Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1316  —  707. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Frá 2. minni hluta samgöngunefndar.



Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er ríkisstjórninni veitt heimild til að selja allt hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. Í athugasemdum með frumvarpinu er jafnframt greint frá þeirri tilhögun sem áformað er að hafa við sölu hlutafjárins og frá ýmsum skilyrðum sem Landssímanum hf. eru sett. Samhliða þessu frumvarpi flytur ríkisstjórnin frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 107/1999 (708. mál), sem kveður á um skýrari heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að gera ríkari kröfur en lögin nú heimila til fyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild. Nefndarálit þetta mun taka til beggja þessara frumvarpa.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er andvígur sölu Landssíma Íslands hf. Fjarskiptaþjónusta er ein af grunnstoðum almannaþjónustu í landinu. Þessi þjónusta má ekki lúta þeim lögmálum markaðarins að arðsemiskrafa eiganda ein sé drifkraftur reksturs og þjónustu. Sjálfsagt er að gæta allra almennra hagkvæmni- og rekstrarsjónarmiða og gera kröfur um aukna þjónustu. Landssími Íslands á áfram að vera sameign þjóðarinnar og styrk hans á að nýta til hins ýtrasta til að byggja upp gott fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna án mismununar í verði eða gæðum. Fari svo sem horfir og fyrirtækið verður selt er sú hætta yfirvofandi að þessi almannaþjónusta verði ofurseld einkareknu einokunarfyrirtæki, jafnvel í meirihlutaeign útlendinga. „Þá ætla ég mörgum kotbóndunum munu þykja verða þröngt fyrir dyrum.“ Svo mælti Einar Þveræingur þá er Þórarinn Nefjólfsson bar upp það erindi Ólafs Noregskonungs að Norðlendingar gæfu honum Grímsey. „ … þá var öll alþýða snúin með einu samþykki að þetta skyldi eigi fást“.

Meðferð málsins.
    Annar minni hluti gagnrýnir þá meðferð sem málið hefur fengið í þinginu. Frumvarpið kom mjög seint fram eða nær sex vikum eftir að frestur var liðinn til að skila inn nýjum þingmálum og þurfti því að leita afbrigða til að það fengist tekið fyrir. Eru þetta furðuleg vinnubrögð í stórmáli sem snertir svo mjög alla landsmenn eins og nánar verður gerð grein fyrir í þessu nefndaráliti. Sala Landssímans var eitt af stefnumiðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Hefur hún nú þegar haft tvö ár til að undirbúa söluna og því óskiljanlegt að keyra þurfi málið í gegn um þingið með þeim hætti að ómögulegt er að fjalla um það á fullnægjandi hátt.
    Annar minni hluti gagnrýnir vinnubrögð og framgöngu meiri hlutans við umfjöllun þessa máls. Ekki var einu sinni nýttur sem skyldi sá takmarkaði tími sem nefndin hafði þó til umráða. Málinu var vísað til nefndar 2. maí sl., en fyrsti nefndarfundur, þar sem málið var á dagskrá, var boðaður föstudaginn 4. maí, án undirbúnings eða samráðs við minni hlutann, samkvæmt dagskrá sem hafði ekki verið borin undir nefndarmenn. Að beiðni undirritaðs var óskað eftir skriflegum umsögnum frá ýmsum aðilum um málið og að þeir fengju eins rúman tíma og kostur væri til að skila inn umsögnum. Umsagnarbeiðnir voru sendar út eftir hádegið á föstudeginum og aðeins gefinn frestur til kl. 16 næsta mánudag. Fyrir fram var því ljóst að umsóknaraðilum mundi ekki gefast tími til að fjalla á neinn heildstæðan hátt um málin.
    Veigamikill þáttur þessa máls er efnahags- og viðskiptalegs eðlis og lýtur fullt eins að stjórn peningamála í landinu og tæknilegri þjónustu. Því óskaði undirritaður eftir að nefndin færi fram á að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins veitti umsögn um þann þátt málsins. Eftir nokkurn undandrátt með svör var því hafnað af hálfu meiri hlutans og er þeirri neitun hér með mótmælt.
    Annar minni hluti telur að málið sé illa unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar og því hafi verið brýn þörf á að málið fengi vandaða umfjöllun í samgöngunefnd. Að mati 2. minni hluta hefur slík umfjöllun ekki farið fram og þess vegna er því mótmælt að málið skuli hafa verið afgreitt úr nefndinni til 2. umræðu.

