Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1301  —  672. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá ríkissaksóknara, Samtökum ferðaþjónustunnar, Lögmannafélagi Íslands, lögreglunni í Reykjavík, ríkislögreglustjóra, Ökukennarafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands og Umferðarráði.
    Með frumvarpinu er lagt til að notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar verði bönnuð og ráðherra verði fengin heimild til að setja nánari reglur um notkun annars fjarskiptabúnaðar og svipaðs búnaðar við akstur. Þá er að finna breytingar á ákvæðum laganna um ökuréttindi.
    Nefndin telur rétt að fresta afgreiðslu á þeim breytingum sem lagðar eru til um ökuréttindi í frumvarpinu þar sem þær þurfi að skoða frekar og í víðara samhengi. Nefndin lítur hins vegar svo á að þar sem notkun farsíma án handfrjáls búnaðar getur dregið úr færni ökumanns til að stjórna bifreið og þannig aukið hættu í umferðinni eigi að koma banni við notkuninni á sem fyrst. Því mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      2. gr. falli brott.
     2.      3. gr. falli brott.
     3.      Fyrri málsliður 4. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2001.

    Ólafur Örn Haraldsson og Sverrir Hermannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ásta Möller.



Katrín Fjeldsted.


Drífa Hjartardóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson.