Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1219  —  685. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Telmu Halldórsdóttur, Ólaf Pál Gunnarsson, Ingva Má Pálsson, Jónu Björk Guðnadóttur og Elvu Ósk Wiium frá fjármálaráðuneyti, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Víglund Þorsteinsson frá B.M. Vallá, Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra og Hallgrím Ásgeirsson frá Eftirlitsstofnun EFTA. Umsagnir bárust um málið frá Lögmannafélagi Íslands, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda og Verslunarráði Íslands. Auk þess bárust gögn frá fjármálaráðuneyti.
    Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er Ísland skuldbundið til þess að starfrækja ársreikningaskrá eða sambærilega stofnun sem taki við ársreikningum fyrirtækja, en í tilskipun ráðsins 78/660/EBE er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að halda uppi starfsemi sem þessari. Með ákvæðum frumvarpsins er skotið lagastoð undir ársreikningaskrá sem hingað til hefur verið starfrækt undir heitinu félagaskrá, en henni er ætlað að taka á móti, geyma og birta ársreikninga skilaskyldra félaga. Starfræksla félagaskrár hefur fram til þessa verið í höndum ríkisskattstjóra en með frumvarpinu er brugðist við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. mars 2001 í sakamálinu nr. 2507/2000 þar sem talið var að þar sem félagaskrá eins og hún er skilgreind samkvæmt lögum um ársreikninga hefði ekki verið sett á stofn með lögum væri í ársreikningalögunum ekki að finna fullnægjandi lagastoð fyrir starfrækslu hennar. Því er nauðsynlegt að kveða ótvírætt á um það í lögum að ársreikningaskrá skuli starfrækt og hvert hlutverk hennar skuli vera.
    Nefndin ræddi töluvert hvort með ákvæðum frumvarpsins og núgildandi laga um ársreikninga væri gengið lengra en fortakslaus skylda Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið varðandi skyldu fyrirtækja til skila á ársreikningum gæfi tilefni til. Að lokinni umfjöllun um málið telur nefndin að svo sé ekki. Reglur aðildarríkjanna eru mismunandi varðandi það hvað fyrirtæki eiga að birta í ársreikningum sínum en skyldan til skila á þeim er alls staðar fyrir hendi. Þannig er vel flestum íslenskum fyrirtækjum heimilt að skila samandregnum ársreikningum á grundvelli smæðar sinnar.
    Nefndin ræddi jafnframt gildistökuákvæði frumvarpsins og möguleikann á að það kynni að vera afturvirkt. Nefndin bendir á að skv. 1. mgr. 69. gr. laga um ársreikninga skal fyrirtæki skila ársreikningum sínum eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Þar sem gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi mundu þau því taka til þeirra fyrirtækja sem enn eiga eftir að skila ársreikningum sínum vegna reikningsársins 2000. Nefndin bendir á að þrátt fyrir að móttökustaður ársreikninga hafi ekki verið gildur samkvæmt áðurgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var skilaskyldan sjálf allan tímann til staðar samkvæmt lögum um ársreikninga. Því lítur nefndin svo á að hér sé ekki um afturvirkni að ræða hvað skilaskylduna sjálfa varðar.
    Nefndin leggur til breytingartillögu við 2. efnismgr. 11. gr. frumvarpsins þess efnis að allur vafi verði tekinn af um að eingöngu er verið að veita ársreikningaskrá upplýsingar úr skattgögnum um þau félög sem eru yfir einhverju þeirra þriggja stærðarmarka sem skylda þau til að birta ósamandregna ársreikninga. Fjárhæðir eða fjöldi starfsmanna kemur ekki fram í þessum upplýsingum. Þetta er gert til að hnykkja enn frekar á trúnaðarskyldu skattyfirvalda gagnvart skattskyldum aðilum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:

    2. efnismgr. 11. gr. verði svohljóðandi:
    Í því skyni að sannreyna hvort félög uppfylli ákvæði laganna um stærðarmörk til að mega skila samandregnum ársreikningum og samstæðureikningum hefur ársreikningaskrá heimild til að afla upplýsinga hjá ríkisskattstjóra um nöfn og kennitölur þeirra félaga sem lög þessi taka til og fara yfir þau stærðarmörk sem greinir í 6. gr.

    Kristinn H. Gunnarsson, Ögmundur Jónasson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.