Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1250  —  619. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu breytinga á samningi um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Minni hluti utanríkismálanefndar hefur miklar og rökstuddar efasemdir um ágæti þess að einkavæða alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum (INMARSAT) sem Íslendingar gerðust aðilar að fyrir um áratug síðan. Ljóst er að Alþingi stendur í þeim efnum frammi fyrir gerðum hlut þar sem fulltrúar Íslands á vettvangi stofnunarinnar beittu ekki aðstöðu sinni þar til að hafa áhrif á málið á þingi aðildarríkjanna 1998 þegar breytingarnar voru samþykktar. Vissulega er til bóta að þrátt fyrir áformaða einkavæðingu rekstrarþátta stofnunarinnar verður haldið eftir stofnun aðildarríkjanna með tiltekin íhlutunarrétt til að gæta hagsmuna alheims- neyðar- og öryggiskerfisins fyrir siglingar sem hin einkavædda stofnun á að reka.
    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að ef farið verður út í þessar breytingar eigi í öllu falli að halda eftir hjá ríkinu eignarhlut Íslendinga í fyrirtækinu Inmarsat hf., en ekki skilja hann eftir í Landssímanum hf., sem nú stendur fyrir dyrum að einkavæða. Minni hlutinn getur því ekki stutt málið með vísan til ráðagerða um einkavæðingu Landssímans og þess sem að framan greinir.

Alþingi, 8. maí 2001.



Steingrímur J. Sigfússon.