Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1326  —  327. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um hafnaáætlun 2001–2004.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Guðjónsson, Kristján Helgason og Gísla Viggósson frá Siglingastofnun Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá hafnarstjórn Raufarhafnarhrepps, Sandgerðisbæ, Landhelgisgæslu Íslands, Vestmannaeyjahöfn, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Vélstjórafélagi Íslands, hafnarstjórn Skagafjarðar, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Olíufélaginu hf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sandgerðishöfn, bæjarskrifstofu Hornafjarðar, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Olíudreifingu ehf., Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar, Vegagerðinni, Hafnarfjarðarhöfn, Siglingastofnun Ísland, Veðurstofu Íslands, Almannavörnum ríkisins og Hafnasambandi sveitarfélaga.
    Samkvæmt 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, með síðari breytingum, skal Siglingastofnun Íslands gera sérstaka fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir á tveggja ára fresti. Við áætlunargerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og á landinu í heild og ber Siglingastofnun við áætlunargerðina að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn, Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð. Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunartillögu.
    Samkvæmt þingsályktunartillögunni er kostnaður við ríkisstyrkta hafnargerð áætlaður 6.652 millj. kr. á árunum 2001–2004. Hlutur sveitarfélaganna í þessum framkvæmdum er 2.169 millj. kr. en hlutur ríkissjóðs 4.483 millj. kr., en um 800 millj. kr. af þeirri upphæð er í raun aflað með hinu sérstaka vörugjaldi sem er álag á vörugjöld í höfnum.
    Samkvæmt tillögunni koma til framkvæmda á árinu 2001 þau verk sem voru á hafnaáætlun árið 2000 en var frestað um eitt ár vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu. Af þeirri ástæðu eru framkvæmdir mestar árið 2001.
    Við gerð þessarar hafnaáætlunar hefur verið fylgt sömu meginreglu við ákvörðun á greiðsluþátttöku ríkissjóðs og í fyrri áætlun. Ríkissjóður greiðir þannig 75% í hafnargörðum, dýpkunum og siglingarmerkjum. Ríkið greiðir enn fremur 60% í bryggjum og öðrum innri mannvirkjum hafna sem styrkhæf eru samkvæmt hafnalögum.
    Nefndin vekur athygli á að nú er í gangi vinna við gerð samræmdrar samgönguáætlunar sem nær til hafna, flugvalla og vega og er fyrirhugað að leggja hana fyrir þingið haustið 2002. Jafnframt fer nú fram vinna við endurskoðun hafnalaga og mun hvort tveggja hafa áhrif á hafnaáætlanir í framtíðinni.


Prentað upp.

    Nefndin vill geta þess að nú er unnið að gerð samnings við hafnarsjóð Seyðisfjarðar og Smyril Line um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við nýja ferjuaðstöðu og önnur atriði vegna nýrrar ferjuhafnar.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar gera ráð fyrir nokkurri hækkun á framlagi ríkisins til hafnarframkvæmda. Stafar sú hækkun að mestu af því að tekin er inn í áætlunina fyrirhuguð stóriðjuhöfn á Reyðarfirði en einnig bætist við nýtt verkefni í Vestmannaeyjum. Að öðru leyti lúta breytingarnar fyrst og fremst að tilfærslum verkefna innan sveitarfélaga. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að undir liðinn Ísafjarðarbær verði bætt nýju verkefni á Flateyri, uppsátri fyrir smábáta, dregið verði úr framkvæmdum á Ísafirði á móti og þær færðar til. Fjárveitingar standa óbreyttar.
     2.      Lagt er til að verkefni sem áætluð eru í Súðavík verði færð til þannig að heimilt verði að byrja á skjólgarði á undan viðlegubryggju, en gert er ráð fyrir að viðlegubryggjan verði byggð á undan samkvæmt tillögunni. Fjárveitingar eru óbreyttar.
     3.      Lagt er til að við liðinn Hafnasamlag Norðurlands verði bætt undirbúningsframkvæmdum fyrir stálþil við Strýtu. Kostnaður er áætlaður 8,1 millj. kr. á árinu 2003. Á móti lækkar fjárveiting til verkefnisins „Tangabryggja lengd, Sverrisbryggja rifin“. Fjárveitingar standa óbreyttar.
     4.      Lagt er til að þau fjögur verkefni sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á Vopnafirði samkvæmt tillögunni verði felld út en í stað þess verði farið í dýpkun siglingaleiðar innan hólma. Fjárveitingar standa óbreyttar og skipting milli ára er sú sama.
     5.      Lagt er til að undir liðnum Fjarðabyggð bætist við nýtt verkefni sem beri fyrirsögnina „Hraun Reyðarfirði – Höfn fyrir stóriðju“. Þessi breyting mun leiða til hækkunar á ríkishluta til nýframkvæmda í fyrsta kafla áætlunarinnar, undir liðnum Fjarðabyggð, árið 2002 um 60,5 millj. kr., 337,6 millj. kr. árið 2003 og 68,4 millj. kr. árið 2004 eða alls 466,5 millj. kr.
     6.      Lagt er til nýtt verkefni undir liðnum Vestmannaeyjar sem beri fyrirsögnina „Þurrkví“. Um er að ræða þurrkví við hlið skipalyftunnar á Eiðinu. Heildarkostnaður er áætlaður 360 millj. kr. og er hlutur ríkisins 60% eða 216 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessi upphæð verði greidd með fjórum jöfnum afborgunum á árunum 2002–2005. Til greiðslu úr ríkissjóði á áætlunartímabilinu koma því um 162 millj. kr.
     7.      Leiðrétt er innsláttarvilla í liðnum Þorlákshöfn. Styrkhæfni verkefnisins „Dýpkun í innsiglingu og höfn, viðhaldsdýpkun“ á að vera 75% í stað 60% eins og greinir í tillögunni og er það lagfært. Breytingin leiðir af sér hækkun á ríkishluta um 1,6 millj. kr.
     8.      Lagt er til að undir liðnum Sandgerði komi nýtt verkefni, „Suðurgarður, styrking“. Á móti eru aðrar framkvæmdir færðar aftar og lækkaðar sem þessu nemur. Fjárveitingar standa óbreyttar.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Kristján L. Möller.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.