Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1270  —  348. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um áhafnir íslenskra skipa.

Frá samgöngunefnd.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

Gildissvið, markmið og tilgangur.

                  Lög þessi taka til áhafna allra íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa.
                  Markmið þessara laga er að tryggja öryggi áhafna, farþega og íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og efla varnir gegn mengun sjávar. Þessu markmiði skal náð með því að gera tilteknar kröfur um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna miðað við stærð skips, verkefni og farsvið.     
                  Tilgangur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim er að laga íslenskan rétt að þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978 með síðari breytingum og EES-samningnum, sbr. tilskipun ráðsins nr. 94/58/EB frá 22. nóvember 1994, um lágmarksþjálfun sjómanna, sbr. tilskipun ráðsins nr. 98/35/EB frá 25. maí 1998.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      2., 6., 7., 8., 9. og 15. tölul. falli brott og breytist númer töluliða í samræmi við það.
                  b.      Á eftir 17. tölul., er verði 11. tölul., komi nýr töluliður, er verði 12. tölul., svohljóðandi: Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi sem er í förum og krafist er vegna útgáfu skírteinis samkvæmt lögum þessum.
     3.      Við 3. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Sjómannaskólar annast menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa. Um inntökuskilyrði sjómannaskóla, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nám og kennsla í sjómannaskólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.
     4.      Við 4. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                      Íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn á rétt á því að fá útgefið viðeigandi skírteini sér til handa skv. 11. gr. laganna


Prentað upp.


                og starfa samkvæmt því um borð í skipum. Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
                  b.      Á eftir 2. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Umsækjandi skírteinis skal hafa að baki siglingatíma skv. 11. gr. laganna. Ráðherra getur með reglugerð vikið frá kröfum 11. gr. og gert vægari kröfur um siglingatíma. Umsækjanda er skylt að færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Unnt er að færa sönnur á þann siglingatíma með staðfestingu lögskráningarstjóra eða rétt útfylltri sjóferðabók. Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma á fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar Íslands. Ef vafi leikur á um réttmæti þeirrar sönnunar skal Siglingastofnun Íslands í því tilviki skera úr um siglingatíma.
                     Umsækjandi um skírteini skipstjórnarmanns eða vélstjórnarmanns skal vera svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Skal umsækjandi leggja fram vottorð læknis um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur sem ráðherra mælir nánar fyrir um í reglugerð til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins í þeim samningum sem um er getið í 3. mgr. 1. gr. laganna.
     5.      Við 5. gr. 2. mgr. orðist svo:
                  Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af Siglingastofnun Íslands og skal á þeim m.a. farið yfir nýlegar breytingar á alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó og varnir gegn mengun sjávar.
     6.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðanna „reglugerðir samkvæmt þeim, alþjóðasamþykktina og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: reglugerðir settar samkvæmt þeim.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                     Um umsóknir frá ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á réttindum til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara eftir ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur í samræmi við skyldur íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. tilskipun ráðsins nr. 94/58/EB, um lágmarksþjálfun sjómanna, með síðari breytingum.
     7.      Við 8. gr. Lokamálsliður 2. mgr. falli brott.
     8.      Við 9. gr. Í stað orðanna „50 brúttótonn“ í 2. mgr. komi: 65 brúttótonn.
     9.      Við 10. gr. Greinin orðist svo:
                  Útgerðarmaður og skipstjóri viðkomandi skips bera ábyrgð á því að ákvæðum þessara laga sé framfylgt við útgerð skips. Þeim ber að sjá til þess að eftirfarandi sé gætt:
                      1.      að allir þeir sem ráðnir eru um borð í skip séu lögmætir handhafar skírteina fyrir þá stöðu sem þeir gegna og að frumrit skírteina skipverja sé varðveitt um borð,
                      2.      að uppfærð og aðgengileg skrá sé haldin yfir alla skipverja og stöður þeirra um borð,
                      3.      að öllum nýráðnum skipverjum sé áður en þeir hefja skyldustörf kunnugt um skyldur sínar, að þeir séu kunnugir starfsaðferðum um borð, tækjum, búnaði, verklagsreglum og neyðaráætlunum sem og sérstökum skilyrðum í tengslum við venjubundin skyldustörf og hlutverk á neyðarstundu,
                      4.      að skipverjar geti með góðu móti unnið saman á neyðarstundu og þegar mengunarhætta steðjar að,
                      5.      að skipverjar geti tjáð sig sín á milli um grundvallaröryggismál og skilji upplýsingar um öryggisþætti, þar með talin tákn, merki og hljóðviðvörunarmerki og
                      6.      að tryggja að allir nýráðnir skipverjar fái nauðsynlegar upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja.
     10.      Við 11. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

