Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 880  —  571. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2000.

1. Inngangur.
    Frá því að breytingar voru gerðar á skipulagi Norðurlandaráðs að loknu þingi þess í Reykjavík árið 1995 hefur norrænt samstarf verið á þremur meginsviðum: Samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda og Evrópu (ESB/EES) og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða þeirra. Með skipulagsbreytingunum voru fagnefndir lagðar niður frá og með áramótum 1995–96 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir um fyrrgreind meginsvið, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs var stækkuð og auk þess stofnuð sérstök eftirlitsnefnd. Flokkasamstarf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur árlega þing þar sem almennar umræður fara fram og þemaráðstefnu þar sem fjallað er sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig hefur samstarf og samráð við önnur alþjóðaþingmannasamtök, einkum evrópsk, verið bætt og unnið er að frekara samstarfi Norðurlandaráðs og fastanefnda norrænu þjóðþinganna. Þrátt fyrir að breytingarnar hafi um margt verið til hins betra heyrast stöðugt raddir um að Norðurlandaráð ætti að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrra skipulags með því að setja á stofn fagnefndir í stað þess að svæðisbundnar nefndir séu allar að vinna á ákveðnum fagsviðum. Þá hefur verið rætt um að færa þingið til og halda það á fyrri hluta árs, t.d. í mars, í stað þess að hafa það seint að hausti líkt og nú er. Ástæðan er einkum sú að í nóvember er fjárlagavinna í fullum gangi í þjóðþingunum og erfitt getur verið að senda fjölda þingmanna utan á þing í nokkra daga.
    Árið 1999 var sett á fót sérstök nefnd vísra manna, aldamótanefndin, undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans og fyrrverandi ráðherra, til að fara ofan í saumana á skipulagi Norðurlandaráðs og framtíðarsýn þess. Skýrsla nefndarinnar var lögð fram í október og tekin til umræðu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Skýrslan verður svo tekin til ítarlegrar meðferðar innan Norðurlandaráðs á árinu 2001 og er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun um framtíðarskipulag norrænnar samvinnu á 53. þingi ráðsins sem haldið verður í Kaupmannahöfn haustið 2001.
    Sigríður A. Þórðardóttir var kjörin forseti Norðurlandaráðs á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi í nóvember 1999 og tók formlega við embættinu 1. janúar 2000.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1 Nefndarskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun ársins skipuðu Íslandsdeildina þau Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Jónsson og Steingrímur J. Sigfússon. Varamenn voru Árni Johnsen, Rannveig Guðmundsdóttir Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller og Þuríður Backman. Hinn 2. október 2000 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Norðurlandaráði og á fundi Íslandsdeildarinnar daginn eftir var Ísólfur Gylfi Pálmason kjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.
    Á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi í nóvember 1999 voru Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson og Ísólfur Gylfi Pálmason kjörin til setu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Hjálmar Jónsson í nærsvæðanefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, Sigríður Jóhannesdóttir í Norðurlandanefnd og Steingrímur J. Sigfússon í Norðurlandanefnd. Á forsætisnefndarfundi í Jevnaker 9. desember 1999 var sú breyting gerð á skipan í nefndir að Steingrímur J. Sigfússon var færður úr Norðurlandanefnd í Evrópunefnd að ósk flokkahóps vinstri sósíalista. Þessi nefndarskipan hélst út starfsárið 2000.

2.2 Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman sjö sinnum á árinu. Þá hafa formaður og varaformaður ásamt ritara haldið óformlega fundi. Að venju voru fundir í Norðurlandaráði og ráðstefnur undirbúnar en auk þess voru fjölmörg mál á dagskrá Íslandsdeildarinnar. Þá var ítarlega rætt um skipulagningu Norðurlandaráðsþingsins sem haldið var í Reykjavík 6.–8. nóvember.
    Íslandsdeildin hélt einn fund með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, og var hann haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þar var m.a. farið yfir drög að dagskrá komandi þings Norðurlandaráðs og einkum rætt hver áhrif stytting þingsins um einn dag mundi hafa bæði á efni og ytri ramma þingsins. Þá var rætt almennt um tillögur til norrænu fjárlaganna 2001 og hvort einhverra breytinga á þeim væri að vænta. Fram kom m.a. að fjöldi tillagna lægi fyrir um verkefni sem menn vildu framkvæma, t.d. landamærahindranir, tungumálasamstarf, Hallo Norden upplýsingasímann o.fl. Nokkrar umræður urðu um tillögur að norrænu fjárlögunum og kom m.a. fram að umhugsunarefni væri að miklir fjármunir hefðu runnið til grannsvæðasamstarfs á kostnað eiginlegra samnorrænna verkefna. Þó var á það bent að hafa yrði í huga að samstarfið við grannsvæðin styrkti hið eiginlega norræna samstarf. Einnig var bent á að framlög ríkjanna til norrænu fjárlaganna væru smámunir miðað við heildarútgjöld þessara ríkja en framlag Íslands er um 80 millj. kr. á ári.
    Þá hélt Íslandsdeildin fund með upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Tilgangurinn var að fara yfir upplýsingamál, svo sem útgáfustarfsemi, heimasíðu, samskipti við fjölmiðla og samstarf landsdeilda við upplýsingaskrifstofuna. Þá var farið vel yfir skipulag fjölmiðlamála á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík og voru fundarmenn einhuga um að búa yrði vel að fjölmiðlafólki og efla þyrfti samskipti landsdeilda og skrifstofu Norðurlandaráðs við fjölmiðla.
    Á fund nefndarinnar kom Una María Óskarsdóttir, verkefnisstjóri nefndar félagsmálaráðherra um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum, og falaðist eftir samstarfi um málþing er bæri yfirskriftina „Hverju hefur þátttaka kvenna í stjórnmálum breytt?“ og haldið yrði í tengslum við Norðurlandaráðsþingið. Íslandsdeildin varð við beiðninni.
    Íslandsdeildin þáði boð Norðurlandaráðs um að senda tvo þingmenn til Tallinn á Barn Forum II ráðstefnuna, auk fimm ungmenna. Íslandsdeildin valdi úr sínum röðum þingmennina Hjálmar Jónsson, sem á sæti í nærsvæðanefnd, og Sigríði Jóhannesdóttur, sem á sæti í Norðurlandanefnd. Þá var ákveðið að gefa stjórnmálaflokkunum tækifæri til að tilnefna ungmenni á aldrinum 18–23 ára til að taka þátt í ráðstefnunni fyrir Íslands hönd og fyrir valinu urðu Sif Sigmarsdóttir, Kjartan Ólafsson, Bára Mjöll Þórðardóttir, Katrín Júlíusóttir og Margrét Helga Ögmundsdóttir.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 15. júní 2000 en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur. Óvenjufáar umsóknir bárust um styrkina og var því unnt að veita öllum umsækjendum styrk að þessu sinni. Eftirtaldir fréttamenn hlutu styrki: Brynhildur Þórarinsdóttur hlaut 100.000 kr, Broddi Broddason 95.000 kr., Eiríkur Stefán Eiríksson 100.000 kr., Pálmi Jónasson 135.000 kr., Helgi Þorsteinsson 100.000 kr. og Reynir Traustason og Róbert Reynisson saman 300.000 kr. Ekki er ljóst hvers vegna svo fáar umsóknir bárust þetta árið en auglýsing styrkja var hefðbundin. Hins vegar telur Íslandsdeildin rétt að endurskoða fyrirkomulag auglýsingar um fréttamannastyrki fyrir árið 2001 þannig að tryggt sé að náð verði til enn stærri hóps fréttamanna.

