Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:33:24 (3440)

2002-01-22 16:33:24# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Hjartað í mér tekur oft kipp þegar menn taka til við einkavæðingartrúboðið hér á Alþingi. Ég er að hugsa um þolendurna en ekki þá sem ætla að græða á henni og ætla sér að gera alla skapaða hluti í samfélaginu, sjúklinga jafnt sem vatnsnotendur, að féþúfu. Ég er alveg tilbúinn í orðaskipti við það fólk sem hefur tekið þá trú í stjórnmálum að lausnarorð allra hluta sé að gróðinn skuli settur í öndvegi, óháð þeim aðferðum sem menn viðhafa til að ná honum fram og hvaða áhrif sem það hefur á þá sem í hlut eiga, þolendurna í dæminu. Ég sé ekki að það sé sérstaklega framsækinn, eða félagsleg hugsun þaðan af heldur, að gera vatnsveitur sveitarfélaganna að vígvelli í þessu sambandi. Ég bara sé það ekki.

Ég bendi á reynsluna, dóm reynslunnar. Það væri gaman að heyra fólk tjá sig, hægri menn og einkavæðingarsinna, um dóm reynslunnar þar sem menn hafa gert slíkar tilraunir, þar sem menn hafa gert íbúa sveitarfélaga eða heilla landshluta að tilraunadýrum á frjálshyggjubúunum, t.d. á Bretlandi, Nýja-Sjálandi, Bandaríkjunum og víðar. Eigum við þá ekki að ræða um veruleikann eins og hann er?

Menn koma hér og tala um sjálfstæði sveitarfélaganna, stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, það fer vel á því. Það fer einkar vel á því að stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar ræði um sjálfstæði sveitarfélaganna. Hvað bættust mörg við á gjörgæslulistann nú um áramótin? Það er nú aldeilis sjálfstæði sveitarfélaganna sem þessi ríkisstjórn hefur að leiðarljósi, sem er að koma þeim öllum á kné. Þau sem ekki hafa nýlega selt verðmætustu eignir sínar og sloppið út af listanum þar með, kannski í tvö, þrjú, fjögur ár, eru flest öll á leiðinni inn á hann aftur.

Drjúgur hluti sveitarfélaganna í landinu er þannig að komast í gjörgæslu hvað fjárhagslega stöðu snertir. Það er kannski lausnin, að breyta öllum vatnsveitunum í hlutafélög og selja þau svo.