Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1244  —  675. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um Seðlabanka Íslands.

Frá Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur.



     1.      Við 5. gr. Lokamálsgrein orðist svo:
             Bankastjóri ákveður að fengnu samþykki bankaráðs lögun, útlit og fjárhæð seðla þeirra og myntar sem bankinn gefur út og lætur birta auglýsingu um það efni.
     2.      Við 21. gr. Síðari málsliður 2. mgr. orðist svo: Bankastjóri Seðlabanka Íslands er aðalfulltrúi í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en forsætisráðherra skipar annan til vara til fimm ára í senn.
     3.      22. 24. gr. orðist svo:
                  a.      (22. gr.)
                       Yfirstjórn Seðlabanka Íslands er í höndum forsætisráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd, sbr. 24. gr. Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum bankastjóra.
                  b.      (23. gr.)
                       Bankastjóri ber ábyrgð á rekstri bankans, er talsmaður hans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum. Bankastjóra er heimilt að fela varabankastjóra að fara með ákvörðunarvald í einstökum málum sem undir hann heyra.
                       Forsætisráðherra skipar bankastjóra til sjö ára. Ekki er skylt að auglýsa opinberlega stöðu bankastjóra Seðlabankans. Aðeins er heimilt að skipa sama mann bankastjóra tvisvar sinnum. Forsætisráðherra skipar einnig tvo varabankastjóra til sjö ára sem eru staðgenglar bankastjóra í þeirri röð sem ráðherra ákveður. Bankastjóri og varabankastjórar skulu hafa víðtæka þekkingu eða reynslu á meginstarfssviði Seðlabankans.
                       Undirskrift bankastjóra og eins varabankastjóra þarf til þess að skuldbinda bankann. Þó er bankastjóra heimilt að veita tilteknum starfsmönnum umboð til þess að skuldbinda bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum samkvæmt reglum sem hann setur og staðfestar skulu af bankaráði, sbr. 28. gr.
                  c.      (24. gr.)
                       Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir önnur en skv. 2. mgr. 7. gr., álagning bindiskyldu skv. 11. gr. og viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr. sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum. Í peningastefnunefnd sitja bankastjóri, sem jafnframt er formaður, varabankastjórar og þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jafnt ræður atkvæði bankastjóra. Peningastefnunefnd skal halda fundi að minnsta kosti átta sinnum á ári. Auk þess getur peningastefnunefnd haldið fund ef bankastjóri ákveður eða tveir nefndarmenn krefjast þess. Peningastefnunefnd setur sér starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gera grein fyrir ákvörðunum peningastefnunefndar og forsendum þeirra. Peningastefnunefnd getur þó ákveðið að skýra ekki frá ákvörðunum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr.
     4.      Við 25. gr. Í stað orðsins „bankastjórn“ í lokamálslið komi: bankastjóri.
     5.      Við 28. gr.
                  a.      Í stað orðsins „bankastjórnar“ í a-lið komi: bankastjóra.
                  b.      Á eftir orðunum „Ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra“ í b-lið bætist: og varabankastjóra.
                  c.      D-liður orðist svo: Staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, sbr. 24. gr.
                  d.      Í stað orðsins „bankastjórn“ í e-lið, j-lið og l–n-lið komi: bankastjóri.
                  e.      Við bætist þrír nýir liðir sem verði e-, f- og r-liðir, svohljóðandi:
                e.    Fylgjast með framkvæmd starfsreglna og starfsháttum peningastefnunefndar.
                f.    Staðfesta setu þriggja yfirmanna í peningastefnunefnd að fenginni tillögu bankastjóra.
                r.    Staðfesta tillögu bankastjóra um lögun, útlit og fjárhæð seðla og myntar sem bankinn gefur út.
     6.      Ákvæði til bráðabirgða II orðist svo:
             Bankastjórar Seðlabanka Íslands við gildistöku laga þessara halda störfum sínum til loka skipunartíma síns með þeirri breytingu sem leiðir af 23. gr. Við gildistöku laganna skipar forsætisráðherra bankastjóra og tvo varabankastjóra úr röðum þáverandi bankastjóra Seðlabanka Íslands og ákveður jafnframt í hvaða röð varabankastjórar eru staðgenglar bankastjóra. Skipunartími þeirra í þessum embættum skal vera til sama tíma og eftir er af skipun þeirra í embætti bankastjóra við gildistöku laganna. Ákvæði 23. gr. um skipun bankastjóra og varabankastjóra gilda að öðru leyti frá og með næstu skipun í þessi embætti eftir gildistöku laganna. Óski einhver af bankastjórum Seðlabanka Íslands við gildistöku laganna að láta af störfum vegna breytinga á starfsheitum nýtur hann sömu réttinda varðandi starfslok og biðlaun og gilda við lok skipunartíma hans.