Landssíminn hluti íslenskrar þjóðarsálar.
    Árið 1906 komst á ritsímasamband við umheiminn frá Seyðisfirði. Allar götur síðan hefur aukin og bætt fjarskiptaþjónusta verið hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og tengt þá saman sem eina þjóð. Örugg þjónusta á þessu sviði hefur tryggt góða samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja innan lands og þjóðarinnar allrar við útlönd. Í strjálbýlu landi sem Íslandi er öflug og góð fjarskiptaþjónusta ein af grunnstoðum almannaþjónustu og getur tryggt samkeppnishæfa búsetu, mannlíf og atvinnrekstur hvarvetna á landinu. Það var þjóðarmetnaðarmál að allir íbúar landsins tengdust gegnum símakerfið.
    Áfram eru grundvöllur samkeppni og tækniframfara og þróun samskipta bundin fjarskiptum. Þau eru því ein af grunnforsendum almannaþjónustu sem er forsenda fyrir fjölbreyttu atvinnulífi, menningarstarfi og samskiptum fólks hvarvetna á landinu. Ákveðin grunnþjónusta af þessum toga verður að lúta kröfum um jafna þjónustu, en ekki lögmálum arðsemiskrafna til þess fjár sem eigendur telja sig hafa lagt í þessa starfsemi í sjálfu sér. Landssíminn er hluti af innbúi allrar þjóðarinnar, eins konar „fjölskyldusilfur“ allra heimila landsins. Sjálfsagt er að gæta eðlilegra rekstrar- og hagkvæmnisjónarmiða. Landssíminn á áfram að vera í þjóðareign. Hér skilur á milli sjónarmiða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og annarra stjórnmálaafla í landinu.
    Undirritaður minnist þess í barnæsku að þegar verið var að leggja símann um sveitirnar var sú kvöð á bændum og landeigendum að hver varð að sjá um dreifingu símastauranna þar sem línan fór í gegnum þeirra land. Var það gert á hestum þar sem dráttarvélum varð ekki við komið, staurarnir dregnir eða bornir á höndum þar sem verst var yfirferðar. Íbúar út um allt land tóku virkan þátt í uppbyggingu þessarar almannaþjónustu og töldu ekki eftir sér. Undirrituðum er einnig kunnugt um að þeim rökum var beitt í kjarasamningum við starfsmenn Landssímans á sínum tíma að því hærri laun sem starfsmenn fengju því minna yrði til að byggja upp og þjónusta alla landsmenn.
    Landssíminn hefur verið eitt af sameiningartáknum þjóðarinnar sem hver og einn landsmaður hefur verið tengdur við og fundið að hann gat gert félagslegar kröfur til. Með sölu Landssímans verður þessi hluti þjóðarsálarinnar seldur.
    Verðmæti Landssímans er því ekki aðeins fólgið í tækjum og tólum, línum, húsum og þekkingu starfsfólks heldur er verðmæti hans ekki hvað síst sú staðreynd að hann hefur í nærri heila öld verið hluti af íslenskri þjóðarsál. Það er verið að selja áratuga samning við íslensk heimili.
    Verði þessi sala almannaþjónustu landsmanna að veruleika mun það rista djúp sár í íslenska þjóðarsál. Og enn dýpri verða sárin og örin stærri ef það verður skilyrt að stór hluti Landssímans, jafnvel meiri hluti eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, fari í hendur erlendra aðila.

