Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1214  —  675. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Seðlabanka Íslands.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Davíðsson frá forsætisráðuneyti, Birgi Ísleif Gunnarsson frá Seðlabanka Íslands, Sigurð Jóhannesson frá Samtökum atvinnulífsins, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Þorstein Þorgeirsson frá Samtökum iðnaðarins, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Þórð Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun og Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Þjóðhagsstofnun, Félagi löggiltra endurskoðenda, ríkisskattstjóra, laganefnd Lögmannafélags Íslands, Seðlabanka Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Fjármálaeftirlitinu, Verðbréfaþingi Íslands, Íbúðalánasjóði, Verslunarráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Alþýðusambandi Íslands. Einnig bárust gögn frá forsætisráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um Seðlabanka Íslands, en núgildandi lög eru að stofni til frá árinu 1986. Frumvarpið miðar að því að auka sjálfstæði Seðlabankans og laga löggjöf um hann að breyttum aðstæðum á íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði. Meginmarkmið bankans er að stuðla að stöðugu verðlagi hér á landi og með samþykki forsætisráðherra er bankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Skýr ákvæði eru í frumvarpinu um stjórnskipulag bankans og stefnt er að því að hlutverkaskipting milli bankaráðs og bankastjórnar séu sem skýrust. Jafnframt er gert ráð fyrir að bankaráðsmönnum verði fjölgað og ráðinu falin veigameiri verkefni en verið hefur.
    Nefndin bendir á að þrátt fyrir að samþykki forsætisráðherra sé í nokkrum tilvikum áskilið við ákvarðanatöku innan Seðlabankans hefur bankinn fulla heimild til að láta í ljós skoðanir sínar á efnahagsmálum á opinberum vettvangi, sem og að tjá sig um hugsanlegan ágreining við forsætisráðherra. Með þessu er ráðherra tryggt aðhald í starfi. Það er engu að síður grunnhugsun frumvarpsins að Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands vinni saman að efnahagsmálum landsins. Nefndin bendir einnig á að með því að formaður bankastjórnar skuli skipaður af forsætisráðherra í stað þess að vera kosinn innbyrðis af bankastjórnarmönnum er staða hans gerð styrkari.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 2. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 37. gr. er vísað til fjármálastofnana. Hugtakið fjármálastofnun hefur ekki skilgreinda merkingu að lögum. Því leggur nefndin til að það verði fellt brott og í staðinn verði tilgreint annars vegar að Seðlabankanum sé óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni annarra og hins vegar að reglur um viðurlög skuli kynntar Fjármálaeftirlitinu og þeim stofnunum sem þær taka til.
     2.      Nefndin leggur til að orðalag 2. mgr. 23. gr. verði gert skýrara, en þar er fjallað um skipunartíma bankastjóra Seðlabankans. Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur er eingöngu verið að skýra þá hugsun sem býr að baki ákvæðinu, þ.e. að heimilt verði að skipa þann sem tvisvar hefur verið skipaður bankastjóri einu sinni enn ef honum er í það skipti falin formennska bankastjórnar. Skipunartími bankastjóra getur því lengstur orðið 21 ár sitji bankastjóri tvö skipunartímabil sem „óbreyttur“ bankastjóri og eitt tímabil sem formaður bankastjórnar. Í breytingartillögunni er einnig tekinn af allur vafi um það að ekki má skipa bankastjóra nema einu sinni í stöðu formanns bankastjórnar.
     3.      Lagt er til að í 27. gr. verði kveðið á um að tvo bankaráðsmenn þurfi til að óska eftir fundi í bankaráði. Frumvarpið gerir ráð fyrir fjölgun í bankaráði Seðlabankans úr fimm í sjö og því telur nefndin eðlilegt að ef bankaráðsmenn eigi að geta óskað eftir fundi þurfi tvo til að svo verði.
     4.      Lagt er til að verðbréfasjóðum verði bætt við þá aðila sem heimilt er að beita viðurlögum í formi dagsekta skv. 2. mgr. 37. gr. ef ekki er farið eftir reglum um bindihlutfall skv. 11. gr. Nefndin telur þessa breytingu eðlilega með hliðsjón af 11. gr.
     5.      Þá er lagt til að ákvæði 5. málsl. 2. mgr. 37. gr. um heimild Seðlabankans til að leggja til sviptingu starfsleyfis lánastofnunar sé vanræksla ítrekuð verði felld brott, en nefndin lítur svo á að það muni sjaldnast teljast næg ástæða til starfsleyfissviptingar að aðili fylgi ekki reglum sem Seðlabankinn setur. Fjármálaeftirlitið mun eftir sem áður fylgjast með því að farið verði eftir þeim reglum sem Seðlabankinn setur og brot á þeim mun verða liður í mati stofnunarinnar á því hvort fella eigi starfsleyfi úr gildi.
     6.      Loks leggur nefndin til að tekið verði fram í 40. gr. að því fyrirkomulagi að Seðlabankinn greiði hluta af hagnaði sínum í Vísindasjóð ljúki á árinu 2001 til að taka af allan vafa um það.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja og styðja breytingartillögur við málið.
    Kristinn H. Gunnarsson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Gunnar Birgisson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.



Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.