2.3 Forseti Norðurlandaráðs.
    Sigríður A. Þórðardóttir gegndi starfi forseta Norðurlandaráðs á árinu en hlutverk forseta er einkum að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar og ekki síst að koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Þá hefur forseti mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs, auk þess að vinna náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar. Forseti sótti fjölmarga fundi og ráðstefnur erlendis fyrir hönd Norðurlandaráðs en allur kostnaður af störfum forsetans er greiddur af skrifstofu ráðsins.
    Eitt af fyrstu verkum forseta var að eiga fund með Marianne Jelved, formanni norrænu ráðherranefndarinnar, í Kaupmannahöfn í lok janúar. Þar var einkum rætt um störf aldamótanefndar og fjárlagagerð fyrir árið 2001. Ljóst var að veruleg endurskoðun á uppbyggingu fjárlaganna stóð yfir og mátti vænta þess að tillögur yrðu bornar fram um einhvern niðurskurð á fjárframlögum til einstakra stofnana og verkefna. Þá var rætt um skipulag Norðurlandaráðsþings í Reykjavík og hugmyndir ráðherranefndar um ný norræn verðlaun til aðila sem hefði skarað fram úr í málefnum innflytjenda (nordisk integrationspris). Skemmst er frá því að segja að forsætisnefndin hafnaði tillögu ráðherranefndar en nánar er fjallað um málið í kafla 3.1 hér á eftir.
    Dagana 2.–4. mars fór forseti í opinbera heimsókn til Eistlands og átti m.a. fundi með Anders Tarand, formanni utanríkismálanefndar eistneska þingsins, og forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins auk þess að kynna sér störf upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar í Tallinn sem stýrt er af Kalli Klement. Meðal þess sem fram kom var að upplýsingaskrifstofan er töluvert mikið notuð og greinilegt Eistar hafa mikinn áhuga á Norðurlöndunum.
    Forseti tók þátt í vorþingi Benelux-þingsins sem haldið var í Haag í Hollandi dagana 17.–18. mars. Fyrir upphaf þingsins átti forseti fund með forsætisnefndum Benelux-þingsins og Eystrasaltsþingsins og var m.a. rætt um megináherslur hverrar stofnunar fyrir sig komandi missiri. Að fundinum loknum var þingið sett. Í upphafi þess ávarpaði forseti Norðurlandaráðs þingið og fór yfir sjónarmið og áherslur Norðurlandaráðs á hina „norðlægu vídd“ í Evrópusambandinu, mikilvægi svæðasamstarfs og umhverfisverndar.
    Í lok apríl var forseti viðstaddur opnun víkingasýningarinnar í Washington. Einnig var honum boðið að taka þátt í ráðstefnu forseta evrópskra þjóðþinga sem haldið var í Strassborg 5.–6. maí en varð að hætta við þátttöku vegna anna í þingstörfum. Þá sótti forseti ásamt nokkrum fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs 16. þing Eystrasaltsþingsins sem haldið var í Tartu í Eistlandi 25.–27. maí. Þá tók forseti þátt í ráðstefnu um efnahagsmál sem haldin var í St. Pétursborg í Rússlandi 13.–17. júní og flutti þar ávarp auk þess að taka þátt í hringborðsumræðum. Í júlí sótti forseti þing Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem haldið var í Búkarest 6.–10. júlí. Þar gerðist sá fáheyrði atburður að erlendum gestum sem boðið var til ráðstefnunnar gafst ekki tækifæri til að ávarpa fundinn eins og gert hafði verið ráð fyrir í dagskrá. Norðurlandaráð sendi síðar formlegar athugasemdir sínar til stofnunarinnar að þingi loknu og líklegt er að Norðurlandaráð íhugi alvarlega hvort fulltrúi þess sæki þingið á þessu ári. Um miðjan júlí fór forseti fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs sem tók þátt í hátíðahöldunum í Brattahlíð á Grænlandi ásamt því að taka þátt í menningarráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Qaqortoq. Í september tók forseti ásamt nokkrum fulltrúum Norðurlandaráðs þátt í ráðstefnunni Barn Forum II sem haldin var í Tallinn í Eistlandi. Í ræðu sinni við opnun ráðstefnunnar sagði forseti m.a. að neysla fíkniefna og glæpastarfsemi ógnaði framtíð margra þjóða og að mikilvægt væri að ungt fólk á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum tæki höndum saman í baráttunni gegn þessum vágesti. Þá hvatti forseti unga fólkið til að nota tækifærið og kynnast hvert öðru, enda væri mannlegi þátturinn mikilvægastur í samskiptum þjóðanna.
    Í byrjun október fór forseti ásamt forsætisnefnd Norðurlandaráðs í opinbera heimsókn til Moskvu þar sem nefndin átti fundi með Seleznev, forseta Dúmunnar, og síðar Chilingarov, varaforseta Dúmunnar. Á fundi með varaforsetanum var því m.a. skýrt komið á framfæri við forsætisnefndina að Rússar óskuðu eftir beinni aðild að Norðurlandaráði. Þá fundaði sendinefndin með Stroev, forseta sambandsráðsins, Avdeev, fyrsta varautanríkisráðherra Rússlands, Rogozin, formanni utanríkismálanefndar Dúmunnar, og átti að lokum fund með Pivnenko, formanni fastanefndar Dúmunnar um norræn málefni. Í byrjun desember sótti forseti Norðurlandaráðs svo 17. þing Eystrasaltsþingsins sem haldið var í Vilnius í Litháen 7.–9. desember. Þar hitti hann m.a. að máli forseta litháíska þingsins, átti fund með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins og formanni fastanefndar sem fer með norræn málefni. Þá fór forseti nokkrum sinnum til fundar við framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs og átti fundi með embættismönnum ráðsins .

