Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1241  —  624. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Helgadóttur og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá félagsmálaráðueyti, Guðrúnu Pétursdóttur frá Miðstöð nýbúa, Bjarneyju Friðriksdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Heiðu Gísladóttur frá Vinnumálastofnun, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands og Einar Ólafsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hagstofu Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Miðstöð nýbúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi leiðsögumanna, Bændasamtökum Íslands, Flóttamannaráði Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Vélstjórafélagi Íslands, Mannréttindasamtökum innflytjenda á Íslandi, Toshiki Toma, presti innflytjenda, Samtökum atvinnulífsins, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Vinnumálastofnun, Útlendingaeftirlitinu og Mannréttindaskrifstofa Íslands.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögunum. Í því er að finna reglur um rétt útlendinga hér á landi til atvinnu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er frumvarpinu ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni. Með frumvarpinu er m.a. verið að festa framkvæmd núgildandi laga í sessi. Við samningu frumvarpsins var tekið tillit til þeirrar almennu þróunar sem orðið hefur á löggjöf á sviði stjórnsýsluréttar, mannréttinda og í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem tekið var mið af frumvarpi til laga um útlendinga.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð hér á landi. Í öðru lagi er heimilt að víkja frá skilyrðum um umsögn stéttarfélags í tilteknum tilvikum. Í þriðja lagi er að finna ákvæði um skyldu atvinnurekanda til að sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn. Í fjórða lagi er heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til að starfa hér á landi ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í fimmta lagi er heimilt að veita nánustu aðstandendum útlendings tímabundið atvinnuleyfi að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Í sjötta lagi er heimilt við vissar aðstæður að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi, svo sem vegna skilnaðar útlendings og Íslendings, andláts íslensks maka eða útlenskra námsmanna. Í sjöunda lagi er er að finna sérstakt ákvæði um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Loks er kveðið á um samráðsnefnd Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.
    Heimild ráðherra til að binda atvinnuleyfi öðrum skilyrðum en fram koma í lögunum er með frumvarpinu þrengd frá gildandi lögum þar sem heimildin er nú takmörkuð við mikilvæga almannahagsmuni. Nefndin leggur áherslu á að heimildinni sé ekki beitt nema fyrir hendi séu svokölluð force major tilvik og þá fyrst og fremst við útgáfu nýrra leyfa.
    Mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin nauðsynlegt að nánustu aðstandendur útlendings séu skilgreindir í frumvarpinu. Þá er lagt til að skipt verði út hugtakinu tímabundið atvinnuleyfi fyrir bundið atvinnuleyfi til samræmingar þar sem nú þegar er að finna í frumvarpinu hugtakið óbundið atvinnuleyfi. Óbundið atvinnuleyfi telst ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi. Bundið atvinnuleyfi er því bæði bundið í tíma og bundið atvinnurekanda. Nefndin telur rétt að heimild sé til undanþágu frá skilyrðum um óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða maka útlendings sem er með atvinnuleyfi hér á landi eða uppkomin börn hans. Loks leggur nefndin til orðalagsbreytingar.
    Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon skrifa undir álitið með fyrirvara um að leggja fram breytingartillögur.

Alþingi, 9. maí 2001.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kristján Pálsson.



Jónína Bjartmarz.


Pétur H. Blöndal.


Drífa Hjartardóttir.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.