjóði sem nægja til þess að framkvæma áætlanir um efnahagsþróun;

(b)    stuðla að því að koma á eða þróa innlenda atvinnuvegi, þ.m.t. þróun smáiðnaðar og heimilisiðnaðar í dreifbýli eða á vanþróuðum svæðum, og efnahagsþróun á öðrum sviðum atvinnulífs;

(c)    styðja við einstakar atvinnueiningar, enda séu þær að öllu eða verulegu leyti háðar opinberum innkaupum; og
(d)    stuðla að efnahagsþróun með svæðisbundnum eða hnattrænum ráðstöfunum meðal þróunarlanda sem lagðar eru fyrir ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ekki er hafnað.


2.     Í samræmi við ákvæði samnings þessa skal sérhver samningsaðili, við undirbúning og framkvæmd laga, reglna og málsmeðferðar sem tengjast opinberum innkaupum, greiða fyrir auknum innflutningi frá þróunarlöndum, með sérstöku tilliti til vanda þeirra þróunarlanda sem skemmst eru á veg komin og landa þar sem efnahagsþróun er skammt á veg komin.


Gildissvið.
3.     Í því skyni að tryggja að þróunarlönd geti gerst aðilar að samningi þessum með skilmálum sem samrýmast þróunar-, fjárhags- og viðskiptaþörfum þeirra skal taka tilhlýðilegt tillit til markmiðanna sem sett eru fram í 1. mgr. í samningaviðræðum varðandi innkaup í þróunarríkjum sem samningur þessi á að gilda um. Iðnríki skulu, er þau gera skrá um gildissvið samkvæmt ákvæðum samnings þessa, leitast við að hafa með þá aðila sem kaupa inn vöru og þjónustu sem þróunarríki hafa útflutningshagsmuni af.


Samþykktar undanþágur.
4.     Þróunarlandi er heimilt að semja við aðra þátttakendur í samningaviðræðum samkvæmt samningi þessum um undanþágur, sem gagnkvæmt samkomulag næst um, frá reglunum um innlenda meðferð að því er varðar tiltekna aðila, vöru eða þjónustu sem tilgreind er í gildisviðsskránni, með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Í slíkum samningaviðræðum skal taka tilhlýðilegt tillit til sjónarmiða sem fjallað er um í a–c-liðum 1. mgr. Þróunarríki sem er þátttakandi í svæðisbundnum eða hnattrænum ráðstöfunum meðal þróunarlanda, sem getið er um í d-lið 1. mgr., er einnig heimilt að semja um undanþágur frá skrám sínum með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig, þar sem m.a. er tekið tillit til ákvæða um opinber innkaup sem kveðið er á um í hinum svæðisbundnu eða hnattrænu ráðstöfunum sem um ræðir, og einkum og sér í lagi vöru og þjónustu sem kann að heyra undir sameiginlegar efnahagsþróunaráætlanir.

5.     Eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi er þróunarlandi, sem er aðili að samningnum, heimilt að breyta gildissviðsskrám sínum samkvæmt ákvæðum 6. mgr. XXIV. gr., sem gilda um slíkar breytingar, með hliðsjón af eigin þróunar-, efnahags- og viðskiptaþörfum, eða snúa sér til nefndarinnar um opinber innkaup (hér eftir nefndin) um að hún veiti undanþágu frá reglunum um innlenda meðferð að því er varðar tiltekna aðila, vöru eða þjónustu sem er að finna á gildissviðsskrám viðkomandi ríkis, með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig og ákvæðum a–c-liðar í 1. mgr. Eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi, er þróunarlandi sem er aðili að samningnum einnig heimilt að fara fram á undanþágu fyrir tiltekna aðila, vöru eða þjónustu sem tilgreind er á gildissviðsskrám þess í ljósi þátttöku þess í svæðisbundnum eða hnattrænum ráðstöfunum meðal þróunarlanda, með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig og ákvæðum d-liðar 1. mgr. Sérhverri beiðni til nefndarinnar frá þróunarlandi, sem er aðili að samningnum, varðandi breytingar á skrá skulu fylgja gögn sem varða beiðnina eða upplýsingar sem þörf kann að vera á til að taka málið til meðferðar.


6.     4. og 5. mgr. skulu gilda, að breyttu breytanda, um þróunarlönd sem gerast aðilar að samningi þessum eftir gildistöku hans.
7.     Slíkar samþykktar undanþágur, sem getið er um í 4., 5. og 6. mgr., skulu sæta endurskoðun samkvæmt ákvæðum 14. mgr. hér á eftir.

Tækniaðstoð til samningsaðila sem eru þróunarlönd.

8.     Sérhvert iðnríki sem er samningsaðili skal, ef um það er beðið, veita þróunarlöndum sem eru samningsaðilar alla tækniaðstoð sem það telur viðeigandi til að leysa vanda þeirra á sviði opinberra innkaupa.
9.     Slík aðstoð, sem skal veitt án mismununar milli þróunarlanda sem eru samningsaðilar, skal meðal annars varða
          lausn tiltekinna tæknilegra vandamála sem tengjast gerð tiltekins samnings; og

          hvert það vandamál sem samningsaðilinn sem ber fram beiðnina og annar samningsaðili ákveða að taka á í tengslum við slíka aðstoð.
10.     Tæknileg aðstoð sem vísað er til í 8. og 9. gr. tekur til þýðingar á gögnum um hæfi og tilboðum sem gerð eru af birgjum í þróunarlöndum sem eru aðilar að samningi þessum yfir á opinbert tungumál Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem tilgreint er af viðkomandi aðila, nema þróunarlönd sem eru samningsaðilar telji það of íþyngjandi, en í því tilviki skal þróunarlandi sem er samningsaðili gefin skýring þegar beiðni berst sem er stíluð annaðhvort á iðnríkið eða aðila þess.

Upplýsingamiðstöðvar.
11.     Iðnríki sem eru samningsaðilar skulu, hvert um sig eða sameiginlega, setja á stofn upplýsingamiðstöðvar til þess að svara eðlilegum beiðnum frá þróunarlöndum sem eru samningsaðilar um upplýsingar er m.a. varða lög, reglur, málsmeðferð og starfshætti varðandi opinber innkaup, auglýsingar um fyrirhuguð innkaup sem hafa verið birt, póstföng aðila sem heyra undir þennan samning og eðli og magn vöru og þjónustu sem verið er að kaupa eða fyrirhugað er að kaupa, þ.m.t. fyrirliggjandi upplýsingar um fyrirhuguð innkaup. Nefndinni er einnig heimilt að setja upp upplýsingamiðstöð.

Sérstök meðferð landa sem skemmst eru á veg komin í þróun.
12.     Með hliðsjón af 6. mgr. ákvörðunar SAMNINGSAÐILA AÐ GATT-SAMKOMULAGINU 1947 frá 28. nóvember 1979 um mismunarmeðferð og hagstæðari meðferð, gagnkvæmni og aukna þátttöku þróunarlanda (BISD 26S/203-205) skal þeim löndum sem skemmst eru á veg komin í þróun og eru samningsaðilar og birgjum í þeim löndum veitt sérstök meðferð að því er varðar vöru eða þjónustu sem upprunnin er í þeim aðildarlöndum í tengslum við hvers kyns almennar eða sértækar ráðstafanir í þágu þróunarlanda sem eru samningsaðilar. Samningsaðili getur einnig látið birgja í þróunarlöndum, sem skemmst eru á veg komin í þróun og eru ekki aðilar að samningi þessum, njóta ávinnings af samningnum að því er varðar vöru eða þjónustu sem er upprunnin í viðkomandi löndum.
13.     Berist beiðni um slíkt skal sérhvert iðnríki, sem er aðili að samningi þessum, veita þá aðstoð sem það telur viðeigandi til hugsanlegra tilboðsgjafa í löndum sem skemmst eru á veg komin í þróun varðandi gerð tilboða og val á vöru og þjónustu sem líkleg er til að vekja áhuga hjá aðilum í viðkomandi iðnríki, svo og birgjum í slíkum þróunarlöndum og einnig aðstoða þau við að uppfylla tæknilegar reglugerðir og tæknistaðla, sem gilda um vöru eða þjónustu, sem gert er ráð fyrir í fyrirhuguðum innkaupum.

Endurskoðun.
14.     Nefndin skal árlega endurskoða framkvæmd og skilvirkni þessarar greinar og einnig skal nefndin, á þriggja ára fresti eftir að greinin kemur til framkvæmdar, ráðast í gagngera endurskoðun hennar á grundvelli skýrslna, sem samningsaðilar skila, í því skyni að meta áhrif hennar. Sem liður í þeirri endurskoðun sem ráðist er í á þriggja ára fresti, og með það að markmiði að ákvæði samnings þessa komi til framkvæmda í sem ríkustum mæli, einkum og sér í lagi III. gr., og með hliðsjón af ástandi þróunar-, fjárhags- og viðskiptamála í þeim þróunarlöndum sem um ræðir, skal nefndin einnig kanna hvort undanþágunum, sem kveðið er á um í samræmi við ákvæði 4.–6. mgr. þessarar greinar, skuli breytt eða aukið við þær.
15.     Við framvindu síðari samningslota samkvæmt ákvæðum 7. mgr. XXIV. gr. skal sérhvert þróunarland sem er samningsaðili kanna möguleikana á því að stækka gildissviðsskrár sínar með tilliti til þróunar-, fjárhags- og viðskiptastöðu sinnar.


VI. gr.
Tækniforskriftir.

1.     Tækniforskriftir þar sem lýst er eiginleikum vörunnar eða þjónustunnar sem boðin verður út, svo sem gæðum, skilum, öryggi og stærðum, táknum, íðorðum, pökkun, merkingum og vörumerkingum, eða framleiðsluferlum og framleiðsluaðferðum, og kröfum um verklagsreglur við samræmismat sem innkaupaaðilar gera kröfur um, skulu ekki teknar saman, samþykktar eða notaðar með það fyrir augum eða með þeim afleiðingum að þær valdi óþörfum hindrunum í alþjóðaviðskiptum.
2.     Tækniforskriftir sem innkaupsaðilar gera kröfur um skulu, eftir því sem við á:
(a)    varða skil fremur en hönnun eða lýsandi eiginleika; og
(b)    byggjast á alþjóðastöðlum, ef til eru, eða annars á innlendum tæknilegum reglugerðum 3, viðurkenndum landsstöðlum 4, eða byggingarreglugerðum.



3     Í samningi þessum er tæknileg reglugerð skjal þar sem mælt er fyrir um eiginleika vöru eða þjónustu eða sem tengdist ferlum og framleiðsluaðferðum þeirra, þ.m.t. viðeigandi stjórnsýsluákvæði sem skylt er að uppfylla. Slíkar reglugerðir geta jafnframt, eða sér í lagi, fjallað um íðorð, tákn, pökkun, merkingar eða vörumerkingarkröfur eins og þær eiga við um vöru, þjónustu, ferli eða framleiðsluaðferð.
4     Í samningi þessum merkir staðall skjal sem samþykkt er af viðurkenndum aðila, þar sem kveðið er á, til almennrar og endurtekinnar notkunar, um reglur, leiðbeiningar eð eiginleika varðandi vöru eða þjónustu eða tilheyrandi ferli og framleiðsluaðferðir sem skylt er að fylgja. Slíkir staðlar geta jafnframt, eða sér í lagi, fjallað um íðorð, tákn, pökkun, merkingar eða vörumerkingarkröfur eins og þær eiga við um vöru, þjónustu, ferli eða framleiðsluaðferð.
3.     Ekki skulu vera kröfur um eða tilvísanir í tiltekin vörumerki eða viðskiptaheiti, einkaleyfi, hönnun eða tegund, tiltekinn uppruna, framleiðanda eða birgja, nema ekki sé fyrir hendi nægilega nákvæm eða skiljanleg leið til þess að lýsa útboðsskilmálum, enda sé jafnframt tekið fram eða sambærilegt í útboðsgögnum.
4.     Aðilar skulu ekki leita eftir eða taka við, með þeim hætti sem hefði þau áhrif að koma í veg fyrir samkeppni, ráðum sem kunna að vera notuð við undirbúning forskrifta fyrir tiltekið útboð frá fyrirtæki sem kann að hafa viðskiptalega hagsmuni af útboðinu.


VII. gr.
Verklagsreglur við útboð.

1.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að verklagsreglum um útboð aðila sinna sé beitt án mismununar og að þær samræmist ákvæðum VII.–XVI. gr.

2.     Aðilar skulu ekki veita neinum birgi upplýsingar um tiltekin innkaup með þeim hætti að það gæti komið í veg fyrir samkeppni.

3.     Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
(a)    Almenn útboð eru útboð þar sem öllum birgjum sem áhuga hafa er heimilt að gera tilboð.

(b)    Útboð með forvali eru útboð þar sem birgjum, sem boðið er að gera tilboð í samræmi við 3. mgr. X. gr. og önnur viðeigandi ákvæði samnings þessa, er heimilt að gera tilboð.

(c)    Takmörkuð útboð eru útboð þar sem aðilinn setur sig í samband við einstaka birgja, en eingöngu með þeim skilyrðum sem sett eru fram í XV. gr.

VIII. gr.
Hæfi birgja.

    Þegar aðilar ákvarða hæfi birgja skulu þeir ekki gera greinarmun á birgjum annarra samningsaðila né á birgjum í eigin landi annars vegar og birgjum í löndum annarra samningsaðila hins vegar. Verklag við ákvörðun hæfis skulu samrýmast eftirfarandi:
(a)    allar reglur um þátttöku í útboðum skulu birtar nógu tímanlega til þess að birgjar, sem áhuga hafa, geti hafið ráðstafanir til að öðlast hæfi og, að því marki sem það samræmist skilvirkri framkvæmd útboðsins, lokið þeim ráðstöfunum;

(b)    hvers kyns skilyrði fyrir þátttöku í útboðum skulu takmarkast við skilyrði sem eru óhjákvæmileg til þess að tryggja getu fyrirtækis til þess að uppfylla viðkomandi samning. Hvers kyns þátttökuskilyrði sem krafist er af birgjum, þ.m.t. tryggingar, tæknilegar hæfniskröfur og upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að ákvarða fjárhagslega, viðskiptalega og tæknilega getu birgja, svo og sannprófun á hæfni, skulu ekki vera óhagstæðari birgjum annarra samningsaðila en innlendum birgjum og skulu ekki mismuna birgjum annarra samningsaðila. Fjárhagsleg, viðskiptaleg og tæknileg geta birgis skal metin bæði á grundvelli alþjóðlegra umsvifa viðkomandi birgis svo og á grundvelli umsvifa hans á starfssvæði innkaupaaðila, með tilhlýðilegu tilliti til lagalegra tengsla milli söluaðilanna;

(c)    hæfisferlið og tímann sem þarf til að öðlast hæfi skal ekki nota í þeim tilgangi að halda birgjum annarra aðila utan birgjaskráa eða koma í veg fyrir að þeir komi til álita í tilteknum fyrirhuguðum innkaupum. Aðilar skulu viðurkenna sem hæfa birgja þá birgja í eigin landi eða löndum annarra samningsaðila sem uppfylla þátttökukröfur í tilteknu fyrirhuguðu útboði. Birgjar sem óska þess að taka þátt í tilteknu fyrirhuguðu útboði sem enn eru ekki hæfir skulu einnig koma til álita, enda sé nægur tími til þess að uppfylla hæfiskröfur;

(d)    Aðilar sem halda varanlegar skrár yfir hæfa birgja skulu tryggja að birgjar geti sótt um hæfi hvenær sem er og að allir hæfir birgjar sem um það sækja séu settir á skrána innan eðlilega skamms tíma;
(e)    ef birgir sem ekki hefur enn öðlast hæfi sækir um að taka þátt í fyrirhuguðu útboði eftir að birt hefur verið auglýsing skv. 1. mgr. IX. gr. skal aðilinn þegar í stað hefja ráðstafanir til þess að veita hæfi;
(f)    birgir sem sótt hefur um að gerast hæfur birgir skal upplýstur um ákvarðanir þar að lútandi af viðkomandi aðila. Hæfum birgjum sem eru á föstum skrám samningsaðila skal einnig tilkynnt um það ef skráin er lögð niður eða ef þeir eru teknir af henni.
(g)    Sérhver samningsaðili skal tryggja að:
    (i)    sérhver aðili og deildir hans noti eina og sömu aðferð við að ákvarða hæfi, nema ef um er að ræða rökstudda þörf til að beita annarri aðferð; og
    (ii)    leitast verði við að halda í lágmarki mun á hæfisreglum milli aðila.
(h)    ekkert í a–g-lið kemur í veg fyrir að birgir verði útilokaður af ástæðum á borð við gjaldþrot eða rangar yfirlýsingar, enda fari slíkt ekki í bága við reglur um innlenda meðferð og ákvæði samnings þessa um bann við mismunun.


IX. gr.
Boð um þátttöku í fyrirhuguðum innkaupum.


1.     Í samræmi við 2. og 3. mgr. skulu aðilar birta boð um þátttöku í öllum fyrirhuguðum innkaupum, ef ekki er kveðið á um annað í XV. gr. (takmörkuð útboð). Tilkynningin skal birt í viðeigandi riti sem er á lista í II. viðbæti.

2.     Boð um þátttöku getur verið í formi tilkynningar um fyrirhuguð innkaup, eins og kveðið er á um í 6. mgr.
3.     Aðilum í 2. og 3. viðauka er heimilt að nota sem boð um þátttöku tilkynningu um fyrirhuguð innkaup, eins og kveðið er á um í 7. mgr., eða tilkynningu um hæfiskerfi, eins og kveðið er á um í 9. mgr.

4.     Aðilar sem nota tilkynningu um fyrirhuguð innkaup sem boð um þátttöku skulu síðan bjóða öllum birgjum, sem lýst hafa áhuga, að staðfesta áhuga sinn á grundvelli upplýsinga sem hafa að minnsta kosti að geyma upplýsingarnar sem getið er um í 6. mgr.
5.     Aðilar sem nota tilkynningu um hæfiskerfi sem boð um þátttöku skulu láta í té upplýsingar, með fyrirvara um ákvæði 4. mgr. XVIII. gr. og nægjanlega tímanlega, sem gefa öllum sem lýst hafa áhuga, raunhæft tækifæri til þess að meta eigin áhuga á að taka þátt í útboðinu. Í upplýsingunum skulu m.a. koma fram þær upplýsingar sem vísað er til í 6. og 8. mgr., að því marki sem slíkar upplýsingar eru tiltækar. Upplýsingar sem veittar eru einum birgi, sem lýst hefur áhuga skulu veittar öðrum, sem sýnt hafa áhuga, án mismununar.