Aðdragandi sölu.
    Þegar stofnað var hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar 1996 var ítrekað að aðeins væri verið að breyta um rekstrarform, „aðlaga það nútímanum“. Hlutafélag ætti meiri möguleika að bregðast skjótt við nýjum þjónustukröfum. Ekki stæði til að selja fyrirtækið. Þetta sjónarmið var áréttað þegar fyrirtækinu var skipt í Landssímann hf. og Íslandspóst hf.
    Við myndun núverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var sala Landssímans hluti af stefnuyfirlýsingu hennar. Síðan þá hefur farið fram málamyndareiptog milli stjórnarflokkanna um tilhögun á sölu Landssímans.
    Ríkisstjórnarflokkarnir og einkavæðingarnefnd lítur fyrst og fremst á Landssímann sem fyrirtæki í samkeppnisatvinnurekstri. Samkeppnin eigi að tryggja framboð og gæði þjónustunnar. Nú sé komin svo mikil samkeppni í þessa þjónustu að óhætt sé að sleppa henni lausri á markaðstorg mammons. Lög um fjarskipti, lög um Póst- og fjarskiptastofnun og samkeppnislög búi þá umgjörð sem eigi að tryggja að svo verði. Landssíminn hafi nú þegar starfað eftir þessum lögum um tíma og ekki sé þar nein meginbreyting á þótt hann verði seldur.
    Fram kom hjá öllum þeim aðilum sem koma að fjarskiptum og mættu hjá nefndinni eða skiluðu áliti að því færi víðs fjarri að raunveruleg samkeppni væri á fjarskiptamarkaði og ætti það langt í land. Gríðarmikið misræmi væri milli fyrirtækja og íbúa landsins eftir búsetu hvað varðar aðgengi að fjarskiptum, tengimöguleika, gagnaflutning og verð á þjónustunni. Kom rækilega fram það sjónarmið að fullkomlega ótímabært væri að selja Landssímann í heilu lagi með öllum sínum deildum, þar á meðal grunnnetið, sleppa af þessari þjónustu hendinni og varpa henni á torg markaðarins og óheftra arðsemiskrafna. Allir þeir sem komu af landsbyggðinni til fundar við nefndina lýstu yfir þungum áhyggjum fyrst og fremst af stöðu mála nú og skertri samkeppnisstöðu vegna búsetu en einnig af þeirri óvissu sem skapaðist til framtíðar við sölu Landssímans. Óttuðust margir að erfitt mundi að setja auknar alþjónustukvaðir eftir á þegar fyrirtækið hefði verið selt. Að sjálfsögðu lægju verðmæti þess ekki hvað síst í yfirburðamarkaðsstöðu sem það samkvæmt arðsemiskröfu eigenda sinna mundi beita til hins ýtrasta.
    Ísland er lítill markaður en þar eru miklar vegalengdir. Einungis hér á suðvesturhorninu og ef til vill á Akureyri er hægt að vænta samkeppnismöguleika þar sem örfá fyrirtæki geta fleytt rjómann af fjarskiptaþjónustu landsmanna. Langlíklegast er að innan skamms tíma verði hér fullkomlega einkavædd einokun á fjarskiptamarkaði.
    Sala Landssímans í hlutum eða heilu lagi er því fullkomlega ótímabær hvort sem litið er á tæknilegar eða samkeppnislegar forsendur. Kröfur og væntingar til þjónustu hvarvetna á landinu mæla alfarið gegn því.
    Önnur rök fyrir sölu Landssímans eru þau að ríkið vanti fjármagn og helst þurfi að selja a.m.k. hluta af honum úr landi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að fá hámarksverð fyrir ríkiseignir.
    Fram kom hjá öllum þeim fulltrúum fjármálastofnana sem komu til fundar við nefndina að eins og staðan væri nú væri þetta einn allra versti tíminn til að selja hlutabréf í ríkisfyrirtækjum. Jafnframt væri staðan sú að hlutabréfamarkaðurinn væri horaður og illa fram genginn nú á vordögum. Hann þyrfti „innspýtingu“ af bréfum á lágu verði sem gæti hækkað verulega á eftirmarkaði. Þar gæti Landssíminn gegnt lykilhlutverki, að vera eins konar fóður fyrir hlutabréfamarkaðinn. Hlutverk ríkisins væri þá að halda eins konar „tombólu“ á hlutabréfunum til að örva markaðinn.
    Fram kom að sala Landssímans gæti torveldað sölu hlutabréfa í bönkunum ef tekin væri sú ákvörðun að selja þau samtímis.
    Af efnahags- og viðskiptalegum ástæðum orkar það mjög tvímælis að selja Landssímann eins og staðan er.
    Eðlilegt hefði verið að efnahags- og viðskiptanefnd hefði fjallað um þennan hluta frumvarpsins en því var hafnað af meiri hluta samgöngunefndar.

