Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:49:44 (3412)

2002-01-22 13:49:44# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er veðrið í dag sem lýsir því að við getum verið bjartsýn áfram. Það er heiður himinn og bjart fram undan.

Ég vil segja um það að tvennt er að sem verið er að taka á. Við höfum búið við tímabundna verðbólgu, og íslensk fyrirtæki og fólk býr við of hátt vaxtastig. Og ég trúi því miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar og þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í að hér muni velmegun halda áfram. Þessir stjórnarflokkar hafa á einu og hálfu kjörtímabili náð því að atvinnulausir sem voru í upphafi 3.700 einstaklingar á aldrinum 15--50 ára, eru í dag 1.500. 2.000--3.000 Íslendingar sem voru sestir að erlendis eru fluttir heim og sestir hér að og 15.000 störf hafa orðið til. Við sjáum að afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna er góð. Gengi krónunnar hefur á ný verið að styrkjast. Fyrirtækin í landinu eru nú að koma til liðs við stefnu ríkisstjórnarinnar um að berjast gegn verðhækkunum. Verkalýðshreyfingin og atvinnulífið eru að taka á með stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að ég trúi því að vextir og verðlag muni lækka. Við þurfum að ná þjóðarsátt um hvernig við lækkum vaxtastigið. Við eigum að gera það með sama hætti og verðbólgan var lögð að velli fyrir tíu árum. Við þurfum ekki að tala um neina evru í því sambandi. Þetta er íslenskt efnahagsmál og við eigum að gera það þannig. Í næstu viku mun sá sem hér stendur fara fyrir ríkisstjórn með nýjar tillögur svokallaðrar grænmetisnefndar um hvernig verð á grænmeti verður lækkað um leið og atvinnugreininni verður ekki fórnað. Það eru tillögur sem munu hafa áhrif á vísitölu og lækkun verðlags um leið og holl matvara verður á lægra verði til neytenda. Ríkisstjórnin og þessir flokkar eru því að vinna að mörgum stórum málum. Þess vegna skulum við vera bjartsýn. Norðurljós munu braga um breiðan himin í kvöld og gleðja þá svartsýnu í myrkri þeirra.