Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:54:34 (3414)

2002-01-22 13:54:34# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ríkisstjórnin var rækilega vöruð við því fyrir jólin að hækka hér ýmiss konar gjaldtökur eins og á sjúklinga og námsmenn og að verðhækkanir vegna gengisáhrifa væru ekki enn að fullu komnar fram. Hæstv. forsrh. sagði þá að þessar hækkanir mundu ekki stefna samkomulagi aðila vinnumarkaðarins í tvísýnu. Annað hefur komið á daginn því verulegan hluta af hækkun vísitölunnar nú má rekja beint til hækkana sem ríkið hefur beitt sér fyrir. Að vonum skammaði ASÍ ríkisstjórnina vegna þessa enda hefur ríkisstjórnin lofað að taka til í eigin ranni eftir þann rassskell. Það er þó full ástæða til að vara verkalýðshreyfinguna við því að opinberir aðilar og aðrir reyna að spila á vísitöluna og frysta hækkanir þar til hættan á uppsögn kjarasamninga er liðin hjá í maímánuði næstkomandi. Okurvextirnir, 26% gengisfelling og 30% verðhækkanir á matvælum á stuttum tíma ásamt því að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 18,2% á rúmum tveimur árum á meðan almennar launahækkanir hafa einungis verið um 10% á þeim tíma, er staðfesting á skipbroti efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur klúðrað góðærinu. Í skjóli einokunar og mikilla gengisfellinga hafa svo risarnir á matvörumarkaðnum hækkað vöruverð langt umfram það sem tilefni var til og það verður að stöðva. Það gengur ekki lengur að milliliðirnir og smásöluverslunin séu miskunnarlaust að blóðmjólka neytendur en nýleg könnun ASÍ sýnir að Íslendingar greiða mörgum tugum prósenta og stundum hundruðum prósenta hærra verð fyrir nauðþurftir en grannþjóðir okkar. Ríkisstjórnin á þegar í stað að draga til baka sjúklinga- og námsmannaskattana og setja aukið fjármagn í að láta hraða rannsókn Samkeppnisstofnunar sem nú er í gangi á fákeppni og einokun á matvörumarkaðnum sem næsta víst er að brýtur gegn samkeppnislögum.