6.     Í sérhverri tilkynningu um fyrirhuguð innkaup sem vísað er til í 2. mgr. skulu vera eftirfarandi upplýsingar:
(a)    eðli og magn, þ.m.t. hvers kyns valkvæðan rétt til frekari innkaupa og, ef unnt er, áætlun um tímasetningu varðandi hvenær megi nýta slíkan rétt; þegar um er að ræða endurtekna samninga skal tiltaka eðli og magn og, ef unnt er, áætlun um tímasetningu síðari útboðstilkynninga varðandi vöruna eða þjónustuna sem fyrirhugað er að bjóða út;
(b)    hvort um sé að ræða opið útboð eða útboð með forvali, og hvort um samninga verði að ræða;
(c)    dagsetning þegar afhending vöru eða þjónustu á að hefjast eða ljúka;
(d)    póstfang og lokadagur til að skila inn umsókn um þátttöku í útboði eða um hæfi á skrám yfir birgja, eða hæfi til að fá send útboðsgögn, svo og tungumálið eða tungumálin sem tilboð skulu vera á;
(e)    póstfang aðilans sem gerir samninginn ásamt öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að fá í hendur forskriftir og önnur skjöl;
(f)    hvers kyns efnahagslegar og tæknilegar kröfur, ábyrgðir og upplýsingar sem krafist er af birgjum;
(g)    upphæð og skilmálar greiðslu sem krafist er fyrir útboðsgögnin; og
(h)    hvort aðilinn sé að bjóða út kaup, fjármögnunarleigu, leigu, kaupleigu eða fleiri en eina af þessum aðferðum.
7.     Í sérhverri tilkynningu um fyrirhuguð innkaup, sem vísað er til í 3. mgr., skulu vera allar þær upplýsingar sem getið er í 6. mgr. sem tiltækar eru. Í öllum tilvikum skulu felast í þeim upplýsingarnar sem vísað er til í 8. mgr. og:
(a)    yfirlýsing um að birgjar sem áhuga hafa skuli lýsa yfir áhuga sínum á útboðinu við aðilann;

(b)    tengiliður hjá aðilanum þar sem unnt er að afla sér frekari upplýsinga.
8.     Fyrir hver fyrirhuguð innkaup skal aðilinn taka saman ágrip af tilkynningunni á einu af opinberum tungumálum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Tilkynningin skal innihalda að minnsta kosti eftirfarandi:
(a)    efni samningsins;
(b)    tímamörk sem sett eru um skil á tilboðum eða umsóknum um þátttöku í útboði; og
(c)    póstföng þar sem unnt er að nálgast gögn sem varða samningana.
9.     Þegar um er að ræða útboð með forvali skulu aðilar, sem halda fastar skrár um hæfa birgja, birta árlega, í einu af ritunum sem tilgreind eru í III. viðbæti, tilkynningu um eftirfarandi:
(a)    númer skránna sem haldnar eru, með yfirskriftum þeirra, í tengslum við vöruna, þjónustuna eða vöru- eða þjónustuflokkana sem boðnir verða út samkvæmt skránum;
(b)    skilyrðin sem birgjum ber að uppfylla til að vera teknir inn í skrárnar og aðferðirnar sem aðilinn mun nota til þess að sannreyna hvort sérhvert þessara skilyrða hafi verið uppfyllt; og

(c)    gildistíma skránna og formsatriði varðandi endurnýjun þeirra.
Þegar slík tilkynning er notuð sem boð um þátttöku skv. 3. mgr. skal tilkynningin að auki hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar:
(d)    eðli vörunnar eða þjónustunnar sem um ræðir;

(e)    yfirlýsingu um að í tilkynningunni felist boð um þátttöku.
Ef gildistími kerfis sem notað er við hæfismat er hins vegar þrjú ár eða minna, og ef gildistími kerfisins er tilgreindur í tilkynningunni og ef einnig er tilgreint að ekki verði birtar frekari tilkynningar, er nægilegt að birta tilkynninguna aðeins einu sinni, við upphaf kerfisins. Slíkt kerfi skal ekki nota með þeim hætti að farið sé í kringum ákvæði samnings þessa.

10.     Ef nauðsynlegt reynist, eftir birtingu boðs um þátttöku í fyrirhuguðu útboði, en fyrir þann tíma sem tilgreindur var í auglýsingu eða útboðsgögnum sem opnunar- eða móttökutími tilboða, að breyta eða endurbirta tilkynninguna skal dreifa breytingunni á sama hátt og upphaflegu skjölunum sem breytingin byggist á. Hvers kyns mikilvægar upplýsingar, sem veittar eru einum birgi varðandi tiltekin fyrirhuguð innkaup, skulu á sama tíma veittar öllum öðrum birgjum er málið varðar nægilega tímanlega til þess að birgjunum sé unnt að meta slíkar upplýsingar og bregðast við þeim.

11.     Aðilar skulu gera ljóst, í tilkynningunum sem vísað er til í þessari grein eða í ritinu þar sem tilkynningarnar eru birtar, að viðkomandi innkaup heyri undir samning þennan.

X. gr.
Málsmeðferð við val.

1.     Til þess að hámarka skilvirkni alþjóðlegrar samkeppni í útboðum með forvali skulu aðilar í hverjum fyrirhuguðum innkaupum auglýsa eftir tilboðum frá sem flestum innlendum birgjum og birgjum annarra samningsaðila, að því marki sem samræmist skilvirkum rekstri útboðskerfisins. Aðilar skulu velja birgja til að taka þátt í útboðinu með sanngjörnum hætti og án mismununar.
2.     Aðilar sem halda varanlegar skrár um hæfi birgja mega velja birgja af þeim sem eru í skránni til að gera tilboð. Við allt val skal gert ráð fyrir jafnræði allra birgja í skránum.
3.     Birgjum sem óska eftir að fá að taka þátt í tilteknu fyrirhuguðu útboði skal heimilað að senda inn tilboð og skulu þeir koma til greina, enda sé nægur tími til þess að ljúka hæfisferlinu skv. VIII. og IX. gr. ef um er að ræða aðila sem eru ekki enn hæfir. Fjöldi viðbótarbirgja, sem heimilað er að taka þátt, skal eingöngu takmarkast af skilvirkni í rekstri útboðskerfisins.
4.     Óskir um að taka þátt í útboði með forvali má senda með fjarrita, símskeyti eða símbréfi.


XI. gr.
Tilboðs- og afhendingarfrestur.

Almennt.
1. (a)    Frestur sem gefinn er skal vera nægur til þess að birgjar í löndum annarra samningsaðila sem og birgjar í heimalandi geti undirbúið og skilað inn tilboðum áður en frestur rennur út. Þegar frestur er ákveðinn skulu aðilar, að teknu tilliti til sanngjarnra eigin þarfa, taka mið af atriðum á borð við það hversu flókið útboð er um að ræða, umfang undirverktöku sem gert er ráð fyrir og eðlilegum tíma sem það tekur að senda tilboð með pósti frá stöðvum utan lands sem innan.

(b)    Sérhver samningsaðili skal tryggja að aðilar í landi hans taki tillit til tafa sem verða á birtingu þegar ákveðinn er lokafrestur til að skila tilboðum eða umsóknum um þátttökuboð.

Frestir.
2.     Að því marki sem ekki er kveðið á um í 3. mgr.
(a)    skal frestur til að skila tilboði í opnu útboði ekki vera skemmri en 40 dagar frá dagsetningu birtingar sem um getur í 1. mgr. IX. gr.;

(b)    skal frestur til að skila tilboði í útboðum með forvali, þar sem ekki er stuðst við fasta skrá hæfra birgja, ekki vera skemmri en 25 dagar frá birtingardeginum sem um getur í 1. mgr. IX. gr.; frestur til móttöku tilboða skal aldrei vera skemmri en 40 dagar frá útgáfu boðsins um að gera tilboð;

(c)    skal frestur til að skila tilboði í takmörkuðum útboðum þar sem stuðst er við fastar skrár hæfra birgja ekki vera skemmri en 40 dagar frá upphaflegri dagsetningu boðsins um að gera tilboð, hvort sem sú dagsetning er sami dagurinn og birtingardagurinn sem um getur í 1. mgr IX. gr. eða ekki.

3.     Stytta má frestina sem um getur í 2. mgr. við þær aðstæður sem lýst er hér á eftir:
(a)    ef sérstök tilkynning hefur verið birt 40 dögum og ekki meira en 12 mánuðum fyrr og í tilkynningunni er að finna a.m.k.:
    (i)    eins mikið af upplýsingunum sem um getur í 6. mgr. IX. gr. og fyrir liggur;
    (ii)    upplýsingarnar sem um getur í 8. mgr. IX. gr.;
    (iii)    yfirlýsingu um að birgjar sem áhuga hafa skuli lýsa yfir áhuga sínum á útboðinu við aðilana; og
    (iv)    tengilið hjá aðilanum þar sem unnt er að afla sér frekari upplýsinga,
    má, í stað 40 daga frestsins til að skila inn tilboðum, veita annan frest sem er nægilega langur til þess að tími til tilboðsgerðar sé nægilegur, en að jafnaði skal slíkur frestur ekki vera skemmri en 24 dagar og aldrei skemmri en 10 dagar;
(b)    þegar um er að ræða aðra eða síðari birtingu sem varðar endurtekna samninga í skilningi 6. mgr. IX. gr. má stytta 40 daga skilafrest tilboða í eigi skemmri tíma en 24 daga;

(c)    ef brýn nauðsyn, sem rökstudd er af viðkomandi aðila, leiðir af sér að frestirnir sem um ræðir komi ekki til greina, er heimilt að stytta frestina sem tilgreindir eru í 2. mgr., en þó aldrei niður í skemmri tíma en 10 daga frá birtingunni sem um er getið í 1. mgr. IX. gr.; eða
(d)    ef fresturinn sem tilgreindur er í c-lið 2. mgr. fyrir innkaup af hálfu aðila sem eru á skrá í 2. og 3. viðauka er ákveðinn með sameiginlegu samkomulagi aðilans og valinna birgja. Ef slíku samkomulagi er ekki til að dreifa er aðilunum heimilt að ákveða fresti sem veita nægilegan tíma til tilboðsgerðar, en þó aldrei skemmri en 10 daga.
4.     Að teknu tilliti til sanngjarnra eigin þarfa viðkomandi aðila, skal skiladagur taka mið af atriðum á borð við það hversu flókið útboð er um að ræða, umfang undirverktöku sem gert er ráð fyrir og eðlilegum tíma sem nauðsynlegur er til að framleiða, ná úr birgðageymslu og flytja vörur frá afhendingarstöðum eða til að veita þjónustu.

XII. gr.
Útboðsgögn.

1.     Ef aðili heimilar í útboði að tilboðum sé skilað á fleiri en einu tungumáli skal eitt viðkomandi tungumála vera eitt af opinberum tungumálum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
2.     Í útboðsgögnum sem afhent eru birgjum skulu vera allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að gera þeim kleift að gera tilboð, þ.m.t. upplýsingar sem krafist er birtingar á í tilkynningunni um fyrirhuguð innkaup nema upplýsingar í g-lið 6. mgr. IX. gr., og eftirfarandi:
(a)    póstfang aðila sem senda skal tilboðið til;

(b)    póstfang sem senda ber beiðni til um viðbótarupplýsingar;
(c)    tungumál, eitt eða fleiri, sem nota ber í tilboðum og tilboðsgögnum;
(d)    lokafrestur, dagur og tími, til að skila inn tilboðum og áskilinn gildistími tilboða;

(e)    aðilar sem heimilt er að séu viðstaddir opnun tilboða og dagurinn, tíminn og staður þar sem tilboð verða opnuð;
(f)    hvers kyns efnahagslegar og tæknilegar kröfur, ábyrgðir og upplýsingar eða skjöl sem krafist er af birgjum;
(g)    tæmandi lýsing á vörum eða þjónustu sem þörf er á eða á hvers kyns kröfum, þ.m.t. tækniforskriftum, samræmisvottunum sem ber að uppfylla, nauðsynlegum uppdráttum, teikningum og leiðbeiningum;
(h)    viðmiðanir sem stuðst verður við þegar ákvörðun er tekin um gerð samnings, þ.m.t. allir þættir aðrir en verð sem tekið verður tillit til við mat á tilboðum og kostnaðarþættir sem teknir varða með í reikninginn við mat á tilboðsverðum, s.s. flutnings-, tryggingar- og skoðunarkostnaður, og, í tilviki vöru eða þjónustu frá landi annars samningsaðila, tollar og önnur innflutningsgjöld og gjaldmiðill sem greiðsla miðast við;
(i)    greiðsluskilmálar;
(j)    aðrir skilmálar eða skilyrði;
(k)    í samræmi við XVII. gr., skilmálar og skilyrði þess, ef um það er að ræða, að til greina komi tilboð frá löndum sem eru ekki aðilar að samningi þessum en sem beita verklagsreglum sem kveðið er á um í XVII. gr.

Sending útboðsgagna af hálfu aðilanna.
3. (a)    Í opnum útboðum, skulu aðilar senda útboðsgögn að ósk sérhvers birgis sem þátt tekur í útboðinu og svara þegar í stað öllum sanngjörnum óskum um frekari skýringu þeirra.

(b)    Í útboðum með forvali skulu aðilar senda útboðsgögn að ósk sérhvers birgis sem óskar eftir að taka þátt í útboðinu og svara þegar í stað öllum sanngjörnum óskum um frekari skýringu þeirra.
(c)    Aðilar skulu þegar í stað svara öllum sanngjörnum óskum um viðeigandi upplýsingar sem settar eru fram af birgja sem þátt tekur í útboði, enda veiti slíkar upplýsingar viðkomandi birgja ekki forskot gagnvart samkeppnisaðilum hans í útboðsferlinu.


XIII. gr.
Innsending, móttaka og opnun tilboða og val tilboða.

1.     Innsending, móttaka og opnun tilboða og val tilboða skulu vera í samræmi við eftirfarandi:

(a)    tilboð skulu að jafnaði vera skrifleg og boðsend eða send með pósti. Ef tilboð með fjarrita, skeyti eða símbréfi eru heimil skal tilboð sem þannig er skilað fela í sér allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að leggja mat á tilboðið, einkum endanlegt verð sem tilboðsgjafi gerir tilboð um og yfirlýsing um að tilboðsgjafi samþykki alla skilmála, skilyrði og ákvæði útboðsins. Tilboðið skal þegar í stað staðfesta með bréfi eða með því að senda undirritað eintak af fjarritinu, skeytinu eða símbréfinu. Ekki skal heimilt að skila tilboðum með símtali. Ef misræmi er milli innihalds fjarrits, skeytis eða símbréfs og gagna sem berast eftir að tilboðsfrestur rennur út, gildir innihald fjarritsins, skeytisins eða símbréfsins; og

(b)    tækifæri sem tilboðsgjöfum eru veitt til þess að leiðrétta óviljandi formgalla milli þess sem tilboð eru opnuð og samningur er veittur skulu ekki veita færi á neins konar mismunun.


Móttaka tilboða.
2.     Birgir skal ekki gjalda þess ef tilboð berst á skrifstofuna sem tilgreind er í tilboðsgögnum eftir að tilgreindur frestur rennur út vegna tafa sem stafa einvörðungu af glöpum af hálfu viðkomandi aðila. Tilboð má einnig taka til greina við aðrar sérstakar aðstæður ef gert er ráð fyrir slíku í verklagsreglum viðkomandi aðila.

Opnun tilboða.

3.     Tekið skal á móti öllum tilboðum sem auglýst er eftir í opnu útboði eða útboði með forvali af hálfu aðila og þau opnuð samkvæmt verklagsreglum og við aðstæður sem tryggja lögmæti opnunarinnar. Móttaka og opnun tilboða skulu einnig vera í samræmi við ákvæði samnings þessa um sömu meðferð og í heimalandi og um bann við mismunun. Upplýsingar um opnun tilboða skulu vera í vörslu viðkomandi aðila en aðgengilegar þeim stjórnvöldum sem bera ábyrgð á aðilanum til að unnt sé að nota þær ef þörf krefur við málsmeðferð sem kveðið er á um í XVIII., XIX., XX. og XXII. gr.

Val tilboða.
4. (a)    Til að koma til greina við val á tilboði, verður tilboð, á opnunartíma tilboða, að samrýmast grundvallarkröfum í útboðsauglýsingum eða útboðsgögnum og vera frá birgi sem uppfyllir skilyrði til þátttöku. Hafi aðila borist tilboð, sem er óeðlilega mikið lægra en önnur tilboð sem borist hafa, getur aðili gert fyrirspurn til tilboðsgjafa til þess að fullvissa sig um að hann geti uppfyllt þátttökuskilyrði og staðið við skilmála samningsins.

(b)    Nema aðili ákveði vegna almannahagsmuna að veita ekki samninginn, skal hann semja við þann tilboðsgjafa sem gengið hefur verið úr skugga um að sé fyllilega fær um að standa við samninginn og sem á annaðhvort lægsta tilboð eða það tilboð sem telst hagstæðast í ljósi þeirra tilteknu matsviðmiðana sem settar voru fram í auglýsingunum eða útboðsgögnunum, hvort sem um er að ræða vöru eða þjónustu í eigin landi eða vöru eða þjónustu frá löndum annarra samningsaðila.
(c)    Samninga skal gera í samræmi við viðmiðanir og grundvallarkröfur sem tilgreindar eru í útboðsgögnum.

Valfrjáls ákvæði.
5.     Ekki skal nota valfrjáls ákvæði með þeim hætti að farið sé í kringum ákvæði samnings þessa.

XIV. gr.
Viðræður.

1.     Samningsaðili getur kveðið svo á að aðilar megi eiga viðræður:
(a)    í tengslum við innkaup þar sem greint hefur verið frá því að slíkt sé ætlunin, þ.e. í auglýsingunni sem um er getið í 2. mgr. IX. gr. (boð til birgja um að taka þátt í hinu fyrirhugaða útboði); eða
(b)    þegar mat leiðir í ljós að ekkert eitt tilboð er augljóslega hagstæðast í ljósi þeirra tilteknu matsviðmiðana sem settar voru fram í auglýsingunum eða útboðsgögnunum.
2.     Viðræðum skal fyrst og fremst beita til þess að leiða í ljós styrk og veikleika tilboða.
3.     Aðilar skulu fara með tilboð sem trúnaðarmál. Einkum og sér í lagi skulu þeir ekki veita upplýsingar sem ætlaðar eru til þess að aðstoða tiltekna þátttakendur við að lagfæra tilboð sín þannig að þau verði jafngóð tilboðum annarra þátttakenda.
4.     Aðilar skulu ekki mismuna birgjum í viðræðunum. Einkum og sér í lagi skulu þeir tryggja að:

(a)    öll útilokun þátttakenda fari fram í samræmi við viðmiðanir sem settar eru fram í auglýsingum og útboðsgögnum;
(b)    allar breytingar á viðmiðunum og tæknikröfum séu sendar skriflega til allra annarra þátttakenda í viðræðunum;
(c)    öllum öðrum þátttakendum sé gefið tækifæri til þess að skila inn nýjum eða breyttum tilboðum á grundvelli endurskoðunar sem gerð hefur verið á kröfum; og
(d)    að viðræðum loknum sé öllum eftirstandandi þátttakendum heimilt að skila inn lokatilboði innan tiltekins frests.