3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1 Forsætisnefnd.

    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs og milli þinga, en hún hefur einnig með höndum erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um norrænu fjárlögin. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2000, líkt og áður hafði verið gert. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Af hálfu Íslandsdeildar sátu í nefndinni Sigríður A. Þórðardóttir frá flokkahópi hægrimanna, Ísólfur Gylfi Pálmason frá flokkahópi miðjumanna og Sighvatur Björgvinsson frá flokkahópi jafnaðarmanna.
    Forsætisnefnd hélt alls sjö fundi á árinu og fór þar að auki í opinbera heimsókn til Moskvu. Af helstu málum sem forsætisnefnd hefur fjallað um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna framtíð norrænnar samvinnu, þ.e. skýrslu aldamótanefndarinnar „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“, norrænu fjárlögin og skipulag og undirbúning 52. þings Norðurlandaráðs í Reykjavík. Jón Sigurðsson, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, kom á fund nefndarinnar í janúar og gerði grein fyrir störfum aldamótanefndarinnar og þeim meginþemum sem skýrslan yrði byggð á. Í október kom Jón svo aftur á fund nefndarinnar og fór yfir skýrsluna sem þá hafði verið lögð fram.
    Árið 2002 verða gagngerar breytingar gerðar á afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd ákvað að frá og með 54. þingi Norðurlandaráðs árið 2002, sem haldið verður í Helsinki, skyldu öll verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í einu við sömu athöfn en ekki í tvennu lagi eins og verið hefur frá 1995. Rökin fyrir þessari breytingu eru einkum að vekja meiri athygli á verðlaunum ráðsins og gera athöfnina hátíðlegri. Í þessu sambandi má geta þess að forsætisnefnd hafnaði einróma tillögum ráðherranefndarinnar um að koma á fót nýrri tegund verðlauna, til aðila sem þætti hafa skarað fram úr í málefnum innflytjenda. Nefndin leit svo á að ekki væri tímabært að stofna til nýrra verðlauna.
    Forsætisnefnd hélt aukafund í lok maí á Hvolsvelli þar sem fjárlög Norðurlandaráðs og tillögur norrænu ráðherranefndarinnar voru til umræðu. Á fundinn kom Sören Christensen, framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, og fjallaði ítarlega um vinnuna við norrænu fjárlögin og fjárlagatillögurnar. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafði veg og vanda af allri skipulagningu fundarins og að honum loknum var gestum boðið í Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem þeir fengu að kynnast Njáls sögu og var boðið upp á rammíslenskan mat. Þá var farið með gesti um söguslóðir Njálu, í Þórsmörk og að lokum var Bláa lónið heimsótt.
    Forsætisnefnd tók ákvörðun um undirbúning 50 ára afmælis Norðurlandaráðs árið 2002. Gefin verður út sérstök afmælisbók sem geymir sögu Norðurlandaráðs frá 1978 til afmælisársins, auk ritgerða eftir stjórnmálamenn en áður hafði komið út saga ráðsins frá 1952–1978, rituð af Frantz Wendt. Ráðið mun standa fyrir fjölmörgum atburðum í tengslum við afmælið og verður meðal annars efnt til ritgerðarsamkeppna, átak gert í upplýsingamálum, unnið frekar að eflingu norrænnar menningar o.fl. Þá munu landsdeildir standa fyrir atburðum hver í sínu landi og unnið er að samstarfi við norrænu ráðherranefndina, Norrænu félögin og Norrænu húsin í aðildarríkjunum.
    Í desember ákvað forsætisnefnd að þiggja boð Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um að halda þemaráðstefnuna á afmælisárinu 2002 á Íslandi. Reiknað er með að sérstaklega verði vandað til ráðstefnunnar í tilefni af afmælinu.
    Á fundi nefndarinnar í Jevnaker í desember 1999 voru ræddar ítarlega breytingar á upplýsingaþjónustu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Kynntar voru tillögur vinnuhóps um breytingar á tímaritinu Politik i Norden. Breytingarnar fólu í sér að tímaritið yrði gefið út fjórum sinnum á ári í stað sjö og kæmi út í stærra broti en nú. Tímaritið yrði stórt og vandað, meiri áhersla yrði lögð á menningarmál og hefði hvert tölublað ákveðið þema. Á fundi forsætisnefndar í desember 2000 var ákveðið að festa samstarfið í sessi og gera það að hluta af hinum svokallaða almenna samningi milli Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Jafnframt var ákveðið að leggja niður upplýsinganefnd forsætisnefndar en Rannveig Guðmundsdóttir hafði átt sæti í henni á árinu. Mat forsætisnefndin það svo að ekki væri lengur þörf fyrir sérstaka upplýsinganefnd þar sem skipan upplýsingamála væri komin í fast horf og samstarf við landsdeildir færi einnig fram á upplýsingafundum embættismanna landanna.
    Að lokum er rétt að geta þess að forsætisnefndin ákvað á síðasta fundi ársins að koma á vinnuhópi sem skyldi vinna að tillögum um hvernig bregðast bæri við skýrslu aldamótanefndar um framtíð norrænnar samvinnu. Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík bauð sameiginlega embættismannanefnd norrænu ráðherranefndarinnar forsætisnefnd Norðurlandaráðs til málþings sem haldið yrði í Helsinki í janúarlok 2001 til að ræða skýrslu ráðherranefndarinnar „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“ og framtíð norrænnar samvinnu. Til málþingsins var boðið forsætisnefnd Norðurlandaráðs, formönnum nefnda, formönnum flokkahópa og fulltrúum sjálfstjórnarsvæða. Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópnum fyrir hönd sósíaldemókrata en þegar Sighvatur hætti þingmennsku í febrúar 2001 urðu nokkrar breytingar á skipan vinnuhópsins og í kjölfar þeirra tók Sigríður A. Þórðardóttir sæti í honum. Vinnuhópurinn mun skila skýrslu ásamt tillögum um mitt árið 2001.

3.2 Norðurlandanefnd.
    Ísland átti einn fulltrúa í Norðurlandanefnd á árinu, Sigríði Jóhannesdóttur.
    Málefni Norðurlandanefndar eru fyrst og fremst norrænt samstarf, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Norðurlandanefnd gerði sérstaka vinnuáætlun fyrir starfsárið 2000 og ákvað að sérstaklega yrði fjallað um eftirfarandi málefni: menningu, kvikmyndir og miðlun, tungumál, menntun og rannsóknir, félagslegar aðstæður, t.d. barna og unglinga, og jafnréttismál.
    Nefndin hélt sjö fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópar nefndarinnar og formenn nokkrum sinnum. Nefndin stóð jafnframt fyrir fimm málþingum á árinu sem nánar er fjallað um í kafla 5.1.