    Skírteini áhafnar.

                  Sá einn sem er lögmætur handhafi skírteinis hefur rétt til starfa um borð í farþegaskipum og flutningaskipum.
                  Eftirfarandi skírteini til skipstjórnar skulu gefin út að uppfylltum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn:
Stjórnunarsvið Takmarkanir Aldur Siglinga-
tími
Yfirstýrimaður/stýrimaður <500 brúttótonn í strandsiglingum 20 A.
Skipstjóri <500 brúttótonn í strandsiglingum 20 B.
Yfirstýrimaður <3.000 brúttótonn 20 C.
Skipstjóri <3.000 brúttótonn 20 C.
Yfirstýrimaður engar 20 B.
Skipstjóri engar 20 C.
Rekstrarsvið
Stýrimaður engar 18 D.
Stoðsvið
Aðstoðarmaður í brú engar 16 E.

Siglingatími:

              A.      54 mánaða siglingatími sem háseti á skipi. Umsækjandi skal uppfylla kröfur til að öðlast skírteini fjarskiptamanns.
              B.      18 mánaða siglingatími sem stýrimaður á skipi.
              C.      54 mánaða siglingatími sem stýrimaður á skipum sem eru 500 brúttótonn eða stærri eða 36 mánuðir í sömu stöðu ef umsækjandi hefur gegnt stöðu yfirstýrimanns í 18 mánuði af þeim siglingatíma.
              D.      18 mánaða siglinga- og námstími, enda hafi umsækjandi fengið fræðslu um borð og sá tími verið skráður í þjálfunarbók, eða að öðrum kosti 54 mánaða siglingatími sem háseti á skipi. Umsækjandi skal uppfylla kröfur til að öðlast skírteini fjarskiptamanns.
              E.      Að lágmarki 9 mánaða siglinga- og námstími, þar á meðal siglingatími sem má ekki vera skemmri en 4 mánuðir. Af siglingatíma skal aðstoðarmaður í brú hafa gengið vaktir í brú a.m.k. í 4 mánuði undir beinu eftirliti skipstjóra eða vakthafandi stýrimanns og skal þar leiðbeint í öllu sem varðar vaktir og varðstöðu á siglingavakt. Áður en viðkomandi byrjar þjálfun sem aðstoðarmaður í brú skal hann leggja fram læknisvottorð um að hann hafi staðist kröfur sem gerðar eru um sjón og heyrn.
                  Eftirfarandi skírteini til vélstjórnar skulu gefin út að uppfylltum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn:
Stjórnunarsvið Takmarkanir Aldur Siglingatími
Vélstjóri <375 kW 18 A.
Vélstjóri <750 kW 18 B.
1. vélstjóri <3.000 kW 20 C.
Yfirvélstjóri <3.000 kW 20 D.
1. vélstjóri engar 20 C.
Yfirvélstjóri engar 20 D.
Rekstrarsvið
Vélstjóri engar 18 E.
Stoðsvið
Aðstoðarmaður í vél engar 16 F.