XV. gr.
Takmörkuð útboð.

1.     Ákvæði VII. til XIV. gr. um opin útboð og útboð með forvali þurfa ekki að gilda við eftirfarandi aðstæður, enda séu takmörkuð útboð ekki notuð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hámarkssamkeppni með þeim hætti að mismuna birgjum í löndum annarra aðila eða vernda innlenda framleiðendur eða birgja:

(a)    ef ekki koma fram tilboð í opnu útboði eða útboði að undangengnu forvali, eða ef tilboð sem komið hafa fram hafa falið í sér samráð eða ekki samræmst grundvallarkröfum sem gerðar voru í útboðinu, eða ef þau berast frá birgjum sem uppfylla ekki þátttökuskilyrði sem kveðið er á um í samræmi við samning þennan, enda sé kröfum upphaflegs útboðs ekki breytt efnislega í samningnum sem gerður er;

(b)    þegar einungis einn tiltekinn birgir getur látið í té tiltekna vöru eða þjónustu, t.d. ef um er að ræða listaverk eða aðrar aðstæður sem tengjast verndun einkaréttar, svo sem einkaleyfi eða höfundarréttur, eða þegar ekki er um samkeppni að ræða af tæknilegum ástæðum, og ekki er kostur á neinum öðrum raunhæfum valkosti eða vöru eða þjónustu sem getur komið í staðinn;
(c)    að því marki sem brýna nauðsyn ber til, þegar um er að ræða knýjandi aðstæður sem leiðir af atburðum sem aðilinn gat ekki séð fyrir og ekki var hægt að fá vöruna eða þjónustuna tímanlega með opnu útboði eða útboði með forvali;

(d)    þegar um er að ræða viðbótarafgreiðslu frá upphaflegum birgi sem ætlað er annaðhvort að koma að hluta í stað birgða sem fyrir eru, eða búnaðar, eða ætlað að koma til viðbótar birgðum, þjónustu eða búnaði sem fyrir er, eða þar sem skipti á birgja myndu hafa í för með sér að aðilinn yrði að kaupa búnað eða þjónustu sem uppfyllir ekki kröfur um skiptihæfi við tækjabúnað eða þjónustu sem fyrir er 5;
(e)    þegar aðili kaupir frumgerð eða fyrstu vöru eða þjónustu sem þróuð er að beiðni viðkomandi aðila í tengslum við og í þágu tiltekins samnings um rannsókn, tilraun, athugun eða frumþróun. Að slíkum samningum uppfylltum skulu síðari innkaup á vöru eða þjónustu heyra undir VII.–XIV. gr. 6;

(f)    þegar viðbótarbyggingarþjónusta, sem ekki fólst í upphaflega samningnum en var meðal markmiða upphaflegu útboðsgagnanna, hefur af ófyrirsjáanlegum ástæðum orðið nauðsynleg til þess að ljúka byggingarþjónustunni sem þar er lýst, og aðilanum er nauðsynlegt að ganga til samninga um viðbótarverkið við verktakann sem er að veita viðkomandi byggingarþjónustu þar eð aðskilnaður viðbótarbyggingarþjónustunnar frá upphaflega samningnum væri erfiður af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum og hefði í för með sér verulegt óhagræði fyrir aðilann. Hins vegar má heildarverðmæti samninga sem gerðir eru vegna viðbótarbyggingarþjónustunnar ekki fara yfir 50% af andvirði meginsamningsins;

(g)    þegar um er að ræða nýja byggingarþjónustu sem felst í endurtekningu á annarri svipaðri byggingarþjónustu og samræmist tilteknu verkefni sem upphaflega var gerður samningur um skv. VII.–XIV. gr. og þar sem aðilinn gaf til kynna í auglýsingunni um fyrirhuguð innkaup á upphaflegu byggingarþjónustunni að takmarkað útboð kynni að vera notað við samningagerð um slíka nýja byggingarþjónustu;

(h)    þegar um er að ræða vöru sem keypt er á hrávörumarkaði;




5     Skilningurinn er sá að með tækjabúnaði sem fyrir er sé einnig átt við hugbúnað að því marki sem upphafleg kaup á hugbúnaðinum heyrðu undir samning þennan.
6     Frumþróun fyrstu vöru eða þjónustu getur falið í sér takmarkaða framleiðslu eða afhendingu í því skyni að fella inn niðurstöður vettvangsprófana og sýna fram á að varan eða þjónustan sé hæf til framleiðslu eða afhendingar í magni og með viðunandi gæðum. Hún nær ekki til magnframleiðslu eða afhendingar í því skyni að sannreyna markaðshæfi eða til að endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað.

(i)    þegar um er að ræða innkaup sem gerð eru við sérlega hagstæðar aðstæður sem einungis koma upp til mjög skamms tíma. Þessu ákvæði er ætlað að ná til óvenjulegra ráðstafana af hálfu fyrirtækja sem eru ekki að jafnaði birgjar eða ráðstafana á eignum fyrirtækja sem eru í skipta- eða gjaldþrotameðferð. Því er ekki ætlað að ná til venjubundinna kaupa af reglulegum birgjum;
(j)    þegar um er að ræða samninga sem gerðir eru við sigurvegara í hönnunarsamkeppni, enda hafi hönnunarsamkeppnin verið með skipulagi sem samrýmist grundvallarreglum samnings þessa, einkum að því er varðar birtingu, í skilningi IX. gr., á boði til birgja sem uppfylla skilyrði um hæfi til þátttöku í slíkri hönnunarkeppni, og skal keppnin dæmd af óháðri dómnefnd með það fyrir augum að gengið verði til samninga um hönnunina við sigurvegarana.
2.     Aðilar skulu taka saman skriflega skýrslu um sérhvern samning sem gerður er samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Í hverri skýrslu skal koma fram heiti aðilans sem annaðist innkaupin, andvirði og tegund vöru og þjónustu sem var keypt, upprunaland og yfirlýsing um skilyrði þessarar greinar sem giltu. Skýrsla þessi skal vera í vörslu viðkomandi aðila og aðgengileg þeim stjórnvöldum sem bera ábyrgð á aðilanum, til nota ef þörf krefur við málsmeðferð sem kveðið er á um í XVIII., XIX., XX. og XXII. gr.


XVI. gr.
Uppbætur.

1.     Aðilar skulu ekki við vottun og val á birgjum, vörum eða þjónustu, eða við mat á tilboðum og úthlutun samninga, beita, sækjast eftir eða taka mið af uppbótum. 7
2.     Þrátt fyrir framangreint, með hliðsjón af almennum stefnumiðum sem t.d. lúta að þróun, er þróunarlandi heimilt við aðild að samningi þessum að semja um skilyrði fyrir beitingu uppbóta, svo sem kröfum um innihald um uppruna. Slíkum kröfum má aðeins beita í tengslum við ákvörðun á hæfni til þátttöku í útboðsferlinu, en ekki sem viðmiðun við úthlutun samninga. Skilyrði skulu vera hlutlæg og skýrt afmörkuð og skulu ekki fela í sér mismunun. Þau skulu sett fram í I. viðbæti og í þeim mega vera



7     Uppbætur í opinberum innkaupum eru aðgerðir sem notaðar eru til þess að stuðla að byggðaþróun eða bæta viðskiptajöfnuð með kröfum um innihald um uppruna, einkaleyfum á tækni, kröfum um fjárfestingar, kröfum um gagnkvæm kaup eða svipuðum kröfum.

nákvæmar takmarkanir við beitingu uppbóta í samningum sem heyra undir samning þennan. Sé slíkum skilyrðum til að dreifa skulu þau tilkynnt nefndinni og sett fram í tilkynningum um fyrirhuguð innkaup og öðrum gögnum.


XVII. gr.
Gagnsæi.

1.     Sérhver samningsaðili skal hvetja aðila til þess að tilgreina skilmálana og skilyrðin, þ.m.t. öll frávik frá samkeppnisreglum um útboð eða úrræði til þess að kæra verklagsreglur, sem lögð eru til grundvallar við athugun á tilboðum frá birgjum í löndum sem ekki eru aðilar að samningi þessum en sem engu að síður, með það að markmiði að koma á gagnsæi í opinberum innkaupum sínum:
(a)    tilgreina samninga sína samkvæmt VI. gr. (tækniforskriftir);
(b)    birta þær útboðsauglýsingar sem getið er í IX. gr., þ.m.t., í þeirri útgáfu tilkynningarinnar sem getið er í 8. mgr. IX. gr. (ágrip af tilkynningunni um fyrirhuguð innkaup) sem birt er á opinberu tungumáli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, upplýsingar um skilmála og skilyrði sem lögð eru til grundvallar við athugun á tilboðum frá birgjum í löndum sem eru aðilar að samningi þessum;
(c)    eru reiðubúnir að tryggja að útboðsreglur þeirra muni að jafnaði ekki breytast meðan á útboði stendur og ef slík breyting reynist óhjákvæmileg, tryggja að fyrir hendi séu viðunandi úrræði til leiðréttingar.
2.     Ríkjum, sem ekki eru aðilar að samningnum en standast skilyrði a–c-liðar 1. mgr., skal heimilt að taka þátt í störfum nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar ef þeir tilkynna samningsaðilanum um það.


XVIII. gr.
Upplýsingar og endurskoðun varðandi skyldur aðila.

1.     Aðilar skulu birta tilkynningu í viðeigandi riti sem tilgreint er í II. viðbæti eigi síðar en 72 dögum eftir gerð hvers samnings samkvæmt XIII.–XV. gr. Í þessum tilkynningum skal koma fram:
(a)    eðli og magn vöru eða þjónustu sem felst í samningnum;
(b)    nafn og póstfang aðilans sem gerir samninginn;

(c)    dagsetning samningsins;
(d)    nafn og póstfang þess sem fékk samninginn;
(e)    andvirði tilboðsins sem tekið var, eða hæsta eða lægsta boð sem tekið var til greina við gerð samningsins;
(f)    þar sem við á, leiðin til að bera kennsl á tilkynningu sem gefin er út skv. 1. mgr. IX. gr. eða rökstuðningur skv. XV. gr. fyrir því að slík málsmeðferð var notuð; og
(g)    tegund málsmeðferðarinnar sem notuð var.
2.     Sérhver aðili skal, að beiðni birgis í landi samningsaðila, þegar í stað láta í té:
(a)    skýringu á venjum og verklagsreglum sínum varðandi útboð;
(b)    viðeigandi upplýsingar varðandi ástæður þess að umsókn birgis um að teljast hæfur til þátttöku var hafnað, að hann taldist ekki lengur hæfur og hvers vegna hann var ekki valinn; og

(c)    ef um er að ræða bjóðanda sem ekki var valinn, viðeigandi upplýsingar um ástæður þess að tilboð hans var ekki valið og um eiginleika og kosti tilboðsins sem fyrir valinu varð í samanburði við önnur tilboð, svo og nafn bjóðandans sem var valinn.
3.     Aðilar skulu þegar í stað upplýsa birgja sem þátt tóku um ákvarðanir um gerð samninga, skriflega sé þess óskað.
4.     Engu að síður er aðilum heimilt að ákveða að synja um tilteknar upplýsingar um val tilboða, sem getið er í 1. mgr. og c-lið 2. mgr., ef birting slíkra upplýsinga gæti hindrað framkvæmd laga eða væri á annan hátt andstæð almannahagsmunum eða skaðaði lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja í eigu hins opinbera eða í einkaeign, eða gæti skaðað réttmæta samkeppni milli birgja.

XIX. gr.
Upplýsingar og endurskoðun varðandi skyldur samningsaðila.

1.     Sérhver samningsaðili skal þegar í stað birta öll lög, reglugerðir, dómsniðurstöður, stjórnsýsluákvarðanir með almennt gildi og allar reglur um málsmeðferð (þ.m.t. stöðluð samningsákvæði), sem varða opinber innkaup er heyra undir samning þennan, í viðeigandi riti í skránni í IV. viðbæti og með þeim hætti að aðrir samningsaðilar og birgjar geti kynnt sér þau. Sérhver samningsaðili skal vera reiðubúinn að skýra fyrir öðrum samningsaðilum málsmeðferð sína við opinber innkaup, sé þess óskað.
2.     Ef tilboði bjóðanda er hafnað er ríkisstjórn samningsaðila heimilt, með fyrirvara um ákvæði XXII. gr., að fara fram á viðbótarupplýsingar um samninginn sem kunna að vera nauðsynlegar til að ganga úr skugga um að innkaupin hafi farið með sanngjörnum og óvilhöllum hætti. Í þessu skyni skal ríkisstjórnin sem innkaupin gerði veita upplýsingar um bæði eiginleika og kosti tilboðsins, sem fyrir valinu varð, í samanburði við önnur tilboð og andvirði samningsins. Að öðru jöfnu er ríkisstjórn í landi bjóðandans sem var hafnað heimilt að birta þessar upplýsingar, enda sé þessa réttar neytt í hófi. Í tilvikum þar sem birting þessara upplýsinga myndi stefna í hættu samkeppni í síðari útboðum skulu upplýsingarnar ekki birtar nema að höfðu samráði og að fengnu samþykki samningsaðilans sem lét ríkisstjórninni í landi bjóðandans, sem hafnað var, upplýsingarnar té.
3.     Fyrirliggjandi upplýsingar um innkaup aðila sem heyra undir samning þennan og einstaka samninga þeirra skulu veittar öðrum samningsaðilum, sé þess óskað.
4.     Trúnaðarupplýsingar sem veittar eru samningsaðila og sem myndu hindra framgang réttvísinnar eða stríða með öðrum hætti gegn almannahagsmunum, eða myndu stefna í hættu lögmætum viðskiptahagsmunum tiltekinna fyrirtækja, opinberra eða í einkaeign, eða gætu skaðað réttmæta samkeppni milli birgja, skulu ekki birtar nema með formlegu leyfi þess aðila sem upplýsingarnar veitir.
5.     Sérhver samningsaðili skal taka saman og láta nefndinni árlega í té tölfræðilegar upplýsingar um innkaup sín sem heyra undir samning þennan. Í slíkum skýrslum skulu vera eftirfarandi upplýsingar varðandi samninga sem allir aðilar, sem heyra undir samning þennan, gera:
(a)    að því er varðar aðila í 1. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um áætlað andvirði samninga sem gerðir eru, bæði yfir og undir viðmiðunarfjárhæðinni, á heildargrundvelli og sundurliðaðar eftir aðilum; að því er varðar aðila í 2. og 3. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um áætlað virði samninga yfir viðmiðunarfjárhæðum á heildargrundvelli, sundurliðaðar eftir flokkum aðila;
(b)    að því er varðar aðila í 1. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um fjölda og heildarverðmæti samninga sem úthlutað er yfir viðmiðunarfjárhæðinni, sundurliðaðar eftir aðilum og vöru- og þjónustuflokkum samkvæmt samræmdum flokkunarkerfum; að því er varðar aðila í 2. og 3. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um samninga sem gerðir eru yfir viðmiðunarfjárhæðinni, sundurliðaðar eftir flokkum aðila og vöru- og þjónustuflokkum;
(c)    að því er varðar aðila í 1. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar, sundurliðaðar eftir aðilum og eftir vöru- og þjónustuflokkum, um fjölda og heildarverðmæti samninga sem gerðir eru samkvæmt sérhverju tilviki sem fjallað er um í XV. gr.; að því er varðar flokka aðila í 2. og 3. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um heildarverðmæti samninga sem gerðir eru yfir viðmiðunarfjárhæðum eftir hverju tilviki sem fjallað er um í XV. gr.; og
(d)    að því er varðar aðila í 1. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar, sundurliðaðar eftir aðilum, um fjölda og heildarverðmæti samninga sem gerðir eru samkvæmt undanþágunum frá samningnum sem fram eru settar í viðeigandi viðaukum; að því er varðar flokka aðila í 2. og 3. viðauka, tölfræðilegar upplýsingar um heildarverðmæti samninga sem gerðir eru samkvæmt undanþágum frá samningnum sem fram eru settar í viðeigandi viðaukum.
Að því marki sem slíkar upplýsingar eru tiltækar skal sérhver samningsaðili veita tölfræðilegar upplýsingar um uppruna vöru og þjónustu sem aðilar hans kaupa. Með það fyrir augum að tryggja að slíkar tölfræðilegar upplýsingar séu samanburðarhæfar skal nefndin veita leiðbeiningar um aðferðirnar sem nota ber. Til þess að tryggja skilvirkt eftirlit með innkaupum sem heyra undir samning þennan, getur nefndin ákveðið einróma að breyta kröfunum í a–d- lið að því er varðar eðli og umfang þeirra tölfræðilegu upplýsinga sem ber að veita og sundurliðun og flokkunina sem nota ber.

XX. gr.
Úrlausn ágreiningsmála.

Samráð.
1.     Ef birgir kvartar um brot á samningi þessum að því er varðar innkaup skal sérhver samningsaðili hvetja birginn til þess að leita lausnar á kvörtunarefninu í samráði við innkaupaaðilann. Í slíkum tilvikum skal innkaupaaðilinn bregðast við kvörtuninni með tímanlegum og óvilhöllum hætti, þannig að ekki skerðist möguleikar til þess að ná fram leiðréttingu samkvæmt hinu formlega kæruferli.


Kæra.
2.     Sérhver samningsaðili skal kveða á um málsmeðferð sem felur ekki í sér mismunun, er skjótvirk, gagnsæ og skilvirk og gerir birgjum kleift að kæra meint brot gegn samningi þessum í tengslum við innkaup þar sem þeir eiga eða hafa átt hagsmuna að gæta.
3.     Sérhver samningsaðili skal setja fram málsmeðferðarreglur sínar um kærumál með skriflegum hætti og tryggja almennt aðgengi að þeim.
4.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að skjöl, sem varða allar hliðar útboðsferlis sem heyrir undir samning þennan, séu varðveitt í þrjú ár.

5.     Gera má kröfu um að birgir sem hagsmuna á að gæta hefji málsmeðferð við kæru og tilkynni það viðkomandi innkaupaaðila innan ákveðins frests frá því að forsendur kærurnar eru kunnar, eða frá því að með sanngirni má ætla að þær hafi verið kunnar, en þó skal sá frestur aldrei vera skemmri en 10 dagar.
6.     Kærumál skulu flutt fyrir dómstóli eða fyrir óvilhöllum og óháðum úrskurðaraðila sem á engra hagsmuna að gæta varðandi lyktir innkaupanna og skulu allir fulltrúar úrskurðaraðilans varðir fyrir utanaðkomandi áhrifum á skipunartíma sínum. Úrskurðaraðili sem ekki er dómstóll skal annaðhvort háður eftirliti dómstóla eða starfa samkvæmt málsmeðferðarreglum þar sem kveðið er á um að:
(a)    hlýða megi á málsaðila áður en áliti er skilað eða úrskurður felldur;
(b)    málsaðilar geti sent fyrir sig eða haft í fylgd með sér fulltrúa;
(c)    málsaðilar hafi aðgang að allri málsmeðferðinni;
(d)    málsmeðferð geti átt sér stað fyrir opnum tjöldum;
(e)    álitsgerðir eða úrskurðir séu skriflegir og skal yfirlýsing með rökstuðningi fylgja þeim;

(f)    leiða megi fram vitni;
(g)    gögn séu lögð fyrir úrskurðaraðilann.
7     Í málsmeðferðarreglum um kærumál skal kveða á um:
(a)    skjótvirkar bráðabirgðaráðstafanir til að leiðrétta brot gegn samningi þessum og vernda viðskiptatækifæri. Slíkar aðgerðir geta leitt til frestunar á útboðsferlinu. Hins vegar má kveða á um það í málsmeðferðarreglum að taka megi tillit til ríkari neikvæðra afleiðinga fyrir þá hagsmuni sem um er að ræða, þ.m.t. almannahagsmuni, þegar ákvörðun er tekin um hvort slíkum ráðstöfunum er beitt. Í slíkum tilvikum skal færa skriflega rök fyrir forsendu þess að ekkert var aðhafst;
(b)    mat og möguleika á úrskurði um réttmæti kröfunnar;
(c)    leiðréttingu á brotinu eða bætur fyrir tap eða tjón sem af hlaust, sem getur takmarkast við kostnað af undirbúningi tilboðs eða kæru.

8.     Með það að markmiði að vernda viðskiptahagsmuni og aðra hagsmuni sem um ræðir skal kæruferlinu að jafnaði lokið með skjótum hætti.


XXI. gr.
Stofnanir.

1.     Stofna skal nefnd um opinber innkaup þar sem eiga sæti fulltrúar frá hverjum samningsaðila. Nefndin skal kjósa sér formann og varaformann og koma saman eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en einu sinni á ári, til þess að gefa samningsaðilum tækifæri til samráðs um hvers kyns mál er varða framkvæmd samnings þessa eða framgang markmiða hans, og til þess að vinna önnur störf sem samningsaðilar kunna að fela henni.