3.3 Nærsvæðanefnd.

    Fulltrúi Íslands í nærsvæðanefnd var Hjálmar Jónsson. Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað nefndin sem fyrr að leggja áherslu á nánara samstarf við Eystrasaltslöndin og önnur grannsvæði Rússlands og heimskautasvæðin. Umhverfismál skipuðu enn fremur stóran sess í starfi nefndarinnar, auk þess sem sérstök áhersla var lögð á aðstæður barna og unglinga.
    Nefndin hélt fimm fundi á árinu, auk eins fundar með orkumálaráðherrum Norðurlanda, og voru hefðbundin nefndarstörf undirbúningur funda og meðferð tillagna, erinda og skýrslna. Þá fór nefndin í kynnisferð til Litháen og Kaliningrad.

3.4 Evrópunefnd.
    Fulltrúar Íslands í Evrópunefnd voru Arnbjörg Sveinsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Hlutverk Evrópunefndar er að sinna samstarfi Norðurlanda og EFTA-ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málum. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndunum, auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
    Nefndin fór í fræðslu- og fundaferð til Brussel í maí og átti fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins. Meðal mála sem rædd voru má nefna skattamál, samræmingu skattalöggjafar, viðnám gegn sviksamlegri starfsemi innan ESB, niðurstöður ríkjaráðstefnunnar í Lissabon og formennskuáætlun Svía árið 2001. Á fundinum var einkum fjallað um áætlunina um hina „norðlægu vídd“ og voru menn sammála um mikilvægi hennar í ESB-samstarfinu og kom meðal annars fram að margir töldu sérstaklega mikilvægt að Kólaskagi félli þar undir. Rétt er að geta þess að á fundi Norðurlandaráðs með Paavo Lipponen í Helsinki í lok janúar 2000 ítrekaði forsætisráðherrann að Evrópusambandið hefði fallist á að „norðlæga víddin“ yrði á aðgerðaáætlun sambandsins. Hins vegar mundi taka tíma að koma því í framkvæmd þar sem kerfið væri fremur svifaseint.

3.5 Eftirlitsnefnd.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2000 var Arnbjörg Sveinsdóttir.
    Á árinu sinnti nefndin reglulegu eftirlitsverkefni sínu, þ.e. yfirferð reikninga Norðurlandaráðs. Árið áður hafði nefndin tekið til sérstakrar skoðunar málefni Norræna menningarsjóðsins. Rannsaka skyldi úthlutun styrkja og sérstaklega hugað að hvernig styrkveitingar skiptust milli einstakra landa, að sjálfstjórnarsvæðunum meðtöldum, og málefna. Athuguninni lauk í byrjun árs 2000 þegar endanlegar tölur lágu fyrir og haldinn var fundur með stjórn menningarsjóðsins. Meginverkefni eftirlitsnefndar árið 2000 var hins vegar rannsókn á því hvernig skýrslum, ráðstefnum og málstofum Norðurlandaráðs væri fylgt eftir. Fenginn var utanaðkomandi rannsóknari til að varpa ljósi á hvernig staðið hefði verið að slíkum verkefnum og hvernig þeim væri fylgt eftir. Athugunin tók til tímabilsins frá janúar 1997 til og með mars 2000. Niðurstaða hennar er í stuttu máli sú að oft skorti á að atburðum á vegum Norðurlandaráðs væri nægilega fylgt eftir og lagði eftirlitsnefndin til að áður en ráðist væri í gerð skýrslu eða efnt til ráðstefnu um ákveðið efni væru markmið og tilgangur verkefnisins vel skilgreind svo að auðveldara væri að fylgja því eftir. Þá fór nefndin stuttlega yfir starfsemi NORDJOBB.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitir þrenn verðlaun, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var úthlutað í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs sem haldin var í Kaupmannahöfn í mars 2000. Umhverfisverðlaunin voru hins vegar afhent á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík í nóvember.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 196. Þau eru veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli og er markmið verðlaunanna að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2000 hlaut danska skáldið Henrik Nordbrandt fyrir ljóðabók sína Drömmebroer.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið tónskáldi og hitt árið tónlistarflytjanda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2000 komu í hlut finnska tónskáldsins Kaija Saariaho.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðli, fyrirtæki eða stofnun sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni aðdáunarverða tillitssemi. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2000 voru afhent á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 8. nóvember og hlutu þau að þessu sinni umhverfissamtökin Bellona í Noregi.
    Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

5. Ráðstefnur á vegum Norðurlandaráðs.
5.1 Málþing Norðurlandanefndar.
    Norðurlandanefnd stóð fyrir alls fimm málþingum og ráðstefnum á árinu en þau voru málþing um baráttu gegn eiturlyfjum sem haldið var í Helsinki, málþing um líftækni og lífsiðfræði sem haldið var í Stokkhólmi, menningarmálaráðstefna í Ósló, ráðstefna um svæðasamstarf haldið í Torneå/Haparanda og að lokum ráðstefna um kynþáttafordóma og óvild í garð útlendinga sem haldin var í Vesterås.

5.2 Málþing um evruna.
    Norræna ráðherranefndin stóð fyrir ráðstefnu um evruna og norrænu velferðarríkin í Kaupmannahöfn 22. júní og var Evrópunefnd Norðurlandaráðs sérstaklega boðið til ráðstefnunnar.

