Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:18:11 (3438)

2002-01-22 16:18:11# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú fór það svo að hv. síðasti ræðumaður tók að nokkru leyti af mér ómakið. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í hugleiðingum hans. Ég er ósammála því að hér sé um smámál að ræða, þetta er a.m.k. angi af mjög stóru máli ef menn vilja taka það svo, þar sem spurning er um hlutverk og stöðu sveitarfélaganna og þeirra félagslega rekstur eða hina félagslegu þjónustu sem þau standa fyrir. Mér finnst víglínan vera komin ansi innarlega ef t.d. vatnsveitur í eigu sveitarfélaga sem lúta, eðli málsins samkvæmt, nánast undantekningarlaust þeim aðstæðum að handhafi þeirra hefur svokallaða náttúrlega einokun á sinni starfsemi --- hún er fólgin í því að um er að ræða einu pípuna inn í húsið hjá kúnnanum -- ef víglínan í þessum einkarekstrararðsemissjónarmiðum er komin svo innarlega að það vekur enga umhugsun og engar tilfinningar ef boðið er upp í þann dans að fara jafnvel að einkavæða þessa starfsemi og draga af henni arð með vísan til þeirra fjármuna sem bundnir eru í fjárfestingum.

Hver á vatnsveitu í sveitarfélagi? Fólkið í sveitarfélaginu. Til hvers er vatnsveitan í sveitarfélaginu? Hún er til þess að sjá því fyrir vatni. Og hvert eru menn eiginlega komnir ef ekki má gera greinarmun á því annars vegar og samkeppnisatvinnurekstri hins vegar? Og hvers vegna er það svo sjálfgefið að það sé skynsamlegt, að ég tali ekki um skylt, að færa þetta undir samkeppnislög eða samkeppnisleikreglur í atvinnurekstri? Ég sé bara ekki nokkra einustu ástæðu til þess. Ég veit ekki betur en að þjónusta sveitarfélaga og ríkisins sé í grunninn undanþegin, og samkeppnislög taka ekki til félagslegrar þjónustu sem slíkrar þegar hún er veitt af opinberum aðilum. Og þarf ekki aðeins að velta því fyrir sér hvar menn ætla að draga þessi landamæri?

Herra forseti. Ég vara alltént, svo mikið er víst, mjög við öllu einkavæðingarbrölti á þessu sviði. Og ég geri þá kröfu til manna, hvaða viðhorf sem þeir hafa til félagslegs eða opinbers rekstrar annars vegar og einkarekstrar hins vegar, að þeir horfi á reynsluna þar sem menn hafa farið út í ævintýramennsku og tilraunastarfsemi af því tagi að einkavæða og færa í hendur einkaaðilum veitur sem eru með náttúrlega einokun. Ég held að það sé samdóma álit allra, allt frá æstustu frjálshyggjumönnum í Bretlandi og Nýja-Sjálandi og yfir á hinn kantinn, að um það geti menn þó orðið sammála að það hafi gefist illa, og þar hafi ofstækið leitt menn í hvað mestar ógöngur þegar þeir fóru út í það, t.d. í Bretlandi á áttunda áratugnum, að einkavæða veitur sem eru með hreina og klára náttúrlega eða hlutbundna einokun á þjónustu sinni án þess að sjá fyrir þær hrikalegu afleiðingar sem það gæti haft í för með sér.

Auðvitað fóru menn af stað og skrúfuðu upp verðið, hirtu sér myndarlegan hagnað og fóðruðu það með ýmsum hætti. Síðan sátu menn oftar en ekki uppi með það að þjónustan versnaði, það var trassað að leggja í nauðsynlega endurnýjun og menn styttu sér leið með ýmsum hætti. Til dæmis fór allt sem laut að umhverfi, þegar framkvæmdir áttu í hlut, stórversnandi af því að menn voru alls staðar að reyna að spara og græða.