2.     Nefndin getur komið á fót vinnuhópum eða öðrum undirhópum til að vinna störf sem nefndin felur þeim.


XXII. gr.
Samráð og lausn deilumála.

1.     Ákvæði samkomulagsins um reglur og málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina (hér á eftir nefnt „samkomulagið um lausn deilumála“) skulu gilda að öðru leyti en því sem sérstaklega er kveðið á um hér á eftir.
2.     Telji samningsaðili að ávinningur sem honum ber, beint eða óbeint, samkvæmt samningi þessum sé gerður að engu eða skertur, eða að komið sé í veg fyrir að einhver markmið samnings þessa náist með því að annar samningsaðili eða aðrir samningsaðilar vanrækja skyldur sínar samkvæmt samningnum, eða vegna einhverra ráðstafana sem annar samningsaðili eða aðrir samningsaðilar beita, hvort sem þær stríða gegn ákvæðum samnings þessa eða ekki, getur viðkomandi samningsaðili lagt fram yfirlýsingar eða tillögur fyrir hinn samningsaðilann eða hina samningsaðilana sem hann telur að eigi í hlut með það fyrir augum að ná fram lausn á máli sem gagnkvæmt samkomulag er um. Sé gripið til þessa ráðs skal þegar í stað tilkynnt um það til nefndarinnar um lausn deilumála sem stofnuð er samkvæmt samkomulaginu um lausn deilumála, með þeim hætti sem greinir hér að neðan. Sérhver samningsaðili, sem berst slík yfirlýsing eða tillaga, skal taka hana til velviljaðrar athugunar.
3.     Nefndin um lausn deilumála skal hafa vald til þess að stofna dómnefndir, samþykkja skýrslur dómnefnda og áfrýjunarnefnda, setja fram tilmæli eða skila úrskurðum um mál, halda uppi eftirliti með framkvæmd úrskurða og tilmæla og heimila frestun á ívilnunum og öðrum skuldbindingum samkvæmt samningi þessum eða viðræðufundi um úrbætur þegar ekki reynist unnt að afturkalla ráðstafanir sem reynast vera í andstöðu við samning þennan, enda skuli einungis aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem eru aðilar að samningi þessum taka þátt í ákvörðunum eða aðgerðum nefndarinnar um lausn deilumála varðandi deilur er falla undir samning þennan.
4.     Dómnefndir skulu hafa eftirfarandi umboð, nema deiluaðilar samþykki annað innan 20 daga frá því að dómnefndin er skipuð:
        „Að skoða, í ljósi viðeigandi ákvæða samnings þessa og (heiti annarra samninga sem heyra undir samning þennan og deiluaðilar vitna til), það mál sem vísað er til nefndarinnar um lausn deilumála af (heiti aðila) í skjali … og skila niðurstöðum sem verða nefndarinni um lausn deilumála til stuðnings við að beina þeim tilmælum eða skila þeim úrskurðum sem kveðið er á um í samningi þessum.“
Þegar um er að ræða deilu þar sem vísað er bæði til ákvæða í samningi þessum og til ákvæða í einum eða fleiri öðrum samningum sem getið er í 1. viðauka við samkomulagið um lausn deilumála af hálfu eins eða fleiri deiluaðila skal 3. mgr. einungis eiga við þá hluta af skýrslu dómnefndarinnar sem varðar túlkun og framkvæmd samnings þessa.
5.     Í dómnefndum sem nefndin um lausn deilumála skipar til þess að fjalla um deilur samkvæmt samningi þessum skulu sitja aðilar sem hafa faglega þekkingu á sviði opinberra innkaupa.
6.     Allt kapp skal lagt á að hraða málsmeðferð eins og kostur er. Þrátt fyrir ákvæði 8. og 9. mgr. 12. gr. samkomulagsins um lausn deilumála skal dómnefndin leitast við að skila lokaskýrslu sinni til deiluaðila eigi síðar en fjórum mánuðum, og ef töf verður þá eigi síðar en sjö mánuðum, eftir þann dag sem skipan og umboð dómnefndarinnar eru samþykkt. Þannig skal allt kapp lagt á að stytta einnig um tvo mánuði þau tímabil sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 20. gr. og 4. mgr. 21. gr. samkomulaginsins um lausn deilumála. Enn fremur, og þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 21. gr. samkomulagsins um lausn deilumála, skal dómnefndin leitast við að birta niðurstöðu sína innan 60 daga, þegar um er að ræða ágreining um tilvist ráðstafana sem gripið var til í því skyni að fylgja tilmælum eða úrskurðum, eða samræmi þeirra við samning sem heyrir undir samning þennan.


7.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 22. gr. samkomulagsins um lausn deilumála, skal deila sem rís á grundvelli samnings sem getið er í I. viðbæti við samkomulagið um lausn deilumála, annars en þessa samnings, ekki leiða til frestunar á ívilnunum eða öðrum skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og deila sem rís á grundvelli þessa samnings skal ekki leiða til frestunar á ívilnunum eða öðrum skuldbindingum samkvæmt neinum öðrum samningi sem getið er í fyrrnefndum I. viðbæti.

XXIII. gr.
Undantekningar frá samningnum.

1.     Ekkert í samningi þessum skal túlkað svo að það komi í veg fyrir að samningsaðili grípi til einhverra aðgerða eða hafni því að birta upplýsingar eftir því sem hann telur nauðsynlegt til þess að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína sem tengjast innkaupum á vopnum, skotfærum eða herbúnaði, eða innkaupum sem eru óhjákvæmileg vegna þjóðaröryggis eða landvarna.
2.     Með fyrirvara um að slíkum aðgerðum sé ekki beitt með þeim hætti að um væri að ræða aðferð til gerræðislegrar eða óréttlætanlegrar mismununar landa þar sem sömu aðstæður ríkja, eða duldar hömlur gegn alþjóðlegum viðskiptum, skal ekkert í samningi þessum túlkað svo að það komi í veg fyrir að samningsaðili grípi til aðgerða eða framfylgi ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til þess að vernda allsherjarreglu eða öryggi, líf eða heilsu manna, dýra eða plantna eða hugverkarétt, eða ráðstafanir sem tengjast vöru eða þjónustu öryrkja eða góðgerðarstofnana eða afurðum af fangelsisvinnu.

XXIV. gr.
Lokaákvæði.

1.     Staðfesting og gildistaka.
    Samningur þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 að því er varðar þær ríksstjórnir 8 sem skilað hafa samþykktum gildissviðsskrám inn í 1.–5. viðauka í I. viðbæti við samning þennan, og sem hafa með undirritun staðfest samninginn hinn 15. apríl 1994 eða hafa á þeim degi undirritað samninginn með fyrirvara um fullgildingu og síðan fullgilt samninginn fyrir 1. janúar 1996.
2.     Aðild.
    Sérhver ríkisstjórn sem er aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, eða, meðan samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina hefur ekki öðlast gildi, sem er aðili að GATT-samkomulaginu 1947 og sem er ekki aðili að samningi þessum, getur gerst aðili að samningi þessum með skilmálum sem samkomulag tekst um milli viðkomandi ríkisstjórnar og samningsaðila. Aðild á sér stað með því að aðildarskjal er afhent framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til vörslu þar sem fram koma skilmálarnir sem samkomulag hefur tekist um. Samningur þessi öðlast gildi að því er varðar ríkisstjórnina, sem þannig gerist aðili, á þrítugasta degi eftir aðild hennar að samningnum.
3.     Bráðabirgðaákvæði.
(a)    Hong Kong og Kóreu er heimilt að fresta gildistöku ákvæða samnings þessa, nema XXI. og XXII. gr., til 1. janúar 1997, í síðasta lagi. Gildistökudagur þeirra, ef hann verður fyrir 1. janúar 1997, skal tilkynntur framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar með 30 daga fyrirvara.

8     Í samningi þessum falla þar til bær stjórnvöld hjá Evrópubandalögunum undir hugtakið ríkisstjórn.

(b)    Á tímabilinu frá því að samningur þessi öðlast gildi og fram til þess að Hong Kong byrjar að beita honum skulu réttindi og skyldur milli Hong Kong og allra annarra aðila að samningi þessum, sem voru 15. apríl 1994 aðilar að samningnum um opinber innkaup sem gerður var í Genf 12. apríl 1979, með áorðnum breytingum frá 2. febrúar 1987 (samningurinn frá 1988), fara eftir efnisákvæðum 9 samningsins frá 1988, að meðtöldum viðaukum hans með lagfæringum og leiðréttingum, en þessi ákvæði eru tekin upp í samning þennan með tilvísun til þeirra í þeim tilgangi og skulu þau gilda til 31. desember 1996.
(c)    Milli aðila að samningi þessum, sem einnig eru aðilar að samningnum frá 1988, skulu réttindi og skyldur í þessum samningi koma í stað réttinda og skyldna samkvæmt samningnum frá 1988.
(d)    XXII. gr. öðlast ekki gildi fyrr enn þann dag sem samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina öðlast gildi. Fram til þess tíma skulu ákvæði VII. gr. samningsins frá 1988 gilda um samráð og lausn deilumála samkvæmt samningi þessum, en þau ákvæði eru hér með tekin upp í þennan samning með tilvísun til þeirra í þeim tilgangi. Ákvæðum þessum skal beitt á vegum nefndarinnar sem skipuð er samkvæmt samningi þessum.
(e)    Áður en samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina öðlast gildi ber að skilja tilvísanir til stofnana Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar svo að þær eigi við samsvarandi stofnanir GATT og tilvísanir til framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og aðalskrifstofu hennar ber að skilja sem tilvísanir til framkvæmdastjóra samningsaðila GATT-samkomulagsins frá 1947 og til aðalskrifstofu GATT.
4.      Fyrirvarar.
    Ekki er heimilt að gera fyrirvara við nein ákvæði samnings þessa.
5.      Innlend löggjöf.
(a)    Sérhver ríkisstjórn, sem staðfestir þennan samning eða gerist aðili að honum skal tryggja, eigi síðar en þann dag sem samningurinn öðlast gildi að því er hana varðar, að lög í heimaríki hennar, reglugerðir og stjórnsýsluframkvæmd, svo og reglur, verklag og starfshættir aðila sem getið er í gildissviðsskrám viðkomandi ríkisstjórnar sem fylgja þessum samningi, samræmist ákvæðum hans.

9     Öll ákvæði samningsins frá 1988 nema inngangurinn, VII. gr. og IX gr. fyrir utan a- og b-lið 5. mgr. og 10. mgr.

(b)    Sérhver aðili skal upplýsa nefndina um hvers kyns breytingar sem verða á lögum og reglum í heimaríki hans sem varða þennan samning og um framkvæmd slíkra laga og reglna.
6.      Leiðréttingar eða breytingar.
(a)    Leiðréttingar, tilfærslur aðila frá einum viðauka í annan, eða, í undantekningartilvikum, aðrar breytingar sem varða I.–IV. viðbæti skulu tilkynntar nefndinni og skulu fylgja tilkynningunni upplýsingar um líklegar afleiðingar breytingarinnar fyrir gildisumfang sem gagnkvæmt samkomulag er um og kveðið er á um í þessum samningi. Ef leiðréttingar, tilfærslur eða aðrar breytingar eru einungis formlegs eðlis eða minni háttar skulu þær taka gildi ef engin mótmæli hafa borist innan þrjátíu daga. Í öðrum tilvikum skal nefndarformaður þegar í stað kalla saman nefndarfund. Nefndin skal fara yfir tillöguna og allar kröfur um breytingar til úrbóta með það fyrir augum að viðhalda jafnvægi réttinda og skyldna og sambærilegu gagnkvæmu gildisumfangi og gert var ráð fyrir í samningi þessum áður en tilkynningin barst. Ef ekki næst samkomulag má fara með málið samkvæmt ákvæðum XXII. gr.


(b)    Vilji aðili neyta réttar síns til þess að draga til baka aðila úr I. viðbæti á þeim forsendum að ríkisumsjá eða ríkisáhrifum hafi í raun verið aflétt, skal viðkomandi aðili tilkynna um það til nefndarinnar. Slík breyting skal taka gildi daginn eftir lok næsta fundar nefndarinnar, enda sé fundurinn eigi haldinn fyrr en 30 dögum eftir tilkynninguna og að því tilskildu að engin mótmæli hafi borist. Ef mótmæli berast má fara með málið samkvæmt málsmeðferðarreglum um samráð og lausn deilumála í XXII. gr. Við umfjöllun um tillögur um breytingar á I. viðbæti og hvers kyns leiðréttingar í framhaldi af því skal taka tillit til markaðsopnunaráhrifa sem leiða af því að ríkisumsjá eða ríkisáhrifum er aflétt.


7.      Endurskoðun, viðræður og síðari vinna.
(a)    Nefndin skal árlega endurskoða framkvæmd og beitingu samnings þessa með tilliti til markmiða hans. Nefndin skal árlega upplýsa aðalráð Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framvindu mála á þeim tímabilum sem endurskoðunin nær til.
(b)    Eigi síðar en í lok þriðja árs frá því að samningur þessi öðlast gildi og með reglubundnum hætti þar á eftir skulu aðilar að samningi þessum eiga með sér frekari viðræður með það fyrir augum að bæta samning þennan og auka umfang hans sem mest meðal allra aðila á gagnkvæmisgrundvelli, með hliðsjón af ákvæðum V. gr. varðandi þróunarlönd.

(c)    Samningsaðilar skulu leitast við að forðast að koma fram með eða framlengja aðgerðir og starfshætti sem fela í sér mismunun og skekkja opin útboð og skulu þeir jafnframt, í tengslum við viðræður samkvæmt b-lið hér að framan, leitast við að uppræta slíkar aðgerðir og starfshætti sem enn eru við lýði á gildistökudegi samnings þessa.
8.      Upplýsingatækni.
    Með það fyrir augum að tryggja að samningur þessi feli ekki í sér óþarfa hindrun gegn tækniframförum skulu samningsaðilar eiga reglulegt samráð innan nefndarinnar varðandi þróun í notkun upplýsingatækni við opinber innkaup og skulu þeir, ef þörf krefur, koma sér saman um lagfæringar á samningnum. Slíkar viðræður skulu sér í lagi miða að því að tryggja að notkun upplýsingatækni stuðli að markmiðum opinna útboða án mismununar og skilvirkum opinberum innkaupum með gagnsæjum verklagsreglum, að innkaupasamningar sem heyra undir samning þennan séu skýrt tilgreindir sem slíkir og að bera megi kennsl á allar fáanlegar upplýsingar er varða tiltekna samninga. Þegar samningsaðili hyggst koma fram með nýjungar skal hann leitast við að taka tillit til sjónarmiða sem aðrir samningsaðilar setja fram varðandi hugsanleg vandamál.
9.      Breytingar.
    Samningsaðilum er heimilt að breyta samningi þessum, m.a. með hliðsjón af reynslu sem fengin er af framkvæmd hans. Slík breyting skal ekki öðlast gildi að því er neinn samningsaðila varðar fyrr en hún hefur verið staðfest af viðkomandi samningsaðila, enda hafi aðilar náð samkomulagi í samræmi við verklagsreglur sem nefndin hefur sett.
10.     Uppsögn.
(a)    Sérhverjum samningsaðila er heimilt að segja upp samningnum. Uppsögnin öðlast gildi að 60 dögum liðnum frá þeim degi sem skrifleg tilkynning um uppsögn berst framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Sérhverjum samningsaðila er heimilt að krefjast fundar í nefndinni þegar í stað eftir að slík tilkynning hefur borist.
(b)    Gerist aðili að samningi þessum ekki aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni innan árs frá gildistökudegi samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, eða segi hann upp aðild sinni að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, telst viðkomandi ekki lengur aðili að samningi þessum frá þeim degi.
11.      Frávik frá beitingu samnings þessa milli tiltekinna samningsaðila.
    Samningi þessum skal ekki beitt milli tveggja samningsaðila ef annar aðilinn samþykkir ekki slíka beitingu á þeim tíma sem hann annaðhvort staðfestir samning þennan eða gerist aðili að honum.
12.      Skýringar, viðbætar og viðaukar.
    Skýringar, viðbætar og viðaukar við samning þennan teljast óaðskiljanlegir hlutar hans.
13.     Skrifstofa.
    Þjónusta í tengslum við samning þennan er veitt af aðalskrifstofu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
14.      Varsla.
    Samningur þessi skal varðveittur hjá framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem skal þegar í stað láta sérhverjum samningsaðila í té staðfest rétt eintak af samningnum, af sérhverri leiðréttingu eða lagfæringu á honum skv. 6. mgr., og af sérhverri breytingu á honum skv. 9. mgr., svo og tilkynningu um sérhverja staðfestingu á honum eða aðild að honum skv. 1. og 2. mgr. og sérhverja uppsögn hans skv. 10. mgr. þessarar greinar.

15.      Skráning.
    Samning þennan skal skrá samkvæmt ákvæðum 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.


     Gjört í Marakess 15. apríl 1994 í einu eintaki, á ensku, frönsku og spænsku og eru allir textarnir jafngildir, nema að því leyti sem kveðið er á um annað að því er varðar viðbæta við samning þennan.


SKÝRINGAR

    Hugtökin „land“ eða „lönd“, eins og þau eru notuð í þessum samningi, þ.m.t. viðbætarnir og viðbætunum, ber að skilja svo að þau nái til sérstakra tollsvæði sem eru aðilar að þessum samningi.
    Að því er varðar sérstakt tollsvæði sem er aðili að þessum samningi ber að líta svo á að orðið „innlent“, þegar það er notað í þessum samningi, eigi við um það tollsvæði, nema annað sé tilgreint.


1. mgr. 1. gr.
    Með tilliti til almennra stefnumiða er varða skilyrta þróunaraðstoð, þ.m.t. markmið þróunarlanda varðandi afléttingu skilyrða af slíkri aðstoð, gildir samningur þessi ekki um innkaup sem gerð eru í þágu skilyrtrar aðstoðar við þróunarlönd meðan slík aðstoð er veitt af samningsaðilum.

AGREEMENT ON GOVERNMENT PROCUREMENT


     Parties to this Agreement (hereinafter referred to as “Parties”),

     Recognizing the need for an effective multilateral framework of rights and obligations with respect to laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement with a view to achieving greater liberalization and expansion of world trade and improving the international framework for the conduct of world trade;

     Recognizing that laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement should not be prepared, adopted or applied to foreign or domestic products and services and to foreign or domestic suppliers so as to afford protection to domestic products or services or domestic suppliers and should not discriminate among foreign products or services or among foreign suppliers;

     Recognizing that it is desirable to provide transparency of laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement;

     Recognizing the need to establish international procedures on notification, consultation, surveillance and dispute settlement with a view to ensuring a fair, prompt and effective enforcement of the international provisions on government procurement and to maintain the balance of rights and obligations at the highest possible level;

     Recognizing the need to take into account the development, financial and trade needs of developing countries, in particular the least-developed countries;

     Desiring, in accordance with paragraph 6(b) of Article IX of the Agreement on Government Procurement done on 12 April 1979, as amended on 2 February 1987, to broaden and improve the Agreement on the basis of mutual reciprocity and to expand the coverage of the Agreement to include service contracts;

     Desiring to encourage acceptance of and accession to this Agreement by governments not party to it;

     Having undertaken further negotiations in pursuance of these objectives;

    Hereby agree as follows:

Article I
Scope and Coverage

1.     This Agreement applies to any law, regulation, procedure or practice regarding any procurement by entities covered by this Agreement, as specified in Appendix I. 1
2.     This Agreement applies to procurement by any contractual means, including through such methods as purchase or as lease, rental or hire purchase, with or without an option to buy, including any combination of products and services.
3.     Where entities, in the context of procurement covered under this Agreement, require enterprises not included in Appendix I to award contracts in accordance with particular requirements, Article III shall apply mutatis mutandis to such requirements.
4.     This Agreement applies to any procurement contract of a value of not less than the relevant threshold specified in Appendix I.

