Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:06:02 (3419)

2002-01-22 14:06:02# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Við erum að komast í gegnum þá niðursveiflu sem nú hefur verið um nokkurt skeið með því að enn þá er full atvinna og kaupmáttur launa er með því sem hann hefur best verið. Við horfum fram á að uppsveifla í efnahagslífinu geti hafist aftur síðar á þessu ári. Við sjáum að skattbreytingarnar sem gerðar voru fyrir jólin hafa fallið í mjög góðan jarðveg í atvinnulífinu. Við sjáum að gengisbreytingarnar sem hafa orðið hafa skapað uppgang í útflutningsgreinum. Skuldir hafa verið greiddar niður og komin er geta hjá fyrirtækjunum til að fjárfesta á nýjan leik og byggja upp, líka á landsbyggðinni. Við sjáum að álversframkvæmdir eru á góðum skriði. Við sjáum að aftur ríkir bjartsýni í ferðaþjónustunni og útflutningsgreinum almennt.

En hvað skyldi þá vera að og hver skyldu vera helstu ráðin sem við heyrum hjá stjórnarandstæðingum? Jú, það er fyrst að Samkeppnisstofnun eigi núna að fara að leggja í nýja herferð gegn hagræðingu og lækkun kostnaðar í atvinnulífinu. Við heyrum líka að leggja eigi til atlögu við álversframkvæmdir og virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og helst Norðurál líka. Hvað á þetta að þýða?