     Siglingatími:

              A.      9 mánaða siglingatími sem aðstoðarmaður í vél.
              B.      14 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipi < 375 kW.
              C.      18 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipum með aðalvél stærri en 750 kW.
              D.      36 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipum með aðalvél stærri en 750 kW, þar af 18 mánaða siglingatími eftir að hafa öðlast réttindi til að starfa sem 1. vélstjóri.
              E.      9 mánaða siglinga- og námstími og hafa lokið viðurkenndri fagmenntun sem er ekki skemmri en 45 mánuðir, þar með talin fræðsla um borð sem skráð er í þjálfunarbók.
              F.      Að lágmarki 9 mánaða siglinga- og námstími, þar á meðal siglingatími sem má ekki vera skemmri en 4 mánuðir. Af siglingatíma skal aðstoðarmaður í vél hafa gengið vaktir í vél a.m.k. í 4 mánuði undir beinu eftirliti yfirvélstjóra eða vakthafandi vélstjóra og skal þar leiðbeint í öllu sem varðar vaktir í vél. Áður en viðkomandi byrjar þjálfun sem aðstoðarmaður í vél skal hann leggja fram læknisvottorð um að hann hafi staðist þær kröfur sem gerðar eru um sjón og heyrn.
                  Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita undanþágur frá framangreindum kröfum þegar um er að ræða farþegaskip sem sigla á tilteknu farsviði og á tilteknu tímabili enda sé ekki farið í bága við skuldbindingar sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt alþjóðasamþykktinni.
     11.      Við 12. gr. Á eftir orðunum „og flutningaskipum skal“ í 2. mgr. komi: Siglingastofnun Íslands.
     12.      Fyrirsögn II. kafla verði: Skírteini.
     13.      III. kafli frumvarpsins, Fiskiskip, falli brott og breytist töluröð kafla og greina í samræmi við það.
     14.      IV. kafli frumvarpsins, Varðskip, falli brott og breytist töluröð kafla og greina í samræmi við það.
     15.      V. kafli frumvarpsins, Skemmtibátar, falli brott og breytist töluröð kafla og greina í samræmi við það.
     16.      VI. kafli frumvarpsins, Önnur skip, falli brott og breytist töluröð kafla og greina í samræmi við það.
     17.      Við 21. gr. er verði 15. gr. Greinin orðist svo:
                  Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Beita skal ákvæðum almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.
                  Svipta skal skírteinishafa rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann gerist sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa varhugavert að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.
                  Svipting starfsréttinda skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en þrjá mánuði og ævilangt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.
                  Leiði brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim til skipsstrands, áreksturs skipa eða annarra sjóslysa skal viðkomandi sæta refsingu og eftir atvikum réttindasviptingu til skipstjórnar eða vélstjórnar, skv. 238. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, með síðari breytingum.
     18.      Á eftir 21. gr., er verði 15. gr., komi ný grein, svohljóðandi:
                  Siglingastofnun Íslands er heimilt að afturkalla skírteini ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna til að öðlast slíkt skírteini eða vera skírteinishafi.
                  Nú telur Siglingastofnun Íslands að skilyrði, sbr. 2. mgr. 15. gr., séu fyrir hendi til sviptingar starfsréttinda og er stofnuninni þá heimilt að svipta viðkomandi aðila starfsréttindum til bráðabirgða. Skal slík svipting vera tímabundin eða ákvörðuð til þess tíma þegar endanleg ákvörðun dómstóls um sviptinguna liggur fyrir. Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.
                  Bera má ákvörðun Siglingastofnunar Íslands undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála og skal stofnunin leiðbeina viðkomandi um þann rétt.
     19.      Við 22. gr. er verði 17. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði reglugerðarinnar skulu vera í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þeim samningum sem um er getið í 3. mgr. 1. gr. laganna.
     20.      Við 23. gr. er verði 18. gr. Greinin orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.
                  Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög um áhafnir íslenskra kaupskipa, nr. 59/1995, með síðari breytingum. Jafnframt falla brott ákvæði 3. mgr. 21. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum.
     21.      Við ákvæði til bráðabirgða. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Undanþágusjóður, sem starfar skv. 3. mgr. 21. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, skal lagður niður. Andvirði sjóðsins skal notað til að standa straum af kostnaði við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda árið 2001.
     22.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.