Article II
Valuation of Contracts

1.     The following provisions shall apply in determining the value of contracts 2 for purposes of implementing this Agreement.
2.     Valuation shall take into account all forms of remuneration, including any premiums, fees, commissions and interest receivable.



1     For each Party, Appendix I is divided into five Annexes:
–    Annex 1 contains central government entities.
–    Annex 2 contains sub-central government entities.
–    Annex 3 contains all other entities that procure in accordance with the provisions of this Agreement.
–    Annex 4 specifies services, whether listed positively or negatively, covered by this Agreement.
–    Annex 5 specifies covered construction services.
Relevant thresholds are specified in each Party's Annexes.
2     This Agreement shall apply to any procurement contract for which the contract value is estimated to equal or exceed the threshold at the time of publication of the notice in accordance with Article IX.

3.     The selection of the valuation method by the entity shall not be used, nor shall any procurement requirement be divided, with the intention of avoiding the application of this Agreement.
4.     If an individual requirement for a procurement results in the award of more than one contract, or in contracts being awarded in separate parts, the basis for valuation shall be either:
(a)    the actual value of similar recurring contracts concluded over the previous fiscal year or 12 months adjusted, where possible, for anticipated changes in quantity and value over the subsequent 12 months; or

(b)    the estimated value of recurring contracts in the fiscal year or 12 months subsequent to the initial contract.
5.     In cases of contracts for the lease, rental or hire purchase of products or services, or in the case of contracts which do not specify a total price, the basis for valuation shall be:
(a)    in the case of fixed-term contracts, where their term is 12 months or less, the total contract value for their duration, or, where their term exceeds 12 months, their total value including the estimated residual value;

(b)    in the case of contracts for an indefinite period, the monthly instalment multiplied by 48.
If there is any doubt, the second basis for valuation, namely (b), is to be used.
6.     In cases where an intended procurement specifies the need for option clauses, the basis for valuation shall be the total value of the maximum permissible procurement, inclusive of optional purchases.

Article III
National Treatment and Non-discrimination

1.     With respect to all laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Agreement, each Party shall provide immediately and unconditionally to the products, services and suppliers of other Parties offering products or services of the Parties, treatment no less favourable than:
(a)    that accorded to domestic products, services and suppliers; and
(b)    that accorded to products, services and suppliers of any other Party.
2.     With respect to all laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Agreement, each Party shall ensure:
(a)    that its entities shall not treat a locally-established supplier less favourably than another locally-established supplier on the basis of degree of foreign affiliation or ownership; and

(b)    that its entities shall not discriminate against locally-established suppliers on the basis of the country of production of the good or service being supplied, provided that the country of production is a Party to the Agreement in accordance with the provisions of Article IV.
3.     The provisions of paragraphs 1 and 2 shall not apply to customs duties and charges of any kind imposed on or in connection with importation, the method of levying such duties and charges, other import regulations and formalities, and measures affecting trade in services other than laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Agreement.

Article IV
Rules of Origin

1.     A Party shall not apply rules of origin to products or services imported or supplied for purposes of government procurement covered by this Agreement from other Parties, which are different from the rules of origin applied in the normal course of trade and at the time of the transaction in question to imports or supplies of the same products or services from the same Parties.
2.     Following the conclusion of the work programme for the harmonization of rules of origin for goods to be undertaken under the Agreement on Rules of Origin in Annex 1A of the Agreement Establishing the World Trade Organization (hereinafter referred to as “WTO Agreement”) and negotiations regarding trade in services, Parties shall take the results of that work programme and those negotiations into account in amending paragraph 1 as appropriate.

Article V
Special and Differential Treatment for Developing Countries

Objectives
1.     Parties shall, in the implementation and administration of this Agreement, through the provisions set out in this Article, duly take into account the development, financial and trade needs of developing countries, in particular least-developed countries, in their need to:
(a)    safeguard their balance-of-payments position and ensure a level of reserves adequate for the implementation of programmes of economic development;
(b)    promote the establishment or development of domestic industries including the development of small-scale and cottage industries in rural or backward areas; and economic development of other sectors of the economy;
(c)    support industrial units so long as they are wholly or substantially dependent on government procurement; and
(d)    encourage their economic development through regional or global arrangements among developing countries presented to the Ministerial Conference of the World Trade Organization (hereinafter referred to as the “WTO”) and not disapproved by it.
2.     Consistently with the provisions of this Agreement, each Party shall, in the preparation and application of laws, regulations and procedures affecting government procurement, facilitate increased imports from developing countries, bearing in mind the special problems of least-developed countries and of those countries at low stages of economic development.

Coverage
3.     With a view to ensuring that developing countries are able to adhere to this Agreement on terms consistent with their development, financial and trade needs, the objectives listed in paragraph 1 shall be duly taken into account in the course of negotiations with respect to the procurement of developing countries to be covered by the provisions of this Agreement. Developed countries, in the preparation of their coverage lists under the provisions of this Agreement, shall endeavour to include entities procuring products and services of export interest to developing countries.

Agreed Exclusions.
4.     A developing country may negotiate with other participants in negotiations under this Agreement mutually acceptable exclusions from the rules on national treatment with respect to certain entities, products or services that are included in its coverage lists, having regard to the particular circumstances of each case. In such negotiations, the considerations mentioned in subparagraphs 1(a) through 1(c) shall be duly taken into account. A developing country participating in regional or global arrangements among developing countries referred to in subparagraph 1(d) may also negotiate exclusions to its lists, having regard to the particular circumstances of each case, taking into account, inter alia, the provisions on government procurement provided for in the regional or global arrangements concerned and, in particular, products or services which may be subject to common industrial development programmes.

5.     After entry into force of this Agreement, a developing country Party may modify its coverage lists in accordance with the provisions for modification of such lists contained in paragraph 6 of Article XXIV, having regard to its development, financial and trade needs, or may request the Committee on Government Procurement (hereinafter referred to as “the Committee”) to grant exclusions from the rules on national treatment for certain entities, products or services that are included in its coverage lists, having regard to the particular circumstances of each case and taking duly into account the provisions of subparagraphs 1(a) through 1(c). After entry into force of this Agreement, a developing country Party may also request the Committee to grant exclusions for certain entities, products or services that are included in its coverage lists in the light of its participation in regional or global arrangements among developing countries, having regard to the particular circumstances of each case and taking duly into account the provisions of subparagraph 1(d). Each request to the Committee by a developing country Party relating to modification of a list shall be accompanied by documentation relevant to the request or by such information as may be necessary for consideration of the matter.
6.     Paragraphs 4 and 5 shall apply mutatis mutandis to developing countries acceding to this Agreement after its entry into force.
7.     Such agreed exclusions as mentioned in paragraphs 4, 5 and 6 shall be subject to review in accordance with the provisions of paragraph 14 below.

Technical Assistance for Developing Country Parties
8.     Each developed country Party shall, upon request, provide all technical assistance which it may deem appropriate to developing country Parties in resolving their problems in the field of government procurement.
9.     This assistance, which shall be provided on the basis of non-discrimination among developing country Parties, shall relate, inter alia, to:
          the solution of particular technical problems relating to the award of a specific contract; and
          any other problem which the Party making the request and another Party agree to deal with in the context of this assistance.
10.     Technical assistance referred to in paragraphs 8 and 9 would include translation of qualification documentation and tenders made by suppliers of developing country Parties into an official language of the WTO designated by the entity, unless developed country Parties deem translation to be burdensome, and in that case explanation shall be given to developing country Parties upon their request addressed either to the developed country Parties or to their entities.

Information Centres
11.     Developed country Parties shall establish, individually or jointly, information centres to respond to reasonable requests from developing country Parties for information relating to, inter alia, laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement, notices about intended procurements which have been published, addresses of the entities covered by this Agreement, and the nature and volume of products or services procured or to be procured, including available information about future tenders. The Committee may also set up an information centre.

Special Treatment for Least-Developed Countries

12.     Having regard to paragraph 6 of the Decision of the CONTRACTING PARTIES to GATT 1947 of 28 November 1979 on Differential and More Favourable Treatment, Reciprocity and Fuller Participation of Developing Countries (BISD 26S/203– 205), special treatment shall be granted to least- developed country Parties and to the suppliers in those Parties with respect to products or services originating in those Parties, in the context of any general or specific measures in favour of developing country Parties. A Party may also grant the benefits of this Agreement to suppliers in least-developed countries which are not Parties, with respect to products or services originating in those countries.


13.     Each developed country Party shall, upon request, provide assistance which it may deem appropriate to potential tenderers in least-developed countries in submitting their tenders and selecting the products or services which are likely to be of interest to its entities as well as to suppliers in least-developed countries, and likewise assist them to comply with technical regulations and standards relating to products or services which are the subject of the intended procurement.

Review
14.     The Committee shall review annually the operation and effectiveness of this Article and, after each three years of its operation on the basis of reports to be submitted by Parties, shall carry out a major review in order to evaluate its effects. As part of the three-yearly reviews and with a view to achieving the maximum implementation of the provisions of this Agreement, including in particular Article III, and having regard to the development, financial and trade situation of the developing countries concerned, the Committee shall examine whether exclusions provided for in accordance with the provisions of paragraphs 4 through 6 of this Article shall be modified or extended.

15.     In the course of further rounds of negotiations in accordance with the provisions of paragraph 7 of Article XXIV, each developing country Party shall give consideration to the possibility of enlarging its coverage lists, having regard to its economic, financial and trade situation.

Article VI
Technical Specifications

1.     Technical specifications laying down the characteristics of the products or services to be procured, such as quality, performance, safety and dimensions, symbols, terminology, packaging, marking and labelling, or the processes and methods for their production and requirements relating to conformity assessment procedures prescribed by procuring entities, shall not be prepared, adopted or applied with a view to, or with the effect of, creating unnecessary obstacles to international trade.
2.     Technical specifications prescribed by procuring entities shall, where appropriate:
(a)    be in terms of performance rather than design or descriptive characteristics; and
(b)    be based on international standards, where such exist; otherwise, on national technical regulations 3, recognized national standards 4, or building codes.


3     For the purpose of this Agreement, a technical regulation is a document which lays down characteristics of a product or a service or their related processes and production methods, including the applicable administrative provisions, with which compliance is mandatory. It may also include or deal exclusively with terminology, symbols, packaging, marking or labelling requirements as they apply to a product, service, process or production method.
4     For the purpose of this Agreement, a standard is a document approved by a recognized body, that provides, for common and repeated use, rules, guidelines or characteristics for products or services or related processes and production methods, with which compliance is not mandatory. It may also include or deal exclusively with terminology, symbols, packaging, marking or labelling requirements as they apply to a product, service, process or production method.
3.     There shall be no requirement or reference to a particular trademark or trade name, patent, design or type, specific origin, producer or supplier, unless there is no sufficiently precise or intelligible way of describing the procurement requirements and provided that words such as “or equivalent” are included in the tender documentation.
4.     Entities shall not seek or accept, in a manner which would have the effect of precluding competition, advice which may be used in the preparation of specifications for a specific procurement from a firm that may have a commercial interest in the procurement.


Article VII
Tendering Procedures

1.     Each Party shall ensure that the tendering procedures of its entities are applied in a non-discriminatory manner and are consistent with the provisions contained in Articles VII through XVI.
2.     Entities shall not provide to any supplier information with regard to a specific procurement in a manner which would have the effect of precluding competition.
3.     For the purposes of this Agreement:

(a)    Open tendering procedures are those procedures under which all interested suppliers may submit a tender.
(b)    Selective tendering procedures are those procedures under which, consistent with paragraph 3 of Article X and other relevant provisions of this Agreement, those suppliers invited to do so by the entity may submit a tender.
(c)    Limited tendering procedures are those procedures where the entity contacts suppliers individually, only under the conditions specified in Article XV.

Article VIII
Qualification of Suppliers

    In the process of qualifying suppliers, entities shall not discriminate among suppliers of other Parties or between domestic suppliers and suppliers of other Parties. Qualification procedures shall be consistent with the following:
(a)    any conditions for participation in tendering procedures shall be published in adequate time to enable interested suppliers to initiate and, to the extent that it is compatible with efficient operation of the procurement process, complete the qualification procedures;
(b)    any conditions for participation in tendering procedures shall be limited to those which are essential to ensure the firm's capability to fulfil the contract in question. Any conditions for participation required from suppliers, including financial guarantees, technical qualifications and information necessary for establishing the financial, commercial and technical capacity of suppliers, as well as the verification of qualifications, shall be no less favourable to suppliers of other Parties than to domestic suppliers and shall not discriminate among suppliers of other Parties. The financial, commercial and technical capacity of a supplier shall be judged on the basis both of that supplier's global business activity as well as of its activity in the territory of the procuring entity, taking due account of the legal relationship between the supply organizations;
(c)    the process of, and the time required for, qualifying suppliers shall not be used in order to keep suppliers of other Parties off a suppliers' list or from being considered for a particular intended procurement. Entities shall recognize as qualified suppliers such domestic suppliers or suppliers of other Parties who meet the conditions for participation in a particular intended procurement. Suppliers requesting to participate in a particular intended procurement who may not yet be qualified shall also be considered, provided there is sufficient time to complete the qualification procedure;
(d)    entities maintaining permanent lists of qualified suppliers shall ensure that suppliers may apply for qualification at any time; and that all qualified suppliers so requesting are included in the lists within a reasonably short time;
(e)    if, after publication of the notice under paragraph 1 of Article IX, a supplier not yet qualified requests to participate in an intended procurement, the entity shall promptly start procedures for qualification;
(f)    any supplier having requested to become a qualified supplier shall be advised by the entities concerned of the decision in this regard. Qualified suppliers included on permanent lists by entities shall also be notified of the termination of any such lists or of their removal from them;
(g)    each Party shall ensure that:
    (i)    each entity and its constituent parts follow a single qualification procedure, except in cases of duly substantiated need for a different procedure; and
    (ii)    efforts be made to minimize differences in qualification procedures between entities.
(h)    nothing in subparagraphs (a) through (g) shall preclude the exclusion of any supplier on grounds such as bankruptcy or false declarations, provided that such an action is consistent with the national treatment and non-discrimination provisions of this Agreement.

Article IX
Invitation to Participate Regarding Intended Procurement.

1.     In accordance with paragraphs 2 and 3, entities shall publish an invitation to participate for all cases of intended procurement, except as otherwise provided for in Article XV (limited tendering). The notice shall be published in the appropriate publication listed in Appendix II.
2.     The invitation to participate may take the form of a notice of proposed procurement, as provided for in paragraph 6.
3.     Entities in Annexes 2 and 3 may use a notice of planned procurement, as provided for in paragraph 7, or a notice regarding a qualification system, as provided for in paragraph 9, as an invitation to participate.
4.     Entities which use a notice of planned procurement as an invitation to participate shall subsequently invite all suppliers who have expressed an interest to confirm their interest on the basis of information which shall include at least the information referred to in paragraph 6.
5.     Entities which use a notice regarding a qualification system as an invitation to participate shall provide, subject to the considerations referred to in paragraph 4 of Article XVIII and in a timely manner, information which allows all those who have expressed an interest to have a meaningful opportunity to assess their interest in participating in the procurement. This information shall include the information contained in the notices referred to in paragraphs 6 and 8, to the extent such information is available. Information provided to one interested supplier shall be provided in a non-discriminatory manner to the other interested suppliers.
6.     Each notice of proposed procurement, referred to in paragraph 2, shall contain the following information:
(a)    the nature and quantity, including any options for further procurement and, if possible, an estimate of the timing when such options may be exercised; in the case of recurring contracts the nature and quantity and, if possible, an estimate of the timing of the subsequent tender notices for the products or services to be procured;

(b)    whether the procedure is open or selective or will involve negotiation;
(c)    any date for starting delivery or completion of delivery of goods or services;
(d)    the address and final date for submitting an application to be invited to tender or for qualifying for the suppliers' lists, or for receiving tenders, as well as the language or languages in which they must be submitted;
(e)    the address of the entity awarding the contract and providing any information necessary for obtaining specifications and other documents;
(f)    any economic and technical requirements, financial guarantees and information required from suppliers;
(g)    the amount and terms of payment of any sum payable for the tender documentation; and
(h)    whether the entity is inviting offers for purchase, lease, rental or hire purchase, or more than one of these methods.
7.     Each notice of planned procurement referred to in paragraph 3 shall contain as much of the information referred to in paragraph 6 as is available. It shall in any case include the information referred to in paragraph 8 and:
(a)    a statement that interested suppliers should express their interest in the procurement to the entity;
(b)    a contact point with the entity from which further information may be obtained.
8.     For each case of intended procurement, the entity shall publish a summary notice in one of the official languages of the WTO. The notice shall contain at least the following information:

(a)    the subject matter of the contract;
(b)    the time-limits set for the submission of tenders or an application to be invited to tender; and
(c)    the addresses from which documents relating to the contracts may be requested.
9.     In the case of selective tendering procedures, entities maintaining permanent lists of qualified suppliers shall publish annually in one of the publications listed in Appendix III a notice of the following:
(a)    the enumeration of the lists maintained, including their headings, in relation to the products or services or categories of products or services to be procured through the lists;
(b)    the conditions to be fulfilled by suppliers with a view to their inscription on those lists and the methods according to which each of those conditions will be verified by the entity concerned; and
(c)    the period of validity of the lists, and the formalities for their renewal.
When such a notice is used as an invitation to participate in accordance with paragraph 3, the notice shall, in addition, include the following information:
(d)    the nature of the products or services concerned;
(e)    a statement that the notice constitutes an invitation to participate.
However, when the duration of the qualification system is three years or less, and if the duration of the system is made clear in the notice and it is also made clear that further notices will not be published, it shall be sufficient to publish the notice once only, at the beginning of the system. Such a system shall not be used in a manner which circumvents the provisions of this Agreement.
10.     If, after publication of an invitation to participate in any case of intended procurement, but before the time set for opening or receipt of tenders as specified in the notices or the tender documentation, it becomes necessary to amend or re-issue the notice, the amendment or the re-issued notice shall be given the same circulation as the original documents upon which the amendment is based. Any significant information given to one supplier with respect to a particular intended procurement shall be given simultaneously to all other suppliers concerned in adequate time to permit the suppliers to consider such information and to respond to it.
11.     Entities shall make clear, in the notices referred to in this Article or in the publication in which the notices appear, that the procurement is covered by the Agreement.

Article X
Selection Procedures

1.     To ensure optimum effective international competition under selective tendering procedures, entities shall, for each intended procurement, invite tenders from the maximum number of domestic suppliers and suppliers of other Parties, consistent with the efficient operation of the procurement system. They shall select the suppliers to participate in the procedure in a fair and non-discriminatory manner.
2.     Entities maintaining permanent lists of qualified suppliers may select suppliers to be invited to tender from among those listed. Any selection shall allow for equitable opportunities for suppliers on the lists.
3.     Suppliers requesting to participate in a particular intended procurement shall be permitted to submit a tender and be considered, provided, in the case of those not yet qualified, there is sufficient time to complete the qualification procedure under Articles VIII and IX. The number of additional suppliers permitted to participate shall be limited only by the efficient operation of the procurement system.
4.     Requests to participate in selective tendering procedures may be submitted by telex, telegram or facsimile.

Article XI
Time-limits for Tendering and Delivery

General
1. (a)    Any prescribed time-limit shall be adequate to allow suppliers of other Parties as well as domestic suppliers to prepare and submit tenders before the closing of the tendering procedures. In determining any such time- limit, entities shall, consistent with their own reasonable needs, take into account such factors as the complexity of the intended procurement, the extent of subcontracting anticipated and the normal time for transmitting tenders by mail from foreign as well as domestic points.
(b)    Each Party shall ensure that its entities shall take due account of publication delays when setting the final date for receipt of tenders or of applications to be invited to tender.

