Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1257  —  235. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um að lögleiða ólympíska hnefaleika.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Reyni Karlsson frá menntamálaráðuneyti og Ellert B. Schram frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Frumvarp þetta var lagt fram á 125. löggjafarþingi og náði þá ekki fram að ganga. Nefndin studdist við umsagnir er þá bárust um málið frá Ungmennasambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, ríkissaksóknara, Ómari Ragnarssyni, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, landlækni og Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur. Þá barst nefndinni umsögn frá heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir á Íslandi og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi, sbr. samnefnd bannlög nr. 92 27. desember 1956. Ólympískir hnefaleikar eru hins vegar viðurkennd íþróttagrein af alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt er keppt á Ólympíuleikum og í öllum vestrænum löndum. Það er því algjört einsdæmi að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að áfram standi óbreytt lög nr. 92/1956, sem banna hnefaleika í atvinnuskyni. Í því sambandi vill meiri hlutinn vekja athygli á yfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 3. maí 2000, þar sem fram kemur að framkvæmdastjórn sambandsins hafi ekki í hyggju og sé því algjörlega andvíg að atvinnumannahnefaleikar verði leyfðir hér á landi, enda þótt ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar verður að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum því að reglur og öryggiskröfur greinanna eru mjög ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Fram kom í umræðum í nefndinni að strangar reglur hafa verið settar í Noregi og Svíþjóð um ólympíska hnefaleika, m.a. þannig að eftirlit með keppnum er mikið og læknir ávallt viðstaddur. Samkvæmt íþróttalögum, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að sambandið setji reglur um þessa íþróttagrein með hliðsjón af framangreindum reglum. Þá kom fram í máli gesta að uppeldisleg rök eru einnig fyrir lögleiðingu íþróttarinnar þar sem sumir hópar þjóðfélagsins gætu haft gott af iðkun íþróttarinnar og þeim aga sem þar gildir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verið samþykkt óbreytt.
    Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 9. maí 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Einar Oddur Kristjánsson.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Hjálmar Árnason.