Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:38:55 (3443)

2002-01-22 16:38:55# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég fæ mér hér vatn úr Gvendarbrunnum. Við höfum notið þess, Íslendingar, að geta drukkið ferskt og gott vatn án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Sums staðar greiðir fólk fyrir þann kostnað sem hlýst af því að vatnið rennur í húsin til þeirra. Það er í mínum huga grundvallaratriði sem við þurfum að standa vörð um, að fólk þurfi ekki að greiða sérstaklega fyrir vatnið sem það drekkur. (Landbrh.: Er það notað í messuvínið?) Vatn er stundum notað í messuvín til þynningar, hæstv. landbrh. Það hefur líka verið ódýrt og ég vona að svo verði áfram því sú aðgerð sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í bandorminum, þegar klipið var af sóknargjöldum til að setja í ríkissjóð, var frekar ódrengileg. Ég vona að það verði ekki lagður á vatnsskattur sem muni auka enn álögurnar sem hæstv. ríkisstjórn setti á kirkjur landsins, svo ég svari nú spurningunni.

Það sem mig langar að segja er að hvert svo sem rekstrarform vatnsveitunnar er lít ég svo á, það er skoðun mín, herra forseti, að það eigi ekki að búa til gróðafyrirtæki úr kaldavatnsveitum. Ég lít þannig á að vatnið sé nánast eins og andrúmsloftið, loftið sem við öndum að okkur. Þetta er siðferðilegt mál sem við þurfum að velta fyrir okkur, hvort sveitarfélög sem eru komin í mjög miklar kröggur eins og fram hefur komið í umræðunni hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni --- hann talaði um gjörgæslulistann, sveitarfélög sem eru komin á gjörgæslu --- standist þá freistingu að gera sér mat úr því. Menn vita hvað orðið gjörgæsla merkir. Við getum alveg séð þetta fyrir okkur. Um þetta þurfum við að hugsa og gæta þess að sala á köldu vatni, neysluvatni, verði ekki einn af nýjum tekjustofnum sveitarfélaganna. Við þurfum að hafa það í huga.

Við höfum réttinn til að anda að okkur og það verður erfitt að selja loftið, þó uppi séu ýmsar hugmyndir um það á (SJS: Við gætum átt eftir að reyna það.) öðrum sviðum. (Gripið fram í.) En í mínum huga á vatn og loft að vera endurgjaldslaust. Ég held ég þurfi ekki að útskýra það frekar. --- [Þingmaðurinn fær sér vatnssopa.] Aaa --- gott vatn!