Deadlines
2.     Except in so far as provided in paragraph 3,
(a)    in open procedures, the period for the receipt of tenders shall not be less than 40 days from the date of publication referred to in paragraph 1 of Article IX;
(b)    in selective procedures not involving the use of a permanent list of qualified suppliers, the period for submitting an application to be invited to tender shall not be less than 25 days from the date of publication referred to in paragraph 1 of Article IX; the period for receipt of tenders shall in no case be less than 40 days from the date of issuance of the invitation to tender;
(c)    in selective procedures involving the use of a permanent list of qualified suppliers, the period for receipt of tenders shall not be less than 40 days from the date of the initial issuance of invitations to tender, whether or not the date of initial issuance of invitations to tender coincides with the date of the publication referred to in paragraph 1 of Article IX.
3.     The periods referred to in paragraph 2 may be reduced in the circumstances set out below:
(a)    if a separate notice has been published 40 days and not more than 12 months in advance and the notice contains at least:
    (i)    as much of the information referred to in paragraph 6 of Article IX as is available;
    (ii)    the information referred to in paragraph 8 of Article IX;
    (iii)    a statement that interested suppliers should express their interest in the procurement to the entity; and
    (iv)    a contact point with the entity from which further information may be obtained,
    the 40-day limit for receipt of tenders may be replaced by a period sufficiently long to enable responsive tendering, which, as a general rule, shall not be less than 24 days, but in any case not less than 10 days;

(b)    in the case of the second or subsequent publications dealing with contracts of a recurring nature within the meaning of paragraph 6 of Article IX, the 40-day limit for receipt of tenders may be reduced to not less than 24 days;
(c)    where a state of urgency duly substantiated by the entity renders impracticable the periods in question, the periods specified in paragraph 2 may be reduced but shall in no case be less than 10 days from the date of the publication referred to in paragraph 1 of Article IX; or
(d)    the period referred to in paragraph 2(c) may, for procurements by entities listed in Annexes 2 and 3, be fixed by mutual agreement between the entity and the selected suppliers. In the absence of agreement, the entity may fix periods which shall be sufficiently long to enable responsive tendering and shall in any case not be less than 10 days.
4.     Consistent with the entity's own reasonable needs, any delivery date shall take into account such factors as the complexity of the intended procurement, the extent of subcontracting anticipated and the realistic time required for production, de-stocking and transport of goods from the points of supply or for supply of services.

Article XII
Tender Documentation

1.     If, in tendering procedures, an entity allows tenders to be submitted in several languages, one of those languages shall be one of the official languages of the WTO.
2.     Tender documentation provided to suppliers shall contain all information necessary to permit. them to submit responsive tenders, including information required to be published in the notice of intended procurement, except for paragraph 6(g) of Article IX, and the following:
(a)    the address of the entity to which tenders should be sent;
(b)    the address where requests for supplementary information should be sent;
(c)    the language or languages in which tenders and tendering documents must be submitted;
(d)    the closing date and time for receipt of tenders and the length of time during which any tender should be open for acceptance;
(e)    the persons authorized to be present at the opening of tenders and the date, time and place of this opening;
(f)    any economic and technical requirement, financial guarantees and information or documents required from suppliers;
(g)    a complete description of the products or services required or of any requirements including technical specifications, conformity certification to be fulfilled, necessary plans, drawings and instructional materials;
(h)    the criteria for awarding the contract, including any factors other than price that are to be considered in the evaluation of tenders and the cost elements to be included in evaluating tender prices, such as transport, insurance and inspection costs, and in the case of products or services of other Parties, customs duties and other import charges, taxes and currency of payment;

(i)    the terms of payment;
(j)    any other terms or conditions;
(k)    in accordance with Article XVII the terms and conditions, if any, under which tenders from countries not Parties to this Agreement, but which apply the procedures of that Article, will be entertained.

Forwarding of Tender Documentation by the Entities
3. (a)    In open procedures, entities shall forward the tender documentation at the request of any supplier participating in the procedure, and shall reply promptly to any reasonable request for explanations relating thereto.
(b)    In selective procedures, entities shall forward the tender documentation at the request of any supplier requesting to participate, and shall reply promptly to any reasonable request for explanations relating thereto.
(c)    Entities shall reply promptly to any reasonable request for relevant information submitted by a supplier participating in the tendering procedure, on condition that such information does not give that supplier an advantage over its competitors in the procedure for the award of the contract.

Article XIII
Submission, Receipt and Opening of Tenders and Awarding of Contracts

1.     The submission, receipt and opening of tenders and awarding of contracts shall be consistent with the following:
(a)    tenders shall normally be submitted in writing directly or by mail. If tenders by telex, telegram or facsimile are permitted, the tender made thereby must include all the information necessary for the evaluation of the tender, in particular the definitive price proposed by the tenderer and a statement that the tenderer agrees to all the terms, conditions and provisions of the invitation to tender. The tender must be confirmed promptly by letter or by the despatch of a signed copy of the telex, telegram or facsimile. Tenders presented by telephone shall not be permitted. The content of the telex, telegram or facsimile shall prevail where there is a difference or conflict between that content and any documentation received after the time-limit; and
(b)    the opportunities that may be given to tenderers to correct unintentional errors of form between the opening of tenders and the awarding of the contract shall not be permitted to give rise to any discriminatory practice.

Receipt of Tenders
2.     A supplier shall not be penalized if a tender is received in the office designated in the tender documentation after the time specified because of delay due solely to mishandling on the part of the entity. Tenders may also be considered in other exceptional circumstances if the procedures of the entity concerned so provide.

Opening of Tenders
3.     All tenders solicited under open or selective procedures by entities shall be received and opened under procedures and conditions guaranteeing the regularity of the openings. The receipt and opening of tenders shall also be consistent with the national treatment and non-discrimination provisions of this Agreement. Information on the opening of tenders shall remain with the entity concerned at the disposal of the government authorities responsible for the entity in order that it may be used if required under the procedures of Articles XVIII, XIX, XX and XXII.


Award of Contracts
4. (a)    To be considered for award, a tender must, at the time of opening, conform to the essential requirements of the notices or tender documentation and be from a supplier which complies with the conditions for participation. If an entity has received a tender abnormally lower than other tenders submitted, it may enquire with the tenderer to ensure that it can comply with the conditions of participation and be capable of fulfilling the terms of the contract.
(b)    Unless in the public interest an entity decides not to issue the contract, the entity shall make the award to the tenderer who has been determined to be fully capable of undertaking the contract and whose tender, whether for domestic products or services, or products or services of other Parties, is either the lowest tender or the tender which in terms of the specific evaluation criteria set forth in the notices or tender documentation is determined to be the most advantageous.
(c)    Awards shall be made in accordance with the criteria and essential requirements specified in the tender documentation.

Option Clauses
5.     Option clauses shall not be used in a manner which circumvents the provisions of the Agreement.

Article XIV
Negotiation

1.     A Party may provide for entities to conduct negotiations:
(a)    in the context of procurements in which they have indicated such intent, namely in the notice referred to in paragraph 2 of Article IX (the invitation to suppliers to participate in the procedure for the proposed procurement); or
(b)    when it appears from evaluation that no one tender is obviously the most advantageous in terms of the specific evaluation criteria set forth in the notices or tender documentation.
2.     Negotiations shall primarily be used to identify the strengths and weaknesses in tenders.
3.     Entities shall treat tenders in confidence. In particular, they shall not provide information intended to assist particular participants to bring their tenders up to the level of other participants.

4.     Entities shall not, in the course of negotiations, discriminate between different suppliers. In particular, they shall ensure that:
(a)    any elimination of participants is carried out in accordance with the criteria set forth in the notices and tender documentation;
(b)    all modifications to the criteria and to the technical requirements are transmitted in writing to all remaining participants in the negotiations;
(c)    all remaining participants are afforded an opportunity to submit new or amended submissions on the basis of the revised requirements; and
(d)    when negotiations are concluded, all participants remaining in the negotiations shall be permitted to submit final tenders in accordance with a common deadline.

Article XV
Limited Tendering

1.     The provisions of Articles VII through XIV governing open and selective tendering procedures need not apply in the following conditions, provided that limited tendering is not used with a view to avoiding maximum possible competition or in a manner which would constitute a means of discrimination among suppliers of other Parties or protection to domestic producers or suppliers:
(a)    in the absence of tenders in response to an open or selective tender, or when the tenders submitted have been collusive, or not in conformity with the essential requirements in the tender, or from suppliers who do not comply with the conditions for participation provided for in accordance with this Agreement, on condition, however, that the requirements of the initial tender are not substantially modified in the contract as awarded;
(b)    when, for works of art or for reasons connected with protection of exclusive rights, such as patents or copyrights, or in the absence of competition for technical reasons, the products or services can be supplied only by a particular supplier and no reasonable alternative or substitute exists;

(c)    in so far as is strictly necessary when, for reasons of extreme urgency brought about by events unforeseeable by the entity, the products or services could not be obtained in time by means of open or selective tendering procedures;
(d)    for additional deliveries by the original supplier which are intended either as parts replacement for existing supplies, or installations, or as the extension of existing supplies, services, or installations where a change of supplier would compel the entity to procure equipment or services not meeting requirements of interchangeability with already existing equipment or services 5;
(e)    when an entity procures prototypes or a first product or service which are developed at its request in the course of, and for, a particular contract for research, experiment, study or original development. When such contracts have been fulfilled, subsequent procurements of products or services shall be subject to Articles VII through XIV 6;
(f)    when additional construction services which were not included in the initial contract but which were within the objectives of the original tender documentation have, through unforeseeable circumstances, become necessary to complete the construction services described therein, and the entity needs to award contracts for the additional construction services to the contractor carrying out the construction services concerned since the separation of the additional construction services from the initial contract would be difficult for technical or economic reasons and cause significant inconvenience to the entity. However, the total value of contracts awarded for the additional construction services may not exceed 50 per cent of the amount of the main contract;
(g)    for new construction services consisting of the repetition of similar construction services which conform to a basic project for which an initial contract was awarded in accordance with Articles VII through XIV and for which the entity has indicated in the notice of intended procurement concerning the initial construction service, that limited tendering procedures might be used in awarding contracts for such new construction services;
(h)    for products purchased on a commodity market;





5     It is the understanding that “existing equipment” includes software to the extent that the initial procurement of the software was covered by the Agreement.
6     Original development of a first product or service may include limited production or supply in order to incorporate the results of field testing and to demonstrate that the product or service is suitable for production or supply in quantity to acceptable quality standards. It does not extend to quantity production or supply to establish commercial viability or to recover research and development costs.

(i)    for purchases made under exceptionally advantageous conditions which only arise in the very short term. This provision is intended to cover unusual disposals by firms which are not normally suppliers, or disposal of assets of businesses in liquidation or receivership. It is not intended to cover routine purchases from regular suppliers;
(j)    in the case of contracts awarded to the winner of a design contest provided that the contest has been organized in a manner which is consistent with the principles of this Agreement, notably as regards the publication, in the sense of Article IX, of an invitation to suitably qualified suppliers, to participate in such a contest which shall be judged by an independent jury with a view to design contracts being awarded to the winners.
2.     Entities shall prepare a report in writing on each contract awarded under the provisions of paragraph 1. Each report shall contain the name of the procuring entity, value and kind of goods or services procured, country of origin, and a statement of the conditions in this Article which prevailed. This report shall remain with the entities concerned at the disposal of the government authorities responsible for the entity in order that it may be used if required under the procedures of Articles XVIII, XIX, XX and XXII.

Article XVI
Offsets

1.     Entities shall not, in the qualification and selection of suppliers, products or services, or in the evaluation of tenders and award of contracts, impose, seek or consider offsets. 7
2.     Nevertheless, having regard to general policy considerations, including those relating to development, a developing country may at the time of accession negotiate conditions for the use of offsets, such as requirements for the incorporation of domestic content. Such requirements shall be used only for qualification to participate in the procurement process and not as criteria for awarding contracts. Conditions shall be objective, clearly defined and non- discriminatory. They shall be set forth in the coun-



7     Offsets in government procurement are measures used to encourage local development or improve the balance-of-payments accounts by means of domestic content, licensing of technology, investment requirements, counter-trade or similar requirements.

try's Appendix I and may include precise limitations on the imposition of offsets in any contract subject to this Agreement. The existence of such conditions shall be notified to the Committee and included in the notice of intended procurement and other documentation.

Article XVII
Transparency

1.     Each Party shall encourage entities to indicate the terms and conditions, including any deviations from competitive tendering procedures or access to challenge procedures, under which tenders will be entertained from suppliers situated in countries not Parties to this Agreement but which, with a view to creating transparency in their own contract awards, nevertheless:
(a)    specify their contracts in accordance with Article VI (technical specifications);
(b)    publish the procurement notices referred to in Article IX, including, in the version of the notice referred to in paragraph 8 of Article IX (summary of the notice of intended procurement) which is published in an official language of the WTO, an indication of the terms and conditions under which tenders shall be entertained from suppliers situated in countries Parties to this Agreement;
(c)    are willing to ensure that their procurement regulations shall not normally change during a procurement and, in the event that such change proves unavoidable, to ensure the availability of a satisfactory means of redress.
2.     Governments not Parties to the Agreement which comply with the conditions specified in paragraphs 1(a) through 1(c), shall be entitled if they so inform the Parties to participate in the Committee as observers.

Article XVIII
Information and Review as Regards Obligations of Entities

1.     Entities shall publish a notice in the appropriate publication listed in Appendix II not later than 72 days after the award of each contract under Articles XIII through XV. These notices shall contain:
(a)    the nature and quantity of products or services in the contract award;
(b)    the name and address of the entity awarding the contract;
(c)    the date of award;
(d)    the name and address of winning tenderer;
(e)    the value of the winning award or the highest and lowest offer taken into account in the award of the contract;
(f)    where appropriate, means of identifying the notice issued under paragraph 1 of Article IX or justification according to Article XV for the use of such procedure; and
(g)    the type of procedure used.
2.     Each entity shall, on request from a supplier of a Party, promptly provide:
(a)    an explanation of its procurement practices and procedures;
(b)    pertinent information concerning the reasons why the supplier's application to qualify was rejected, why its existing qualification was brought to an end and why it was not selected; and
(c)    to an unsuccessful tenderer, pertinent information concerning the reasons why its tender was not selected and on the characteristics and relative advantages of the tender selected as well as the name of the winning tenderer.

3.     Entities shall promptly inform participating suppliers of decisions on contract awards and, upon request, in writing.
4.     However, entities may decide that certain information on the contract award, contained in paragraphs 1 and 2(c), be withheld where release of such information would impede law enforcement or otherwise be contrary to the public interest or would prejudice the legitimate commercial interest of particular enterprises, public or private, or might prejudice fair competition between suppliers.

Article XIX
Information and Review as Regards Obligations of Parties

1.     Each Party shall promptly publish any law, regulation, judicial decision, administrative ruling of general application, and any procedure (including standard contract clauses) regarding government procurement covered by this Agreement, in the appropriate publications listed in Appendix IV and in such a manner as to enable other Parties and suppliers to become acquainted with them. Each Party shall be prepared, upon request, to explain to any other Party its government procurement procedures.
2.     The government of an unsuccessful tenderer which is a Party to this Agreement may seek, without prejudice to the provisions under Article XXII, such additional information on the contract award as may be necessary to ensure that the procurement was made fairly and impartially. To this end, the procuring government shall provide information on both the characteristics and relative advantages of the winning tender and the contract price. Normally this latter information may be disclosed by the government of the unsuccessful tenderer provided it exercises this right with discretion. In cases where release of this information would prejudice competition in future tenders, this information shall not be disclosed except after consultation with and agreement of the Party which gave the information to the government of the unsuccessful tenderer.

3.     Available information concerning procurement by covered entities and their individual contract awards shall be provided, upon request, to any other Party.
4.     Confidential information provided to any Party which would impede law enforcement or otherwise be contrary to the public interest or would prejudice the legitimate commercial interest of particular enterprises, public or private, or might prejudice fair competition between suppliers shall not be revealed without formal authorization from the party providing the information.
5.     Each Party shall collect and provide to the Committee on an annual basis statistics on its procurements covered by this Agreement. Such reports shall contain the following information with respect to contracts awarded by all procurement entities covered under this Agreement:
(a)    for entities in Annex 1, statistics on the estimated value of contracts awarded, both above and below the threshold value, on a global basis and broken down by entities; for entities in Annexes 2 and 3, statistics on the estimated value of contracts awarded above the threshold value on a global basis and broken down by categories of entities;

(b)    for entities in Annex 1, statistics on the number and total value of contracts awarded above the threshold value, broken down by entities and categories of products and services according to uniform classification systems; for entities in Annexes 2 and 3, statistics on the estimated value of contracts awarded above the threshold value broken down by categories of entities and categories of products and services;

(c)    for entities in Annex 1, statistics, broken down by entity and by categories of products and services, on the number and total value of contracts awarded under each of the cases of Article XV; for categories of entities in Annexes 2 and 3, statistics on the total value of contracts awarded above the threshold value under each of the cases of Article XV; and


(d)    for entities in Annex 1, statistics, broken down by entities, on the number and total value of contracts awarded under derogations to the Agreement contained in the relevant Annexes; for categories of entities in Annexes 2 and 3, statistics on the total value of contracts awarded under derogations to the Agreement contained in the relevant Annexes.


To the extent that such information is available, each Party shall provide statistics on the country of origin of products and services purchased by its entities. With a view to ensuring that such statistics are comparable, the Committee shall provide guidance on methods to be used. With a view to ensuring effective monitoring of procurement covered by this Agreement, the Committee may decide unanimously to modify the requirements of subparagraphs (a) through (d) as regards the nature and the extent of statistical information to be provided and the breakdowns and classifications to be used.

Article XX
Challenge Procedures

Consultations
1.     In the event of a complaint by a supplier that there has been a breach of this Agreement in the context of a procurement, each Party shall encourage the supplier to seek resolution of its complaint in consultation with the procuring entity. In such instances the procuring entity shall accord impartial and timely consideration to any such complaint, in a manner that is not prejudicial to obtaining corrective measures under the challenge system.

Challenge
2.     Each Party shall provide non-discriminatory, timely, transparent and effective procedures enabling suppliers to challenge alleged breaches of the Agreement arising in the context of procurements in which they have, or have had, an interest.

3.     Each Party shall provide its challenge procedures in writing and make them generally available.

4.     Each Party shall ensure that documentation relating to all aspects of the process concerning procurements covered by this Agreement shall be retained for three years.
5.     The interested supplier may be required to initiate a challenge procedure and notify the procuring entity within specified time-limits from the time when the basis of the complaint is known or reasonably should have been known, but in no case within a period of less than 10 days.
6.     Challenges shall be heard by a court or by an impartial and independent review body with no interest in the outcome of the procurement and the members of which are secure from external influence during the term of appointment. A review body which is not a court shall either be subject to judicial review or shall have procedures which provide that:

(a)    participants can be heard before an opinion is given or a decision is reached;
(b)    participants can be represented and accompanied;
(c)    participants shall have access to all proceedings;
(d)    proceedings can take place in public;

(e)    opinions or decisions are given in writing with a statement describing the basis for the opinions or decisions;
(f)    witnesses can be presented;
(g)    documents are disclosed to the review body.
7.     Challenge procedures shall provide for:

(a)    rapid interim measures to correct breaches of the Agreement and to preserve commercial opportunities. Such action may result in suspension of the procurement process. However, procedures may provide that overriding adverse consequences for the interests concerned, including the public interest, may be taken into account in deciding whether such measures should be applied. In such circumstances, just cause for not acting shall be provided in writing;
(b)    an assessment and a possibility for a decision on the justification of the challenge;
(c)    correction of the breach of the Agreement or compensation for the loss or damages suffered, which may be limited to costs for tender preparation or protest.
8.     With a view to the preservation of the commercial and other interests involved, the challenge procedure shall normally be completed in a timely fashion.