6. Þemaráðstefna Norðurlandaráðs.
    Þemaráðstefna Norðurlandaráðs árið 2000 var haldin í Kristjánsborg í Kaupmannahöfn dagana 6.–7. mars.
    Yfirskrift ráðstefnunnar var Þekking og framfarir á Norðurlöndum – stefnumótun fyrir 21. öldina. Markmið ráðstefnunnar var að draga fram meginspurningar eins og um eflingu Norðurlanda sem þekkingar- og hagvaxtarsvæðis, nýtingu nútímatækni til að auka menntun og atvinnutækifæri í dreifbýli, vinnumarkað framtíðarinnar, lífsgæði og stöðugan norræan vinnumarkað. Fjölmargir fyrirlesarar voru fengnir til að fjalla um afmarkað efni og síðan fóru fram umræður sem oft urðu líflegar og fræðandi.
    Forseti Norðurlandaráðs, Sigríður A. Þórðardóttir, setti ráðstefnuna. Í erindi sínu sagði hún að fá málefni væru eins mikilvæg og þekkingarsamfélagið og áhrif þess á norrænt hagkerfi, atvinnulíf og velferð. Sigríður bar saman víkingatímann og nútímann en víkingaöldin var einmitt tímabil mikillar hagsældar á Norðurlöndunum. Þetta taldi hún mikilvægt að hafa í huga þegar við nú stæðum á þröskuldi nýrrar aldar og heimurinn skryppi sífellt saman og samkeppni yrði stöðugt harðari. Þá kom fram að á Norðurlöndunum hefði alltaf verið lögð veruleg áhersla á menntun og vísindi og af þeim sökum stæðu Norðurlandaþjóðir framarlega í útbreiðslu og nýtingu nútímatækni, en menntun og rannsóknir væru grundvöllur framfara, velgengni og hagvaxtar. Á Norðurlöndum hefði mikið áunnist og væru þau fyrirmynd annarra þjóða á ýmsum sviðum og mætti nefna sem dæmi norræna vegabréfafrelsið, samnorrænan vinnumarkað og hreyfanleika fólks innan Norðurlanda. Næsta skrefið ætti að vera sameiginlegur þekkingarmarkaður en honum ætti að vera unnt að ná með atorku og samstarfsvilja. Það sem allt byggðist á sagði Sigríður þó að væri sameiginlegur tungumála- og menningararfur Norðurlandabúa. Hann væri okkar lífæð í samstarfinu. Hins vegar minnti forseti á að allt sem ætti að lifa þyrfti næringu og aðhlynningu. Að lokum lagði Sigríður áherslu á mikilvægi þess að fylgja ráðstefnunni eftir og nýta það veganesti sem erindi og umræður gæfu okkur fyrir frekari vinnu á þessu sviði.
    Dr. Helga Nowotny, prófessor frá Zürich, fjallaði um þekkingarsamfélagið sem árangur þróunar og hvernig ný þekking myndaði grunn upplýsingasamfélagsins. Það byggðist meðal annars á betra aðgengi að vísindum, einkum fyrir tilstyrk og stækkun menntakerfis og upplýsinga- og miðlunarkerfa. Taldi hún aukið samspil milli þekkingarsamfélagsins og hnattvæðingarinnar ávísun á hagvöxt en það væri jafnframt uppspretta ójöfnuðar í samfélaginu.
    Tove Bull, rektor frá Tromsö, fjallaði um Norðurlönd sem eitt menntunarsvæði, samstarf í rannsóknum og þær hindranir sem þyrfti að ryðja úr vegi.
    Dr. Jarl Bengtsson frá OECD fjallaði um gæði menntunar á Norðurlöndum og mikilvægi símenntunar sem væri mikilvægust þegar horft væri til framtíðar.
    Erkki Ormala, framkvæmdastjóri hjá Nokia, fjallaði í erindi sínu um uppbyggingu samskiptaneta og taldi þekkingu og uppbyggingu samskiptaneta vera þau öfl sem mundu leiða hagvöxt, félagslega þróun og sköpun atvinnutækifæra á 21. öldinni.
    Aðrir sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Bertel Haarder frá Evrópuþinginu, Hans Jensen frá samtökum launþega í Danmörku, Kristin Clemet frá samtökum atvinnurekenda í Noregi, Tarja Cronberg og Jouko Heikkilä rektor frá Finnlandi, Jón Sigurðsson, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, og þingmennirnir Hans Engell, Eva Johanson og Ragnwi Marcelind.
    Í lokaræðu sinni sagði forseti Norðurlandaráðs að ráðstefnan hefði staðreynt mikilvægi menntunar og rannsókna fyrir Norðurlöndin og vaxtarmöguleika þeirra en jafnframt hefði komið í ljós að nauðsynlegt væri að lyfta grettistaki til að ryðja úr vegi ákveðnum tæknilegum hindrunum sem stæðu í vegi fyrir hreyfanleika námsmanna og vinnuafls milli landanna. Sigríður minnti á tilmæli sem samþykkt voru á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi í nóvember 1999 en með þeim var sú skylda lögð á herðar norrænu ráðherranefndinni að setja saman aðgerðaáætlun í að afnema hindranir innan Norðurlandanna. Að lokum kom forseti inn á nauðsyn samnorrænnar afstöðu til siðfræðilegrar hliðar þróunar upplýsingatækninnar og sagði að ráðið þyrfti að beina sjónum sínum meira að þróun þeirrar tækni, persónuvernd og mannréttindum. Þá gat hún þess jafnframt að Evrópunefnd Norðurlandaráðs hefði komið á fót vinnuhópi til að fjalla um þessi mikilvægu málefni.