Það hlýtur líka að þurfa að vara dálítið við þeirri hugmyndafræði, herra forseti, af því að eins og hv. síðasti ræðumaður í raun og veru kom inn á verðum við a.m.k. að átta okkur á því hvar sú hugsun endar að innleiða samkeppnis- og atvinnurekstrarviðhorf inn á ný svið sem áður hafa lotið skilgreiningu sem hrein þjónusta, sem skyldur eða þjónusta við íbúa sveitarfélaga, við almenning og þar af leiðandi ekki verið seld undir sömu lögmál um arðsemi í rekstri og venjulegur atvinnurekstur. Menn verða náttúrlega líka að átta sig á þessu: Á að fara svo langt með hugmyndina að sveitarfélögin geti jafnvel átt yfir höfði sér lögregluna ef þau ákveða t.d. að þau vilji gera vel við íbúa sína á einhverjum sviðum og bjóða þeim ódýra eða ókeypis þjónustu? Það er ein endastöðin í þessari hugmyndafræði að þegar einhver sveitarfélög eru farin að reikna sér arð og ef menn að einhverju leyti geta borið við samkeppni verður hinum bannað að gera það ekki. Sveitarfélög hafa verið kærð fyrir að hafa ókeypis inn á tjaldstæðin hjá sér. Það má ekki veita þá þjónustu lengur í sveitarfélagi að leyfa mönnum að tjalda ókeypis. Það er afleiðing og angi af þessu.

Ég held því að menn ættu líka að þessu leyti að staldra aðeins við. Mér finnst t.d. orka mjög tvímælis að það eigi yfir höfuð að leyfa mönnum að fara með vatnsveitur, hreinar vatnsveitur, úr eignarformi sem lýtur lögmálum sveitarfélagarekstrar, opinbers rekstrar, og þótt það sé þá ekki hreint sveitarfyrirtæki, ekki endilega rekið af sveitarfélaginu eða sem B-hluta stofnun. Það mætti hugsa sér að draga mörkin við það að slíkt væri ekki fært lengra en yfir í sameignarfélög eða byggðasamlög, t.d. þegar fleiri en eitt sveitarfélag eru að leggja í púkk. Þetta eru lögformlegir aðilar og það er nýbúið að setja lög hér um sameignarfélög sem hægt er að skoða í því sambandi. Ég sé ekki að þetta sem hér var nefnt --- það er svona draugagangur á ferðinni í orkugeiranum --- sé t.d. endilega rök fyrir því að fara með vatnsveiturnar yfir í þetta form.

Herra forseti. Í öllu falli tel ég fulla ástæðu til að fara vandlega yfir þetta mál og staldra hér við, og ég lofa engu um stuðning við þetta eins og þetta er hér sett fram. Ég tel fyllilega koma til greina að draga mörkin þarna öðruvísi, og ég vil fá upp á borðið þau tæknilegu eða rekstrarlegu vandkvæði sem eru höfð hér sem viðbára í raun og veru. Ég leitaði rakanna fyrir því að nauðsynlegt væri að gera þetta, og fann ein að lokum: Ef þetta yrði ekki gert gæti það leitt til þess að menn yrðu að skipta upp einhverjum blönduðum fyrirtækjum. Og ég segi bara: Þá það. Ef menn hafa grautað vatnsveitunum sínum inn í eitthvað annað sem þeir eru í vandræðum með geta þeir væntanlega tekið þær út úr því aftur. Og ég tel að löggjafinn hafi ekki bara fullan rétt heldur sé honum skylt að líta til almennra sjónarmiða, stöðu sveitarfélaganna, lögboðins hlutverks þeirra, þeirra skyldna sem sveitarfélögin hafa og alls samhengis málsins áður en menn fara að ana lengra út á þessa braut. Nóg er samt. Þessi þakleki er alls staðar á ferðinni, að láta hlutina leka yfir í einkarekstur og samkeppni og einkavæða allt sem mögulegt er. Við sjáum afleiðingarnar fyrir okkur, um þær er víða deilt. En maður hélt kannski að einhvers staðar væru mörk sem menn gætu orðið sáttir á að verja, og það væri þá ekki síst undirstöðuþjónusta af þessu tagi, skyldur sem ég held að séu þannig að það sé eina skynsemin, eina vitið, að nálgast frá þessum sjónarhóli, og samkeppnin sé hér svo fjarlæg bara út frá heilbrigðri skynsemi. Það getur ekki verið nokkur minnsta glóra í því að fara að grafa upp allar götur í sveitarfélögum ár eftir ár til að leggja vatnsveitu númer tvö, þrjú og fjögur. Að fyrirtækið Vatnungi hf. komi næst á eftir einhverju öðru fyrirtæki sem heitir kannski Kaldavatn ehf. Og svo komi Blávatn ehf. og grafi líka. Ég meina, hvers konar vitleysa er þetta? (Gripið fram í: Það er nú gott, blávatnið.) Já, blávatnið er gott en það þarf kannski ekki að einkavæða það. Ég held að menn ættu að láta hringrás vatnsins í heiminum fá að hafa sinn gang þó að mannskepnan þykist víða eiga upp á dekk.

