Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 929  —  291. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Runólfsson yfirdýralækni. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Búkollu – félagi áhugamanna um íslensku kúna, Félagi hrossabænda, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra, heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, heilbrigðiseftirliti Suðurlandssvæðis, heilbrigðisnefnd Vesturlandssvæðis, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra loðdýrabænda, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Veiðimálastofnun og Æðarræktarfélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er annars vegar verið að breyta núgildandi sjúkdómaskrá í þá átt að aðlaga hana alþjóðlegum stöðlum. Hins vegar er verið að fella niður dýrasjúkdómanefnd sem aldrei hefur verið skipuð og færa skyldur hennar að nokkru leyti til yfirdýralæknis og að nokkru leyti til dýralæknaráðs sem skipað er af landbúnaðarráðherra skv. 4. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
    Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið var talsvert rætt hvort nauðsynlegt væri að styrkja ákvæði laganna frekar með tilliti til dýrasjúkdóma sem hafa greinst í Evrópu að undanförnu, svo sem kúariðu og gin- og klaufaveiki. Nefndin hefur fengið staðfest frá landbúnaðarráðuneyti að mat þess sé að ekki þurfi að breyta lögunum sérstaklega til að hægt sé að bregðast við sjúkdómahættu eins og að framan greinir þar sem fullnægjandi heimildir eru fyrir hendi samkvæmt lögunum.
    Vekur nefndin athygli á að í 2. tölul. 10. gr. frumvarpsins hafa tvö orð víxlast, yfirdýralæknir og smitsjúkdómanefnd. Í stað orðanna „Svæðisnefnd“ og „dýrasjúkdómanefnd“ í 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna á að koma: Smitsjúkdómanefnd (ekki yfirdýralæknir), og: yfirdýralækni (en ekki smitsjúkdómanefnd). Enn fremur vekur nefndin athygli á því að sjúkdómar og sjúkdómaheiti hafa víxlast innan tilgreindra viðauka í 11. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðjón Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

    





Alþingi, 26. mars 2001.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Jónína Bjartmarz.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Þuríður Backman.



Kristinn H. Gunnarsson.