Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 15:45:43 (3430)

2002-01-22 15:45:43# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir jákvæðar umræður sem hér hafa farið fram. Það var athyglisverð hugmynd sem hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir varpaði fram þegar hún nefndi þann tvíverknað sem við óneitanlega gerum okkur sek um þegar mál er tekið til umræðu þing eftir þing, að endurflytja sömu ræðurnar. Það hefur akkúrat verið gert hér í dag. Ég flutti svipaða framsögu og ég flutti í fyrra og hv. þm. hafa flutt ræður sem að ýmsu leyti eru endurtekning á því sem þau sögðu í fyrra. Þetta er vinnulag okkar hérna í þinginu en vel getur verið að skynsamlegt sé að breyta því.

Það eru örfá atriði sem menn hafa lagt inn í umræðuna sem ég vil gera athugasemdir við. Fyrst með barnaverndaráætlun. Lítil sveitarfélög geta auðvitað unnið saman að barnaverndaráætlun og að gerð barnaverndaráætlana eða kópíerað eftir atvikum. Þetta er fyrst og fremst sett þarna til að minna á, til að vekja athygli sveitarstjórna á málefnum barna og fá sveitarstjórnir til að hugleiða þau.

Ég er ekki hneykslaður á laganefnd Lögmannafélagsins þó að hún sendi ekki ítarlegri umsögn, heldur aðeins þessa stuttorðu umsögn. Í mínum huga er laganefndin að segja að hún sé sammála þessu frv. og henni þyki það vera forsvaranlega unnið. Ekki að hún hafi talið ástæðu til að fara í einstök atriði og árétta þau með einhverjum hætti enda komu aldeilis lögfræðingar að samningu þessa frv. Ég nefni Davíð Þór Björgvinsson prófessor, Benedikt Bogason skrifstofustjóra, Guðrúnu Ernu Hreiðarsdóttur, forstöðumann barnaverndarráðs, Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðing, Þorgerði Benediktsdóttur deildarstjóra, Ingveldi Einarsdóttur héraðsdómara og Höllu Bachmann Ólafsdóttur lögfræðing. Þetta er mikið lið lögmanna sem þarna hefur lagt hönd á plóg, og ég er ekkert hissa á því þó að laganefnd Lögmannafélagsins geti samþykkt verk þeirra.

Varðandi umsagnir sem borist hafa um frv. getur að vísu margt gott verið í þeim en ég hef farið nokkuð ítarlega yfir þær með mínu fólki og fengið skýringar, m.a. hjá þeim sem unnu að gerð frv., á einstökum atriðum sem þar er verið að fjalla um. Breytingarnar eru ekki fleiri en raun ber vitni vegna þess að ég er sammála höfundum frv. Ég er t.d. ekki sammála umsögn sýslumannsins á Sauðárkróki svo ég nefni eina sem hér hefur verið minnst á.

Mér finnst gæta nokkurs misskilnings þegar talað er um kostnað við skólagöngu barns. Kostnaður við skólagöngu, mikill kostnaður sem fylgir, getur komið í veg fyrir að barn komist á gott heimili. Hugsun mín í þessu efni er beinlínis að opna sem flest heimili fyrir fósturbörn. Ég sé ekkert á móti því að upprunasveitarfélagið, eða það sveitarfélag sem lögheimilið er eða var í, beri þennan kostnað. Það bæri hann ef barnið yrði kyrrt í sveitarfélaginu. Það er altítt meðal sveitarfélaga að þau endurgreiði kostnað sem á fellur vegna íbúa, t.d. barns sem nýtur leikskólavistar í öðru sveitarfélagi. Lögheimilissveitarfélagið greiðir í mörgum tilfellum leikskólavistunina, að vísu eftir samningi. Og það er alls ekki eingöngu um það að ræða að börnum úr Reykjavík sé komið fyrir á heimili úti á landi heldur getur líka verið um það að ræða að börnum sé komið fyrir í Reykjavík. Það er líka gott fólk sem vill taka börn í fóstur hér. Ég tel að menn hafi tekið þetta of alvarlega hér í umræðunni og látið í ljósi óþarflega mikla hneykslun. Það er alls ekki verið að fara hér fram með einhvern fornaldarhugsunarhátt eða sveitarstyrk.

Ég vil svo að endingu láta þess getið að ég tel að það sé einboðið að Barnahúsið starfi áfram, menn hafa verið að láta í ljósi áhyggjur af því.