Ég sé enga skynsemi í því, herra forseti, ég sé engin rök til þess að fara að reyna að fara út í það fen að ætla að fara að innleiða hér samkeppni og slíka viðskiptahætti þegar um er að ræða starfsemi sem bara eðlisbundið er slík að það er eiginlega ómögulegt að sjá annað fyrir sér en að hún muni lúta einhvers konar náttúrlegri einokun, a.m.k. dreifikerfin. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að menn væru með samkeppni --- einhverjar vatnsveitur gætu keppt um að selja inn á dreifikerfi sem yrðu þá að vera þvinguð opin með einhverjum sambærilegum hætti og menn eru að reyna að hnoða samkeppni inn í fjarskipti sem fara um þráð. Og það vantar ekki að það valdi aldeilis erfiðleikunum og allt það brölt sem því hefur fylgt að reyna að þjóna þessari lund, að alls staðar skuli vera bisness, allt skuli lúta gróðalögmálum --- það hefur leitt til mikilla vandræða. Og ég bið menn bara vinsamlegast að taka sér stund og kynna sér litteratúrinn um reynsluna af einkavæðingarbrölti þegar í hlut eiga vatnsveitur, rafveitur og orkufyrirtæki bæði austan hafs og vestan. Eða eru kannski félegar fréttirnar frá Bandaríkjunum núna síðustu missirin þar sem spilling er að ríða hverju orkufyrirtækinu á slig, jafnvel í heilum fylkjum? Mikil vandræði hafa hlotist af þeim aðstæðum sem menn bjuggu sér þarna til þannig að sums staðar hafa fylki og stór sveitarfélög neyðst til að leysa til sín aftur bæði veitur og orkufyrirtæki sem búið var að einkavæða eða spruttu upp eftir að samkeppni hafði verið innleidd eða menn höfðu reynt að innleiða samkeppni á svona sviðum. Meira og minna allt orðið til bölvunar. Og ég held að það sé löng leitun að rökum fyrir því að það sé notendum eða neytendum til góðs.

Svo er þetta líka að lokum allt saman spurning um hvað er hófsamlegt og skynsamlegt þegar kemur að gjaldtökunni. Er vatn góður skattstofn? Er neysluvatn fjölskyldna góður skattstofn? Umfram þá lágmarksgrunnkostnað af því að reka dreifingarkerfið, sjá mönnum fyrir vatninu? En það er raunverulega það sem verið er að fara hér út í með vissum hætti með því að innleiða arðsemiskröfur sem auðvitað enginn borgar nema þeir sem greiða fyrir þjónustuna og þá er það ekki endilega í samræmi við efnahag þeirra eða stöðu til þess að bera byrðarnar. Menn sækja því a.m.k. ekki rök í félagslega hugsun í þessum efnum.

Herra forseti. Ég ætlaði kannski ekki að hafa um þetta fleiri orð enda held ég að ég hafi ekki mikið meira um málið að segja á þessu stigi. En ég áskil mér allan rétt til þess að skoða mjög vandlega hvort eigi að fara að veita þessu máli brautargengi, a.m.k. í þess óbreyttri mynd.