Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:03:43 (3418)

2002-01-22 14:03:43# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Blikur eru á lofti í efnahagsmálum. Verðbólgan síðustu 12 mánuði er nú orðin rúm 9%. Hún er um 2% í samkeppnislöndum okkar. Það er hætta á að háir vextir og há verðbólga leiði til kostnaðarhækkunar sem öll fyrirtæki neyðast til þess að velta út í verðlagið. Þannig getur gamall verðbólguvítahringur orðið til að nýju.

Verkalýðshreyfingin sýndi mikla ábyrgð þegar hún hvatti ríkisstjórnina til samráðs um aðgerðir gegn verðbólgunni. Ríkisstjórnin sýndi þá í fyrsta skipti í langan tíma fyrstu teikn um að hún væri að tengjast raunveruleikanum í efnahagsmálum. Svo var hins vegar ekki þegar hér fyrir jólin voru samþykktar ýmsar hækkanir á opinberum gjöldum þrátt fyrir að varað væri við afleiðingum þeirra. Nú hefur hæstv. forsrh. hins vegar brugðist skynsamlegar við og hefur látið allar hækkanir í endurskoðun. Það er forsenda þess að ekki komi til uppsagnar kjarasamninga í maí, en slík uppsögn gæti varla þýtt annað en mikinn óróa á vinnumarkaði og mögulega verkföll.

Herra forseti. Það sem við þurfum nú er víðtæk samstaða um að ná aftur stöðugleikanum. Sú samstaða þarf að ná til ríkis, sveitarfélaga og markaðarins alls. Ríkisstjórnin þarf að kalla aftur hækkanir sínar og í framhaldinu beita miklu ábyrgari efnahagsstjórn svo við föllum ekki í sama farið þegar kemur fram á sumarið. Sveitarfélögin verða sömuleiðis að hafa hemil á hækkunum sínum, en þar á ríkisstjórnin einnig að koma að málum því að á undanförnum árum hefur mjög hallað á sveitarfélögin í fjárhagslegu tilliti í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Við í Samfylkingunni höfum bent á að stóru matvælakeðjurnar hafa náð einokun á markaðnum sem hefur kallað yfir neytendur fáheyrða dýrtíð í matvælum. Því ber að fagna að hæstv. forsrh. virðist sammála okkur því í Morgunblaðinu í dag segir hann, með leyfi forseta:

,,Það er t.d. alveg ljóst að matvöruverslunin hefur verið að krækja sér í aukabónus. Það fer ekkert á milli mála.``

Því er eðlilegt að spyrja: Er hæstv. forsrh. sammála okkur í Samfylkingunni um að efla þurfi Samkeppnisstofnun og fá henni þau vopn í hendur sem duga til að kljúfa í sundur stórfyrirtæki sem komin eru í fákeppnisaðstöðu á markaði þannig að tryggja megi hagsmuni neytenda?