Article XXI
Institutions

1.     A Committee on Government Procurement composed of representatives from each of the Parties shall be established. This Committee shall elect its own Chairman and Vice-Chairman and shall meet as necessary but not less than once a year for the purpose of affording Parties the opportunity to consult on any matters relating to the operation of this Agreement or the furtherance of its objectives, and to carry out such other responsibilities as may be assigned to it by the Parties.
2.     The Committee may establish working parties or other subsidiary bodies which shall carry out such functions as may be given to them by the Committee.

Article XXII
Consultations and Dispute Settlement

1.     The provisions of the Understanding on Rules and Procedures Governing the Settlement of Disputes under the WTO Agreement (hereinafter referred to as the “Dispute Settlement Understanding”) shall be applicable except as otherwise specifically provided below.
2.     If any Party considers that any benefit accruing to it, directly or indirectly, under this Agreement is being nullified or impaired, or that the attainment of any objective of this Agreement is being impeded as the result of the failure of another Party or Parties to carry out its obligations under this Agreement, or the application by another Party or Parties of any measure, whether or not it conflicts with the provisions of this Agreement, it may with a view to reaching a mutually satisfactory resolution of the matter, make written representations or proposals to the other Party or Parties which it considers to be concerned. Such action shall be promptly notified to the Dispute Settlement Body established under the Dispute Settlement Understanding (hereinafter referred to as “DSB”), as specified below. Any Party thus approached shall give sympathetic consideration to the representations or proposals made to it.

3.     The DSB shall have the authority to establish panels, adopt panel and Appellate Body reports, make recommendations or give rulings on the matter, maintain surveillance of implementation of rulings and recommendations, and authorize suspension of concessions and other obligations under this Agreement or consultations regarding remedies when withdrawal of measures found to be in contravention of the Agreement is not possible, provided that only Members of the WTO Party to this Agreement shall participate in decisions or actions taken by the DSB with respect to disputes under this Agreement.

4.     Panels shall have the following terms of reference unless the parties to the dispute agree otherwise within 20 days of the establishment of the panel:

        “To examine, in the light of the relevant provisions of this Agreement and of (name of any other covered Agreement cited by the parties to the dispute), the matter referred to the DSB by (name of party) in document … and to make such findings as will assist the DSB in making the recommendations or in giving the rulings provided for in this Agreement.”
In the case of a dispute in which provisions both of this Agreement and of one or more other Agreements listed in Appendix 1 of the Dispute Settlement Understanding are invoked by one of the parties to the dispute, paragraph 3 shall apply only to those parts of the panel report concerning the interpretation and application of this Agreement.
5.     Panels established by the DSB to examine disputes under this Agreement shall include persons qualified in the area of government procurement.

6.     Every effort shall be made to accelerate the proceedings to the greatest extent possible. Notwithstanding the provisions of paragraphs 8 and 9 of Article 12 of the Dispute Settlement Understanding, the panel shall attempt to provide its final report to the parties to the dispute not later than four months, and in case of delay not later than seven months, after the date on which the composition and terms of reference of the panel are agreed. Consequently, every effort shall be made to reduce also the periods foreseen in paragraph 1 of Article 20 and paragraph 4 of Article 21 of the Dispute Settlement Understanding by two months. Moreover, notwithstanding the provisions of paragraph 5 of Article 21 of the Dispute Settlement Understanding, the panel shall attempt to issue its decision, in case of a disagreement as to the existence or consistency with a covered Agreement of measures taken to comply with the recommendations and rulings, within 60 days.
7.     Notwithstanding paragraph 2 of Article 22 of the Dispute Settlement Understanding, any dispute arising under any Agreement listed in Appendix 1 to the Dispute Settlement Understanding other than this Agreement shall not result in the suspension of concessions or other obligations under this Agreement, and any dispute arising under this Agreement shall not result in the suspension of concessions or other obligations under any other Agreement listed in the said Appendix 1.

Article XXIII
Exceptions to the Agreement

1.     Nothing in this Agreement shall be construed to prevent any Party from taking any action or not disclosing any information which it considers necessary for the protection of its essential security interests relating to the procurement of arms, ammunition or war materials, or to procurement indispensable for national security or for national defence purposes.

2.     Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner which would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between countries where the same conditions prevail or a disguised restriction on international trade, nothing in this Agreement shall be construed to prevent any Party from imposing or enforcing measures: necessary to protect public morals, order or safety, human, animal or plant life or health or intellectual property; or relating to the products or services of handicapped persons, of philanthropic institutions or of prison labour.

Article XXIV
Final Provisions

1.     Acceptance and Entry into Force
    This Agreement shall enter into force on 1 January 1996 for those governments 8 whose agreed coverage is contained in Annexes 1 through 5 of Appendix I of this Agreement and which have, by signature, accepted the Agreement on 15 April 1994 or have, by that date, signed the Agreement subject to ratification and subsequently ratified the Agreement before 1 January 1996.
2.      Accession
    Any government which is a Member of the WTO, or prior to the date of entry into force of the WTO Agreement which is a contracting party to GATT 1947, and which is not a Party to this Agreement may accede to this Agreement on terms to be agreed between that government and the Parties. Accession shall take place by deposit with the Director- General of the WTO of an instrument of accession which states the terms so agreed. The Agreement shall enter into force for an acceding government on the 30th day following the date of its accession to the Agreement.


3.      Transitional Arrangements
(a)    Hong Kong and Korea may delay application of the provisions of this Agreement, except Articles XXI and XXII, to a date not later than 1 January 1997. The commencement date of their application of the provisions, if prior to 1 January 1997, shall be notified to the Director- General of the WTO 30 days in advance.

8     For the purpose of this Agreement, the term “government” is deemed to include the competent authorities of the European Communities.
(b)    During the period between the date of entry into force of this Agreement and the date of its application by Hong Kong, the rights and obligations between Hong Kong and all other Parties to this Agreement which were on 15 April 1994 Parties to the Agreement on Government Procurement done at Geneva on 12 April 1979 as amended on 2 February 1987 (the “1988 Agreement”) shall be governed by the substantive 9 provisions of the 1988 Agreement, including its Annexes as modified or rectified, which provisions are incorporated herein by reference for that purpose and shall remain in force until 31 December 1996.
(c)    Between Parties to this Agreement which are also Parties to the 1988 Agreement, the rights and obligations of this Agreement shall supersede those under the 1988 Agreement.

(d)    Article XXII shall not enter into force until the date of entry into force of the WTO Agreement. Until such time, the provisions of Article VII of the 1988 Agreement shall apply to consultations and dispute settlement under this Agreement, which provisions are hereby incorporated in the Agreement by reference for that purpose. These provisions shall be applied under the auspices of the Committee under this Agreement.

(e)    Prior to the date of entry into force of the WTO Agreement, references to WTO bodies shall be construed as referring to the corresponding GATT body and references to the Director- General of the WTO and to the WTO Secretariat shall be construed as references to, respectively, the Director-General to the CONTRACTING PARTIES to GATT 1947 and to the GATT Secretariat.
4.      Reservations
    
Reservations may not be entered in respect of any of the provisions of this Agreement.
5.      National Legislation
(a)    Each government accepting or acceding to this Agreement shall ensure, not later than the date of entry into force of this Agreement for it, the conformity of its laws, regulations and administrative procedures, and the rules, procedures and practices applied by the entities contained in its lists annexed hereto, with the provisions of this Agreement.


9     All provisions of the 1988 Agreement except the Preamble, Article VII and Article IX other than paragraphs 5(a) and (b) and paragraph 10.

(b)    Each Party shall inform the Committee of any changes in its laws and regulations relevant to this Agreement and in the administration of such laws and regulations.
6.      Rectifications or Modifications
(a)    Rectifications, transfers of an entity from one Annex to another or, in exceptional cases, other modifications relating to Appendices I through IV shall be notified to the Committee, along with information as to the likely consequences of the change for the mutually agreed coverage provided in this Agreement. If the rectifications, transfers or other modifications are of a purely formal or minor nature, they shall become effective provided there is no objection within 30 days. In other cases, the Chairman of the Committee shall promptly convene a meeting of the Committee. The Committee shall consider the proposal and any claim for compensatory adjustments, with a view to maintaining a balance of rights and obligations and a comparable level of mutually agreed coverage provided in this Agreement prior to such notification. In the event of agreement not being reached, the matter may be pursued in accordance with the provisions contained in Article XXII.
(b)    Where a Party wishes, in exercise of its rights, to withdraw an entity from Appendix I on the grounds that government control or influence over it has been effectively eliminated, that Party shall notify the Committee. Such modification shall become effective the day after the end of the following meeting of the Committee, provided that the meeting is no sooner than 30 days from the date of notification and no objection has been made. In the event of an objection, the matter may be pursued in accordance with the procedures on consultations and dispute settlement contained in Article XXII. In considering the proposed modification to Appendix I and any consequential compensatory adjustment, allowance shall be made for the market-opening effects of the removal of government control or influence.
7.      Reviews, Negotiations and Future Work
(a)    The Committee shall review annually the implementation and operation of this Agreement taking into account the objectives thereof. The Committee shall annually inform the General Council of the WTO of developments during the periods covered by such reviews.
(b)    Not later than the end of the third year from the date of entry into force of this Agreement and periodically thereafter, the Parties thereto shall undertake further negotiations, with a view to improving this Agreement and achieving the greatest possible extension of its coverage among all Parties on the basis of mutual reciprocity, having regard to the provisions of Article V relating to developing countries.
(c)    Parties shall seek to avoid introducing or prolonging discriminatory measures and practices which distort open procurement and shall, in the context of negotiations under subparagraph (b), seek to eliminate those which remain on the date of entry into force of this Agreement.


8.      Information Technology
    With a view to ensuring that the Agreement does not constitute an unnecessary obstacle to technical progress, Parties shall consult regularly in the Committee regarding developments in the use of information technology in government procurement and shall, if necessary, negotiate modifications to the Agreement. These consultations shall in particular aim to ensure that the use of information technology promotes the aims of open, non-discriminatory and efficient government procurement through transparent procedures, that contracts covered under the Agreement are clearly identified and that all available information relating to a particular contract can be identified. When a Party intends to innovate, it shall endeavour to take into account the views expressed by other Parties regarding any potential problems.
9.      Amendments
    Parties may amend this Agreement having regard, inter alia, to the experience gained in its implementation. Such an amendment, once the Parties have concurred in accordance with the procedures established by the Committee, shall not enter into force for any Party until it has been accepted by such Party.
10.     Withdrawal
(a)    Any Party may withdraw from this Agreement. The withdrawal shall take effect upon the expiration of 60 days from the date on which written notice of withdrawal is received by the Director-General of the WTO. Any Party may upon such notification request an immediate meeting of the Committee.

(b)    If a Party to this Agreement does not become a Member of the WTO within one year of the date of entry into force of the WTO Agreement or ceases to be a Member of the WTO, it shall cease to be a Party to this Agreement with effect from the same date.

11.      Non-application of this Agreement between Particular Parties
    This Agreement shall not apply as between any two Parties if either of the Parties, at the time either accepts or accedes to this Agreement, does not consent to such application.
12.      Notes, Appendices and Annexes
    The Notes, Appendices and Annexes to this Agreement constitute an integral part thereof.
13.      Secretariat
    This Agreement shall be serviced by the WTO Secretariat.
14.      Deposit
    This Agreement shall be deposited with the Director-General of the WTO, who shall promptly furnish to each Party a certified true copy of this Agreement, of each rectification or modification thereto pursuant to paragraph 6 and of each amendment thereto pursuant to paragraph 9, and a notification of each acceptance thereof or accession thereto pursuant to paragraphs 1 and 2 and of each withdrawal therefrom pursuant to paragraph 10 of this Article.
15.      Registration
    This Agreement shall be registered in accordance with the provisions of Article 102 of the Charter of the United Nations.

     Done at Marrakesh this fifteenth day of April one thousand nine hundred and ninety-four in a single copy, in the English, French and Spanish languages, each text being authentic, except as otherwise specified with respect to the Appendices hereto.

NOTES

    The terms “country” or “countries” as used in this Agreement, including the Appendices, are to be understood to include any separate customs territory Party to this Agreement.
    In the case of a separate customs territory Party to this Agreement, where an expression in this Agreement is qualified by the term “national”, such expression shall be read as pertaining to that customs territory, unless otherwise specified.

Article 1, paragraph 1
    Having regard to general policy considerations relating to tied aid, including the objective of developing countries with respect to the untying of such aid, this Agreement does not apply to procurement made in furtherance of tied aid to developing countries so long as it is practised by Parties.
Fylgiskjal II.


SKILMÁLAR AÐILDAR ÍSLANDS

I. VIÐBÆTIR

1. VIÐAUKI

Aðilar sem annast opinber innkaup
samkvæmt ákvæðum samnings þessa.


Vörur
Viðmiðunarmörk:
SDR 130.000


Þjónusta         (tilgreind í 4. viðauka)
Viðmiðunarmörk:
SDR 130.000


Verk              (tilgreind í 5. viðauka)
Viðmiðunarmörk:
SDR 5.000.000


Skrá yfir aðila:

Eftirtaldir ríkisaðilar, þ.m.t.:

Ríkisaðilar sem ekki starfa á sviði iðnaðar eða viðskipta og heyra undir lög nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda og lög nr. 52/1987 um opinber innkaup, með áorðnum breytingum.


Aðilar sem annast opinber innkaup eru eftirfarandi:
Ríkiskaup
Framkvæmdasýslan
Vegagerð ríkisins
Siglingastofnun




2. VIÐAUKI

Aðilar sem annast opinber innkaup
samkvæmt ákvæðum samnings þessa.


Vörur
Viðmiðunarmörk:
SDR 200.000


Þjónusta         (tilgreint í 4. viðauka)
Viðmiðunarmörk:     
SDR 200.000


Verk              (tilgreint í 5. viðauka)
Viðmiðunarmörk:
SDR 5.000.000


Skrá yfir aðila:

1.    Stofnanir á sveitarstjórnarstigi, þ.m.t. öll sveitarfélög.

2.    Opinberir aðilar á sveitarstjórnarstigi sem ekki starfa á sviði iðnaðar eða viðskipta.


3. VIÐAUKI

Aðrir aðilar sem annast opinber innkaup
samkvæmt ákvæðum samnings þessa.


Vörur
Viðmiðunarmörk:
SDR 400.000


Þjónusta         (tilgreind í 4. viðauka)*
Viðmiðunarmörk:
SDR 400.000


Verk              (tilgreint í 5. viðauka)
Viðmiðunarmörk:
SDR 5.000.000


Skrá yfir svið:

1.      Raforkusvið:
    Landsvirkjun, lög nr. 42/1983.
    Rafmagnsveitur ríkisins, orkulög nr. 58/1967.
    Orkuveita Reykjavíkur .
    Orkubú Vestfjarða, lög nr. 66/1976.
    Aðrir aðilar sem framleiða, flytja eða dreifa raforku samkvæmt orkulögum nr. 58/1967.




2.      Fólksflutningar í þéttbýli:
    Strætisvagnar Reykjavíkur.
    Almenningsvagnar bs.
    Önnur strætisvagnaþjónusta á vegum sveitarfélaga.
3.      Flugvellir:
    Flugmálastjórn.
4.      Hafnir:
    Siglingastofnun.
    Aðrir aðilar sem starfa samkvæmt hafnalögum nr. 23/1994.

5.      Vatnsveitur: **
    Opinberir aðilar sem framleiða eða dreifa neysluvatni samkvæmt lögum nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga.

Athugasemdir við 3. Viðauka.

*    Samningur þessi gildir ekki um þjónustusamninga sem:
    (a)    aðili felur eignatengdum félögum;

    (b)    sameiginlegt fyrirtæki, sem stofnað er af fjölda verktaka í þeim tilgangi að stunda tiltekna starfsemi í skilningi 1.–5. mgr. viðauka þessa, felur einum af viðkomandi verktökum eða fyrirtæki sem hefur eignatengsl við einhvern af viðkomandi verktökum;
    Að því tilskildu að a.m.k. 80 af hundraði meðalveltu viðkomandi fyrirtækis að því er varðar þjónustu innan EES næstliðin þrjú ár hafi stafað af því að veita slíka þjónustu til fyrirtækja sem það hefur eignatengsl við. Ef fleiri en eitt fyrirtæki í eignatengslum við verktakann veita sömu eða svipaða þjónustu, skal taka mið af heildarveltu sem hafi stafað af veitingu þjónustu af hálfu þeirra fyrirtækja.

**    Neysluvatnsveita og rafmagnsveita til dreifikerfa, sem veita opinbera þjónustu af hálfu verktaka sem ekki er opinbert stjórnvald, telst ekki til viðkomandi starfsemi í skilningi 1. og 5. mgr. 3. viðauka þegar:

    –    framleiðsla neysluvatns eða rafmagns af hálfu viðkomandi aðila á sér stað vegna þess að neysla þess er nauðsynleg til framkvæmda í annarri starfsemi en þeirri sem getið er í 1. og 5. mgr. viðauka þessa; og
    –    veita til opinberra veitukerfa byggir aðeins á eigin neyslu viðkomandi aðila og hefur ekki farið yfir 30 af hundraði af heildarvatnsöflun eða orkuframleiðslu miðað við meðaltal næstliðinna þriggja ára, að meðtöldu yfirstandandi ári.


4. VIÐAUKI

Þjónusta.


    Af allsherjarþjónustuviðskiptaskránni, sbr. skjal MTN.GNS/W/120, teljast eftirfarandi þjónustuviðskipti falla undir:*

Efni
CPC tilvísun N
Viðhalds- og viðgerðarþjónusta
6112, 6122, 633, 886
Efni
CPC tilvísun N
Flutningaþjónusta á landi, þ.m.t. með brynvörðum bifreiðum, þjónustuviðskipti og hraðsendingarþjónusta önnur en póstþjónusta
712 (nema 71235), 7512, 87304
Vöru- og farþegaflutningaþjónusta, að frátöldum póstflutningum
73 (nema 7321)
Póstflutningar landleiðis, þó ekki með járnbrautum, og flugleiðis
71235, 7321
Fjarskiptaþjónusta      752** (nema 7524, 7525, 7526)
Fjármálaþjónusta utan 81
(a)    Tryggingaþjónusta 812, 814
(b)    Banka- og fjárfestingarþjónusta***
Tölvuþjónusta og skyld þjónusta
84
Bókhalds- og endurskoðunarþjónusta
862
Þjónusta á sviði markaðsrannsókna og skoðanakannana
864
Stjórnunarráðgjöf og skyld þjónusta

865, 866****
Arkitektaþjónusta, verkfræðiþjónusta og samþætt verkfræðiþjónusta, borgarskipulagsvinna og þjónusta landslagsarkitekta, skyld vísindaleg og tæknileg ráðgjafarþjónusta, tæknileg ráðgjafarþjónusta, tæknilegar prófanir og greiningarþjónusta
867
Auglýsingaþjónusta


871
Efni
CPC tilvísun N
Ræstingar- og eignaumsjónarþjónusta

874, 82201-82206
Útgáfu- og prentþjónusta gegn greiðslu eða á
grundvelli verktakasamnings
88442
Fráveita og sorpförgun; sorphreinsun og svipuð
þjónusta
94

Athugasemdir við 4. Viðauka.

