Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1339  —  484. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Baldursson frá menntamálaráðuneyti, Runólf Ágústsson frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Guðbrand Steinþórsson frá Tækniskóla Íslands, Guðmund Magnússon og Brynjólf Sigurðsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Agnar Hansson og Þórð Gunnarsson frá Háskólanum í Reykjavík og Kristján Jóhannsson frá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá menntamálaráðuneyti, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Nemendafélagi Tækniskóla Íslands, Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga og Félagi rekstrar- og iðnrekstrarfræðinga.
    Markmið frumvarpsins er að afnema þann einkarétt sem nemendur úr Háskóla Íslands hafa haft til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga eða nota heiti sem felur í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur. Kemur fram í frumvarpinu að til að mega nota framangreind heiti þurfi leyfi viðskiptaráðherra. Lagt er til að þeir sem lokið hafa BS- eða cand. oecon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensk háskóla, sbr. lög nr. 136/1997, um háskóla, og uppfylla skilyrði reglugerðar skv. 3. gr. laganna um innihalds náms þurfi ekki slíkt leyfi ráðherra.
    Á síðustu árum hefur framboð viðskiptamenntunar á háskólastigi aukist verulega jafnframt því sem háskólum hefur fjölgað. Samkvæmt lögum nr. 27/1981 hafa einungis þeir nemendur sem lokið hafa prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands leyfi til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga án sérstaks leyfis ráðherra. Telur nefndin eðlilegt að nemendur úr skólum sem bjóða upp á sambærilegt nám í viðskiptafræðum og Háskóli Íslands njóti sama réttar og nemendur úr Háskóla Íslands til að kalla sig viðskiptafræðinga. Þeir skólar sem um ræðir eru Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Tækniskóli Íslands auk þess sem ekki er loku fyrir það skotið að fleiri skólar muni í framtíðinni bjóða upp á sambærilegt nám.
    Nefndin telur eðlilegt að auk BS- eða cand. oecon.-gráðu þurfi ekki leyfi ráðherra ef viðkomandi hefur meistaragráðu í viðskipta- eða hagfræðigreinum.
    Nefndin telur enn fremur eðlilegt að það ráðuneyti sem fer með málefni viðkomandi starfsgreinar fjalli um réttindamál af þessu tagi fremur en menntamálaráðuneyti samkvæmt gildandi lögum, í þessu tilviki viðskiptaráðuneytið.
    Nefndin leggur hins vegar til að felld verði brott 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að viðskiptaráðherra skuli ákveða lágmarkskröfur um námslengd og samsetningu prófgráðu. Viðskiptaráðherra sé þar með veitt nánast takmarkalaust vald til þess að stjórna tilteknu fræðasviði háskóla með reglugerðum. Gangi slík tilhögun gegn öllum þeim markmiðum sem sett voru með samþykkt laga nr. 136/1997, um háskóla. Samkvæmt þeim lögum leiki ekki vafi á sjálfstæði háskóla og að yfirstjórn hvers háskóla skuli ákveða fyrirkomulag kennslu, náms og námsmats og skipulag rannsókna. Þannig hafi hver háskóli faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði og beri ábyrgð á starfsemi sinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


    
     1.      Við 1. gr. 2. málsl. orðist svo: Þeir sem lokið hafa BS- eða cand. oecon.-prófi úr viðskiptadeild eða BS-prófi úr hagfræðideild viðurkennds íslensks háskóla eða meistaranámi úr framangreindum deildum, sbr. lög nr. 136/1997, um háskóla, þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra.
     2.      3. gr. falli brott.

Alþingi, 9. maí 2001.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Tómas Ingi Olrich.



Ólafur Örn Haraldsson.


Einar Már Sigurðarson.


Einar Oddur Kristjánsson.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Hjálmar Árnason.