7. 52. þing Norðurlandaráðs.
    Þing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík dagana 6.–8. nóvember 2000. Þing er haldið á Íslandi fimmta hvert ár, síðast árið 1995.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu þingsins í samstarfi við fjölmarga starfsmenn skrifstofu Alþingis og aðra. Hófst undirbúningur þess strax að loknu 51. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 1999 og stóð óslitið fram að setningu þingsins í Reykjavík 6. nóvember 2000. Verkaskipting milli Alþingis og skrifstofu Norðurlandaráðs við skipulagningu var í grófum dráttum sú að Alþingi sá um allan ytri ramma þingsins og yfirbragð, fundaraðstöðu, þ.m.t. túlkakerfi, skrifstofuaðstöðu, verklega framkvæmd, skipulag fundarhalda, samskipti, prentun, ferðir og flutninga en Norðurlandaráð sá um þingfundinn, framkvæmd hans og stjórnun, nefndarfundi, útgáfu þingskjala og almennt skrifstofuhald Norðurlandaráðs. Skemmst er frá því að segja að allt skipulag og framkvæmd þingsins tókst með eindæmum vel og hrósaði framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs og forstöðumenn landsdeilda Alþingi sérstaklega fyrir einstaklega gott skipulag og þjónustulund alls starfsfólks. 52. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík var því Alþingi og starfsfólki þess til mikils sóma.
    Í Háskólabíói var þingsalur, prentsmiðja, fréttamannaaðstaða og aðstaða fyrir blaðamannafundi. Þar hafði Íslandsdeild Norðurlandaráðs skrifstofu auk tveggja starfsmanna skrifstofu Norðurlandaráðs sem sáu um ræðulista. Aðrar skrifstofur og fundarsalir voru á Hótel Sögu og í húsnæði Bændasamtaka Íslands.
    Við skipulagningu þingsins var í fyrsta skipti gerð tilraun með að stytta þingið um einn dag og bar dagskráin óhjákvæmilega merki þess að lítið svigrúm var fyrir aukafundi og aðra viðburði. Dagskrá þingsins var að öðru leyti hefðbundin.
    Vegna þess hve þingið var stutt varð ekki komist hjá því að halda nokkra fundi á sunnudeginum. Forseti Norðurlandaráðs átti fundi með fulltrúum Benelux-þingsins og Eystrasaltsþingsins en þeim var sérstaklega boðið til þingsins samkvæmt venju. Voru þeir haldnir á Hótel Sögu. Þá hélt kjörnefndin sinn fund á sunnudeginum en þar voru ákvarðanir teknar varðandi tilnefningu manna í nefndir fyrir árið 2001, auk tilnefningar næsta forseta Norðurlandaráðs. Hjálmar Jónsson sat í kjörnefnd af hálfu Íslandsdeildar.
    Mánudagurinn 6. nóvember hófst með fundi í forsætisnefnd og eftirlitsnefnd en síðan tóku við fundir í flokkahópum. Nefndir funduðu síðar um daginn en í hádegishléi bauð forseti Íslands sérstökum boðsgestum til hádegisverðar á Bessastöðum. Þangað var boðið ráðherrum Norðurlanda, þingmönnum í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, auk formanna nefnda og æðstu embættismanna landsdeilda. Síðdegis á mánudeginum átti forsætisnefnd Norðurlandaráðs svo fund með forsætisráðherrum Norðurlanda á Hótel Sögu. Að þeim fundi loknum var 52. þing Norðurlandaráðs sett í Háskólabíói við hátíðlega athöfn.
    Forseti Norðurlandaráðs, Sigríður A. Þórðardóttir, setti þingið og gat þess í upphafi að þetta væri í níunda skiptið sem Norðurlandaráðsþing væri haldið í Reykjavík. Forseti minntist þess að síðast þegar þing var haldið í Reykjavík, árið 1995, hefði Norðurlandaráð staðið frammi fyrir verulegum breytingum á starfsemi sinni og sagði að enn stæði ráðið opið fyrir vindum veraldar. Á dagskrá þingsins væri m.a. skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar um framtíð norrænnar samvinnu. Hinar öru breytingar sem ættu sér stað í alþjóðlegri samvinnu krefðust þess að menn skilgreindu þær kröfur sem gera yrði til norrænnar samvinnu í framtíðinni. Vitnaði forseti í þessu sambandi til Sögunnar af brauðinu dýra í Innansveitarkróniku Halldórs Laxness og bað þingheim að hafa vísdómsorð höfundar í huga þegar rætt væri um framtíð norrænnar samvinnu. Ábyrgð þingmanna í Norðurlandaráði væri mikil en þjóðþing þeirra hefðu falið þeim að fara með þessi mikilvægu málefni og standa vörð um þau. Norræn samvinna héldi sinni mikilvægu pólitísku stöðu en það krefðist þess vissulega að stjórnmálamennirnir kæmu sér saman um stefnuna, en það væri einmitt eitt meginhlutverk ráðsins á þessu þingi.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda fluttu fyrst skýrslur sínar og síðan kom röðin að utanríkis- og varnarmálaráðherrum. Steingrímur J. Sigfússon veitti andsvar við ræðu Pouls Nyrups Rasmussens, forsætisráðherra Danmerkur, og krafðist svara við því hvers vegna dönsk stjórnvöld kæmu lítið til móts við hugmyndir Færeyinga um sjálfstæði. Ráðherrann svaraði því til að það væri ekki danskra stjórnvalda að ákveða hvort Færeyjar yrðu áfram innan ríkjasambandsins eða fullvalda ríki heldur gæti aðeins færeyska þjóðin tekið slíka ákvörðun. Eftir að skýrslur höfðu verið fluttar hófust almennar stjórnmálaumræður og gafst þingmönnum þá kostur á að gera athugasemdir við skýrslur ráðherranna. Auk þess lágu nokkrar skýrslur til grundvallar umræðunni, m.a. ársskýrslur Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar, auk skýrslu um framtíð norrænnar samvinnu og endurskoðaða stefnu í málefnum grannsvæða Norðurlanda. Í almennum stjórnmálaumræðum gafst einnig kostur á að ræða utanríkis- og varnarmál. Steingrímur J. Sigfússon tók til máls undir þeim lið og ræddi m.a. hlutverk NATO, ÖSE og Sameinuðu þjóðanna. Sagði hann m.a. að þingið ætti að gagnrýna ofbeldisverkin í Mið-Austurlöndum. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að þingið gæti a.m.k. fordæmt hernaðaraðgerðir Ísraela gegn óvopnuðum Palestínumönnum líkt og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefði gert.
    Almennum stjórnmálaumræðum var fram haldið þriðjudaginn 7. nóvember þar sem rætt var um framtíð norrænnar samvinnu. Til grundvallar þeirri umræðu lá m.a. skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar, „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“. Sighvatur Björgvinsson var talsmaður flokkahóps sósíaldemókrata undir þessum lið og Steingrímur J. Sigfússon talaði fyrir flokkahóp vinstri sósíalista.
    Að almennum stjórnmálaumræðum loknum á þriðjudeginum voru tekin fyrir meginefni þingsins: Norðurlönd og grannsvæðin, hvernig fylgja beri eftir tilmælum Norðurlandaráðs, samkeppnishæf Norðurlönd og lífsiðfræði og öryggi matvæla. Þess má geta að Evrópunefnd Norðurlandaráðs hélt sérstaka ráðstefnu um öryggi matvæla í febrúar 2001 í Kaupmannahöfn.
    Arnbjörg Sveinsdóttir mælti fyrir nefndaráliti Evrópunefndar um erfðabreyttar lífverur í umræðum um lífsiðfræði og öryggi matvæla. Í máli hennar kom fram að Evrópunefndin legði til mjög stranga stefnu í markaðssetningu erfðabreyttra matvæla og að hagsmuni neytenda yrði að tryggja. Vísaði hún til ráðstefnu sem norræna ráðherranefndin hefði haldið í júní 2000 þar sem ráðherrarnir voru sammála um að varúðarreglunni yrði fylgt við veitingu leyfa til markaðssetningar slíkra matvæla og tekið yrði tillit til heilsufræðilegra og umhverfislegra áhættuþátta. Kvað hún Evrópunefndina hvetja til enn meiri varkárni gagnvart erfðabreyttum matvælum en orðið hefði niðurstaða ráðstefnu ráðherranefndarinnar, enda væri þekking manna á óæskilegum afleiðingum erfðabreyttra lífvera enn lítil.