Eftirlit og viðurlög.
    Samkvæmt lögum eiga Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun að fylgjast með því að ákvæði samkeppnislaga séu virt og þjónustukröfum fullnægt. Fram kom hjá meginþorra þeirra sem komu til fundar við nefndina að þarna er víða pottur brotinn, þetta eftirlitskerfi sem við nú búum við væri í stórum dráttum óvirkt nú og þeir töldu að gera yrði grundvallarbreytingar á framkvæmd þessa eftirlits. Hér þyrfti aukna lagastoð, aukið fjármagn og tæknimannafla til að ráða við aukinn þunga í verkefnum á þessu sviði. Voru sagðar daprar reynslusögur frá samskiptum við Landssímann hf. og eftirlitsstofnanirnar. Eins og staðan er nú ræður eftirlitskerfið alls ekki við verkefnin á þessu sviði. Það tjóar lítið að beita leyfissviptingum til að refsa fyrirtæki sem fer ekki að tilmælum en er alls ráðandi á markaðnum þegar um almannaþjónustu er að ræða. Nauðsyn ber til að styrkja lagagrunn til að geta beitt viðurlögum, dagsektum eða öðrum raunverulegum aðgerðum sem hrífa. Eftir að fyrirtækið hefur verið selt mun verða enn erfiðara að fylgja því eftir að fyrirtækið fari að reglum eða setja því auknar kröfur.
    Undirritaður hefur kynnst framgöngu Íslandspósts hf. við lokun pósthúsa og samdrátt í póstþjónustu víða um land og tekið það upp hér á þinginu. Er þó fyrirtækið alfarið í eigu ríkisins og á ábyrgð samgönguráðherra sem og Póst- og fjarskiptastofnun sem fer með eftirlitið. Skagfirðingar mótmæltu með undirskriftum hundraða íbúa lokun pósthúsa og skertri póstþjónustu á Hofsósi og í Varmahlíð. Mótmælin fóru til samgönguráðherra og Íslandspósts hf., en var í engu svarað. Forsvarsmenn héraðsins gengu á fund samgönguráðherra og þingmanna kjördæmisins og mótmæltu uppsögnum starfsfólks, lokun pósthúsa og skertri póstþjónustu. Óskuðu þeir jafnframt eftir skoðun á því hvort skerðing á þessari þjónustu og tilhögun hennar stæðist lög. Því hefur ekki verið svarað. Á Alþingi hefur þetta mál ítrekað verið tekið upp og beðið um skoðun á því hvort lokun pósthúsanna og skerðing þjónustunnar stæðust lög og starfsleyfi fyrirtækisins. Ekkert hefur fengist að gert.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur óskað eftir afriti af samningum sem Íslandspóstur hf. hefur gert við sjálfstæða rekstraraðila um starfrækslu póstþjónustu á landsbyggðinni. Því var hafnað. Sveitarstjórn Skagafjarðar sendi Póst- og fjarskiptastofnun bréf 14. mars 2001 með ósk um úrskurð um hvort breyting á „póstafgreiðslu í Varmahlíð og á Hofsósi samrýmist lögum og reglum sem varða póstþjónustu í landinu“. Því bréfi var loks svarað 2. maí sl. Þar er greint frá væntanlegri úttekt sem gæti lokið í september.
    Af kynnum undirritaðs af þessu máli getur hann vel skilið óánægju og vantrú landsbyggðarmanna sem komu á fund nefndarinnar á getu og vilja stjórnsýslunnar til að axla ábyrgð og bregðast við aðfinnslum eða kærum af festu og trúnaði.

