Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 938  —  448. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum (rekstrarumgjörð).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Jóhannes Sigurðsson hrl. og Geir Geirsson, löggiltan endurskoðanda. Þá bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, ríkisskattstjóra, Kaupfélagi Skagfirðinga, Verslunarráði Íslands og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Frumvarpið er endurflutt í lítið breyttri mynd frá 125. löggjafarþingi, en þá var það ekki útrætt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á rekstrarumgjörð samvinnufélaga sem geri þeim kleift að bregðast við breyttum rekstraraðstæðum með því að breyta þeim í hlutafélög og heimila að stofnsjóðseignir félagsmanna endurspegli betur eigið fé félaganna. Með ákvæðum frumvarpsins er samvinnufélögum þannig auðveldað að laga sig að breyttum aðstæðum og umhverfi í atvinnulífinu.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram ábending um að æskilegt væri að taka upp í lög um samvinnufélög ákvæði um að aðalfundur félags geti ákveðið að greiða félagsmönnum út arð með peningum eða öðrum verðmætum í stað þess að leggja hann í stofnsjóð. Í lögunum er ekki að finna skýr ákvæði um heimild til greiðslu arðs til félagsmanna, en hún mun þó hafa tíðkast að einhverju leyti. Með greiðslu arðs er unnt að auka eignarvitund félagsmanna í samvinnufélagi án þess að til annarra breytinga á skipulagi félagsins þurfi að koma. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þetta sjónarmið og gerir breytingartillögu þess efnis í sérstöku þingskjali. Þá leggur meiri hlutinn til að ótvírætt verði tekið fram að þótt hækkun á séreignarhlutum félagsmanna teljist til A-deildar sé einnig heimilt að ákveða í samþykktum að þá megi afhenda félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs. Meiri hlutinn gerir einnig breytingartillögur við frumvarpið þess efnis að ekki verði talað um að eigendur hluta í B-deild greiði atkvæði á tiltekinn veg, þar sem ekki fara fram beinar atkvæðagreiðslur í B-deild samvinnufélags samkvæmt lögum um samvinnufélög. Þess í stað leggur meiri hlutinn til að orðalagið verði á þann veg að talað verði um þá sem ráða yfir meiri hluta í B-deild. Jafnframt gerir meiri hlutinn tillögu um að í bráðabirgðaákvæði verði miðað við að endurmat á séreignarhlutum félagsaðila í A-deild stofnsjóðs skuli fara fram fyrir árslok 2004, en ekki 2003 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þetta er eingöngu til samræmingar við frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem flutt er samhliða frumvarpi þessu.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2001.


Vilhjálmur Egilsson,

form., frsm.

Einar K. Guðfinnsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.

Hjálmar Árnason.