Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 15:39:23 (3428)

2002-01-22 15:39:23# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef mjög litlu við það að bæta sem hv. þingkonur Samfylkingarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, hafa þegar sagt við 1. umr. um frv. til laga um barnavernd enda hafa þær gert ítarlegar efnislegar athugasemdir og að sjálfsögðu mun þetta mál verða tekið til meðferðar í hv. félmn. Ég vil hins vegar nota tækifærið til að beina því til hv. þingmanna í félmn. að taka til sérstakrar skoðunar þær greinar í frv. sem lúta að því sem síðasti hv. ræðumaður kom inn á, að hægt sé að beita einhvers konar inngripi, þ.e. hlutast til um líferni kvenna sem eiga von á barni.

Vissulega viljum við ganga eins langt og hægt er til að vernda líf og heilsu barna, þ.e. þeirra barna sem fædd eru. En þótt konur séu með barni eru þær sjálfstæðir sjálfráða einstaklingar. Auðvitað er hægt að beita fortölum, nota viðtöl og alls konar stuðning og hjálp þegar konur þurfa á því að halda, æskja þess eða þær koma í mæðraskoðun og augljóst er að eitthvað er að en hér finnst mér löggjafinn feta sig út á mjög hála braut. Eins og segir í 1. mgr. 30. gr., með leyfi herra forseta:

,,Ef könnun barnaverndarnefndar leiðir í ljós að þunguð kona kunni að stofna heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu, sbr. 3. mgr. 21. gr., skal nefndin beita úrræðum þessara laga í samráði við hina þunguðu konu, og eftir atvikum gegn vilja hennar í samráði við forsjáraðila hennar ef hún hefur ekki náð lögræðisaldri, eftir því sem við getur átt og ætla má að að gagni geti komið.``

Hér er sem sagt opnað á það að hægt sé að svipta konu sjálfræði. Ég get ekki skilið þessa grein öðruvísi, herra forseti. Ég vil í þessu samhengi benda á umsögn frá Ljósmæðrafélagi Íslands. Ég les upp umsögn þess, með leyfi forseta:

,,Orðalag þessarar greinar er einnig of opið þar sem mjög teygjanlegt er hvað kunni að stofna heilsu eða lífi ófædds barns í hættu og er breytilegt frá einum tíma til annars eftir því sem viðurkennt er á hverjum tíma. Þess vegna þyrfti að breyta orðalagi greinarinnar,`` segja þær hér.

Ég vil ganga lengra og æskja þess að hv. félmn. kanni hvort það sé yfir höfuð einhver nauðsyn á því að hafa þessa grein í lögunum. Ég er ekki viss um að það kunni góðri lukku að stýra að veita barnaverndaryfirvöldum slík yfirráð yfir lífi og líkama kvenna.

Ég ætla líka að nota tækifærið, herra forseti, og benda á það sem hér kemur fram í umsögn Ljósmæðrafélagsins, þ.e. að í raun stangist þessi grein frv. sem hér er til umfjöllunar á við lög um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir frá 1975. Samkvæmt þeim er heimilt, allt að 16 vikna meðgöngu, að framkvæma fóstureyðingu liggi læknisfræðilegar ástæður að baki. En í þessu frv. er talað um líf eða heilsu ófædds barns og ekki tekinn til neinn tími á meðgöngunni, en hún er eins og við öll vitum 40 vikur.

Ég vildi bara nota tækifærið, hæstv. forseti, og koma þessu á framfæri við hv. þingmenn í félmn. Ég vil ítreka að ég geri að öðru leyti engar athugasemdir við það sem fram hefur komið í málflutningi hv. þingmanna Samfylkingarinnar.