Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1176  —  19. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Barnaverndarstofu, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, FÍUM – Félagi íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana, umboðsmanni barna, Barnaheillum, barnaverndarráði, menntamálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.
    Í tillögugreininni er ríkisstjórninni falið að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga og í því skyni verði skipuð nefnd með aðild forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá er gert ráð fyrir fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga.
    Umsagnir sem nefndinni hafa borist um málið eru mjög jákvæðar. Nefndin telur að umfjöllun lokinni að nauðsynlegt sé að mótuð verði opinber stefna í málefnum barna og ungmenna þar sem slík stefna muni stuðla að auknum hag og velferð þeirra. Þá telur nefndin að heildarstefna þar að lútandi sé ein af forsendum þess að hægt verði að tryggja öllum börnum og ungmennum jafnan rétt auk þess sem hún muni tryggja enn frekar að hagsmuna þeirra verði gætt á öllum sviðum þjóðlífsins.
    Það er jafnframt mat nefndarinnar að mikilvægt sé að tryggja börnum og ungmennum heilbrigð skilyrði til uppvaxtar og þroska og stefnumótun af þessu tagi sé hluti af því. Þá sé rétt að benda á að tillagan er í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tók gildi hér á landi 27. nóvember 1992.
    Þá ítrekar nefndin nauðsyn þess að í fyrirhuguðu starfi verði tekið tillit til aðstæðna, þarfa og sjónarmiða barna og ungmenna. Með hliðsjón af fyrrgreindu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „2001“ í 3. mgr. tillögugreinarinnar komi: 2002.

    Sverrir Hermannsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Ólafur Örn Haraldsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Jónína Bjartmarz.


Hjálmar Jónsson.