Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 941  —  565. mál.




Nefndarálit


um till. til þál. um aðild að samningi um opinber innkaup.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Hauk Jóhannesson og Þorbjörn Jónsson frá utanríkisráðuneyti, Guðmund Ólason frá fjármálaráðuneyti og Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um opinber inkaup sem gerður var í Marakess 15. apríl 1994 en samningurinn er einn af fjölhliða samningum þeim sem tilgreindir eru í 4. viðauka við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Aðild að samningnum skuldbindur ríki til að veita fyrirtækjum í aðildarríkjunum aðgang að innkaupum opinberra aðila á jafnréttis- og gagnkvæmnisgrundvelli þegar verðmæti innkaupa fer yfir ákveðna fjárhæð, en viðmiðunarfjárhæðin er sú sama og gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Áhrif samningsins eru einkum þau að skylt verður að veita fyrirtækjum frá ríkjum utan EES-svæðisins aðgang að íslenskum innkaupamarkaði en á sama hátt opnar samningurinn íslenskum fyrirtækjum aðgang að mjög stórum markaði á jafnréttisgrundvelli.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. mars 2001.


Tómas Ingi Olrich,

form., frsm.

Einar K. Guðfinnsson.

Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon,

með fyrirvara.