Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:32:03 (3439)

2002-01-22 16:32:03# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki þá stóru hættu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sér í þessu frv. Hver er annars munurinn á vatnsveitu og hitaveitu eða rafmagnsveitu? Það er alls staðar ein lögn inn í hús. Sveitarfélögin eiga að fá að ráða þessu sjálf. Sveitarfélög eiga að fá að ráða í hvaða formi þau vilja reka fyrirtæki sín. Þessi allt að 7% arðsemi er ekki svo stórhættuleg að menn þurfi að óttast mikla samkeppni fyrir þær sakir.

Aðstaða sveitarfélaga er mjög mismunandi. Við sjáum að það er mismunandi skattheimta milli sveitarfélaga. Þau sveitarfélög sem búa þannig að hafa miklar tekjur af fasteignaskatti geta búið íbúum sínum miklu betri kjör en önnur sveitarfélög. Það hefur alveg verið látið óáreitt.

Herra forseti. Ég sé ekki hættuna í þessu frv. En auðvitað fer hjartað í hv. þm. að slá hraðar þegar minnst er á arðsemi, að ég tali nú ekki um einkavæðingu.