Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1082  —  449. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum (innlánsdeildir).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar þrjú frumvörp sem öll lúta að breytingu á lögum er varða rekstrarumgjörð samvinnufélaga. Mál þessi voru lögð fram á síðasta þingi en voru ekki afgreidd. Í fyrsta lagi er um að ræða 448. mál þar sem tekið er á sjálfu rekstrarformi samvinnufélaganna og m.a. veitt heimild til þess að breyta þeim yfir í hlutafélög. Í öðru lagi 481. mál þar sem um er að ræða breytingar á ákvæðum er lúta að samvinnufélögum í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í þriðja lagi 449. mál, efni þessa nefndarálits, þar sem um er að ræða breytingar á ákvæðum um innlánsdeildir samvinnufélaga.
    Segja má að innlánsdeildir samvinnufélaga séu arfur liðins tíma þegar ekki var jafngreiður aðgangur að fjármagni til rekstrar og í dag. Innlánsdeildirnar taka við fjármagni frá félags- og viðskiptamönnum til ávöxtunar en nýta það jafnframt til þess að fjármagna rekstur félaganna. Samvinnufélög sem starfrækja innlánsdeildir þurfa að uppfylla tiltekin skilyrði og Tryggingasjóður innlánsdeilda er starfandi. Skilyrðin eru þó ekki þau sömu og t.d. viðskiptabankar eða önnur fjármálafyrirtæki þurfa að lúta bæði hvað varðar kröfur um eigið fé og tryggingar til verndar viðskiptamönnum. Því tekur minni hlutinn undir þau orð er fram koma í umsögn frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja að í raun sé um meiri áhættufjárfestingu að ræða í viðskiptum við innlánsdeildir samvinnufélaga en í viðskiptum við t.d. viðskiptabanka og sparisjóði eins og dæmin sýna.
    Það er viðurkennd staðreynd að innlánsstarfsemi fer almennt ekki vel saman við rekstur sem er af allt öðrum toga. Það er ástæða þess að í löggjöf um banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir er tekið fyrir að þeim sé heimilt að stunda aðra starfsemi en fjármálastarfsemi. Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd telja að ef heimila eigi samvinnufélögum að færa sig yfir í skilvirkara rekstrarform, þ.e. hlutafélagsformið, þá eigi þau að búa við sama rekstrarumhverfi og önnur hlutafélög. Samvinnufélög sem kjósa að breyta rekstrarformi sínu yfir í hlutafélög skuli fjármagna starfsemi sína með sama hætti og annar rekstur sem lýtur því félagsformi. Segja má að tekið sé undir þetta sjónarmið minni hlutans í athugasemdum við málið, en þar kemur fram að ekki sé hægt að líta á innlánsstarfsemi samvinnufélaga sem framtíðarleið fyrir samvinnufélög á fjármagnsmarkaði og að innlánsstarfsemi sé almennt talin fara illa saman við annan atvinnurekstur. Þar kemur einnig fram að staða innlánsdeilda samvinnufélaga gagnvart öðrum almennum lánastofnunum hefur versnað á síðustu árum. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar ekki til þá breytingu á frumvarpinu að starfsemi innlánsdeilda verði hætt heldur að gerðar verði til þeirra strangari kröfur.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni geta ekki fallist á þá leið sem valin er í frumvarpinu. Það er með öllu óeðlilegt að um leið og ætlað er að veita samvinnufélögum heimild til að breyta rekstrarformi sínu yfir í rekstrarform hlutafélaga eigi þau samhliða annarri starfsemi að fá heimild til að viðhalda starfsemi innlánsdeilda m.a. til þess að fjármagna aðra starfsemi sína og búa þannig við aðrar aðstæður og kröfur en önnur starfandi hlutafélög, ekki síst fjármálafyrirtæki. Þessi niðurstaða skapar ójafnræði á markaði.
    Samfylkingin tekur undir þau sjónarmið sem m.a. komu fram í umsögnum frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja til nefndarinnar á síðasta löggjafarþingi og aftur núna, að verði 448. mál um breytingu á rekstrarumgjörð samvinnufélaga samþykkt sem lög frá Alþingi þá verði þeim samvinnufélögum sem kjósa að breyta rekstrarformi sínu gert skylt að loka innlánsdeildum sínum. Ráðherra sé þó heimilt að veita einhvern aðlögunartíma en þó aldrei lengri en tvö ár.
    Samfylkingin lítur svo á að innlánsdeildir samvinnufélaga séu barn síns tíma og eigi ekki heima í nútímafjármálaumhverfi. Engin rök mæla með áframhaldandi rekstri þeirra. Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd gera því breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að innlánsdeildir samvinnufélaga verði lagðar niður.
    Minni hlutinn leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. efnismgr. 1. gr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal samvinnufélagi sem kýs að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag á grundvelli ákvæða laga þessara skylt að loka innlánsdeild sinni. Ráðherra er heimilt að veita frest til að ganga frá slíku uppgjöri en hann skal þó aldrei vera lengri en tvö ár.

Alþingi, 20. mars 2001.



Margrét Frímannsdóttir,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.