Lokaorð.
    Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. mars sl. er grein eftir Sólveigu Einarsdóttur sem býr í Ástralíu, en það land hefur oft verið nefnt sem fyrirmynd í nýfrjálshyggju og einkavæðingu almannaþjónustu:

„Kraumar í pólitískum pottum Ástralíu?“
    „Sýður undir: Hér á landsbyggðinni hefur undanfarið verið heitt í kolunum. Sé minnst á stjórnmál við nokkurn mann þá sýður upp úr fyrr en varir. Hvað veldur því að fólki er svo heitt í hamsi?“ Síðan telur Sólveig upp nokkur atriði sem sérstaklega valda þessari óánægju, svo sem hækkun skatta á matvælum og hækkun skatta á bensíni sem kemur sér afar illa fyrir íbúa dreifbýlisins í þessu landi mikilla vegalengda.
    Um sölu símans segir hún: „Alríkisstjórnin seldi mikinn hluta landssímans (Telstra) fyrir billjónir dollara og hafði um tíma úr nógu að moða. Hins vegar brá svo við að öll þjónusta á landsbyggðinni fór hríðversnandi. Þá hafa verslanir og fyrirtæki í litlum plássum hætt starfsemi sinni og margir læknar tekið til fótanna. Bilið milli borgarbúa og dreifbýlis verður stærra og stærra.“
    Hljómar þetta ekki kunnuglega? Er þetta sú framtíð sem við viljum sjá? Þannig fer ef ekki er spyrnt við fótum. Stöndum vörð um grunnstoðir samfélagsins, almannaþjónustuna. Beitum afli Landssímans til að styrkja dreifikerfi fjarskipta og gagnaflutnings um allt land. Fórnum honum ekki á altari einkavæðingar ríkisstjórnarinnar.
    Með vísun til framangreindrar umfjöllunar leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:

    
    Frumvarp um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. var lagt mjög seint fram eða rúmum mánuði eftir að almennur frestur til framlagningar nýrra þingmála var liðinn. Um er að ræða umfangsmikið og flókið mál sem krefst ítarlegrar umræðu og yfirvegunar í æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi. Samgöngunefnd hefur ekki á þeim stutta tíma sem henni var gefinn til verksins tekist að fara með fullnægjandi hætti yfir málið. Mikil hætta verður að teljast á því að hagsmunum landsbyggðarinnar verði fórnað verði af umræddri sölu Landssímans. Hvorki samkeppnislegar né tæknilegar forsendur eru til staðar til að umrædd sala geti átt sér stað. Rétt er að reka Landssímann hf. áfram sem opinbert þjónustufyrirtæki og beita styrk fyrirtækisins til áframhaldandi uppbyggingar fjarskiptakerfisins og til að tryggja öllum landsmönnum góða þjónustu án tillits til búsetu. Samkvæmt framansögðu samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 14. maí 2001.



Jón Bjarnason.




    Eftirfarandi fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
         I.     Umsögn þróunarsviðs Byggðastofnunar.
         II.     Umsögn Samkeppnisstofnunar.
         III.     Ályktun 60. fundar fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga um rafræn samskipti.
         IV.     Umsögn Bændasamtaka Íslands.
         V.     Umsögn Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
         VI.     Umsögn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
         VII.     Bréfaskipti sveitarfélagsins Skagafjarðar og Póst- og fjarskiptastofnunar, svo og bréf til sveitarstjórnar Skagafjarðar frá Byggðasafni Skagfirðinga.
         VIII.     Bréf Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til forstjóra Íslandspósts.