Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1342  —  319. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um sjóvarnaáætlun 2001–2004.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Guðjónsson, Kristján Helgason og Gísla Viggósson frá Siglingastofnun Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Seltjarnarneskaupstað, Veðurstofu Íslands, Almannavörunum ríkisins, Reykjanesbæ, Akraneskaupstað, Grindavíkurkaupstað, Vegagerðinni, Ísafjarðarbæ, Hafnasambandi sveitarfélaga, Vatnsleysustrandarhreppi, Snæfellsbæ, Sveitarfélaginu Árborg, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sandgerðisbæ, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Dalvíkurbyggð, Náttúruvernd ríkisins og Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Samkvæmt 4. gr. laga um sjóvarnir, sem gengu í gildi 1. janúar 1998, skal samgönguráðherra leggja fyrir Alþingi sjóvarnaáætlun til fjögurra ára. Sú sjóvarnaáætlun sem hér er umfjöllunar er sú fyrsta sinnar tegundar sem lögð er fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu.
    Áætlunin er í meginatriðum byggð á mati á sjóvörnum hjá þeim sveitarfélögum sem sendu inn erindi en einnig er stuðst við yfirlitsskýrslu um sjóvarnir sem var fyrst birt 1995, en var endurskoðuð 1998 og aftur nú í ár.
    Við gerð áætlunarinnar hefur verkefnum verið raðað í forgangsröð og tiltekna forgangsflokka og er til nánari upplýsinga um framangreinda flokkun og forgangsröðun, svo og vinnureglur við úthlutun til verkefna, vísað í athugasemdir með tillögunni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að við liðinn Austurland, Fjarðarbyggð bætist nýtt verkefni sem beri yfirskriftina „Eskifjörður, við Mjóeyri“. Til er ónotuð 1,5 millj. kr. ónotuð fjárveiting í þessa framkvæmd.
     2.      Lagt er til að við liðinn Suðurland, Vestmannaeyjabær bætist nýtt verkefni „Vestmannaeyjabær – Sjóvörn við Eiðið“. Gert er ráð fyrir að óskipt fjárveiting lækki á móti.
     3.      Lagt er til að þær framkvæmdir sem áætlaðar voru á árunum 2003 og 2004 í Grindavíkurkaupstað verði fluttar fram til ársins 2002 þar sem ljóst er að hagkvæmt er að vinna þessi verk samhliða byggingu brimvarnargarðanna samkvæmt hafnaáætlun. Fjárveitingar eru óbreyttar.
     4.      Lagt er til að við liðinn Reykjanes, Gerðahreppur bætist við nýr undirliður „Hólmsvöllur í Leiru, lokauppgjör vegna fyrri ára“. Um er að ræða 2,8 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt fjárlögum 2001.
     5.      Lagt er til að við liðinn Reykjanes, Hafnafjörður bætist nýtt verkefni „Hvaleyri, undirbúningur/mat á umhverfisáhrifum“, árið 2001. Til er ónotuð 0,5 millj. kr. fjárveiting í þetta verkefni.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.