*        undanskilin er þjónusta sem aðilum er skylt að sækja til annars aðila samkvæmt einkarétti með stoð í birtum lögum, reglugerðum eða stjórnsýsluákvæðum
**    undanskilin er talsímaþjónusta, fjarritun, þráðlaus talsímaþjónusta, boðkerfisþjónusta og gervihnattaþjónusta
***    undanskildir eru samningar um fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða eignaskipti á verðbréfum eða öðrum fjármálaskjölum, svo og seðlabankaþjónusta
****    undanskilin er gerðardóms- og sáttagerðarþjónusta


5. VIÐAUKI

Verk.


Skilgreining:

    Verksamningur er samningur sem hefur að markmiði mannvirkjagerð í skilningi 51. deildar CPC vöruflokkunarkerfis S.þ.



Skrá úr 51. deild CPC:

    Öll opinber mannvirkjagerð/verk í 51. deild.



ALMENNAR ATHUGASEMDIR OG UNDANÞÁGUR FRÁ ÁKVÆÐUM III. GR.


1.    Ísland mun ekki veita réttindi samkvæmt samningi þessum til:
    –    birgja og þjónustuveitenda í Kanada, að því er varðar verktakasamninga aðila sem getið er í 2. viðauka;
    –    birgja og þjónustuveitenda í Bandaríkjum Norður-Ameríku, að því er varðar verktakasamninga um annað en vörur sem getið er í 2. viðauka Hér fer eitthvað milli mála í enska textanum sbr. greinarmerkjasetningu --> ;
    –    að því er varðar samninga á vegum aðila sem taldir eru upp í töluliðum 3. viðauka,
         (1)    (rafmagn), birgja og þjónustuveitenda í Kanada, Singapúr og Japan;

         (2)    (fólksflutningar í þéttbýli), birgja og þjónustuveitenda í Kanada, Japan, Kóreu og Bandaríkjum Norður-Ameríku;
         (3)    (flugvellir), birgja og þjónustuveitenda í Kanada, Japan, Kóreu og Bandaríkjum Norður-Ameríku;
         (4)    (hafnir), birgja og þjónustuveitenda í Kanada;
         (5)    (vatn), birgja og þjónustuveitenda í Kanada, og Bandaríkjum Norður-Ameríku;
    þar til Ísland hefur gengið úr skugga um að viðkomandi samningsaðilar veiti íslenskum fyrirtækjum sambærilegan og raunverulegan aðgang að viðkomandi mörkuðum;
    –    þjónustuveitenda samningsaðila sem setja ekki viðkomandi þjónustusamninga fyrir viðkomandi aðila í 1. til 3. viðauka og viðeigandi þjónustuflokk í 4. og 5. viðauka í eigin aðildarskilmálum.
2.    Ákvæði XX. gr. skulu ekki eiga við um birgja og þjónustuveitendur
    –    Japans, Kóreu og Sviss, þegar vefengir eru samningar á vegum aðila sem skráðir eru í 2. mgr. 2. viðauka, þar til Ísland hefur gengið úr skugga um að þeir hafi lokið þeirri skráningu hjá sér;
    –    Japans og Kóreu þegar vefengir eru samningar til birgja eða þjónustuveitenda annarra en þeirra sem getið er, sem eru lítil eða meðalstór fyrirtæki samkvæmt viðeigandi ákvæðum á Íslandi, þar til Ísland hefur gengið úr skugga um að þau beiti ekki lengur mismunun í þágu tiltekinna lítilla fyrirtækja og fyrirtækja í eigu minnihlutahópa í eigin landi;

    –    Ísraels, Japans og Kóreu þegar vefengir eru samningar á vegum íslenskra aðila, þegar verðmæti þeirra er undir fjárhæðarmörkum fyrir sömu flokka samninga sem þessir samningsaðilar bjóða út.
3.    Þar til Ísland hefur gengið úr skugga um að viðkomandi samningsaðilar muni veita íslenskum birgjum og þjónustuveitendum aðgang að eigin mörkuðum mun Ísland ekki láta réttindi samkvæmt samningi þessum ná til birgja og þjónustuveitenda í:
    –    Kanada, að því er varðar innkaup á FSC 58 (fjarskipti, vernd og samfelldur geislunarbúnaður) og Bandaríkjum Norður-Ameríku, að því er varðar búnað til flugumferðarstjórnar;
    –    Ísrael og Kóreu, að því er varðar innkaup af hálfu aðila sem getið er í skrá í 1. mgr. í 3. viðauka, að því er varðar innkaup á HS nr. 8504, 8535, 8537 og 8544 (rafmagnsspennubreytar, innstungur, rofar og einangraðir kaplar); og Ísrael, HS nr. 8501, 8536 og 902830;
    –    Kanada og Bandaríkjum Norður-Ameríku, að því er varðar samninga um vöru- eða þjónustuþætti samninga sem heyra ekki sjálfir undir samning þennan, þótt aðilinn sem býður þá út geri það.
4.    Samningar sem boðnir eru út af aðilum í 1. og 2. viðauka í tengslum við starfsemi á sviði neysluvatns, orku, flutninga eða fjarskipta teljast ekki með.
5.    Að því er varðar 3. viðauka skal samningur þessi ekki gilda um eftirfarandi samninga:
    –    samninga á vegum aðila samkvæmt 5. mgr. bjóða út á vatni;
    –    samninga á vegum aðila samkvæmt 1. mgr. til orkuveitu eða útvegun eldsneytis til orkuframleiðslu;
    –    samninga sem aðilar bjóða út í öðrum tilgangi en til að stunda eigin starfsemi eins og henni er lýst í viðauka þessum eða til að stunda slíka starfsemi í landi utan EES;

    –    samninga sem boðnir eru út vegna endursölu eða leigu til þriðja aðila, enda njóti viðkomandi verktaki engra sérstakra réttinda eða einkaréttar til að selja eða leigja viðfangsefni slíkra samninga og því sé öðrum aðilum heimilt að selja eða leigja það með sömu skilyrðum og verktakinn.
    –    samninga á vegum aðila sem stunda starfsemi á sviði reksturs almenningsvagna, þar sem öðrum aðilum er frjálst að veita sömu þjónustu á sama landsvæði og með efnislega sömu skilyrðum.

6.    Að því er varðar 4. viðauka skal samningur þessi ekki gilda um eftirfarandi:
    –    samninga um kaup eða leigu, hvernig sem greiðslu er háttað, á landi, byggingum sem til eru fyrir eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir slíku;
    –    samninga um kaup, þróun, framleiðslu eða samframleiðslu á dagskrárefni af hálfu útvarpsrekenda og samninga um útsendingartíma;
    –    samninga sem gerðir eru við aðila sem sjálfur er útboðsstofnun í skilningi laga um opinber innkaup (nr. 52/1997) og reglugerðar (nr. 302/1996) á grundvelli einkaréttar sem viðkomandi nýtur samkvæmt settum lögum, reglugerðum eða stjórnsýsluákvæðum;

    –    vinnusamninga.
7.    Samningurinn gildir ekki um samninga sem boðnir eru út samkvæmt:
    –    alþjóðlegum samningi og ætlaðir eru til sameiginlegar framkvæmdar eða nýtingar verkefnis af hálfu ríkjanna sem undirrita hann;
    –    alþjóðlegum samningi sem varðar setu herliðs;
    –    tiltekinni verklagsreglu alþjóðastofnunar.

8.    Samningurinn gildir ekki um útboð á landbúnaðarvörum sem ætluð eru til þess að stuðla að framgangi stuðningsáætlana við landbúnað svo og manneldisáætlana.


II. VIÐBÆTIR


    Útgáfur sem samningsaðilar nota til birtingar á tilkynningum um fyrirhuguð útboð sbr. 1. mgr. IX. gr. og tilkynningum eftir lok útboða (1. mgr. XVIII. gr.).

Íslensk dagblöð:
Morgunblaðið
Dagblaðið
Dagur

Önnur rit:
Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.



III. VIÐBÆTIR


    Útgáfur sem notaðar eru af samningsaðilum til þess að birta árlega upplýsingar um fasta skrá yfir hlutgenga birgja þegar um er að ræða málsmeðferð útboða með forvali (9. mgr. IX. gr.)

Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna:
(Sem stendur er engin slík skrá til)



IV. VIÐBÆTIR


    Útgáfur sem notaðar eru af samningsaðilum til birtingar á lögum, reglugerðum, dómsúrskurðum, stjórnsýsluákvörðunum sem hafa almennt gildi og hvers kyns málsmeðferð varðandi opinber útboð sem heyra undir samning þennan (1. mgr. XIX. gr.).

Lög, reglugerðir og reglur:     Stjórnartíðindi


Dómsúrskurðir og
stjórnsýsluákvarðanir:     Hæstaréttardómar

    (Héraðsdómstólar gefa ekki út dóma sína, en þeir sem þess óska geta fengið endurrit dóma í tilteknum málum. Stjórnsýsluákvarðanir eru ekki birtar, en hægt er að nálgast þær hjá viðkomandi stjórnvaldi).


TERMS OF ACCESSION OF ICELAND


APPENDIX I

ANNEX 1

Entities which Procure in Accordance
With the Provisions of this Agreement


Supplies
Threshold:
SDR 130,000


Services     (specified in Annex 4)
Threshold:
SDR 130,000


Works         (specified in Annex 5)
Threshold:
SDR 5,000,000


List of Entities:

The following central government entities including:

Central purchasing entities not having an industrial or commercial character governed by Act no. 63/1970 on the arrangement of public works contracts, and Act no. 52/1987, on government procurement, as amended.

The entities in charge of government procurement are the following bodies:
Ríkiskaup (State Trading Center)
Framkvæmdasýslan (Government Construction Contracts)
Vegagerð ríkisins (Public Road Administration)
Siglingastofnun (Icelandic Maritime Administration)


ANNEX 2

Entities which Procure in Accordance
With the Provisions of this Agreement


Supplies
Threshold:
SDR 200,000


Services     (specified in Annex 4)
Threshold:
SDR 200,000


Works         (specified in Annex 5)
Threshold:
SDR 5,000,000


List of Entities:

1.    Contracting local public authorities, including all municipalities.

2.    Public bodies at the local level not having an industrial or commercial character.


ANNEX 3

Other Entities which Procure in Accordance
With the Provisions of this Agreement


Supplies
Threshold:
SDR 400,000


Services     (specified in Annex 4)*
Threshold:
SDR 400,000


Works         (specified in Annex 5)
Threshold:
SDR 5,000,000


List of Sectors:

1.     The electricity sector:
    Landsvirkjun (The National Power Company), lög nr. 42/1983.    
    Rafmagnsveitur ríkisins (The State Electric Power Works), orkulög nr. 58/1967
    Orkuveita Reykjavíkur (Reykjavík Energy) .
    Orkubú Vestfjarða (Vestfjord Power Company), lög nr. 66/1976.
    Other entities producing, transporting or distributing electricity pursuant to orkulög nr. 58/ 1967.
2.     Urban transport:
    Strætisvagnar Reykjavíkur (The Reykjavík Municipal Bus Service).
    Almenningsvagnar bs.
    Other Municipal bus services.
3.     Airports:
    Flugmálastjórn (Directorate of Civil Aviation)
4.     Ports:
    Siglingastofnun, (Icelandic Maritime Administration).
    Other entities operating pursuant to Hafnalög nr. 23/1994.
5.     Water supply:**
    Public entities producing or distributing drinking water pursuant to lög nr 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga.

Notes to Annex 3

*    This Agreement shall not apply to service contracts which:
    (a)    a contracting entity awards to an affiliated undertaking;
    (b)    are awarded by a joint venture formed by a number of contracting entities for the purpose of carrying out a relevant activity within the meaning of paragraphs 1–5 of this Annex to one of those contracting entities or to an undertaking which is affiliated with one of these contracting entities;
    Provided that at least 80 per cent of the average turnover of that undertaking with respect to services arising within the EEA for the three preceding years derives from the provision of such services to undertakings with which it is affiliated. When more than one undertaking affiliated with the contracting entity provides the same service or similar services, the total turnover deriving from the provision of services by those undertakings shall be taken into account.
**    The supply of drinking water and electricity to networks which provide a service to the public by a contracting entity other than a public authority shall not be considered as a relevant activity within the meaning of paragraphs 1 and 5 of Annex 3 where:
    –    the production of drinking water or electricity by the entity concerned takes place because its consumption is necessary for carrying out an activity other than that referred to in paragraphs 1 and 5 of this Annex; and
    –    supply to the public network depends only on the entity's own consumption and has not exceeded 30 per cent of the entity's total production of drinking water or energy, having regard to the average for the preceding three years, including the current year.


ANNEX 4

Services


    Of the Universal List of Services, as contained in document MTN.GNS/W/120, the following services are included:*

Subject
CPC Reference N
Maintenance and repair services
6112, 6122, 633, 886
Subject
CPC Reference N
Land transport services, including armoured car services, and courier services, except transport of mail


712 (except 71235), 7512, 87304
Air transport services of passengers and freight, except transport of mail
73 (except 7321)
Transport of mail by land, except rail, and by air

71235, 7321
Telecommunications services
752** (except 7524, 7525, 7526)
Financial services ex 81
(a)    Insurance services 812, 814
(b)    Banking and investment services***
Computer and related services
84
Accounting, auditing and bookkeeping services
862
Market research and public opinion polling services

864
Management consulting services and related services
865, 866****
Architectural services; engineering services and integrated engineering services, urban planning and landscape architectural services; related scientific and technical consulting services; technical consulting services; technical testing and analysis services
867
Advertising services


871
Subject
CPC Reference N
Building-cleaning services and property management services
874, 82201-82206
Publishing and printing services on a fee or contract basis

88442
Sewage and refuse disposal; sanitation and similar services 94

Notes to Annex 4

*    except for services which entities have to procure from another entity pursuant to an exclusive right established by a published law, regulation or administrative provision
**    except voice telephony, telex, radiotelephony, paging and satellite services

***    except contracts for financial services in connection with the issue, sale, purchase, or transfer of securities or other financial instruments, and central bank services
****    except arbitrations and conciliation services



ANNEX 5

Construction Services


Definition:

    A construction service contract is a contract which has as its objective the realization by whatever means of civil or building works, in the sense of Division 51 of the Central Product Classification (CPC).

List of Division 51, CPC:

    All public works/construction services of Division 51.


GENERAL NOTES AND DEROGATIONS FROM THE PROVISIONS OF ARTICLE III


1.    Iceland will not extend the benefits of this Agreement:
    –    as regards the award of contracts by entities listed in Annex 2 to the suppliers and service providers of Canada;
    –    as regards the award of contracts, other than for supplies, listed in Annex 2 to the suppliers and service providers of the USA;

    –    as regards the award of contracts by entities listed in Annex 3 paragraph
         (1)    (electricity), to the suppliers and service providers of Canada, Singapore and Japan;
         (2)    (urban transport), to the suppliers and service providers of Canada, Japan, Korea and the USA;
         (3)    (airports), to the suppliers and service providers of Canada, Korea and the USA;
         (4)    (ports), to the suppliers and service providers of Canada;
         (5)    (water), to the suppliers and service providers of Canada and the USA;
    until such time as Iceland has accepted that the Parties concerned give comparable and effective access for Icelandic undertakings to the relevant markets;
    –    to service providers of Parties which do not include the relevant service contracts for the relevant entities in Annexes 1 to 3 and the relevant service category under Annexes 4 and 5 in their own coverage.
2.    The provisions of Article XX shall not apply to suppliers and service providers of:
    –    Japan, Korea and Switzerland in contesting the award of contracts by entities listed under Annex 2, paragraph 2, until such time as Iceland accepts that they have completed coverage of sub-central entities;
    –    Japan and Korea in contesting the award of contracts to a supplier or service provider of Parties other than those mentioned, which are small or medium-sized enterprises under the relevant provisions in Iceland, until such time as Iceland accepts that they no longer operate discriminatory measures in favour of certain domestic small and minority businesses;
    –    Israel, Japan and Korea in contesting the award of contracts by Icelandic entities, whose value is less than the threshold applied for the same category of contracts awarded by these Parties.
3.    Until such time as Iceland has accepted that the Parties concerned provide access for Icelandic suppliers and service providers to their own markets, Iceland will not extend the benefits of this Agreement to suppliers and service providers of:
    –    Canada as regards procurement of FSC 58 (communications, protection and coherent radiation equipment) and the USA as regards air traffic control equipment;
    –    Israel and Korea as regards procurement by entities listed in Annex 3, paragraph 1, as regards procurement of HS Nos 8504, 8535, 8537 and 8544 (electrical transformers, plugs, switches and insulated cables); and for Israel, HS Nos 8501, 8536 and 902830;
    –    Canada and the USA as regards contracts for good or service components of contracts which, although awarded by an entity covered by this Agreement, are not themselves subject to this Agreement.
4.    Contracts awarded by entities in Annexes 1 and 2 in connection with activities in the fields of drinking water, energy, transport or telecommunications, are not included.
5.    With regard to Annex 3, this Agreement shall not apply to the following contracts:
    –    contracts which the contracting entities under paragraph 5 award for the purchase of water;
    –    contracts which the contracting entities under paragraph 1 award for the supply of energy or of fuels for the production of energy;
    –    contracts which the contracting entities award for purposes other than the pursuit of their activities as described in this Annex or for the pursuit of such activities in a non- EEA country;
    –    contracts awarded for purposes of re-sale or hire to third parties provided that the contracting entity enjoys no special or exclusive right to sell or hire the subject of such contracts and that other entities are free to sell or hire it under the same conditions as the contracting entity;
    –    contracts awarded by contracting entities exercising activities in the bus transportation sector where other entities are free to offer the same services in the same geographical area and under substantially the same conditions.
6.    With regard to Annex 4, this Agreement shall not apply to the following:
    –    contracts for the acquisition or rental, by whatever financial means, of land, existing buildings, or other immovable property or concerning rights thereon;
    –    contracts for the acquisition, development, production or co-production of programme material by broadcasters and contracts for broadcasting time;
    –    contracts awarded to an entity which is itself a contracting authority within the meaning of the Public Procurement Act: “Lög um opinber innkaup” (52/1997) and Regulation (302/ 1996) on the basis of an exclusive right which it enjoys pursuant to a published law, regulation or administrative provision;
    –    contracts of employment.
7.    The Agreement shall not apply to contracts awarded under:
    –    an international agreement and intended for the joint implementation or exploitation of a project by the signatory States;
    –    an international agreement relating to the stationing of troops;
    –    the particular procedure of an international organization.
8.    The Agreement shall not apply to procurement of agricultural products made in furtherance of agricultural support programmes and human feeding programmes.


APPENDIX II


    Publications utilised by Parties for the publication of notices of intended procurements, paragraph 1 of Article IX and of post-award notices (paragraph 1 of Article XVIII).

Icelandic newspapers:
Morgunbladid
Dagbladid
Dagur

Other:
Official Journal of the European Communities.



APPENDIX III


    Publications utilised by Parties for the publication annually of information on permanent lists of qualified suppliers in the case of selective tendering procedures (paragraph 9 of Article IX).

Official Journal of the European Communities:
(Currently no such list exists)



APPENDIX IV


    Publications utilised by Parties for the publication of laws, regulations, judicial decisions, administrative rulings of general application and any procedure regarding government procurement governed by this Agreement (paragraph 1 of Article XIX).

Laws, regulations    Stjórnartíðindi
and rules:     (The Government Gazette)

Judicial decisions and    Hæstaréttardómar
administrative rulings:     (Supreme Court Report)

    (District courts do not issue a Court Report, but any interested party can obtain a transcript of a particular case. Administrative rulings are not reported but can be obtained from the relevant authority.)