    Miðvikudaginn 8. nóvember fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta Norðurlandaráðs. Forseti var kjörinn danski þingmaðurinn Svend Erik Hovmand og tók hann við embættinu 1. janúar 2001. Sighvatur Björgvinsson var kjörinn til setu í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður Jóhannesdóttir í Norðurlandanefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir var kjörin í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, Steingrímur J. Sigfússon í Evrópunefnd og Hjálmar Jónsson var kjörinn í grannsvæðanefnd. Þá var Hjálmar Jónsson kjörinn til setu í kjörnefnd. Ísólfur Gylfi Pálmason var kjörinn til setu í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið 1. maí 2001 til 30. apríl 2003. Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Steingrímur J. Sigfússon til vara.
    Að kosningum loknum voru norrænu fjárlögin fyrir árið 2001 á dagskrá en svo tók við fyrirspurnatími með samstarfsráðherrum. Undir þeim dagskrárlið gafst þingmönnum tækifæri til að spyrja alla samstarfsráðherra Norðurlanda spurninga um hvaðeina. Steingrímur J. Sigfússon beindi spurningu til Sivjar Friðleifsdóttur. Spurði Steingrímur ráðherra hver yrðu afdrif norræna vegabréfafrelsisins við gildistöku Schengen-samningsins og um stöðu Íslands og Noregs sem EES-ríkja í því sambandi. Vildi Steingrímur m.a. fá svar við því hvort menn þyrftu að bera á sér einhver Evrópuskilríki til að geta ferðast innan Norðurlanda. Ráðherra svaraði því til að hún hefði skilið það svo að norræna vegabréfasambandið yrði áfram við lýði og að Íslendingar þyrftu ekki að hafa með sér vegabréf þegar ferðast væri innan Norðurlanda.
    Síðast á dagskrá var svo stefna í félags- og heilbrigðismálum innan Norðurlanda án landamæra.
    Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2000 voru afhent við hátíðlega athöfn í Háskólabíói um hádegisbil miðvikudaginn 8. nóvember. Fyrst var sýnt myndband um hina einstöku ósnortnu íslensku náttúru en lagið „Ísland er land þitt“ í flutningi Egils Ólafssonar leikið undir. Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, setti athöfnina að sýningu lokinni og lagði í ræðu sinni út frá þema myndarinnar. Sagði hann m.a. að náttúran og umhverfið væru auðæfi okkar hér á norðurhveli jarðar en staðreyndin væri hins vegar sú að náttúran væri viðkvæm og auðsærð. Af þeim sökum væri sérstaklega mikilvægt að þjóðir heims hefðu með sér samstarf um umhverfisvernd og ynnu saman af heilindum og trúnaði. Þá sagði hann að umhverfismál væru gott dæmi um svið þar sem samstarf við grannsvæði væri sérstaklega mikilvægt. Með sanni mætti segja að Norðurlandaráð hefði lagt sérstaka áherslu á samstarf við grannsvæði Norðurlanda og árangur þess væri mjög góður. Jafnframt sagði Ísólfur að stjórnmálamennirnir settu reglurnar og reyndu að gera samstarfið mögulegt en hins vegar væri það grasrótin, hinn almenni borgari, frjáls félagasamtök og fyrirtæki, afstaða fólksins til umhverfismála og ekki síst frumkvæði og dugnaður þessara aðila til að koma upp um lögbrjótana og gera yfirvöldum viðvart um hverjir menga og eyðileggja umhverfi okkar, sem að lokum segði til um hvort aðgerðir okkar hefðu heppnast. Af þessum ástæðum væri mikilvægt að heiðra þá sem sköruðu fram úr og Norðurlandaráð legði sitt af mörkum með umhverfisverðlaununum. Að þessu loknu kynnti Páll Kr. Pálsson, fulltrúi í dómnefnd, verðlaunahafann, norsku umhverfissamtökin Bellona, sem hlutu verðlaunin fyrir störf sín að umhverfismálum á hafsvæði norðurskautsins og Norðvestur-Rússlands. Samtökin hafa einbeitt sér að hættu á geislamengun á Barentssvæðinu en starf þeirra hefur leitt til þess að fjölmörg alþjóðleg verkefni hafa verið sett í gang til að taka á umhverfismálum svæðisins.
    Nýkjörinn forseti Norðurlandaráðs, Svend Erik Hovmand, flutti ræðu undir lok þingsins. Í máli hans kom fram að Norðurlandaráðs biðu mörg stór verkefni á komandi ári. Þó væri stærsta verkefnið að færa norrænt samstarf nær nútímanum því að þrátt fyrir að slíkt samstarf ætti sér djúpar rætur í þjóðarvitundinni þyrfti það endurnýjunar við en það væri jafnframt forsenda áhrifa í Evrópu framtíðarinnar. Lagði hann áherslu á að Norðurlandaráð ætti að vera leiðandi á sviði lýðræðislegs samstarfs Norðurlanda. Auk þess ætti það að vera driffjöðrin í samstarfinu við nágrannana eins og það hefði verið hvað varðaði Eystrasaltsríkin, Barentssvæðið, norðurheimskautssvæðið, vestnorræna samstarfið og Eystrasaltssamstarfið. Þá gerði Hovmand norðlægu víddina að sérstöku umtalsefni og sagði norræna samstarfið hafa eitt umfram allt annað alþjóðlegt samstarf, þ.e. stoð í þjóðarvitund Norðurlandabúa. Um samstarfið almennt sagði Hovmand dapurlegt til þess að vita að þrátt fyrir mikið og ötult starf væru enn ákveðin landamæri sem skildu þjóðirnar að. Sem dæmi nefndi hann skort á gagnkvæmri viðurkenningu menntunar, stofnun fyrirtækja, lífeyrismál, skattamál, vinnumarkaðsmál o.fl. og taldi að nú væri tími til kominn að menn hreinsuðu til í eitt skipti fyrir öll. Að lokum fjallaði hann lítillega um skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um framtíð norrænnar samvinnu og sagði Norðurlandaráð vissulega opið fyrir vindum veraldar en þó þannig að grundvöllur samstarfsins yrði treystur enn frekar og ræturnar í þjóðþingunum styrktar.
    Að lokinni ræðu nýkjörins forseta var tekin ákvörðun um að halda 53. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í 44. viku ársins 2001. Nánari tímasetning verður ákveðin síðar.
    Fráfarandi forseti Norðurlandaráðs, Sigríður A. Þórðardóttir, sleit þinginu og vitnaði m.a. til stefnumiða Norðurlandaráðs fyrir árið 2001 sem samþykkt voru á þinginu. Þar er áherslan lögð á þróun norrænnar samvinnu, frið og öryggi í Evrópu, Norðurlönd sem forgangssvæði innan ESB, sjálfbæra þróun á Norðurlöndum, grannsvæðasamstarf og samstarf á Barents-, norðurskauts- og Eystrasaltssvæðunum. Sigríður gat þess jafnframt að norrænt samstarf hefði tekið miklum breytingum í tímans rás og stæði nú traustum fótum. Styrkurinn lægi fyrst og fremst í stöðu samstarfsins í þjóðarvitund Norðurlandabúa og væri það einstakt í alþjóðlegu samstarfi. Minnti Sigríður þingheim á að við endurskoðun norræns samstarfs yrðu menn að hafa í huga að það væri efni samstarfsins, innihaldið sjálft, sem væri mikilvægast en ytri rammann mætti síðan smám saman sníða að efninu.
    Að lokum minnti Sigríður á vísdómsorð Halldórs Laxness úr Innansveitarkróniku sem hún gerði að umtalsefni í opnunarræðu sinni: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir“ og „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“. Með þessum orðum var 52. þingi Norðurlandaráðs slitið.

