Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1152  —  391. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti og Róbert Spanó frá umboðsmanni Alþingis.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Lögmannafélagi Íslands, ríkissaksóknara, Fangelsismálastofnun, dómstólaráði og Sýslumannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði nauðsynleg ákvæði til að yfirvöldum og dómstólum hér á landi verði unnt að framkvæma ákvæði Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn frá 17. júlí 1998 í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins.
         Mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi er um að ræða orðalagsbreytingu á 1. mgr. 2. gr. til samræmis við hugtakanotkun alþjóðlegs refsiréttar. Í öðru lagi er lagt til að tryggður verði lagagrundvöllur einstakra rannsóknaraðgerða að beiðni dómstólsins með breytingu á 2. mgr. 3. gr. Loks er lagt til með breytingu á 1. mgr. 4. gr. að dómstólnum verði gert kleift að biðja um handtöku manns án samfara beiðni um afhendingu hans.
    Kolbrún Halldórsdóttir, sem sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, er samþykk afgreiðslu málsins.
    Ólafur Örn Haraldsson, Jónína Bjartmarz og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. apríl 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.



Hjálmar Jónsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.