Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1337  —  523. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Eyvind G. Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Gunnar Viðar frá Landsbanka Íslands, Jakob R. Möller frá Lögmannafélagi Íslands, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða og Guðmund Hauksson frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Umsagnir bárust um málið frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig bárust gögn frá viðskiptaráðuneyti.
    Frumvarpið er flutt í því skyni að heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda verði felld úr vaxtalögum og færð yfir í lög um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram gagnrýni á að með lögfestingu frumvarpsins í óbreyttri mynd væri verið að setja sértækar áhættureglur fyrir verðtryggingu, en ekki aðra áhættu sem að lánastofnunum steðjar. Jafnframt kom fram hjá Fjármálaeftirlitinu að miðað við núverandi ástand væri ekki grundvöllur fyrir setningu þessara reglna. Í ljósi þess gerir meiri hlutinn tillögu um að frumvarpinu verði breytt á þann veg að ekki verði sérstök lagaheimild til setningar reglna um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka og sparisjóða heldur verði kveðið á um að eftirlitskerfi viðskiptabanka og sparisjóða með áhættu taki á verðtryggingarjöfnuði. Með slíkri breytingu tekur frumvarpið almennt til verðtryggingaráhættu í starfsemi lánastofnana í stað þess að gera það með sértækum reglum eins og raunin var með upphaflega gerð þess. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að vegna mikillar notkunar verðtryggingar hér á landi er verðtryggingaráhætta meiri hjá íslenskum lánastofnunum en lánastofnunum í nálægum löndum og því rétt að gefa henni sérstakan gaum.
    Meiri hlutinn beinir því jafnframt til viðskiptaráðuneytis að í tengslum við vinnu við gerð nýrra bankalaga verði skoðað hvort rétt sé að setja í lög um viðskiptabanka og sparisjóði ákvæði um sérstaka eiginfjárbindingu ef munur verðtryggðra eigna og skulda fer yfir tiltekin mörk. Þannig verði gerð krafa um aukið eigið fé ef verðtryggingarójöfnuður fer yfir tiltekin mörk, enda er áhætta lánastofnunar þá meiri. Þessi aðferð gildir nú t.d. um gjaldeyrisjöfnuð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
              Á eftir orðunum „þar með talið vaxtaáhættu“ í 8. mgr. 62. gr. laganna kemur: og verðtryggingaráhættu.

Alþingi, 14. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Einar K. Guðfinnsson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Hjálmar Árnason.


Gunnar Birgisson.