Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1265  —  623. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Inga Val Jóhannsson frá félagsmálaráðuneyti, Guðmund Bjarnason og Einar Jónsson frá Íbúðalánasjóði og Herdísi Einarsdóttur frá varasjóði viðbótarlána.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá kærunefnd húsnæðismála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Íbúðalánasjóði, varasjóði viðbótarlána, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Með frumvarpinu er lagt til að verksvið kærunefndar húsnæðismála verði rýmkað. Aðrar breytingar frumvarpsins eru þær að heimildir Íbúðalánasjóðs til að afskrifa veðlán í sérstökum tilvikum eru rýmkaðar. Þá er úrræðum fólks sem er í vanskilum við Íbúðalánasjóð fjölgað og sveitarfélögum fengin heimild til að yfirtaka áhvílandi lán á innleystum íbúðum sem ákveðið hefur verið að breyta í leiguíbúðir.
    Nefndin telur rétt að geta þess að afskriftarheimild stjórnar Íbúðalánasjóð skv. 3. gr. frumvarpsins á eingöngu við um mjög sérstök tilvik. Ákvæðið nær þannig ekki til tjóns sem íbúðareiganda verður um kennt, tjóns sem þriðja aðila er skylt að bæta íbúðareiganda eða tjóns sem íbúðareigandi gat firrt sig með kaupum á venjubundnum tryggingum, svo sem vegna bruna-, vatns- eða foktjóns, og skiptir þá ekki máli hvort hann er með fullnægjandi tryggingavernd. Með sama hætti nær ákvæðið ekki til tjóna af völdum náttúruhamfara sem Viðlagatrygging Íslands bætir, svo sem vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla og snjó- eða vatnsflóða.
    Þar sem meginhlutverk varasjóðs viðbótarlána er að bæta það tjón sem Íbúðalánasjóður kann að verða fyrir vegna tapaðra viðbótarlána og tengds kostnaðar þykir nefndinni rétt að stjórn Íbúðalánasjóðs leiti samþykkis stjórnar varasjóðs til að afskrifa útistandandi veðkröfur viðbótarlána.
         Mælir nefndin með að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU:

    Við 3. gr.
     a.      Inngangsmálsliður orðist svo: Við 47. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 2. og 3. mgr. og orðast svo.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
                  Stjórn Íbúðalánasjóðs skal afla samþykkis varasjóðs viðbótarlána til að afskrifa útistandandi veðkröfur viðbótarlána.

    Jónína Bjartmarz var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðrún Ögmundsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara um að leggja fram breytingartillögur.

Alþingi, 9. maí 2001.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kristján Pálsson.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.

Drífa Hjartardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.