Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1274  —  634. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Frá meiri hluta samgöngunefndar (ÁJ, HjÁ, ArnbS, ÞKG, GHall, MS, JB).



     1.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað orðsins „gjaldi“ í a- og g-lið komi: endurgjaldi.
                  b.      I-liður orðist svo: Vöruflutningar og efnisflutningar í atvinnuskyni: Flutningur á vöru eða efni gegn endurgjaldi sem ekki fellur undir j-lið um flutning í eigin þágu. Með efnisflutningi er átt við flutning á jarðefnum, svo sem möl eða sandi.
                  c.      Í stað orðsins „ökutækis“ í j-lið komi: bifreiðar.
     2.      Við 4. gr. Greinin orðist svo:
                  Almennt rekstrarleyfi Vegagerðarinnar þarf til að stunda fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum þessum. Leyfið skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt. Vegagerðinni er heimilt, á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur, að gera mismunandi kröfur til útgáfu mismunandi leyfa eftir því sem eðli starfseminnar gefur tilefni til.
                   Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu.
                   Samgönguráðherra getur með reglugerð sett nánari skilyrði um veitingu leyfa.
     3.      Við 8. gr. Greinin orðist svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. og 7. gr. er öðrum en sérleyfishafa heimilt að stunda sérstaka reglubundna fólksflutninga, enda hafi viðkomandi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. Til sérstakra reglubundinna fólksflutninga teljast flutningar starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda enda falli þeir ekki undir h-lið 3. gr. og akstur skólanemenda. Flutningsaðili þarf að uppfylla skilyrði laganna og þær gæða- og tæknikröfur sem Vegagerðin setur.
     4.      Við 9. gr. Á eftir orðunum „2. og 3. tölul.“ í 1. mgr komi: 1. mgr.
     5.      Við 12. gr.
                  a.      Orðin „sbr. skilgreiningu í reglugerð nr. 411/1993, um gerð og búnað ökutækja“ í 3. mgr. falli brott.
                  b.      2. mgr. verði 4. mgr.
     6.      Við 13. gr. Greinin orðist svo:
                  Greiða skal fyrir útgáfu leyfa.
                  Fyrir rekstrarleyfi skv. 4., 6., 7. og 10. gr. skal greiða sem hér segir:
                    1.      Fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólks-, vöru- og efnisflutninga skal greiða 3.000 kr. árlegt gjald. Enn fremur skal árlega greiða 1.000 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.
                    2.      Fyrir sérútbúnar bifreiðar skv. 10. gr., sem uppfylla þurfa gæða- og tæknikröfur skv. 12. gr., skal greiða 4.000 kr. árlegt gjald fyrir rekstrarleyfi. Enn fremur skal árlega greiða 1.000 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.
                    3.      Fyrir sérleyfi og einkaleyfi skal greiða 20.000 kr. árlegt gjald.
                    4.      Fyrir önnur rekstrarleyfi skal greiða 10.000 kr. árlegt gjald.
                  Halda skal tekjum og gjöldum vegna framangreindra leyfa aðskildum í bókhaldi.
                  Framangreind gjöld skulu renna til Vegagerðarinnar og standa undir eftirliti og leyfisveitingum samkvæmt lögum þessum. Vegagerðinni er heimilt að fela þriðja aðila þetta eftirlit.
     7.      Við 14. gr. Greinin orðist svo:
                  Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum þessum án þess að hafa til þess tilskilin leyfi er Vegagerðinni heimilt að fela lögreglu að stöðva starfsemina og viðkomandi ökutæki þegar í stað þar til leyfi hefur verið fengið.
     8.      Við 15. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Brot gegn lögum þessum og reglugerðum er settar kunna að verða samkvæmt þeim varða sektum og/eða leyfissviptingu nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála. Sektir allt að 100.000 kr. fyrir brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Þar skal tilgreint til hvaða tegunda brota hún taki og hvaða sekt skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.
     9.      Við 16. gr. Greinin orðist svo:
                   Samgönguráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.
                  Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir um skipulag á fólksflutningum, vöruflutningum og efnisflutningum vegna skuldbindinga er leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.