Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:56:38 (3415)

2002-01-22 13:56:38# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er alveg sama hvernig hv. þm. stjórnarandstöðunnar tala um þessi mál, það teiknar allt til þess að hér sé fram undan á næstu mánuðum og missirum tímabil aukins stöðugleika í efnahagsmálum, minni verðbólgu og aukinnar framleiðslu og að tímabil niðursveiflunnar sem við höfum verið að ganga í gegnum verði mjög skammvinnt. Fyrir þessu eru auðvitað ýmsar ástæður og sumar komu fram í máli hæstv. forsrh. Eitt er það að búið er að auka aflaheimildir, annað að búið er að breyta skattalögum þannig að búast má við því að fjöldi nýrra fyrirtækja sjái hér dagsins ljós eða flytji starfsemi sína til landsins. Úrskurður umhvrh. í Kárahnjúkamálinu hefur að sjálfsögðu mikið að segja í þessu efni. En einnig, og síðast en ekki síst, samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar frá því fyrir jólin um verðbólgumarkmið og stefnuna í þeim efnum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur jafnan farið mikinn í tali sínu um viðskiptajöfnuðinn. Hann lét þess þó ekki getið í ræðu sinni áðan hversu miklu minni viðskiptahallinn á árinu 2001 varð heldur en þegar hann hafði sem hæst um það efni um mitt síðasta ár eða í upphafi þingvetrarins. Hann nefndi það ekki heldur að allar spár ganga nú út á það að viðskiptahallinn á þessu ári verði u.þ.b. 25 milljarðar eins og forsrh. sagði en ekki 60 eins og spáð var um mitt ár 2001, og að vöru- og þjónustujöfnuður verði jákvæður á þessu ári.

Hér hefur orðið mikil grundvallarbreyting að því er þetta varðar. Efnahagslífið er að rétta sig af, hagkerfið er að taka nýjan kúrs í hátt við það sem ég sagði áðan og það er ábyrgðarlaust að teikna mikinn fjanda hér upp á vegg þegar ljóst er að horfur eru mun betri en þessir hv. þm. gefa til kynna.