Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1269  —  348. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um áhafnir íslenskra skipa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Helga Jóhannesson frá samgönguráðuneytinu.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Landssambandi smábátaeigenda, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Vélskóla Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Siglingasambandi Íslands, Siglingastofnun Íslands, Kjölbátasambandinu og Olíudreifingu ehf.
    Á 125. þingi lagði samgönguráðherra fram frumvarp til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta. Frumvarpið varð ekki útrætt á þinginu. Frumvarp það sem hér er til umræðu er í flestum atriðum byggt á því frumvarpi, en jafnframt voru breytingartillögur sem samgöngunefnd gerði við málið á 125. þingi hafðar til hliðsjónar.
    Megintilgangur frumvarpsins sem lagt var fram á 125. þingi, sem og nú, var að laga íslenska löggjöf að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 (STCW), sem tekur til áhafna flutninga- og farþegaskipa og breytt var í verulegum atriðum árið 1995. Evrópusambandið hefur fullgilt samþykktina og sett tilskipun um lágmarksþjálfun sjómanna, 94/58/EB, sem síðan var breytt með tilskipun 98/35/EB. Þessar tilskipanir eru hluti þeirra gerða sem taka verður inn í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningins.
    Það sem helst skilur á milli þess frumvarps sem flutt var á 125. þingi og þess sem hér er til umræðu er að gildissvið frumvarpsins nær nú yfir áhafnir allra íslenskra skipa, þar með talið áhafnir fiskiskipa.
    Hvað varðar ákvæði frumvarpsins er lúta að áhöfnum fiskiskipa hefur við gerð frumvarpsins verið tekið mið af alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna á fiskiskipum (STCW–F). Alþjóðasamþykkt þessi á rót sína að rekja til sérstakrar ráðstefnu sem fór fram um leið og endurskoðun STCW-samþykktarinnar stóð yfir árið 1995. Í fyrstu var ætlunin að fiskiskipasamþykktin yrði í formi sérstakrar bókunar við STCW- samþykktina en horfið var frá því. Samþykktin er fyrsta tilraun til þess að samræma bindandi lágmarksstaðla um menntun og þjálfun áhafna fiskiskipa. Fiskiskipasamþykktin öðlast gildi 12 mánuðum eftir að 15 ríki fullgilda hana. Nú hafa tvö ríki fullgilt samþykktina, Danmörk og Rússland.
    Með bréfi dagsettu 26. apríl sl., daginn sem samgönguráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi, sendi ráðherra samgöngunefnd bréf þar sem óskað var eftir því við nefndina að hún legði til breytingar á frumvarpinu sem fælu það í sér að ákvæði þess um fiskiskip yrðu
felld brott og að það tæki einungis til áhafna farþegaskipa og flutningaskipa. Í bréfinu kom

Prentað upp.

fram að ástæða þessa væri sú að ákvæði frumvarpsins um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum tengdust að nokkru leyti kjaradeilu sjómanna á fiskiskipum. Í bréfinu kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi reynt að finna viðunandi lausn í samráði við þá aðila sem að málinu koma en það hafi ekki enn tekist.
    Nefndin hefur fallist á að verða við ósk ráðuneytisins og leggja til framangreindar breytingar í þeirri von að það liðki til fyrir lausn í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Hvorki fiskimannasamþykktin né samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið knýr á um að ákvæði þessi verði lögtekin. Öðru máli gegnir hins vegar um ákvæði frumvarpsins sem lúta að farþegaskipum og flutningaskipum. Mjög brýnt er orðið að ákvæði frumvarpsins taki gildi sem fyrst til þess að tryggja að Siglingastofnun Íslands geti í samræmi við STCW-samþykktina sem Ísland er aðili að gefið út alþjóðleg skírteini til íslenskra sjómanna sem starfa á íslenskum skipum og skipum skráðum erlendis. Þetta er nauðsynlegt því að ella kynnu skip sem Íslendingar starfa á að verða kyrrsett í erlendum höfnum sem aftur leiddi til þess að útgerðum þessara skipa yrði nauðugur einn kostur að ráða sjómenn frá öðrum ríkjum til starfa í stað íslenskra skipverja. Til að koma í veg fyrir þetta er nauðsynlegt að færa ákvæði STCW-samþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna á farþegaskipum og flutningaskipum inn í íslenskan rétt.
    Í samræmi við framangreint leggur nefndin til að frumvarpinu verði breytt á þann veg að það taki eingöngu til farþegaskipa og flutningaskipa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að gildissviði laganna verði breytt þannig að frumvarpið taki aðeins til farþega- og flutningaskipa.
     2.      Lagt er til að orðskýringar sem lúta að öðrum skipum en farþegaskipum og flutningaskipum verði felldar brott.
     3.      Lögð er til breyting á 3. gr. frumvarpsins í samræmi við breytt gildissvið þess.
     4.      Lagðar eru til breytingar á 4. gr. frumvarpsins varðandi rétt manna til skírteinis og vísað til 11. gr. frumvarpsins, með breytingum sem nefndin leggur til, varðandi kröfur um siglingatíma.
     5.      Lagt er til að sá sem nú er handhafi lögmæts skírteinis til að vera skipstjóri í innanlandssiglingum á skipi sem er 30 rúmlestir öðlist við þær breytingar sem hér eru gerðar rétt til að vera skipstjóri eða stýrimaður á skipi sem er allt að 65 brúttótonn en ekki 50 brúttótonn eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Með þessu móti mun enginn missa réttindi sem hann þegar hefur.
     6.      Lagt er til að ábyrgð útgerðarmanns og skipstjóra sé skilgreind með nánari hætti en gert er í frumvarpinu.
     7.      Lagt er til að talin séu upp þau skírteini sem krafist er til starfa um borð í flutningaskipum og farþegaskipum. Þá er siglingatími sem krafist er vegna hvers skírteinis skilgreindur. Flokkun skírteina byggist á STCW-samþykktinni.
     8.      Lagt er til að III.–VI. kafli frumvarpsins er fjalla um fiskiskip, varðskip, skemmtibáta og önnur skip falli brott. Þetta er í samræmi við það markmið að frumvarpið taki aðeins til áhafna farþegaskipa og flutningaskipa.
     9.      Lagðar eru til breytingar á refsiákvæðum frumvarpsins. Lagt er til að kveðið verði með skýrari hætti á um hvaða refsingar liggi við brotum á lögunum. Kveðið er á um heimild Siglingastofnunar til að svipta menn starfsréttindum til bráðabirgða gerist þeir sekir um vítaverð brot á lögunum og henni jafnframt gert kleift að afturkalla skírteini þegar lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna.
     10.      Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 2001 svo að rúm gefist til kynningar og reglugerðarsetningar.
     11.      Lagt er til að undanþágusjóður sem starfar skv. 3. mgr. 21. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum verði lagður niður. Jafnframt er lagt til að andvirði þess sjóðs skuli notað til að standa straum af kostnaði við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda árið 2001, en þingsályktun um slíka langtímaáætlun er nú til umfjöllunar í þinginu.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Lúðvík Bergvinsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Kristján L. Möller.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Magnús Stefánsson.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson,


með fyrirvara.