Alþingi, 1. febr. 2001.



Ísólfur Gylfi Pálmason,


form.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Sighvatur Björgvinsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Hjálmar Jónsson.



Steingrímur J. Sigfússon.




Fylgiskjal.


Tilmæli, álit og ákvarðanir um innri málefni
samþykkt á 52. þingi Norðurlandaráðs.

(Reykjavík, 6.–8. nóvember 2000.)



     1.      Tilmæli nr. 7/2000, um ungmennaskipti milli Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna (A 1238/när).
     2.      Tilmæli nr. 8/2000, um aukið samstarf við Rússland og Eystrasaltslöndin (A 1224/p).
     3.      Tilmæli nr. 9/2000, um vinnumarkaðs- og vinnuumhverfisáætlun fyrir árin 2001–2004 (B 198/euro).
     4.      Tilmæli nr. 10/2000, um þematengda vinnumarkaðsumræðu á Norðurlandaráðsþingi (A 1235/euro).
     5.      Tilmæli nr. 11/2000, um norræna athugun á upplýsingasamfélaginu, rafrænum viðskiptum og reglum um dulkóðun (A 1226/euro).
     6.      Tilmæli nr. 12/2000, um frumkvöðlarannsóknar á sviði upplýsingatækni (A 1227/euro).
     7.      Tilmæli nr. 13/2000, um upplýsingatækni og lýðræði á Norðurlöndum (A 1228/euro).
     8.      Tilmæli nr. 14/2000, um ráðgjafarhóp um upplýsingatækni (A 1229/euro).
     9.      Tilmæli nr. 15/2000, um aðgerðir gegn notkun ólöglegs vinnuafls á Norðurlöndum.
     10.      Tilmæli nr. 16/2000, um samstarf yfirvalda á Norðurlöndum um miðlun upplýsinga um öryggi matvæla og samsvarandi samstarf innan Evrópusambandsins (B 196/när).
     11.      Tilmæli 17/2000, um aðgerðaáætlun fyrir norræna samvinnu á sviði landbúnaðar og skógræktar 2001–2004 (B 196/när).
     12.      Tilmæli 18/2000, um stefnumörkun í norrænni samvinnu á sviði fiskveiða 2001–2004 (B 197/när).
     13.      Tilmæli 19/2000, um aðgerðaáætlun fyrir norræna samvinnu á sviði matvælaframleiðslu (B 194/euro).
     14.      Tilmæli 20/2000, um norræna samvinnu á sviði lífsiðfræði (A 1218/nord).
     15.      Tilmæli 21/2000, um alþjóðlegt bann við klónun manna og eftirlit með líftæknirannsóknum (A 1218/nord).
     16.      Tilmæli 22/2000, um erfðabreytt matvæli (A 1222/euro).
     17.      Tilmæli 23/2000, um vistkerfi hafsins og sjálfbæra þróun fiskstofna (A 1225/när).
     18.      Tilmæli 24/2000, um fjárlög fyrir norrænt samstarf fyrir árið 2001 (C 2; B 189/p).
     19.      Tilmæli 25/2000, um breytingu á samningnum um Norræna menningarsjóðinn (B 191/nord).
     20.      Tilmæli 26/2000, um Nordjobb og aðrar ungmennaskiptaáætlanir (A 1240/kk).
     21.      Tilmæli 27/2000, um samstarfsverkefni á sviði heilbrigðis- og félagsmála 2001–2005 (B 192/nord).
     22.      Tilmæli 28/2000, um norræna samvinnu á sviði fíkniefnamála 2001–2005 (B 193/nord).
     23.      Tilmæli 29/2000, um vandamál tengd öldrunarsjúkdómum (A 1211/nord).
     24.      Tilmæli 30/2000, um baráttu gegn fíkniefnum (A 1205/nord).
     25.      Tilmæli 31/2000, um aðgerðir í fíkniefnamálum (A 1205/nord).
     26.      Tilmæli 32/2000 rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi (A 1233/nord).
     27.      Tilmæli 33/2000, um lýðræði og velferð í hnattrænu samhengi (A 1241/nord).
     28.      Tilmæli 34/2000, um norræn áhrif á alþjóðlegt samstarf (A 1241/nord).
     29.      Tilmæli 35/2000, um aukna samvinnu við frjáls félagasamtök á grannsvæðum Norðurlanda (A 1215/när).
     30.      Umsögn 1/2000, um skýrslu Norræna menningarsjóðsins, þ.m.t. endurskoðunarskýrslu fyrir árið 1999 (C 5/kk).
     31.      Ákvörðun 1/2000, um endurskoðunarskýrslu norrænu ráðherranefndarinnar (C 3/kk).
     32.      Ákvörðun 2/2000, um skýrslu til Norðurlandaráðs um endurskoðun á reikningum Norðurlandaráðs fyrir árið 1999 (C 4/kk).
     33.      Ákvörðun 3/2000, um skýrslu Norræna menningarsjóðsins, þ.m.t. endurskoðunarskýrslu fyrir árið 1999 (C 5/kk).
     34.      Ákvörðun 4/2000, um hvernig fylgja beri eftir ráðstefnum, málstofum o.fl. á vegum Norðurlandaráðs.
     35.      Ákvörðun 5/2000, um útsendingar norrænna sjónvarpsstöðva um stafrænt dreifikerfi.